Léttir fyrir okkur sjálfstæðismenn

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins kjósa:

  1. 36% Samfylkinguna
  2. 29% Sjálfstæðisflokkinn
  3. 23% VG
  4. 7% Framsóknarflokkinn
  5. 4% Frjálslynda
Engum blöðum er um að fletta, að Samfylkingin hagnast á ástandinu vegna afstöðu sinnar til ESB. Samfylkingunni tekst á einhvern hátt að frýja sig algjörlega ábyrgð af öllu, sem miður fór undanfarið 1 1/2 ár, sem þeir hafa verið í ríkistjórn. Þetta er ótrúlegt pólitískt afrek.
Sömuleiðis eru Vinstrigræn trúverðugur kostur fyrir vinstra fólk, þar sem þeir gagnrýndu útrásina, bentu á hættuna af henni og gengu jafnvel svo langt að besti kosturinn væri að bankarnir færu úr landi, sem mikið var gagnrýnt af öllum flokkum á sínum tíma. Framsóknarflokkurinn tapar enn fylgi og það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Guðni hefur að mínu mati ekki verið að standa sig vel og er kominn í hálfgert "trúðshlutverk" á Alþingi, t.d. hvað varðar ástaryfirlýsingu hans til Pútín! Að auki bera þeir stóra ábyrgð - líkt og Sjálfstæðisflokkurinn - á því hvernig málum er fyrir komið.
Ég hef aldrei skilið þá sem kjósa Frjálslynda og því skil ég fylgistap þeirra mæta vel. Vandræðagangur flokksins allt frá stofnun hans er slíkur, að það er að undra að 4% landsmanna skuli enn aðhyllast flokkinn! En það eru "kverúlantar" og furðufuglar á miðjunni líkt og á vinstri vængnum - "I'll say no more!". Ég held að þessi flokkur sé í raun að hverfa og farið hefur fé betra.
Í ljósi núverandi aðstæðna er það mikill léttir fyrir okkur sjálfstæðismenn, að samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins skulum við enn vera með 29% fylgi. Frábært "krísu management" Geirs H. Haarde á stóran þátt í að við skorum svona hátt í þessari könnun, sem og meðborin tryggð okkar sjálfstæðismanna, sem þó má ekki ofbjóða! Ég bjóst við verri útreið og þá ekki síst vegna harðrar afstöðu forystu flokksins til ESB aðildar og þeirrar ábyrgðar, sem við beint og óbeint berum af þeim ósköpum, sem yfir þjóðina hafa dunið. Ég tel, að við eigum að gangast við þeirri ábyrgð á sýnilegri hátt. Jafnframt ættum við á sýnilegri hátt að gera þjóðinni ljóst hvernig aukið frelsi undanfarinna 17 ára hefur bætt hag þjóðarinnar. Hreinlega snú vörn í sókn og "gorta" okkur meira af afrekum okkar frá 1991. Við eigum skýrt og greinilega að "kapítalisminn" sé langt frá því að vera dauður og að mistökin hafi ekki verið að auka frjálsræðið, heldur að eftirlitið og regluverkið hafi ekki verið nægilegt. Jafnframt eigum við að sjá til þess að þeir, sem ábyrgð báru - stjórnmálamenn jafnt sem embættismenn - axli þá ábyrgð. Ef þetta verður ekki gert mun trúverðugleiki okkar bíða alvarlegan hnekki. Það þýðir ekki að vera í eilífri afneitun, hvað þessa hluti varðar.
Athyglisverðustu fréttirnar eru þó þær, sem fjölmiðlar gera sér engan mat úr. Þær eru þó meira "sexý" en virðist við fyrstu sýn. Það að óákveðnir kjósendur fari úr 20,5% í síðustu könnun í 30,5% er frétt. Að tala þeirra, sem ekki ætla að kjósa, fari úr 6,5% í 12,3% er einnig frétt. Að 42,8% kjósenda séu óákveðnir kjósendur er stórfrétt!
Hvað þýðir þetta? Kosningaþátttaka 12. maí 2007 var 83,6%. Kosningaþátta á árunum 1946 - 1999 var á bilinu 84,1 og upp í 91,4%. Af tölunum - sem eru aðgengilegar á kosning.is - þá er augljóst, að kosningaþátttaka er mest þegar efnahagslægðir eða kreppur eru. Þar sem nú er stærsta kreppa, sem komið hefur upp á lýðveldistímanum, er ekki óeðlilegt að áætla, að 92% kjósenda á kjörskrá mæti til kosninga - jafnvel fleiri!
Í þessari skoðanakönnun svöruðu 57% og 43% svöruðu ekki. Samkvæmt minni kenningu eru því a.m.k. 35% fólks - sem mun kjósa í kosningum - óákveðið!
Spurningin er hvert fara þessi atkvæði og hvaðan koma þau? Ljóst er að fylgistap Sjálfstæðisflokksins er meira en tölurnar segja, því flokkurinn á stóran hlut af þessum 35%, sem eru óákveðin. Einnig hefur einhver pínulítill hluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins farið yfir til Samfylkingar - t.d. kratar, sem aðhyllast ESB aðild. Framsóknarflokkinn. Frjálslyndir hafa líklega einnig tapað fylgi yfir til Samfylkingar. Mín kenning er, að flakkið sé jafnvel meira, þ.e.a.s. að hluti kjósenda Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins hafi færst lengra til vinstri. Hluti Samfylkingarinnar hefur færst yfir til VG og Framsóknarmenn yfir til Samfylkingar.
Harðasti kjarni Sjálfstæðisflokksins er enn á sínum stað og einhver hluti lausafylgis flokksins bíður átekta og kýs enn flokkinn. Það hægra fólk, sem er óákveðið - en ég tel að stærstur hluti þessara 35% óákveðinna séu hægri menn - bíður ákvörðunar Sjálfstæðisflokksins varðandi ESB aðild.
Hættan núna er, að Sjálfstæðisflokknum takist ekki að sætta þessar tvær fylkingar, þ.e.a.s. ESB aðildarviðræðusinna og andstæðinga. Það er engin leið fyrir forystumenn flokksins að setjast á lokið á pottinum enn eina ferðina og bíða þetta af sér. Kjósendur flokksins, sem vilja ESB aðildarviðræður, eru hreinlega ekki til í þann leik lengur og krefjast þess af sínum flokki að afstöðunni verði breytt í takt við vilja meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
Þeir sem eru á móti aðild að ESB og eru til hægri eða vinstri kjósa hreinlega sína gömlu flokka, Sjálfstæðisflokkinn og VG.
Þeir, sem eru til vinstri og aðhyllast ESB aðild, kjósa Samfylkinguna.
Auðsjáanlegt er, að mikil vinstri sveifla er í þjóðfélaginu, eins og alltaf í miklum þrengingum. Ég held þó, að vinstra fylgið sé allt komið á sinn stað. Þeir sem eru til vinstri eru hreinlega búnir að skila sér að fullu til VG og Samfylkingar.
Miðjumoðið og hægra fólk - sem margthvert aðhyllist ESB aðild - kýs sumt hvert enn sinn gamla flokk, Sjálfstæðisflokkinn eða Framsókn. Flest er það þó að mínu mati í hópi þeirra 35% kjósenda, sem eru óákveðnir. Komi til kosninga á næstunni verður stuðningur með eða á móti ESB mjög mikilvægur varðandi þessi 35% óákveðinna atkvæða og þau ráða í raun ferðinni, þ.e.a.s. hvort við förum inn í ESB eða verðum áfram utan þess.
Það eina, sem gæti breytt þessari mynd væri klofningur Sjálfstæðisflokksins og myndun nýs trúverðugs hægri flokks með alvöru frambjóðendur og þá með stuðningi SA og sjálfstæðismanna innan launþegasamtakanna og annarra hagsmunasamtaka. Slíkur flokkur myndi höggva enn stærra skarð í Sjálfstæðisflokkinn en nú er orðið.
Við skulum von að til þess muni ekki koma.

mbl.is Minnihluti styður stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Kannski var flæði á milli Samfylkingar og VG í árdaga þeirra flokka fyrir 10 árum. Það er ekki og frjálslyndir Evrópusinnaðir jafnaðarmenn færa sig ekki á VG... sem boðar afturhald og þjóðernishyggju. Þar er um að ræða meira flæði frá Framsóknarflokki .. þ.e. gamli kjarninn frá SÍS árunum. Þeir geta auðveldlega kvittað upp á stefnu VG.

Ég held að mikill hluti óákveðna fylgisins sé frá Sjöllum komið og það er fólk sem er að bíða eftir því hvað flokkurinn gerir í Evrópumálum og hvort hann ætlar að kasta frjálshyggjunni. Ef hann gerir það nær hann miklu af þessu til baka en til gæti orðið últra hægriflokkur sem tæki við þeim bolta sem frjálshyggjan er og það sem henni fylgir.

Jón Ingi Cæsarsson, 26.10.2008 kl. 13:54

2 Smámynd: Heidi Strand

Ég hef enga trú á annað en að enga breytingar verður við næstu kosningar. Ég held að íslendingar eru með flokksgen sem ekki er hægt að breyta nema hjá örfáum. Ég er orðin þá gömul er búin að sjá þetta gegnum árin.
Davíð og Halldór voru endurkjörin haustið eftir að þeir setti Ísland á listann hjá Bush vegna innrásin í Írak. Það mundi aldrei hafa gerst í mínu föðurlandi.

Heidi Strand, 26.10.2008 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband