Aðgerðaáætlun Samfylkingar að nær öllu leyti ásættanleg

Segja má að aðgerðaáætlun Samfylkingar sé í mínum augum - sem sjálfstæðismanns - að flestu leyti ásættanleg og í raun löngu tímabær. Ekki er ég þó viss um að hún liti alveg eins út ef við sjálfstæðismenn hefðum samið hana. Vandamálið er að við höfum ekki lagt fram neina áætlum - svo ég viti - og hefðum því átt að fagna viðleitni Samfylkingarinnar í stað þess að gagnrýna eða hafna henni.

Ég set frekar spurningu við það, hversvegna mínir menn samþykktu ekki áætlunina eða reyndu að fá þær breytingar fram á henni, sem þeim þóttu nauðsynlegar. Ég sé ekki betur en að þarna sé tekið á þeim vandamálum, sem þjóðin hefur í augnablikinu áhyggjur af. Þau vandamál koma því hreint ekkert við hvar í flokki fólk er, hafa hreinlega ekkert með þrönga flokkahagsmuni að gera, heldur almennahag, þ.e.a.s. að íslenska þjóðin hafi húsaskjól og geti unnið sér inn fyrir helstu nauðsynjum. Auðvitað er orðalag víða loðið og mjög almennt, en í slíkri áætlun er varla við öðru að búast.

Hvað er mitt fólk í Sjálfstæðisflokknum hins vegar eiginlega að hugsa að leyfa Jóhönnu Sigurðardóttur ekki að leiða stjórnina næstu 3 mánuði - hvaða máli skiptir það þegar þjóðarhagsmunir eru í húfi, hvaða ábyrgðartilfinning er þetta gagnvart þjóðinni, gagnvart flokknum?

Að leyfa VG og Samfylkingunni að mynda stjórn rétt fyrir kosningar og koma því í verk, sem gera hefði átt strax í haust, þ.e.a.s. að koma þeim atriðum sem eru í aðgerðaáætluninni á framfæri og í framkvæmd, jafngildir næstum pólitísku sjálfsmorði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nú hljóta Samfylkingin og VG heiðurinn af þessu og við sleikjum sárin okkar fram að kosningum.

Í prófkjörum og kosningum þurfum við síðan að útskýra fyrir fólki, hversvegna við gerðum ekkert í 4 mánuði og leyfðum síðan pólitískum andstæðingum okkar að hreinsa til og taka til hendinni rétt fyrir kosningar.

Hvaða bull "taktík" er þetta eiginlega, hver stjórnar þessar bölvaðri vitleysu, hver er ábyrgur fyrir öllum þessu aðgerðaleysi undanfarin ár og þó aðallega undanfarna 4 mánuði, allri þessari ákvarðanafælni, já og ég vil segja öllu þessu bölvuðu klúðri undanfarna mánuði og undanfarin ár?

Kæru félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum: Í guðanna bænum farið að gera eitthvað af viti!!! 


mbl.is Samfylkingin setti tíu skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki kominn tími til að skipta um flokk? Sjálfstæðisflokkurinn sá þarna atriði sem ekki var hægt að fallast á eins og að koma auðlindum þjóðarinnar í var fyrir auðmönnum, það gátu þínir menn ekki hugsað sér, enda frægir fyrir að koma eigum þjóðarinnar í hendurnar á vildarvinum flokksins. Þarna hefði kvótakerfið einnig farið og það réttlæti hefðu Sjálfstæðismenn ekki getað samþykkt enda lítið fyrir réttlæti. Það stangast á við lífsskoðanir flokksins. Svo er Davíð mikilvægari og hagsmunir hans en þjóðarinnar. Já er ekki tími til kominn að skipta um flokk?

Valsól (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 08:31

2 Smámynd: Halldór Halldórsson

Það er furðulegt og alveg ný tegund af undirlægjuhætti, Guðbjörn, ef þú sættir þig við að vera í raun kallaður: "asni og óalandi verkstjóri, sem ég heimta að þú játir og síðan vil ég að þú samþykkir að ég setji nýjan verkstjóra í djobbið".  Það er margt sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins áttu að gera betur en þeir gerðu og þar er veigamest að kynna fyrir þjóðinni hvað þyrfti að gera og hvenær og síðan að tromma því fram í hvert skipti þegar eitthvað var gert.  Auðvitað átti að láta stjórnir og framkvæmdastjórnir Seðlabanka og FME hverfa út í ystu myrkur, strax í október s.l., en það var ekki gert og við súpum seyðið af því.  Hins vegar þýðir ekkert fyrir Samfylkingu að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn í því efni; þar sem þeir höfðu í hendi sér að reka alla hjá FME og þvinga þannig fram aðgerðir samstarfsflokksins.

Halldór Halldórsson, 27.1.2009 kl. 08:35

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Valsól:

Hægri menn breytast ekki í vinstri menn, þótt þeir séu ekki sáttir við gjörðir þingmanna sinna og forystu - svo einfalt er það nú!

Aldrei skal ég krossa við vinstri flokk og kalla yfir mig ógæfu vinstri stjórnar.

Halldór:

Svo bregðast krosstré sem önnur tré!

Forusta flokksins er að mínu mati óhæf: haldin krónískri ákvörðunarfælni og hræðslu.

Þótt Davíð hafi að sumu leyti verið gallaður leiðtogi, þá hafði hann hugrekki og þorði að taka á mönnum og málefnum.

Við þurfum hugrakkan leiðtoga eins og málum er háttað.

Það má Ingibjörg Sólrún eiga - þótt við eigum ekki samleið pólitískt séð - að þarna er algjör töffari á ferð!

Davíð Oddsson gerði eina vitleysu, hann hefði auðvitað aldrei átt að fara í Seðlabankann, þaðan verður hann rekinn með skömm og það í þessari viku - en það er annað mál.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.1.2009 kl. 08:43

4 identicon

Hver er "ógæfa vinstri stjórnar" sem þú óttast?  Kannski Efnahagshrun ?  :]

Birna (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 09:07

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Nei, við sjálfstæðismenn erum sérfræðingar í því

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.1.2009 kl. 09:13

6 Smámynd: Liberal

Þú vilt sem sagt umbuna þeim sem skuldsettu sig upp í topp og ráða ekki við skuldirnar með því að láta þá sem sýndu skynsemi og ráðdeild borga þær niður?  Bravó.

Liberal, 27.1.2009 kl. 11:24

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Liberal:

Nei, það var nú m.a. þetta sem ég hnaut um og því varð titillinn eins og hann er:

Aðgerðaáætlun Samfylkingarinnar að nær öllu leyti ásættanleg

Þú verður að lesa þetta betur!

Þetta er þó einhverskonar áætlun og áreiðanlega þau atriði, sem Samfylkingin hefur verið að reyna að koma í gegn undanfarna mánuði. Ég held að örugglega hefði mátt ná einhverskonar samkomulagi við Samfylkinguna, ef það hefði verið reynt í október eða nóvember.

Óbilgirni okkar manna, t.d. varðandi yfirstjórn Seðlbanka Íslands, hefur eflaust fyllt mælinn hjá þeim á endanum.

Finnst þér aðgerðarleysið hjá okkar mönnum hafa verið til fyrirmyndar undanfarna mánuði?

Þú ert virkilega eini Sjálfstæðismaðurinn, sem ég hef hitt í langan tíma sem ert þá ánægður með störf okkar manna!

Fyrst þú skrifar ekki undir nafni, geri ég ráð fyrir að þú hafir einhverra hagsmuna að gæta.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.1.2009 kl. 15:39

8 Smámynd: Björg Árnadóttir

Enn og aftur sérð þú svipaða hluti og ég í pólitíkinni. Ég botna núna ekkert í því að þrátt fyrir að hingað til hefur ekki mátt nefna að kjósa fyrr en fyrsta lagi í haust "vegna bestu hagsmuna þjóðarinnar", þá má alls ekki láta af hendi eitt embætti til vinsælasta ráðherrans til þess að tryggja þennan vinnufrið? Var þá í raun og veru eigin embætti og völd mikilvægari en umrædd ró og hagsmunir þjóðarinnar? Ég bara spyr!

Björg Árnadóttir, 27.1.2009 kl. 16:55

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Björg:

Nákvæmlega það sem ég er að reyna að segja er að stundum brýtur nauðsyn lög.

Öllu jafna hefði ég hafnað kröfu Samfylkingarinnar um að fá forsætisráðherrastólinn - sem var í sjálfu sér algjör frekja. Vandamálið er að "okkar" maður - Geir Haarde - hefur ekki verið að standa sig mjög vel sem "verkstjóri" undanfarna mánuði. Hvert einast frystihús væri búið að láta hann fara og ekki var hann betri skipstjóri, því hann er nú ekki beint efnilegur aflamaður þessa dagana, þegar maður gleðst að sjá að fylgi flokksins er enn yfir 20%.

Ég hitti barasta varla einn einasta sjálfstæðismann sem tekur upp hanskann fyrir Geir sem stjórnmálamanns þessa dagana, þótt við hugsum að sjálfsögðu hlýtt til hans í veikindunum og óskum honum og fjölskyldu hans alls hins besta í framtíðinni. Hans tími sem formaður hreinlega liðinn og það sama gildir um stærstan hluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem hefur varla látið í sér heyra í öllu aðgerðaleysinu undanfarna mánuði. Ef þetta er ekki þöggun, þá veit ég ekki hvað þetta er?

Þetta er bara eitthvað, sem við sjálfstæðismenn verður að gera okkur grein fyrir og kyngja! Við getum ekki eytt öllum okkar tíma í að afsaka Geir og aðgerðaleysið og mistökin, sem gerð voru við einkavæðinguna og síðan í kjölfarið að afsaka að löggjafarvaldið stóð sig ekki nógu vel varðandi lagaumgjörðina um fjármálastarfsemi og að augljóst sé að eftirlitsstofnanir og ráðuneyti hafa ekki staðið sig í stykkinu varðandi eftirlit með fjármálastofnunum. Að vera í bullandi afneitun líkt og ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið undanfarna mánuði er í besta falli ótrúverðugt og mun skila sér í enn verri en útkomu í komandi kosningum, en ef við hreinlega viðurkennum mistökin. Í kjölfarið eigum við hins vegar að breyta stefnuskrá flokksins okkar til fyrri stefnu mannúðar og annarra klassískra hægri gilda, þar sem rætur okkar liggja.

Síðan eigum við taka slaginn og vara þjóðina við þeirri vinstri villu, sem er í aðsigi.

Þessi starfstjórn og næsta stjórn - sem má segja að með 99% líkum að verði vinstri stjórn - munu fljúga um á rósarauðu skýi og ljúga að þjóðinni að það þurfi ekki að skera niður ríkisútgjöld, byrja síðan að prenta peninga á fullu, líkt þeir hafa alltaf gert, og við endum í sama ástandi og milli 1970-1990.

Við höfum komið þjóðinni upp úr skítnum áður og getum gert það aftur, en frumskilyrði er að bjóða upp á nýtt fólk í næstu kosningum! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.1.2009 kl. 18:07

10 Smámynd: Sævar Helgason

"Davíð Oddsson gerði eina vitleysu, hann hefði auðvitað aldrei átt að fara í Seðlabankann, þaðan verður hann rekinn með skömm og það í þessari viku - en það er annað mál."

Guðbjörn !  Er þetta ekki í raun og veru allt heila málið .  Krafan var um að skipt yrði um bankastjóra og bankastjórn í Seðlabankanum. Þessi krafa var mjög djúpstæð í öllu samfélaginu. Öll mótmælin kristölluðust í þessari kröfu . Mótmælin sópuðu ríkisstjórninni burt. Uppstökkun í stjórnmálunum núna eru bara bitringarmynd þessarar kröfu.  Ef tekið hefði verið á málinu ásamt fjármálaeftirlitinu og skipt um 2-4 ráðherra- strax í október- Þá væri ríkisstjórn Geirs H. Haarde ennþá við völd og á blússandi siglingu... en málin voru dregin og dregin þar til allt sprakk í andlitið á mönnum.

Sævar Helgason, 27.1.2009 kl. 23:13

11 identicon

ég er að mörgu ef ekki flestu leiti sammála þér Guðbjörn og einnig þér Sævar. Aftur á móti er ég ekki eins sannfærð um væntanlegar aðgerðir þessarar nýju stjórnar. Mér líst afleitlega á liðinn um að frysta eigur auðmanna. Þetta er lýðskrum og populismi. Hvaða auðmanna? Eru sannanir? Ætlum við að víkja frá réttarfarsríki og verður þessi nýja ríkisstjórn arftaki Hugo Chavez? Ekki það að ég telji ekki að ef á þá sannast þá eigi að fara út í þetta en við erum þegar með lög í landinu og þau gera kröfu um réttarstöðu grunaðra. Hvað mig varðar fór þarna fram mögulegt landráð en höldum okkur við lög og rétt.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 06:43

12 identicon

Ég er einstaklega óróleg þessa dagana, mun órólegri heldur en nokkurn tímann áður. Ég kvíði stefnu nýrrar ríkisstjórnar og ég held að hin nýja ríkisstjórn muni ekki ná að samræma stefnu allra flokka. Hins vegar er kannski kominn tími til að sjá hvernig Vinstri grænir ætla að halda á spöðunum í efnahagsmálunum og það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir halda á spöðunum í stórum kostnaðarliðum samanber heilbrigðismál og menntamál. Ég er samt með kvíðahnút í maganaum yfir löggæslunni, og því miður hef ég ekki miklar mætur á þeim manni sem mun koma til með aað ráða þeim málaflokki sem löggæslu og dómsmál heyra undir. Ég mun sjá alveg ótrúlega mikið eftir honum Birni Bjarnassyni. Bæði Samfylkingin og Vinstri grænir hefa ekki verið hlynntir eflingu lögreglunnar, og við höfum nú öll séð hversu´mikilvægt það er að hafa sterka lögreglu sem stendur af sér mótmælaölduna, þannig að ég vona að einhver muni koma og liðsinna honum Lúðvíki við að hreinsa skítinn í augunum! Guð veri með oss nú!

Hanna Björg Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband