Sjálfstæðisflokkurinn á tímum gerjunar og framþróunar

Það var mér ljóst á fundi Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á laugardaginn, að mikilvægir og spennandi tímar eru framundan hjá flokknum. Sumir hafa hlegið eða gert grín að ummælum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á blaðamannafundinum um ESB málin í Valhöll um daginn, þegar hún sagði að skemmtilegir tímar væru framundan hjá flokknum. Á fundinum á laugardaginn talaði Þorgerður Katrín hins vegar um spennandi tíma framundan - sem er líklegra heppilegra orðaval - en þar er ég henni, sem fyrr segir, algjörlega sammála. Spennandi tímar geta einnig verið skemmtilegir - rétt er það, Þorgerður Katrín!

Sínum augum lítur hver gullið og vera má að margir sjálfstæðismenn séu okkur Þorgerði ekki algjörlega sammála, heldur þrái hina gömlu góðu tíma aftur, þegar meiri stöðugleiki ríki meðal þjóðarinnar. Það má ekki skilja orð mín sem svo að ég sakni þeirra tíma ekki einnig, en það er nú yfirleitt svo, að óróatímar sem þessir fela einnig í sér tækifæri. Fyrir flokkinn minn felast þessi tækifæri í að endurskoða fyrri afstöðu til ýmissa mála. Íhuga hvað hafi verið rétt gert og hvað betur mætti fara, sem er því miður ýmislegt, þótt margt hafi verið vel gert á undanförnum 17 árum. Auðsjáanlegt var að þrennt var fólki efst í huga: efnahagsmálin næstu mánuði, Evrópumálin og þróun flokksins undanfarinn 1 1/2 áratug yfir í hreinan frjálshyggjuflokk. 

Það var auðheyranlegt, að sá harði kjarni sjálfstæðismanna, sem þarna var samankominn, var ekki sérstaklega hrifinn af ESB aðild. Flestir sjálfstæðismenn virðast þó átta sig á, að krónan er ekki framtíðar gjaldmiðill í landinu. Skoðanir voru skiptar, hvort við ættum að taka upp dollar, norska krónu eða evru. Margir sjálfstæðismenn geta hugsað sér ESB aðild ef lausn finnst, sem tryggir Íslendingum varanlega undanþágu frá fiskveiðistefnu ESB og viðunandi lausn fyrir íslenskan landbúnað. Færri - en þó allmargir - virtust hafa miklar áhyggjur af sjálfstæði landsins eða fullveldi og að ákvarðanataka í sumum málum færðist til Brussel.

Mjög fáir - en þó nokkrir - sem ég hafði tal af vildu inn í ESB, þótt það þýddi að Íslendingar þyrftu formlega að lúta ákvörðunarvaldi ESB í fiskveiðimálum. Þeir sögðu, að við værum þeir einu með veiðireynslu á Íslandsmiðum og sætum því einir að fiskimiðunum og þyrftum ekki að hafa áhyggjur. Að auki ættum Íslendingar sjálfir útgerðarfyrirtæki innan ESB og kynnum að reka útgerðir, hversvegna ættu þá útlendingar ekki að geta átt í útgerðum hér á landi? Þeir sáu heldur ekki að útlendingar gætu rekið útgerðirnar betur en við og því væri enn minni ástæða til að hafa einhverjar áhyggjur. Þetta fólk benti einnig á að lausn hefði verið fundin fyrir bændur í Svíþjóð og Finnlandi og víðar, þar sem landbúnaðarskilyrði væru ekki upp það besta innan ESB. Hér væru þær enn lakari og því varla annað upp á bátnum en í þessum ríkjum.

Ég sjálfur er reyndar í hópi síðastnefnda hópsins, en vil þó taka fram, að óhugsandi er fyrir Íslendinga að samþykkja aðild að ESB án þess að á hreinu sé að við töpum ekki yfirráðum yfir fiskimiðum okkar. Jafnframt er ekki hægt að ganga í ESB án þess að viðunandi rekstrarskilyrði verði tryggð fyrir íslenskan landbúnað, því að öðrum kosti myndi byggð í landinu nær leggjast af nema í nokkrum þéttbýliskjörnum.

Ljóst er að hefja verður strax mikla fræðslu og umræðu innan Sjálfstæðisflokksins um málefni ESB, því þekkingarstigið er frekar lágt. Þetta er varla nema vona, því ESB mál hafa varla verið rædd innan flokksins í mjög langan tíma. Til að geta tekið skynsamlega ákvörðun á landsfundi flokksins í lok janúar, sem verður vonandi flokknum - og þar með landsmönnum öllum til framdráttar - þurfa flokksmenn að hafa farið í gegnum gagnrýna og upplýsta umræðu um málið.

Ég hitti engan, sem ekki vildi aftur hverfa til fyrri gilda Sjálfstæðisflokksins, sem við höfum svo sem aldrei að fullu yfirgefið, en hafa ekki verið eins áberandi undanfarin 15-20 ár og þau hefðu þurft að vera. Ljóst er að óheft frjálshyggja er á hröðu undanhaldi innan flokksins, á meðan við höldum stíft við fyrri stefnu um einstaklingsframtakið og frelsi í viðskiptum á Íslandi og á milli ríkja heimsins.

Hvað efnahagsmálin varðaði er uggur í okkur sjálfstæðismönnum, en við vorum þó sammála um eitt og það var, að stjórn mála gæti ekki verið í betri höndum en einmitt núna, þ.e.a.s. í höndum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Geir Hilmar Haarde nýtur óskoraðs stuðnings í flokknum.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband