Gagnlegt að leggjast undir feld líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði

Líkt og ESB sendir okkur af og til sína fulltrúa, t.d. aðila á borð við Olli Rehn, Díönu Wallis, Percy Westerlund eða Hervé Carré, sendu Haraldur Blátönn, konungur Dana, og Ólafur Tryggvason, konungur Norðmanna, þeirra fulltrúa. Þannig komu til Íslands fyrir árið 1000 saxneskur biskup að nafni Friðrekur og prestur að nafni Þangbrandur. Þeim félögum varð lítið ágengt í kristniboðinu, en öðrum þeirra tókst þó að vígja eina kirkju á meðan hinum tókst að skíra nokkra höfðingja - þar á meðal höfðingjana Hjalta Skeggjason og Gissur hvíta Teitsson frá Mosfelli. Að auki tókst Þangbrandi að vega 2-3 Íslendinga, sem höfðu níðst að honum - útlendingnum - sem er líkt og við vitum góðra manna siður okkar Íslendinga enn þann dag í dag.

Þeir örfáu, sem frelsast höfðu annaðhvort í útlöndum eða í kristniboðinu, gáfust þó ekki upp og fóru undir forystu Hjalta Skeggjasonar til Alþingis rétt fyrir þúsaldarmótin. Móttökurnar voru þar óblíðar, enda eru og voru boðberar nýrra siða þar ævinlega óvelkomnir og gildir þar einu hvort það er í dag eða fyrir 1000 árum. Hjalti var sem sagt í kjölfarið gerður landrækur fyrir "goðgá". Í dag erum við hins vegar hófstilltari - en meinum það sama - og segjum að sum mál séu einfaldlega ekki á dagskrá.

Hjalti og Gissur gáfust þó ekki upp, heldur snéru aftur til Alþingis árið 1000 og ætluðu að sannfæra Íslendinga um gæði kristinnar trúar. Ólafur Tryggvason - sem var sannkristinn maður - hélt sonum nokkurra valinkunnra Íslendinga í gíslingu til að hjálpa landanum við ákvarðanatökuna. Í dag myndum við kalla þetta léttan þrýsting.

Í stað þess að útkljá málið lýðræðislega á Alþingi, var ákveðið að fela ráðandi klíku í þjóðfélaginu - sem aðhylltist ríkjandi stjórnartrú: heiðni - málið til ákvörðunar. Fyrir þeim hópi fór Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson. Þessi fallega hefð - að klíkan taki við málinu - hafa Íslendingar viðhaldið allt til þessa dags. Með þessu móti komust við hjá því að taka sjálfstæðar ákvarðanir, sem er fljótlegt og praktískt og kemur í veg fyrir deilur innan stjórnmálaflokka. Þetta er einnig oft kallað menntað einveldi, þ.e.a.s. ef klíkan er vel menntuð og vel gefin. Sumsé, þetta á sér langa sögu meðal sannra Íslendinga, en hefur gefist mis vel etir því hverjir eru við stjórn. Eftir því sem mér skilst höfum við ekki ráðgert að afleggja þá stjórnarhætti.

Líkt og í dag byggja Íslendingar allar ákvarðanir sínar á gildum rökum og skynsemi. Því var ekki órökrétt að ætla, að þar sem hraun hafði runnið á Hellisheiði rétt þar sem Alþingi fundaði, þá hefðu guðirnir reiðst þjóðinni fyrir daður við kristnina. Snorri Þorgrímsson á Helgafelli mælti þá:

Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“.

Við þetta róaðist þingheimur allnokkuð og hélt - líkt og í dag - áfram að afgreiða lög líkt og á kassa í Bónus. 

Talsmaður ríkjandi siðar - heiðni - var enginn annar en Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lögsögumaður. Talmaður kristni var tilnefndur Hallur Þorsteinsson á Þvottá (Síðu-Hallur). Þingmenn voru ekkert að ræða málin mikið frekar en í dag. Því sammæltust þeir Hallur og Þorgeir um það á tveggja manna tali að segja upp lög, sem allir gætu fellt sig við. Líkt og nú tíðkast, tók að sjálfsögðu talsmaður ríkjandi siðar ákvörðun um, hvað yrði upp á teningnum:

En síðan er menn komu í búðir þá lagðist hann niður, Þorgeir, og breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nóttina eftir og kvað ekki orð.

Daginn eftir settist Þorgeir upp og bauð mönnum að ganga til Lögbergs, en þar hóf hann upp raust sína og sagði:

En nú þykir mér það ráð, að vér látim og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.

Niðurstaða Þorgeirs varð sú, að allir Íslendingar skyldu í orði kveðnu taka kristni en áfram skyldi þó leyft að blóta leynilega, bera út börn og éta hrossakjöt.

Þetta er merkileg niðurstaða og alveg sér íslenskt fyrirbrigði, held ég mér sé óhætt að segja. Við berjumst ekki, heldur náum einhverskonar "málamiðlun".

Líkt og samlandi minn gerði fyrir rétt rúmum 1000 árum síðan ákvað ég að beita sömu aðferðafræði við að komast að niðurstöðu. Ég var lengi vel málsvari gildandi siðar - Sjálfstæðisflokksins - og þar með jafnframt andsnúinn ESB aðild. Fyrir um ári síðan frelsaðist ég síðan og hef aðhyllst nú ESB aðildarviðræður, en aðhyllst engu að síðu að öðru leyti hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Til þessa að skoða ESB aðildina; einhliða upptöku evru; aðgerðaleysi stjórnvalda undanfarin ár, fyrirhyggjuleysi og ábyrgðarleysi Alþingis; grandvaraleysi, gagnsleysi, getuleysi og rangar ákvarðanir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins; tók ég mér frí í vinnu nokkra daga í síðustu viku og eyddi helginni einnig í að íhuga málin og bera þau saman við kristnitökuna árið 1000. Af þessum sökum hef verið í litlu sambandi við mitt nánasta umhverfi í viku. Niðurstaða mín er stutt líkt og hjá Þorgeiri, því Íslendingar hata málalengingar.

  1. Allir Íslendingar skulu í orði kveðnu samþykkja aðildarviðræður við ESB
  2. Allir Íslendingar séu sammála um að krónan sé dauð
  3. Allir Íslendingar samþykki að við ráðum ekki við sjálfstæða peningastefnu og séu til þess ófærir líkt og Ítalir, Svartfellingar og margar aðrar þjóð og að Þjóðverjar séu öðrum þjóðum fremri við þá iðju
  4. Allir Íslendingar samþykki upptöku evruna einhliða fyrir jól - jólagjöf Alþingis og ríkisstjórnarinnar til landsmanna er því afnám verðtryggingar og gengisfellinga (verður mörgum þungbært)
  5. Öllum Íslendingum verði tryggt að þeir hafi í sig og á á meðan á kreppunni stendur
  6. Reynt verði að lágmarka skaða almennings og komið í vega fyrir almenna eignaupptöku íbúðarhúsnæðis, en þetta ætti að vera auðveldara í kjölfar upptöku evru og afnám verðtryggingar
  7. Allir Íslendingar samþykki að Alþingi og undanfarnar tvær ríkisstjórnir hafi brugðist okkur og gildir það um alla flokka, sérstaklega þá sem voru í ríkisstjórn, en einnig hina sem áttu sæti á Alþingi
  8. Skipta þarf út mörgum fulltrúum á Alþingi í kosningum
  9. Halda skal kosningar á síðari hluta næsta árs
  10. Aðalkosningamálið verður ESB aðild
  11. Þrátt fyrir inngöngu í ESB verður áfram leyft að vera sannur Íslendingur: borða selshreifa, hrútspunga, bringukolla, kæsta skötu og hákarl, flagga íslenska fánanum
  12. Fólk má þó nota ESB fánann með ef það vill og lleyft verður að flytja inn og borða danskar spægipylsur og franska osta
  13. Íslendingum ber að forðast áberandi klíkuskap og áberandi fjölskyldutengsl í stjórnmálum, þannig að ekki líti út fyrir að við búum við lénsskipulag
  14. Fólki er þó ekki bannað að vinna saman eða að einhver vensl séu manna á milli á þingi eða í stjórnsýslunni
  15. Fagmenn sinni störfum hjá hinu opinbera og hætt verði að skipa í stöður eftir stjórnmálaskoðun
  16. Fólk á þó að geta tekið þátt í stjórnmálum og ekki þurfa að líða fyrir það við veitingar á stöðum hjá hinu opinbera auk þess sem menntahroki verði minna áberandi í þjóðfélaginu en nú er
  17. Einkavinavæðing verður bönnuð
  18. Markaðsvæðing heldur áfram - þó aðeins ef sannað þykir að hún sé hagkvæmari en ríkisrekstur - ekki trúarbragðaatriði líkt og nú
  19. Við lifum áfram í blönduðu hagkerfi, þar sem öflugt félagslegt kerfi tryggir, að allir hafa nóg að bíta og brenna
  20. Þrátt fyrir hagræðingu í opinberum rekstri verður þjónusta við borgarana og afkoma opinberra starfsmanna tryggð á borð við stafsmenn á hinum almenna markaði

Ef við Íslendingar lærum af reynslu undanfarinna 1000 ára, gæti okkur á örfáum árum tekist að byggja hér upp enn betra þjóðfélag en við höfum í dag. Markaðurinn á að vera okkur landsmönnum sem auðmjúkur þjónn en ekki drottnandi herra og við setjum honum þær reglur, sem við teljum bestar til að hann skili sínum hlutverki sem allra best.

Það á að byggja upp þjóðfélag, sem einkennist af samhjálp og góðu öryggisneti fyrir þá, sem á því þurfa að halda. Það á ekki að byggja upp ofvaxið rándýrt félagslegt kerfi að norrænni fyrirmynd, sem mergsýgur almenning, en lætur honum hins vegar í té litla og lélega þjónustu og þá jafnvel einnig til þess fólks, sem ekki þarf á þjónustunni að halda.

Fólkinu sjálfu er öllu jafnan best treystandi fyrir sínum tekjum og á sjálft að ráða hvernig það vill eyða þeim! Sú þjóðfélagsgerð, sem við bjuggum við undanfarin ár var í sjálfu sér góð, en regluverkið og eftirlitið brást hrapalega.

Við þurfum því ekki á byltingu að halda í landinu eða vinstri sveiflu, heldur breyttum hugsunarhætti og breytingum á því kerfi, sem ekki hefur brugðist okkur í áratugi!

Fyrirfinnst einhver eða einhverjir á meðal núverandi forystu ríkjandi siðar - Sjálfstæðisflokksins - með skapgerðarstyrk Þorgeirs Ljósvetningagoða?

 


mbl.is Hannes vísar ásökunum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hannes að hampa Pálma og hverjum tengist Pálmi halló ætlar þetta ekki að enda

Guðrún (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 08:33

2 identicon

Geturðu bent á heimildir þínar fyrir því að norræna velferðarkerfið sé

"ofvaxið rándýrt félagslegt kerfi að norrænni fyrirmynd, sem mergsýgur almenning, en lætur honum hins vegar í té litla og lélega þjónustu og þá jafnvel einnig til þess fólks, sem ekki þarf á þjónustunni að halda."?

 Ég er ansi hræddur um að það geti orðið þér erfitt - norræna félagskerfið er einmitt það sem við þurfum að stefna að - og undarleg er hræðsla hægrimanna við "vinstrið". Frá sósíalistum er einmitt komið hið félagslega kerfið, öryggisnetið og alllt það. Því var komið á, víðast gegn vilja hægriaflanna. Það þarf ekki að lesa lengi í sögunni til að sjá það. Hér þrf vissulega vinstri sveiflu og gefa hægrimennskunni langt frí!

Að öðru leyti sýnist mér ýmislegt bitastætt í þessu, einkum þetta, að tími sé kominn til að Íslendingar læri af reynslunni og láti af klíkuskapnum.

Þorgrímur Gestsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 08:50

3 identicon

Auðvitað verður hið norræna, vellukkaða velferðarkerfi, fyrirmynd hins nýja Íslands, við uppbyggingu landsins aftur, eftir fall nýfrjálshyggjunnar. Eg hef búið árum saman, í Danmörku. þar sem velferðakerfið blómstrar og virkar. Skattar hærri en hér , peningarnir koma margfaldir til baka til þegnanna , í gegnum sósíal-kerfið. Ekki einu sinni hægri sinnuðum dönum, langar til að breyta velferðakerfinu og ef svo er, myndu þeir ekki þora að gera það.

Maður þarf helst að búa í norrænu velferðarlandi, áður en maður getur dæmt kerfið "negatíft". Sama má til dæmis segja um mótmælafundinn síðasta laugardag, maður þarf að vera á staðnum, til að geta dæmt um fundinn. Velkominn í mótmælin á laugardaginn kemur!  

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 11:19

4 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Eins og dómur Þorgeirs stóðst ekki tímans tönn svo er einnig um sáttagjörð þina Guðbjörn og nú erum við all ósamála ég trú því ekki að menn séu svo  blindir að þeir sjái ekki hina sönnu ástæðu fyrir þessu kverkataki Breta og Evrópusambandsins  það eru réttur til veiða og réttur til verðmæta á norðurslóðum. Ég trúi útgrðamanni sem að ég talaði við í morgun ef aldrei orðið var við að hann fari fleipur en að hans mati getum við lagt uppsjávarflotanum ef að við göngum í ESB og það er einmitt sá floti sem er að halda okkur í gangi núna.

Frjálst og fullvalda Ísland um aldur og ævi.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.11.2008 kl. 14:30

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Jón

Ég held því miður að það hafi farið fram mjög einhliða umræða hjá útvegsmönnum um ESB. Mat þeirra í þessum máli stangast á við mat allra þeirra hagfræðinga sem ég treysti. Til dæmis trúi ég frekar Jónasi Haralz og Einari Benidiktssyni fyrrv. sendiherra. Þeir hafa litlar áhyggjur af sjávarútvegnum göngum við í ESB.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 10.11.2008 kl. 17:16

6 identicon

Af  hverju að ganga í klúbb með Bretum sem kalla okkur hryðjuverkamenn?

Þjóðverjar töpuðu styrjöldinni um Evrópu á sínum tíma og ESB er verkfærið sem þeir nota til að ná markmiði sínu.

Hvernig má það vera að bankar víða um heim verða gjaldþrota án þess að íslenka krónan komi þar við sögu.  Fjárglæframönnunm hefur tekist svo frábærlega að slá ryki í augu þjóðarinnar með því að kenna krónunni um sína eigin glæpi. Tökum leppana frá báðum augunum !

Þeir sem hæst tala um að gangast undir miðstýrt vald í Brussel eru þeir sem skopuðst hvað mest að miðstýrðu valdi í Kreml á sínum tíma.  Urðu þeir hinir sömu ekki glaðir þegar Sovétlýðveldin fengu frelsið frá Kremlarherrunum. Sá dagur mun koma að hver þjóð mun prísa sig sæla þegar hún endurheimtir sjálfstæði sitt frá ESB jafnvel eftir blóðug átök. (Við þjóðverja t.d). 

Það er hægt að telja áfram en set þetta inn til umhugsunar.  

101 (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 18:27

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

101:Ég skil ekki þessa hræðslu fólks við Þjóðverja 63 árum eftir heimsstyrjöldina síðari. Halló, hef ég misst af einhverju eða eru ekki allir nasistarnir dauðir? Ég bjó í Þýskalandi í 12 ár og þekki ekki friðsamari þjóð. Það var ekki fyrr en eftir miklar deilur í þýska þinginu að leyfi fékkst til að senda nokkur hundruð hermenn til Afganistan, en til Írak hafa þeir alls ekki verið fáanlegir. Ég held að þýskir hermenn hafi í fyrsta skipti stigið fæti út fyrir landið í hernaði þegar þeir fóru til Afganistan. Ef einhver þjóð fór illa út úr stríðum á 20. öld voru það Þjóðverjar, sem misstu 1/3 af landi sínu og mikið af fólki. Þeir hafa ekki enn gleymst styrjöldunum, sem þeir töpuðu.

Þorgrímur Gestsson:Það er nú mjög umdeilanlegt hvort það voru sósíalista, sem komu fyrstir á tryggingakerfi og félagslegu kerfi. Upphafið slíkum kerfum má frekar rekja til hjálparstarfs kirkjunnar á miðöldum og síðan til fyrstu fátækralaganna, sem voru sett í Englandi á 19. öld. Fyrsta tryggingakerfið, sem ég veit um var sett á fyrir verkamenn í keisaradæminu Þýskalandi undir Wilhelm I og Bismarck árið 1871 og síðan voru sett almenn tryggingalög árið 1873. Þetta var fyrir tíma kommúnistaríkja og því þurfti hvorki Lenín, Stalín eða Mao Tsé Tung til að koma þessum kerfum á eins og þú virðist halda.

Þetta er ein af vinstri villunum, sem þarf að leiðrétta!

Jón Aðalsteinn: Bretar hafa verið til vandræða fyrir ESB síðan þeir gengu í það og með stanslausan ófrið. Þeir taka hvorki þátt í Schengen samstarfinu eða í myntsamstarfinu og í raun má segja, að þeir séu aðeins með annan fótinn inn í ESB.

Ég er sammála Friðriki um að sýn LÍÚ á aðildarmálin einkennist af vankunnáttu og þröngsýni!

Friðjón Steinarsson: Já, það þorir enginn stjórnmálamaður að gagnrýna þetta kerfi, því það eru svo margir á kerfinu og atkvæðin eru stjórnmálamönnunum mikilvægari en að þjóðin hafi það gott. Þetta þekki ég vel frá Þýskalandi, þar sem fólk er loksins á undanförnum 1-2 árum farið að segja sannleikann, sem allir hafa vitað innst inni sl. 20 ár.

Það er gaman að tala við íslenska námsmenn í Danmörku, því þeir lofa landið svo mikið. Ef einhverjir setjast þar að að námi loknu eru þeir yfirleitt fljótir að koma sér heim úr 55% skatti.

Það er nefnilega fínt að vera námsmaður, atvinnulaus, hælisleitandi, eða letingi Danmörku. Hinar vinnandi stéttir eru hins vegar mergsognar af háum sköttum til að borga undir þá sem nenna ekki að vinna. Svona hefur þetta verið þar og í Noregi og í Svíþjóð um áratuga skeið.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.11.2008 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband