Með ósk um stutt, farsælt og árangursríkt ríkisstjórnarsamstarf

ESB FANIÉg efast um að nokkur Íslendingur óski nýrri ríkisstjórn öðru en velfarnaðar í starfi. Aldrei á lýðveldistímanum hefur verið jafn mikilvægt og nú að starfhæf ríkisstjórn hefjist strax handa um endurreisn landsins og láti þar hendur standa fram úr ermum. Aldrei hefur ríkisstjórn þurft að takast á við jafn erfið verkefni og segja má að hún sé á sviðinni jörð. Ég er sammála Steingrími og Jóhönnu, að einungis með samstöðu allra stétta landsins náum við að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Nú verða atvinnurekendur og launþegar að snú bökum saman í þjóðarsátt, en ekki berast á banaspjótum. Ég er ósammála Steingrími J. Sigfússyni að ekkert liggi á aðildarviðræðum við ESB, en ég er sammála honum að hagur atvinnuveganna og heimilanna njóti algers forgangs. Umsóknaraðild að ESB er það sem gæti gefið þjóðinni von, von um betri tíma og blóm í haga, í náinni framtíð.

Það væri samt hræsni af mér ef ég segðist óska samstarfi þeirrar Jóhönnu og Steingríms langlífis, því það geri ég ekki. Í reynd hef ég ekki trú á að samstarfið eigi langt líf fyrir höndum og þeim takist ætlunarverk sitt. Það sem ég óttast enn meir, er að hvorugt þeirra hafi getu og þor til að taka á ríkisfjármálunum, eða búi yfir þeirri hugmyndafræði sem nauðsynleg er og grundvöllur til lausnar þeirra vandamála sem við berjumst við. Íslendingar munu brátt sjá að vinstri flokkarnir verða samir við sig og munu ganga ótakmarkaðri skipulagshyggju og ríkisforsjá á hönd og hverfa frá frjálsu efnahagskerfi í fjötra félagshyggjunnar. Það er ekki lausnin, frekar en óheft frelsi "Chicago skólans". Allar öfgastefnur, öll bókstafstrú er af hinu illa.

FALKI SJALFSTAEDISFLOKKSINSSjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann getur tekið við erfiðri stöðu og snúið henni okkur Íslendingum í vil. Núna þurfum við sjálfstæðismenn að sætta okkur við að sjálfstæðisstefnunni og okkar lausnum var hafnað. Meirihluti kjósenda treysti vinstri öflunum betur en okkur til að leysa vandamálin. Við verðum að eiga þetta við okkur sjálf, því við áttum þátt í því að klúðra málum á undanförnum árum. Það er næstum ekki hægt að álasa þjóðinni fyrir að hafa kosið til vinstri, svo illa stóðum við okkur. Núna er naflaskoðun, eða öllu heldur hreinsun framundan. Hreinsun á andrúmsloftinu innan flokksins verður aðeins með því að ræða málin hreinskilnislega. Hvert einasta sjálfstæðisfélag verður að taka þátt í orðræðunni og hún verður að vera stutt, heiðarleg og árangursrík. Innan flokksins þarf að gaumgæfa breytingar í Valhöll og breytingar á fyrirkomulag landsfundar; gamlar valdaklíkur verða að víkja; hagsmunagæsla fyrir einn atvinnuveg verður að víkja; virkja verður lýðræðið betur innan flokksins.

Þrátt fyrir þetta vona ég að þessari nýju ríkisstjórn endist líf a.m.k. í eitt ár. Hún láti hendur standa fram úr ermum, bæði varðandi aðgerðir í efnahagsmálum og ekki síður í aðildarviðræðum við ESB. Mikilvægt er að aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnuvegunum í landinu hefjist strax í fyrramálið á mánudegi 11. maí. Einnig er mikilvægt að aðildarviðræður við ESB hefjist í sumar og reynt verði að ljúka þeim á sem allra skemmstum tíma. Það er og vilji forsætisráðherra. Von mín og trú er að góðir samningar muni takast með ESB og Íslandi og aðild að ESB muni hjálpa okkur að komast fyrr út úr þeim erfiðleikum sem við stríðum við.


mbl.is Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Guðbjörn.

Þjóðarhagsins vegna, verðum við að vona, að ríkisstjórnin lifi kjörtímabilið út , það er nefnilega svo mikið sem þarf að taka til eftir óráðsíu ykkar Sjálfstæðismanna í tæpa tvo áratugi, búnir að koma þjóðarskútunni á heljarþröm með ykkar steindauðu nýfrjálshyggju!   Það liggur nánast við að þessi flokkur sem kennir sig við Sjálfstæði, sé búinn, með sinni stjórnun á landsmálum að rústa sjálfstæðinu, alla vega að einhverju leyti! Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn er hér með puttana í öllu og nánast búið að taka af þjóðinni Fjárráðin.  Nú hrópið þið á Evrópubandalag, sumir hverjir og haldið að með inngöngu í það, sé öllum vandræðum lokið. Nei , málið er bara ekki svona einfalt!!   

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 11:53

2 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Þú segir: "Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann getur tekið við erfiðri stöðu og snúið henni okkur Íslendingum í vil."

Ertu með fulla fimm ?

kv

ES

Eyjólfur Sturlaugsson, 11.5.2009 kl. 12:43

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðjón:

Hefur þér snúið hugur varðandi ESB?

Ég veit að ESB er ekki lausn allra mála, en svoleiðis lausnir eru bara ekki til.

Ég held að mörg önnur lönd séu heldur ekki búin að bíta úr nálinni varðandi þessa kreppu og "allsherjarskuldaniðurfelling" á hendur ríkjum, fyrirtækjum og einstaklingum sé eitthvað, sem menn muni skoða í framtíðinni. 

Eyjólfur:

Já, fulla fimm!

Ég minni á þegar við tókum við öllu í rusli árið 1991.

Ég viðurkenni hins vegar að það var ekki sviðin jörð.

Þótt við sjálfstæðismenn berum vissulega einhverja ábyrgð á ástandinu núna, eru það auðvitað stjórnendur bankanna og útrásarvíkingarnir, sem bera höfuðábyrgðina í málinu.

Það hentar vinstrimönnum hins vegar ekki og því skella þeir allri skuldinni á okkur. Hver var t.d. ábyrgð Samfylkingar og Framsóknarflokks, hvaða ábyrgð hafa þeir axlað?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.5.2009 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband