ESB - Danir að spjara

Nú veit ég ekki hvernig Jón Valur, Jón Baldur og Danski Gunnar útskýra þetta, þar sem landið er jú í ESB.

Sennilega er það danska krónan, sem reyndar er bundin við evruna, sem er að bjarga Dönum! 


mbl.is Danir að verða jafnríkir og fyrir kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Án þess að vilja fullyrða eitthvað fyrir þeirra hönd get ég vel ímyndað mér að það sé vegna þess að þeir eru með danskar krónur, búa að þróuðum iðnaði sem var vel kynntur áður en þeir gengu í ESB og svo hafa þeir afspyrnugóðan húmor.

Ragnhildur Kolka, 4.7.2010 kl. 13:05

2 identicon

Ragnhildur, þú gerir þér vonandi grein fyrir því að danska krónan er beintengd við Evruna? Ef evran hækkar, hækkar danska krónan, ef evran lækkar fylgir danska krónan með. Þá má aldrei vera teljandi vaxtamunur á evrunni og dönsku krónunni. Í reynd eru því Danir með evruna - bakdyrameginn.

Ég er engu að síður sammála þér. Danska krónan, og þar með evran, eiga stóran þátt í því að sparifé Dana hefur ekki brunnið á báli gengisfellingar og neikvæðra raunvaxta, eins og gerðist með íslensku krónuna.

Íslenska krónan er ávísun á gengisóstöðugleika, háa vexti og verðtryggingu. Það er hreint ótrúlegt að fólk skuli vilja búa unga fólkinu jafnslæm skilyrði - það er ekki að undra að unga fólkið vilji frekar koma sér fyrir í útlöndum en á hinu efnahagslega einangraða Íslandi.

Lesandi (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 13:23

3 Smámynd: Vendetta

Eins og Ragnhildur segir, þá er í Danmörku þróaður iðnaður og þar með fjölbreyttur útflutningur og rótgrónir viðskiptahættir. Auk þess er þar gott menntakerfi og bankakerfið þar hefur ekki verið í höndum glæpamanna eins og hér á landi. I Folketinget eru ekki eintómir dugleysingjar eins og á Alþingi og ríkisstjórnin er ekki handónýt eins og ríkisstjórnir undanfarinna ára á Íslandi.

Endurreisnin í Danmörku hefur sem sagt mjög lítið með ESB að gera þannig séð, því að landið hefur haft viðskiptatengsl við Þýzkaland og Bretland löngu áður en landið fékk aðild að EBE. Það þýðir, að ef landið hefði ekki orðið aðili að ESB, væri það samt sem áður hluti af EES eins og Ísland og farnazt vel vegna sterkra innviða þjóðfélagsins eins og ég hef nefnt hér að ofan. Eitthvað sem ekki var og er enn ekki til staðar á Íslandi.

Ég vil geta þess að andstaðan gegn ESB er hvergi meiri meðal aðildarlandanna en í Danmörku (um og yfir 50%), enda voru það þeir sem felldu fyrsta Maastricht-sáttmálann á sínum tíma. Og danska þjóðin hefur tvívegis í þjóðaratkvæðagreiðslu hafnað evrunni (í fyrra skiptið með því að hafna Maastricht). Það hefur reynzt þeim vel nú. 

Vendetta, 4.7.2010 kl. 13:33

4 identicon

Já og ástæða beintengingarinnar við Evru er vegna mikilvægi Evru svæðissins sem markaður fyrir Dani. Og þess má geta að atvinnuleysi er einnig minna í Danmörku en hérlendis, þrátt fyrir að það sé venjulega hærra en á Íslandi. Atvinnuleysisbætur eru einnig að venju hærri en hérlendis. Við þurfum að byrja að koma atvinnulífinu af stað hérlendis, annars endum við uppi sem Argentína norðurssins, háð hjálp AGS næstu áratugi.

Bjarni (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 13:35

5 identicon

Vendetta, hvaðan hefur þú þessar tölur um að yfir 50% dana séu "á móti" ESB. Vilja Danir hætta í ESB?

Bjarni (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 13:39

6 Smámynd: Vendetta

Í framhaldinu vil ég bæta því við að aðalástæðan fyrir því að hrun varð hér á landi en ekki á hinum Norðurlöndunum er vegna þess að alþingismenn hér höfðu aldrei asnazt um 2002 til að setja þær reglur um bankaviðskipti sem hafa tíðkazt í allri Norður-Evrópu áratugum saman. Þær aðferðir sem gerðu íslenzku bankaránin möguleg vegna skorts á reglugerðum voru alfarið bannaðar á meginlandinu.

Íslenzka bankahrunið var ekki út af óaðild Íslands að ESB (ath. Noregur er heldur ekki aðili að ESB), heldur var hrunið heimatilbúið íslenzkt fyrirbæri. Lokun á erlent lánsfé síðar var einungis dropinn sem fyllti mælinn, vindblærinn sem velti spilaborginni.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 13:42

7 Smámynd: Vendetta

Ég bjó í Danmörku áratugum saman og tók sjálfur þátt í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum. Um helmingur þjóðarinnar er á móti ESB, þótt það hafi verið einhver meirihluti (uþb. 10% - 15%) hlynntur aðildinni að EEB á níunda áratugnum, sem er minna en upprunalega fylgið 1972. Í nær öllum þjóðaratkvæðagreiðslum um þá fáu sáttmála EEB og ESB, sem hefur mátt kjósa um (leyfi skv. stjórnarskránni til þjóðaratkvæðagreiðslu er tengt beint þörfinni á að breyta stjórnarskránni til að aðlagast sáttmálunum) hefur útkoman verið mjög jöfn, alltaf spurning um nokkur prósent beggja megin við 50 prósentin. Máþar nefna Maastricht-sáttmálann, sem fyrst var hafnað með um 1 - 2% meirihluta og síðar samþykktur með 1-2% meirihluta.

Þrír af átta flokkum í Folketinget eru meira eða minna á móti ESB, bæði vinstri, miðju- og hægriflokkar. Ekki færri en fjórir af þeim flokkum/samtökum sem bjóða sig fram til Evrópuþingsins á fimm ára fresti eru gagngert á móti ESB.

Hins vegar hefur aldrei verið mögulegt fyrir aðildarland að segja sig úr ESB fyrr en með Lissabon-sáttmálanum og þá er ekki hægt að gera það einhliða, heldur verður úrsögnin að styðjast af það sem kallað er veginn meirihluti allra aðildalandanna.

Það sem meirihluti Dana vill er viðskipta- og tollabandalag, en eru einlæglega andsnúnir því yfirþjóðlega skriffinnskubákni sem ESB er.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 14:03

8 identicon

Úff maður er orðinn svo þreyttur á að leiðrétta ruglið í einangrunarsinnum. Um leið og maður er búinn berja niður eina vitleysuna skýtur önnur upp kollinum.

En ókei, "Vendetta" segir hér að ofan: "Ég vil geta þess að andstaðan gegn ESB er hvergi meiri meðal aðildarlandanna en í Danmörku (um og yfir 50%) [...]"

Við skulum skoða sannleiksgildi þessarar fullyrðingar. Á tímabilinu október til nóvember 2009 var gerð könnun meðal Dana. Þeir voru m.a. spurðir eftirfarandi spurningar: "Ef allt er tekið með í reikninginn, myndirðu segja að Danmörk hafi hagnast eða ekki hagnast (benefited or not) á því að vera meðlimur í Evrópusambandinu?"

Skemmst er frá því að segja að 75% Dana telja Danmörku hafa hagnast á Evrópusambandsaðild, einungis 17% telja að svo sé ekki og 8% eru óviss. Þetta er langt yfir meðaltali allra Evrópusambandsríkjanna, en í heildina telja 57% að Evrópusambandsaðild hafi verið til góðs fyrir landið, 31% að svo sé ekki og 12% eru óviss.

Þannig að enn og aftur hafa rangfærslur einangrunarsinna verið hraktar. Nú bíð ég bara eftir að næsta vitleysan skjóti upp kollinum. Ég hlakka næstum því til að hrekja hana.

Heimild: http://ec.europa.eu/public_opinion/archives/eb/eb72/eb72_fact_dk_en.pdf , bls. 3, efst til hægri. (já - öfugt við einangrunarsinnana þá get ég vísað í heimildir)

Lesandi (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 14:09

9 identicon

Má kannski bæta því við sem ég sagði hér að ofan, að í sömu könnun voru Danir spurðir: "Almennt séð, telurður að aðild Danmerkur að Evrópusambandinu sé a) góður hlutur b) slæmur hlutur c) hvorki góður né slæmur hlutur d) veit ekki"

65% Dana töldu aðild að ESB vera góðan hlut, 13% töldu aðildina vera slæman hlut, 20% hvorku góðan né slæman og 2% voru óviss.

Ég held við getum alveg jarðað þessa mýtu um að Danir fíli ekki að vera í ESB. Þeir eru að fíla það í botn.

Lesandi (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 14:12

10 Smámynd: Vendetta

Lesandi, þú setur þetta fram á sama hátt og í skoðanakönnun verði spurt: "Ertu hlynnt(ur) sjávarútvegi?" Og ef 90% aðspurðra svara já, þá myndirðu halda því fram að 90% þjóðarinnar væri hlynntur núverandi kvótakerfi. Sams konar rugl

Ég tel að ef Danir mættu velja á milli tveggja kosta þá myndu þeir velja hinn kostinn. Eins og það er í dag, þá hafa þeir ekki neitt að velja á milli. Ef þeir yrðu spyrðir svona:

"Ef þú gætir valið frjálst, hvort myndirðu velja a) yfirþjóðlegt samband sem er æðri Þjóðþinginu og dönskum dómstólum eins og nú er, eða b)  viðskipta- og tollabandalag í anda EBE, sem ekki gæti skipt sér af dönskum innanríkismálum",

þá myndi yfirgnæfandi meirihluti velja kost b.

Lesandi, þetta sem ég skrifa, er ekki í andstöðu við kannanirnar. Ég veit ekki hvað oft ég á að undirstrika fyrir tregum ESB-sinnum sem ekki fatta að ESB er ekki það sem Danir urðu aðilar að 1972, heldur EBE. Andstaðan í Danmörku er yfirgnæfandi gegn þeirri yfirþjóðlegu yfirbyggingu á EBE sem kom með Maastricht-sáttmálanum, og sem í raun setti ESB (Den Europæiske Union) á laggirnar með samruna allra aðildalandanna sem markmið.

Það eru þessi markmið sem einnig ég er andsnúinn. Andstaða mín er ekki vegna ættjarðarástar eða einangrunarþrá, þvert á móti. En ég er aðallega á móti því þeim algjöra missi á þjóðarsjálfstæði sem ESB-aðild krefst. Ég er á móti öllum tilraunum til að skapa svokölluð evrumenni úr íbúum álfunnar. Evrumenni hefur enga þjóðernisvitund og er einungis til fyrir ESB-báknið. Þetta er markmið samrunasinnanna (integrationists) í Bruxelles sem hafa komið á fót sambandsrikisfangi (unionsborgerskab). Markmiðið er að þurrka út öll þjóðareinkenni minni aðildarlanda.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 14:54

11 identicon

Svona lán munu bjóðast Íslendingum ef þeir ganga í ESB. Þeir gætu valið á milli lána eins og þessara dönsku lána

   1. Lán með 4 prósenta föstum vöxtum til 30 ára.

   2. Lán með breytilegum vöxtum til 30 ára. Vextirnir á því láni eru nú 1,9 prósent og geta aldrei farið upp fyrir 5 prósent.

Valsól (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 15:08

12 identicon

Vendetta, ég bjó einnig í Danmörku í mörg ár, og ég veit að það er margt sem Dönum þykir miður varðandi ESB, enda eru þeir mjög duglegir að finna að hlutum. En ég veit einnig að enginn alvöru pólitískur flokkur í Danmörku hefur það á stefnuskrá sinni að hætta í ESB. Það eitt að bera hag síns ríkis í brjósti, og berjast fyrir eða gegn breytingum innan ESB eins og Danir gera, og annað að vilja hætta í ESB. Við stöndum aftur á móti á hliðarlínunni, tökum bara á móti settum lögum frá evrópuþinginu vegna EES, en höfum engin áhrif á þau.

Bjarni (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 15:10

13 identicon

Vendetta, nú koma upp í huga minn spakmælin "Ef þú ert komin ofan í holu, hættu þá að moka." Það var ekki spurt "Er samvinna Danmerkur við lönd Evrópu góður hlutur". Það var spurt hreint út hvort fólki þætti aðild Danmerkur að Evrópusambandinu góður hlutur.

Það er alveg sama hvernig könnunni er snúið, staðreynd málsins er sú að yfirgnæfandi meirihluti Dana telur land sitt hafa hagnast af aðild að sambandinu og eru Danir meðal ánægðustu aðildarþjóða sambandsins. Þú gerist því sekur um það sem ég ætla að kalla "rugl" þegar þú berð spurninguna saman við spurningu um hvort fólk væri hlynnt sjávarútvegi. Ég vil eiginlega bara biðja lesendur um að íhuga það sem þú sagðir, skoða spurninguna sem lögð var fyrir Dani og spyrja sjálfa sig hvort að rök þín gangi upp.

Ég geri mér mætavel grein fyrir því að ESB er ekki sama sambandið og Danir gengu í 1. janúar 1973 (ekki 1972 eins og þú misritaðir). Á þeim tíma var samstarfið bæði á færri sviðum og risti ekki jafndjúpt og í dag. Málið er bara að Evrópuþjóðir þær sem stóðu að þessari samvinnu sáu að samvinnan gekk vel, þetta form samvinnu skilaði góðum árangri sem ekki hefði náðst ef hver hefði pukrað í sínu horni. Þess vegna hafa löndin sem standa að ESB *samþykkt* að vinna saman á vettvangi ESB á æ fleiri sviðum. Ef eitthvert land telur að ESB sé ekki lengur réttur vettvangur fyrir samvinnuna getur það sagt sig úr sambandinu, það hefur ekkert land gert og er það kannski ágætis merki um það hversu sáttar meðlimirnir eru við Evrópusamvinnu á vettvangi Evrópusambandsins.

Núna segirðu reyndar að það sé ekki vegna "ættjarðarástar eða einangrunarþrár" sem þú finnur ESB allt til foráttu, heldur segirðu að þú sért á móti ESB því þú sért á móti "þeim algjöra missi á þjóðarsjálfstæði sem ESB-aðild krefst". Skoðum þessa fullyrðingu.

Ríki Evrópusambandsins hafa með tveimur samningum framselt hluta fullveldis síns til Evrópusambandsins, enda telja þau að með samvinnu á sviði Evrópusambandsins nái þau betur markmiðum sínum um lýðræði, mannréttindi, neytendavernd á frjálsum markaði, umhverfisvernd o.s.frv. o.s.frv. Fullveldi það sem þessi ríki hafa afsalað sér er takmarkað, þ.e. þessi ríki eru "herrar samninganna", ef svo má að orði komast, Evrópusambandið getur ekki tekið sér meiri rétt en ríkin hafa framselt til ESB í samningunum (sjá nánar t.d. http://is.wikipedia.org/wiki/Lögmætisreglan_(Evrópusambandið) og http://is.wikipedia.org/wiki/Nálægðarreglan ) Þá geta ESB löndin réttlætt þetta valdaframsal fyrir borgurum sínum annars vegar með því að benda á að ákveðin markmið náist betur með samvinnu milli ríkja og hins vegar með því að benda á að í ráðherraráði ESB, sem er annað helsta löggjafavald ESB, sitja ráðherrar frá aðildarríkjunum og á þingi ESB sitja lýðræðislega kjörnir þingmenn frá aðildarríkjunum.

Víkur þá sögunni að EES löndunum. Ísland og Noregur hafa skuldbundið sig til að taka upp alla löggjöf á ákveðnum sviðum og hlýta úrlausnum alþjóðlegs dómstóls um skyldur sínar gagnvart ESB. Ísland og Noregur geta ekki réttlætt valdaframsalið með sömu rökum og ESB: við erum ekki með fulltrúa í ráðherraráðinu og við erum ekki með þingmenn á Evrópuþinginu. Ef ESB ríkin ákveða að fara í meiri samvinnu á þeim sviðum sem við höfum skuldbundið okkur til að taka upp í löggjöf okkar verðum við einfaldlega að beygja okkur undir vilja ESB ríkjanna. Við erum með öðrum orðum búin að lofa að sitja við fax-vélina og lögleiða það sem hin Evrópuríkin ákveða. Þetta er svona eins og að lofa að gera allt sem vinsæli krakkinn í skólanum vill til þess að mega leika við hann, ekki sem jafningi heldur sem einhver sem borgar fyrir leikinn.

Þannig að það er ólíkt meira og ólýðræðislegra fullveldisframsal fólgið í EES heldur en ESB.

Ef þú, Vendetta, værir samkvæmur sjálfum þér myndirðu væntanlega heimta að við gengjum úr EES. Fæstir gera það reyndar af einfaldri ástæðu: Evrópusamvinnan hefur alltaf verið til hins góða fyrir Ísland, líka EES.

Lesandi (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 15:20

14 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það var adrei nein kreppa í danmörku.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.7.2010 kl. 15:59

15 Smámynd: Vendetta

Bjarni, ég er sammála þér varðandi Dani í meginatriðum. Hins vegar veit ég ekki hvað þú kallar "alvöruflokk". Á Þjóðþinginu í Kbh. eru vinstriflokkurinn Enhedslisten alfarið á móti bæði EBE á sínum tíma og ESB nú. Sama má segja um samtökin Folkebevægelsen mod EF og að hluta til Junibevægelsen sem bjóða sig fram til Evrópuþingsins og eru á móti ESB. Í Þjóðþinginu eru vinstriflokkurinn SF (Socialistisk folkeparti) og hægri-miðju þjóðernisflokkurinn DF (Dansk folkeparti), sem er stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, á móti ESB eða mjög skeptískir. Aðrir flokkar á þinginu, hægriflokkarnir þrír: Venstre, De Konservative og De Radikale Venstre (sem stundum hefur verið kallaður landráðaflokkur) mjög hlynntir ESB. Miðflokkurinn Socialdemokraterne og Ny Alliance, sem klofnaði frá Rad. Venstre, eru allir mjög hlynntir ESB. Þannig að þú getur ekki sagt að bara alvöruflokkar séu hlynntir ESB. Hins vegar eru kjósendur flokkanna yfirleitt með sterkari skoðanir varðandi ESB en þeir flokkar sem þeir kjósa, hafa í raun eða sem stefnumál.

Á hinn bóginn hafa flestir ESB-andstæðingaflokkarnir, þ.e. SF og DF flokkarnir ekki úrsögn úr ESB á stefnuskránni lengur (undantekningin er Enhedslisten), þar eð það er talið óraunhæft, en hafa það á stefnuskránni að betrumbæta ESB hver á sinn hátt með hatrammri pólitiskri baráttu. Þótt andstæðingar frá vinstri- og hægrivængnum hafa gjörólíkar ástæður fyrir því að vera á móti ESB-bákninu eðli þeirra samkvæmt, þá er andstaða gegn tapinu af sjálfstæði landsins samnefnari þeirrar baráttu.

Í dag eru Danmörk og aðildaríki ESB ekki sjálfstæð í raun og veru, þar eð tilskipanir frá Bruxelles verða sjálfkrafa að lögum í þessum löndum án afskipta þjóðþinganna, og Evrópudómstóllinn hefur æðra dómsvald en hæstiréttir aðildaríkjanna. Hægt er að bera þetta saman við ákvarðanir teknar af politburo í Kreml, sem urðu undireins að lögum í öllum sovézku sambandsríkjunum, þar eð ríkisþingin (sovétin) voru alveg áhrifalaus. Það er samruni ríkja og miðstýring eins og var í Sovétríkjunum á sínum tíma sem er eiginleg fyrirmynd framkvæmdastjórnarinnar og annarra embættismanna í Bruxelles, þótt opinberlega segjast þeir horfa til Bandaríkjanna.

Eitt aðalvandamálið með ESB er að ríki Evrópu eru misfjölmenn og missterk fjárhagslega, fyrir utan það að þjóðirnar eru alveg gjörólíkar og ómögulegt að sameina á neinn hátt án þess að troða á réttindum minni þjóða og það er verið að því.  Í ESB ráða stærstu ríkin öllu, þau minnstu ráða engu og hafa jafnmikil áhrif á ákvarðantöku innan ESB og mosquito-fluga hefur áhrif á þyngdarpunt og jafnvægi Afríkufíls.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 16:07

16 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,En ég er aðallega á móti því þeim algjöra missi á þjóðarsjálfstæði sem ESB-aðild krefst"

Óttalegt bull er þetta.  Það eykur auðvitað vægi íslands að vinna að sínum hagsmunamálum í samvinnu við aðrar evrópuþjóðir.  Þannig er esb byggt upp.  Sem samvinnuvettvangur fyrir þjóðir til að vinna að sínum sameiginlegu hagsunum.  Samband fullvalda lýðræðisríkja evrópu.  Er bara þannig.

Eða hvað, eru evrópuþjóðir ekki að keppa á HM sem fulltrúar fyrir sín lönd eða?  Í hvaða riðli var ESB að keppa - og komst það uppúr riðlunum eða?  Hættið þessu bulli! 

Það er bara almenn staðreynd og vitað af öllum að aðildin evrópuríkja að esb hefur hagnast hverju eina og andsk. ríki sem er aðili þar að!

Þetta kjökur endalaust í ykkur og ofsahræðsla er alveg yfirgengilegt.  Þið hafið örugglega aldrei komið til evrópu.  Nema í mesta lagi í sólarlandaferð á portúgal eða spán og verið þá í blakk áti allan tímann. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.7.2010 kl. 16:23

17 identicon

@Vendetta

Stærsti flokkur Danmerkur er hægriflokkurinn Venstre, sem í síðustu þingkosningum fékk 26,3% atkvæða. Ekki eru þeir aldeilis á móti ESB, sbr. http://www.venstre.dk/index.php?id=5017 ("EU-landene skal søge flere fælles løsninger, hvor der er klare fordele i samarbejdet. EU skal løse grænseoverskridende problemer som bl.a. terrorbekæmpelse, international kriminalitet og miljøbeskyttelse og en fælles energipolitik. ")

Næst stærsti flokkur Danmerkur er aftur á móti Socialdemokraterne. Þeir fengu í síðustu kosningum 25,5%. Þar er stuðningur við ESB rótgróinn og mikill, sbr. http://socialdemokraterne.dk/download.aspx?docId=701161 (Þar stendur m.a. "Kun via EU kan de socialdemokratiske værdier fuldt realiseres i en verden, hvor den økonomiske magt samles på stadig færre hænder, og hvor de rå markedskræfter alt for ofte får frit spil på bekostning af mennesker og miljø.")

Vendetta tiltekur sérstaklega að Enhedslisten sé á móti ESB og telur það styrkja fullyrðingu sína að Danir séu meira og minn á móti ESB. Enhedslisten er með 4.553 meðlimi og hlaut í síðustu kosningum 2,2% atkvæða. Með öðrum orðum er þetta jaðarflokkur, en vissulega virðist hann vera á móti vissum hliðum ESB.

Öllu stærri er Socialistisk folkeparti, sem fékk síðast um 13% atkvæða. Hann er aftur á móti ekki á móti ESB, eins og glögglega má sjá á þessari síðu: http://www.sf.dk/default.aspx?func=article.view&id=89250

Svipað stór er Dansk Folkeparti, sem síðast fékk 13,8% atkvæða. Ekki vilja þeir heldur að Danmörku segi skilið við ESB, þótt þeir, eins og flestir, séu á móti stofnun sambandsríkis ESB Sjá: http://www.danskfolkeparti.eu/Det_mener_vi_om_EU.asp

Eftir stendur að búið er að hrekja staðhæfingu "Vendetta" sem staðhæfði "andstaðan gegn ESB er hvergi meiri meðal aðildarlandanna en í Danmörku (um og yfir 50%)". Þá er líka búið að sýna fram á að yfirgnæfandi stuðningur er við ESB aðild Danmerkur á pólitíska sviðinu í Danmörku. Það er því kjöt eftir á staðhæfingum einangrunarsinnans "Vendetta".

Þá er þetta bull í Vendetta um að ESB séu á einhvern hátt Sovétríkin endurborin svo mikið kjaftæði að ég hreinlega nenni ekki að svara því.

Lesandi (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 16:29

18 Smámynd: Vendetta

"... enda telja þau að með samvinnu á sviði Evrópusambandsins nái þau betur markmiðum sínum um lýðræði, mannréttindi, neytendavernd á frjálsum markaði, umhverfisvernd o.s.frv. o.s.frv. " (úr athugasemd Lesanda).

Þetta eru fögur orð. Og kannski á það við frumstæðustu ríkin í Evrópu að þetta sé framför. Löggjöf í Danmörku varðandi þessi atriði var hins vegar mikið fremri þeim reglugerðum sem ESB hefur þvingað á Dani. Danska ríkisstjórnin hefur oftar en einu sinni barizt fyrir meira lýðræði, meiri neytendavernd, meiri dýravernd, en án árangurs. Afleiðingarnar af ESB hafa verið minna lýðræði, lítil sem engin neytendavernd, og dýrapyntingar áfram leyfðar, þannig að í Danmörku hefur orðið afturför vegna reglugerða ESB á þessum sviðum. Jú, víst.

Ef hins vegar tilskipanir og reglugerðir ESB á þessum sviðum sem þú nefnir, hefði miðazt við það aðildarland, sem hefði náð mestu framförum í stað þess að miða alltaf við lægsta samnefnara, þá horfði dæmið allt öðru vísi við. Þá myndi stuðningurinn, m.a. í Danmörku, vera mikið meiri.

Það var meira beint lýðræði í Danmörku og Svíþjóð en í flestum öðrum ESB-löndum, þar sem alltaf hefur verið þingræði, en ekki lýðræði sem slíkt (það er heldur ekki lýðræði á Íslandi). En í ESB-bákninu er ekkert pláss fyrir lýðræði, heldur einungis miðstýringu. Enda þótt í sáttmálum ESB stendur að aðildaríkin megi ráða einhverju af sínum innanríkismálum, þá er nú lítið varið í það. Orðalagið í reglum ESB á þessu sviði er mjög loðið, teygjanlegt og hreint túlkunaratriði. Ríkisstjórn aðildarlandsins verður í hverju af þannig tilvikum að sýna fram á að yfirvöld landsins geri það betur en ESB-batteríið. Svona þrugl er algjör óþarfi. Það ættu að vera hreinar línur: ESB má ekki skipta sér af neinum innanríkismálum. Basta. En þannig er það því miður ekki.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 16:35

19 Smámynd: Vendetta

Lesandi, síðasta athugasemd þín er bein endurtekning og staðfesting á því sem ég skrifaði varðandi flokkana í Danmörku. Kannski þú ættir að fá þér ný gleraugu við lesturinn.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 16:37

20 identicon

@Vendetta

Enn og aftur lítillækkarðu sjálfan þig þegar þú ferð með staðlausa stafi sem auðvelt er að hrekja.

Vendetta segir: "Löggjöf í Danmörku varðandi þessi atriði var hins vegar mikið fremri þeim reglugerðum sem ESB hefur þvingað á Dani." Staðreynd málsins er sú að neytendavernd í Danmörku hefur verið sniðin að Evrópureglum í áratugi. Nánast öll neytendalög Dana eru sett með reglur ESB sem fyrirmynd (ef um rammatilskipanir er að ræða) eða ESB reglurnar gilda beint (ef um tilskipanir er að ræða). Ég yrði í allan dag að telja upp öll áhrif ESB á neytendavernd í Danmörku, en læt mér þess í stað nægja að benda á þessa síðu, þar sem sést hversu gríðarlega mikil áhrif ESB hefur haft á neytendamál í Evrópu - og það til hins betra. Sjá hér: http://ec.europa.eu/consumers/index_en.htm

Til gamans má geta að það sama á við um neytendamál á Íslandi í nokkrum mæli, t.d. eru þessi lög öll sett vegna þrýstings frá ESB (valin af handahófi): http://www.althingi.is/lagas/138a/2000046.html, http://www.althingi.is/lagas/138a/2005033.html, http://www.althingi.is/lagas/138a/2002030.html, http://www.althingi.is/lagas/138a/1994121.html, http://www.althingi.is/lagas/138a/2003048.html, http://www.althingi.is/lagas/138a/2001141.html, http://www.althingi.is/lagas/138a/2007056.html.

En það skiptir Vendettu litlu máli. Aðalatriðið í hans huga er að slá ryki í augu almennings og fá almenning til að trúa því að ESB sé einhvers konar grýla.

Mér sýnist Vendetta eitthvað vera að pota í nálægðarreglu ESB, segja hana tóma dellu. Verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað Vendetta er að fara þarna, svo óljós er hugsunin í skrifum hans. Bendi aftur á móti á þokkalega wikipediu grein um nálægðarregluna á íslensku, Vendetta skilur hana þá vonandi: http://is.wikipedia.org/wiki/Nálægðarreglan

Svo er Vendetta eitthvað að þrugla með dýraverndunarmál. ESB hefur einmitt verið að gera góða hluti þar, sbr. http://ec.europa.eu/food/animal/index_en.htm . Í fjölmörgum tilvikum er um að ræða þannig reglur frá ESB, að aðildarríkjum er heimilt að setja strangari reglur ef þau kjósa svo. Þannig er tryggt að í sambandinu sé "sameiginlegur nefnari" gildandi, svo geta einstök ríki hert á kröfum sínum ef þau kjósa svo. Þannig að það er ekki eins og ESB sé að segja Dönum að vera vondir við dýr.

Í dag er ég búinn að hrekja fullyrðingar Vendetta um að ESB sé óvinsælt í Danmörku, ég er búinn að sýna fram á að miklu meira valdaframsal er fólgið í EES samningnum en í ESB aðild og ég er búinn að sýna hversu mikið rugl það er í Vendetta að halda því fram að ESB sé á einhvern hátt að beita sér gegn neytendum. Þetta hefur allt verið rosalega gaman. Ég efa ekki að nú muni Vendetta láta sér detta eitthvað annað í hug og láta mig neita því.

Þannig vinna nefninlega einangrunarsinnar. Þeir hugsa einfaldlega sem svo: "Ef ég þyrla upp nógu miklu ryki og fæ nógu marga til að trúa því að ESB sé einhvers konar grýla, þá er takmarkinu náð."

Lesandi (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 17:02

21 Smámynd: Vendetta

Þú hefur ekki hrakið neitt af því sem ég hef sagt. Að skrifa upp áróður frá vefsíðum ESB sýnir ekki fram á hvernig hlutirnir virka í raun. Ég skal nefna eitt dæmi varðandi neytendavernd. ESB hefur útbúið lista yfir bætiefni í matvælum, kallaður á dönsku positivlisten, sem mega vera í matvælum sem eru framleiddar innan ESB eða fluttar inn til ESB-landa og þurfa framleiðendur/innflytjendur ekki at hafa þau efni með í innihaldslýsingu. Þessi listi inniheldur kemísk bætiefni sem framkvæmdastjórnin leyfir, en eru á bannlista danskra yfirvalda. En ekkert er hægt að gera því að dönsk yfirvöld eða neytendasamtök mega hvorki hefta innflutning á vörum með óæskilegum bætiefnum né fara fram á að þau komi fram á innihaldslýsingu innpakkningar. Þannig að hér er danski bannlistinn lítils virði. Ég hef áður skrifað um t.d. hvernig ESB með klækjum kom í veg fyrir að fórnarlömb leysiefna í málningu, m.a. í Danmörku gætu fengið bætur. ESB er til fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki og embættismenn semlifa á stofnunum þess, en ekki fyrir neytendur eða almenna, lýðræðissinnaða borgara.

Sérreglur á neytendasviði og vinnumarkaði í einstökum aðildaríkjum, sem er strangari en ESB-löggjöf (sem miðast við lægsta samnefnara, þ.e. verstu skilyrðin) eru einskis virði ef aðrar ESB-reglur sem banna viðskiptahindranir alfarið koma í veg fyrir að þær geti verið settar í framkvæmd. Jafnvel þú lesandi, ættir að geta séð það.

Hvað varðar EES, þá er ekki mikið varið í það að mínu áliti. Ef það ætti að virka eftir mínu höfði, þá mætti ekki setja neinar haftir á innfluttar vörur (þmt. matvörur og húsdýr) frá ESB né tolla. Þannig virkar það bara ekki. Hins vegar sá EES-löggjöfin til þess að verkamenn sem unnu við Kárahnjúkavirkjun á vegum Impregilo supu dauðann úr skel vegna lélegra launa og óásættanlegs aðbúnaðar. Þá mátti strafsgreina- og rafiðnaðarsambandið ekki skipta sér af. Ef eitthvað jákvætt er í sambandi við EES, þá hefur það ekki komið hingað til lands.

Ég styð frjálsa verzlun milli allra landa, með nokkrum fyrirvörum gagnvart einræðisríkjum. En ég er alfarið á móti því að sett séu yfirþjóðlegar reglugerðir sem snerta aðra hluti en viðskipti, nema reglurnar séu betri en þær sem fyrir eru. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um ESB-aðild verður hér á landi árið 2013 (og sem Samfylkingin mun hunza ef meirihlutinn segir nei), mun ég setja x við NEI. Því að ESB mun breytast til batnaðar innan þess tíma.

Og jú samnaburðurinn á ESB við Sovétríkin stenzt fyllilega ef séð er burt frá mismunandi efnahagskerfum.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 18:04

22 identicon

Vendetta

Andskoti ertu þver. Ég hreinlega veit ekki hvað ég get sagt meira. Rök virðast ekki bíta á vitleysunni í þér.

Ég ætla einfaldlega að benda á að ég hef sýnt fram á

a) Staðhæfing þín um að ESB andúð væri landlæg í Danmörku er röng.

b) Staðhæfing þín um að ESB beiti sér gegn neytendavernd er úr lausu lofti gripin, þvert á móti hefur sambandið beitt sér fyrir neytendavernd (og eru Íslendingar líklega þeir sem hafa grætt mest, öfugsnúið sem það er)

c) Það er meira fullveldisframsal fólgið í EES samningnum en í ESB aðild.

Eftir því sem á daginn hefur liðið og fullyrðingar þínar hafa verið skotnar niður, ein af annarri, hefur þú brugðið á það ráð að henda inn í umræðuna fleiri fýlusprengjum og strámönnum, sem þú ætlast til að Evrópusinnar ráðist á. Ef ég sýni fram á að ESB sé vinsælt í Danmörku ferðu að tala um valdaframsal. Þegar ég hef sýnt þér að fullveldismissir Íslands er áþreifanlega meiri í EES heldur en ESB ferðu að tala um neytendavernd. Þegar ég bendi þér á þá staðreynd að ESB hefur verið leiðandi afl í neytendavernd í Evrópu ferðu að tala um að ESB sé nú alveg eins og Sovétríkin. Þú ert með öðrum orðum að drepa umræðunni á dreif.

Það er svo sannarlega þarft verk og nauðsynlegt að halda áfram að skjóta niður rökvillur þínar og ranghugmyndir, en þar sem ég er búsettur í Evrópu og frekari svörun er orðin frekar leiðigjörn svona seint á sunnudagskvöldi ætla ég að láta það vera að sinni. Auk þess sé ég ekki að það breyti nokkru, þínum skoðunum fá rök og staðreyndir ekki haggað.

Ef einhver skyldi vera að lesa þessa umræðu þá vona ég bara að hann myndi sér skynsamlega skoðun á grundvelli röksemda og heimilda.

Lesandi (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 19:26

23 identicon

Það gleymist hjá Vendetta að minnast hverjir ESB eru! ESB eru fulltrúar frá aðildardíkjunum. ESB er ekkert nema fólk frá þeim þjóðum sem í því eru. Ég er ný kominn frá Brussel það sem ég var á fyrirlestri hjá "The danish EU reprentation"

Eftir þennan fyrirlestur þá komst ég að því að íslendingar eru að missa af rosalega miklu með því að vera ekki í þessu sambandi og hvað umræðan á íslandi er á miklum villigötum.

En það er ekki skrítið þar sem fjölmiðlar eru svokallað þriðja valdið og þar sem Mogginn er með harðan ESB andstæðing sem ritstjóra er ekki að furða að almenningur sé illa upplýstur og fullur af ranghugmyndum. Enda er mbl duglegt að grafa upp neikvæðar fréttir af sambandinu en talar nánast ekkert um það góða sem það er að gera. 

K (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 21:09

24 Smámynd: Vendetta

Ég hef líka búið mestanhluta minnar löngu ævi í ESB-löndum og þú hefur sannfært mig álíka mikið og inngróinn marxisti fær mig til að aðhyllast dásemdir kommúnismans. Þú hefur ekki gert annað en að vera með hreinan ESB-áróður. Þegar þú dásamar ESB, þá hefurðu greinilega ekki hugmynd um hvernig það virkar í raun, eða þá að þú starfar við einhverja ESB-stofnun og þá eru skoðanir þínar litaðar.

Þú veizt kannski að Breshnev og félagar hans í miðstjórn sovézka kommúnistaflokksins tönnluðust stanzlaust á því að Sovétríkin væru paradís verkamannsins og það var meira að segja skjalfest í öllum þeirra áróðursritum og marxistar á Vesturlöndum bergmáluðu áróðurinn. En það þýddi ekki að þau væru paradís verkamanna, nema síður sé. Þannig ert þú, þú ert blindaður af ESB-áróðri og sérð bara kostina við ESB, en sérð enga af fjölmörgum göllum. Búseta mín í ESB-ríkjum kenndi mér, að áróðurinn frá ESB-sinnum er fáránlegur og þeim er eðlislægt að fela sannleikann. Og það getur verið að þú hafir persónulegar ástæður ástæðu til að aðhyllast ESB. En ég eins og margir aðrir hafa góðar ástæður til að hafna ESB-aðild.

Ég mun ekki skrifa meira á þessum þræði, enda nóg komið í bili.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 21:23

25 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Vendetta, Notandinn Lesandi tók þetta bull þitt og jarðaði það mjög vel. Þú virðist hinsvegar vera staðráðinn í því að halda á lofti þeirri vitleysu sem þú hefur sett fram, þó svo að þú hafir verið sannaður rangur hérna. Á góðri íslensku þýðir þetta einfaldlega bara það að þú ert að ljúga hérna eins og þú ert langur til.

Staðreyndin er að ESB stjórnar ekki aðildarríkjum sínum. Heldur stjórnar aðildarríkin ESB. Það er ennfremur alveg ljóst að lög ESB geta aldrei farið út fyrir þann ramma sem sáttmálar ESB setja þeim. Enda er ekki hægt að setja lög í ESB án þess að það eigi sér stoð í sáttmálum ESB. Enda er það nú bara þannig að ESB er byggt á sáttmálum, sem eru æðstu lög ESB.

Innan ESB búa og lifa ~520 milljónir manna í dag. Þessi tala mun hækka á næstu árum með fleiri aðildarríkjum. Það er ekkert sem andstæðingar ESB geta sagt til þess að breyta þessari þróun.

Jón Frímann Jónsson, 4.7.2010 kl. 22:33

26 Smámynd: Vendetta

"Innan ESB búa og lifa ~520 milljónir manna í dag. Þessi tala mun hækka á næstu árum með fleiri aðildarríkjum. Það er ekkert sem andstæðingar ESB geta sagt til þess að breyta þessari þróun."

Nei, því miður hefur almenningur lítinn sem engan möguleika á að breyta neinu, embættismenn í ESB munu fá sínu framgengt og almenningur í þeim löndum, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur tíðkast ekki hafa ekki um annað að ræða en fylgja eins og sauðir. Þjóðverjar eru að sjálfsögðu hæstánægðir með þessa þróun mála, að hlutar af öðrum þjóðum eru það ekki. Og ólíkt K þá get ég vel aðskilið annars vegar almenning og hins vegar embættismenn ESB, sem ekki eru kjörnir en sem fylgja reglum gerðar af framkvæmdarstjórn, sem heldur enginn hefur kosið í beinni kosningu. Fyrir þá fjölmörgu sem fyrirlíta lýðræði, þá er þetta ánægjulegt.

EN þótt ESB geta ekki komið í veg fyrir það sem gerist í öðrum Evrópulöndum, þá geta þeir Íslendingar sem eru andsnúnir ESB komið í veg fyrir íslenzka aðild að ESB, svo fremi sem þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 - 2013 verði bindandi. Ég er hlynntur því að íslenzkir kjósendur fái allar upplýsingar, bæði um góðar hliðar ESB og hinar slæmu. Þannig er ekki hægt að treysta neinum einum fyrir upplýsingagjöfinni, heldur verður allt að vera uppi á borðinu.

Hins vegar er það mjög erfitt fyrir ESB-sinna að reyna að sannfæra lýðræðissinnaðan ESB-andstæðing um dásemdir sambandsins, styrki og fleira (fyrirgefðu, ég gat ekki munað neinar dásemdir) ef ESB-andstæðingurinn er andsnúinn hugmyndinni um yfirþjóðlegt apparat sem skiptir sér af innanríkismálum aðildaríkjanna, til að byrja með. Því að það er eins og að sannfæra mann með tvo heila fætur um kosti þess að láta skera þá af: hann sparar útgjöld til skófatnaðar.

Vendetta, 4.7.2010 kl. 22:59

27 identicon

Vendetta, ég skil það vel að það er mikilvægt að vera gagnrýninn, og ég met þann eiginleika persónulega mikils. En ég verð þó að segja að sú hugmynd þín um að ESB-andstæðingar séu eitthvað lýðræðislegri en ESB-sinnar ekki, heldur ekki vatni. Ég veit ekki enn hvort ég er á móti aðild að ESB eður ei, en ég veit að það væri ólýðræðislegt ef við hættum aðildarviðræðunum án þjóðaratkvæðagreiðslu. Og best væri að sú þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram, eftir að niðurstöður aðildarviðræðanna eru komnar í ljós. Þá fyrst er hægt að móta sér vel ígrundaða skoðun á því hvort að aðild sé góð fyrir Ísland, eður ei.

Bjarni (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 08:05

28 identicon

Hvaða fáviti notar wikipedia máli sínu til stuðnings? Menn gætu allt eins vísað í séð og heyrt og kallað það vísindarit! Ykkar skál!

Kristinn (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 12:52

29 Smámynd: Vendetta

Í síðustu athugasemd minni átti að standa: "EN þótt ESB-andstæðingar á Íslandi geti ekki komið í veg fyrir það sem gerist í öðrum Evrópulöndum,..."

Ég er sammála þér í því, Bjarni, enda lít ég ekki á ESB-andstöðuna sem einhver trúarbrögð. En ég vil að löngu áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram, að þá verði ESB kynnt rækilega frá öllum hliðum, góðum og slæmum. Þannig að þegar aðildarsamningurinn milli íslenzku ríkisstjórnarinnar og framkvæmdastjórnarinnar í Bruxelles verður kynntur, þá verði þjóðin vel í stakk búin að geta aðskilið hismið frá kjarnanum og aðskilið áróður frá bitrum sannleika.

Hingað til hafa skrifin gegn ESB-aðild á pólítískum vettvangi aðallega snúizt um íslenzkan sjávarútveg og frjálsan innfluting á lambakjöti og þar með verið mjög þröng umræða. Betra væri að umræðan væri breikkuð og látin taka á öllum atriðum, fyrst og fremst því sem snýr að Íslandi til þess að hafa breiðsíðu gegn ESB-sinnum. T.d. þarf að fá svör við eftirtöldum spurningum á hreint, og ekki aðeins vísan í lagagreinar, heldur vandlega og hlutlausa greiningu manna sem ekki hafa annarra hagsmuna að gæta en að segja sannleikann:

  1. hvernig mun landbúnaðarstyrkur frá ESB eftir 2014 vera frábrugðið niðurgreiðslu frá íslenzka ríkinu, sem verður klárlega bönnuð eftir að aðild tekur gildi, og hvaða kvaðir um hagkvæmni og skipulagsbreytingar verða lagðar á íslenzkan landbúnað í sambandi við styrkina?
  2. hvaða íslenzk sveitarfélög munu fá skerf frá byggðaþróunarsjóði ESB, þ.e.a.s. hvaða skilyrði þurfa þau að uppfylla?
  3. munu íslenzk fyrirtæki verða halloka þegar útboðsreglur ESB taka gildi af fullum þunga?
  4. hversu mikla veltu þurfa fyrirtæki sem starfa á Íslandi að hafa áður en samkeppniseftirlit Evrópu getur skipt sér af samruna/yfirtöku fyrirtækja, sem leiðir af sér markaðsráðandi stöðu (einokun) á íslenzkum markaði?
  5. verður búið að tryggja að íslendingar geti fengið vinnu í öllum ESB-ríkjum án hindrana (þetta hefur alla tíð verið erfitt t.d. á Spáni, þrátt fyrir löggjöf ESB um frjálst flæði vinnuafls) og ef nei hvers vegna ekki?
  6. að hvaða málum munu þeir íslenzku frambjóðendur sem verða kosnir í fyrstu kosningum til Evrópuþingsins í Strasbourg vinna, þeas. hvernig eru þau mál sem þeir stjórnmálahópar á Evrópuþinginu hafa verið til meðferðar fram að þessu og hvernig gagnast þannig málsmeðferð á einhvern hátt Íslandi?

Þetta eru nokkrar af spurningunum sem verður að fá svar við. Og ekki aðeins með vísan í hinar og þessar lagagreinar, sem eru yfirleitt mjög loðnar, heldur svör byggð á vandlegri greiningu á hvernig þetta er, hafi verið og muni verða framkvæmt í raun.

Spurning 6 er mikilvæg því að það er vitað mál, að þingið í Strasbourg er einstaklega óskilvirkt og eyðir gífurlegum tíma í að ræða um og kjósa um hreinan tittlingaskít eða mál sem snertir aðeins þingmennina sjálfa. Í öllum umræðum um ESB munu koma mjög misvísandi upplýsingar fram, allt eftir því hver gefur upplýsingarnar. Þetta verður að vera á hreinu.

Einnig væri ekki úr vegi að rannsaka öll áhrif, sem ESB-aðild hefur haft í löndum sem hafa fengið aðild eftir 1970 (þ.e. öllum ESB-ríkjum nema stofnríkjum Kola- og stálsamtakanna/Rómarsáttmálans), þar eð við það má skoða langtímavirkni ESB-aðildar og breytingar við það til góðs og ills, sem hafa má til hliðsjónar að einhverju leyti.

Annað sem er uggandi og það er að tillagan á Alþingi 2009 um að þjóðaratkvæðagreiðslan um aðildarsamninginn 2012 verði ekki bindandi fyrir ríkisstjórnina. Þetta þýðir, að ef Samfylkingin verður ennþá við stjórnvölinn þegar þjóðaratkvæðagreiðslan á sér stað, þá mun hún einfaldlega hunza niðurstöðurnar, ef meirihlutinn segir nei.

Vendetta, 5.7.2010 kl. 13:22

30 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Vendetta.  Lesandi er búinn að jarða þig svo margoft að mér finnst skrítið að þú lætur sjá þig hingað aftur og aftur.

Fyrst þarftu að útskýra fyrir okkur lesendum þessara bloggsíðu afhverju þú varst blákallt að ljúga að okkur.

Sleggjan og Hvellurinn, 5.7.2010 kl. 15:08

31 Smámynd: Vendetta

Sleggja og Þruma, ég þarf ekkert að útskýra fyrir ykkur, enda hef ég engu logið. Ykkur er frjálst að trúa hvaða áróðri sem þið viljið. Þið hafið örugglega einhverra persónulegra hagsmuna að gæta varðandi aðild að ESB (hugsanlega von um starf við einhverja stofnun ESB) og gleypið þá við og endurvarpið fagurgalanum og blekkingunum frá velsmurðri áróðursvél ESB. Hins vegar hef ég engra persónulegra hagsmuna að gæta, en vil að þjóðin fái að heyra báðar hliðar, líka dökku hliðarnar á ESB-aðild. Ég held, að einfeldni ykkar geti stafað af reynsluleysi vegna ungs aldurs og skort á raunsæi og innsæi.

Hins vegar ef þið óskið að Ísland missi sjálfstæði sitt í skiptum fyrir eitthvað annað sem þið álítið vera betra, þá ættuð þið bara að viðurkenna það blákalt. Ég myndi virða það. Því að raunverulegt sjálfstæði aðildarríkjanna er það sem er steytingarsteinninn í þessari umræðu og hvort afsal á sjálfstæði sé þess virði. Allt hitt kemur í öðru sæti.

Að lokum varðandi það að láta sjá mig hér, þá er það Guðbjörn sem ræður hver skrifar athugasemdir hér, en ekki þið þrír, sem kallið ykkur "Þruman og Sleggjan". Ég skrifa athugasemdir hér svo lengi sem einhver biður mig um það, eins og þið gerðuð í ykkar athugasemd kl. 15:08. En ég skal lofa því að koma aldrei nálægt ykkar bloggsíðu með neinar athugasemdir.

Ekkert sem hefur komið fram frá ESB-sinnum hefur hrakið neitt af því sem ég haldið fram. Þetta hefur verið svona álíka og að rífast við stjórnarliða um "skjaldborg heimilanna". Stjórnarliðinn heldur því fram að ríkisstjórnin hefur slegið skjaldborg um heimilin af því að það stendur í stjórnarsáttmálanum og þess vegna hljóti það að vera þannig að öllum skuldugum heimilum sé borgið og allt sé í fína lagi. Ég veit alveg nákvæmlega hvernig róttækir ESB-sinnar setja fram einhliða áróður sinn og læt þá ekki slá mig út af laginu, nema síður sé.

Hvað varðar ESB-ríkisstjórnina íslenzku, þá hefur hún gert allt sem í hennar valdi stóð til að glata trúverðugleika í þessu mikilvæga máli.

Vendetta, 5.7.2010 kl. 16:45

32 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ég hef enga hagsmuni að gæta. Ég er ekki að vonast eftir starfi í stofnun ESB. Ég rek fyrirtæki á Íslandi. Og vill stöðugleika einsog flestir sem starfa í atvinnulífinu.

Sleggjan og Hvellurinn, 5.7.2010 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband