Íslendingar nú áhugasamari um stóriðju en tínslu fjallagrasa

Sá guliUndanfarið ár hefur orðið algjör umsnúningur á afstöðu íslensku þjóðarinnar gagnvart orkufrekum iðnaði. Hvert sem maður fer finnur maður fyrir jákvæðara viðmóti. Þetta gildir jafnvel um fólk, sem áður var stóriðju frekar andsnúið og þá sem um langan tíma hafa séð tækifæri í slíkum atvinnugreinum fyrir Íslendinga. Það er engu líkara en að almenningur átti sig nú á, að við Íslendingar getum ekki lifað á því að selja hvort öðru hlutabréf, sem íslenskur gervihlutabréfamarkaður skrúfaði upp á við, að því er virtist óendanlega. Þetta var gert m.a. með óskiljanlegum krosseignatengslum, innherjaviðskiptum, með því að hafa bein áhrif á verðbréfamarkaðinn eða með því að pretta út úr íslenskum, breskum, hollenskum og þýskum almenningi, lífeyrissjóðum og velferðarstofnunum fé þeirra og að auki ógrynni lánsfjár úr erlendum bönkum og sjóðum og spreða því í handónýtar fjárfestingar, en setja afganginn síðan á bankareikninga í erlendum skattaskjólum. Fólk hefur einnig áttað sig á því að að lifum í raun ekki heldur á þjónustugeiranum, á því að klippa á hvort öðru hárið, selja hvort öðru einhverjar fatadruslur í Kringlunni eða syngja óperur, þótt allt sé þetta - að mínu mati - bráðnauðsynleg þjónusta í siðmenntuðu samfélagi. Nei, raunveruleg og áþreifanleg verðmætasköpun og útflutningur verða að eiga sér stað til að þjónustugreinar, menningarlífið og þar með mannlífið blómstri. Raunhagkerfið er það sem "blívar" og síðan kennir neyðin naktri konu að spinna!

GjaldeyrirBlaðran er sem sagt sprungin og á augabragði sjá flestir, að raunveruleg verðmæti okkar felast í fiskinum okkar, orkuframleiðslu og álframleiðslu og öðrum iðnaði auk hins blómstrandi ferðaiðnaðar. Þetta eru þeir atvinnuvegir, sem um ókomna framtíð munu  skila okkur knallhörðum verðmætum í formi gjaldeyris fyrir þjóðarbúið, okkur öllum til heilla. Uppbygging stóriðju núna, þegar atvinnuleysi er svo mikið, hefur að auki engin ruðningsáhrif gagnvart uppbyggingu annarra atvinnugreina, þvert á móti gæti slíkt styrkt ferðalög til landsins og sprotaiðnað. Efnahagsleg áhrif slíkrar uppbyggingar hefðu því við þær aðstæður, sem við búum við í dag, mikil og jákvæð skammtíma- og langtímaáhrif fyrir íslenskan vinnumarkað og þar með efnahag þjóðarinnar. Efnahagslega gilda því ekki sömu rök gegn orkufrekum iðnaði og fyrir nokkrum árum, þegar ráðist var í framkvæmdir þegar þenslan var allt að drepa og stóriðjuframkvæmdir virkuðu sem olía á eldinn. Mikil skammtímaáhrif núna strax eru hagstæð af þeirri ástæðu, að einmitt núna er hér gífurlegt atvinnuleysi, sem þarf að vinna strax á. Sú staðreynd að þessi áhrif stóriðjuframkvæmdanna minnka síðan hratt og mikið á næstu 5-10 árum eru einnig góð, því þá gefst öðrum atvinnuvegum tækifæri til að nýta sér þann mannafla, sem losnar þá úr stóriðjuframkvæmdum og uppbyggingu orkuiðnar. Þetta á sérstaklega við um fólk í byggingariðnaði, sem mun liggja í láginni næstu árin vegna offramboðs á húsnæði, en á einnig við um ýmsan sprotaiðnað, sem þarfnast meiri undirbúnings og tekur nokkur ár að byggja upp. Einnig gæti sá mannskapur, sem losnar á næstu 5-10 árum, nýst í olíuiðnaðinn, þ.e.a.s. ef hann verður að veruleika hér á landi. Þannig gæti alvöru góðæri, sem byggist á alvöru auði, alvöru framleiðslu, leyst gervigóðæri liðinna ára af hólmi og síðan gæti jafnvel orðið framhald á framleiðslugóðærinu með olíugóðæri. Framtíð Íslendinga væri þannig tryggð næstu 40-50 árin.

NesjavellirSkynsamleg nýting fallvatna og jarðorku - og síðar hugsanlega olíu og gass - mun ekki ganga af íslenskri náttúru dauðri, þótt ýmsir "öfgaumhverfissinnar" haldi slíku fram. Þeir sem til þekkja og skoðað hafa aðstæður, t.d. í neðri hluta Þjórsár, geta vitnað um þessa staðreynd og sömu sögu má segja um Þeystareyki fyrir norðan og orkuframkvæmdir á Suðurnesjum. Ísland er stórt, sérstaklega þegar horft er til þess að hér búa aðeins 320.000 manns í landi, sem er um 103.000 ferkílómetrar að stærð. Í Hollandi búa um 16 milljónir manna í landi, sem er 41.000 ferkílómetrar að stærð og þar er feykilega mikill iðnaður og stórar hafnir. Hér á landi hefur maðurinn aðeins nýtt sér brotabrot þess landrýmis og þeirra landkosta, sem landið hefur upp á að bjóða. Þeir sem eru annarrar skoðunar ættu að skoða lönd Mið-Evrópu, þar sem hver einasta þúfa er ræktuð og verksmiðja stendur við aðra verksmiðju svo varla sést til himins fyrir mengun. Auðvitað viljum við varðveita og vernda landið okkar, svo við verðum ekki slíkum örlögum að bráð, en það er langur vegur þangað til við þurfum að hafa áhyggjur af slíku. Eitt álver í Hafnarfirði, annað á Reykjanesi, það þriðja á Reyðarfirði, það fjórða á Bakka fyrir norðan og það fimmta á Skaganum mun ekki skaða landið svo nokkru nemi. Höldum við Íslendingar rétt á spilunum næstu árin er betri tíð og blóm í haga á næstu grösum!


mbl.is Grænn farmiði inn í framtíðarlandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Varðandi virkjun jarðvarma á Reykjanesi, þurfum við að gæta að okkur. Jarðfræðingar hafa bent á að verði gengið eins langt og orkufyrirtækin vilja, verði svæðið orði ,,kalt" eftir 50 - 70 ár. Það er ekkert svo langur tími og í dag er ekkert í hendi sem kæmi til með að leysa þann vanda sem við eða öllu heldur börnin okkar og barnabörn stæðu þá frammi fyrir. Þetta er bókstaflega það sama og að pissa í skóinn sinn til að fá smá yl í tærnar. En ég neita því ekki að auðvitað verðum við að byggja eitthvað upp sem færir okkur tekjur inn í landið.

Gísli Sigurðsson, 19.9.2009 kl. 12:20

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gísli:

Jarðfræðingar eru ekki á einu máli varðandi endingu jarðvarma hér á Suðurnesjum. Þarna eru jarðfræðingar HS orku og Orkustofnunar ekki á sama máli, en ég er sammála þér að það verður að fara varlega en þó djarflega í þessum málum! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 12:31

3 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Við skulum vona að fræðimennskan sé í fyrirrúmi hjá þessum jarðfræðingum hvort sem þeir taka laun hjá ríkinu eða orkufyrirtækjum. En varlega verðum við að fara það er ljóst.

Gísli Sigurðsson, 19.9.2009 kl. 12:34

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gísli:

... en djarflega!

Það sem ég hef mestar áhyggjur af í augnablikinu er aðgerðaleysið og það sem lítur út fyrir að vera skortur á dug, framtakssemi, kjarki og þori!

Þetta hefur verið það sem hefur einkennt okkur Íslendinga undanfarin 100 ár eða svo. Fjárstofninn hjá afa mínum vestur í Laxárdal í Dalasýslu var skorinn niður vegna fjárkláða. Gamli bærinn brann ofan af fjölskyldunni og afi og amma og börnin öll bjuggu í fjárhúsunum einn vetur. Þau gáfust ekki upp, heldur byggðu nýtt íbúðarhús með hjálp nágranna, byggðu nýtt fjós og fjárhús og virkjuðu síðan bæjarlækinn til að fá rafmagn! 

Þessi gen eru ekki farin eitt eða neitt! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 12:49

5 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Gísli jarðvarmi á Reykjanesi er ekki háður úrkomu eins og annarstaðar hér ráða sjávarölinn skiptingu  á orkuflæði gufurnar með stöðugri kælingu sé tekin afl til virkjunar á það ekki að hafa áhrif á nýtingar á svæðinu til langframa.

Rauða Ljónið, 19.9.2009 kl. 12:52

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Rauða ljónið:

Ekki amalegt að hafa þig sem lesanda bloggsins, eins mikill hafsjór af fróðleik og þú ert! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 13:08

7 Smámynd: Laxinn

Við erum nú samt að súpa seyðið af því hversu fábrotnar okkar útflutningsvörur eru - fiskur og ál - þar sem þetta eru ódýrar vörur sem falla fljótt í verði (sbr. verðlækkanir núna í kjölfar heimskreppunnar).

Laxinn, 19.9.2009 kl. 14:19

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Laxinn:

Samdráttur okkar er enginn miðað við samdrátt annarra þjóða. Þannig var samdráttur annarra iðnríkja mun meiri en hjá okkur Íslendingum. Samdráttur í sölu bifreiða og annars iðnvarnings var gífurlegur á síðustu mánuðum ársins 2008 og á fyrstu mánuðum ársins 2009. Fiskútflutningurinn hefur eiginlega gengið mjög vel, þótt verð hafi lækkað eitthvað. Arðsemisútreikningar álvera miðuðust við USD 1.500 og álverð fór aldrei niður fyrir þá upphæð. Álið fór fyrir skömmu í um USD 2.000, en hefur nú lækkað í USD 1.750. Allar spár hljóða upp á að álverð muni hækka mikið á næstu 1-2 árum. Þetta er því tómur þvættingur hjá þér.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 14:34

9 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Góð grein hjá þér og ég er þér hjartanlega sammála í öllum atriðum. Ég á virkilega erfitt með að trúa að VG hafi komið í veg fyrir lengingu viljayfirlýsingar varðandi álver á Bakka. Mér finnst alveg ótrúlegt hvað listaspýrur í 101 telja sig alltaf vita best hvað henti fólki úti á landi. Það er ljóst að meirihluti íbúa á Húsavík vill álver og bygging álvers þar nú kemur sér mjög vel í kreppunni eins og þú segir.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 19.9.2009 kl. 15:27

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Adda:

Íslenska þjóðin þarf nauðsynlega að ná jarðsambandi aftur eftir að hafa verið á flugi í 6-7 ár. Við megum ekki tapa þjóðinni í eitthvað vinstri, umhverfisöfgarugl núna á þessum erfiðu tímum.

Gerum við það er hætta á að hér ríkis stöðnun og neikvæður hagvöxtur næstu árin með hræðilegum afleiðingum fyrir landsmenn, fjöldagjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja, enn meira atvinnuleysi og gífurlegum landflótta, hruni á fasteignamarkaði.

Já, þetta gæti orðið að einum allsherjar vítahring, sem erfitt gæti reynst að komast út úr. Tækifærin til að komast út úr þessu æpa hins vegar á okkur og við eigum að notfæra okkur þau ekki seinna en alveg strax! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 15:41

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Heldur fjallagrös en meiri stóriðju í boði Rio Tinto.

Árni Gunnarsson, 19.9.2009 kl. 18:01

12 identicon

Ég veit ekki betur en að Rio Tinto hafi staðið við sínar skuldbindingar hér á landi. Þeir borga vel, aðstaða starfsfólks til fyrirmyndar enda hætta menn yfirleitt ekki í álverinu í straumsvík nema fyrir aldurssakir eða af einhverjum öðrum sérstökum ástæðum.

Vona bara að honum Árna eigi eftir að ganga vel í fjallagrasatínslunni.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 19:10

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Árni Gunnarsson:

Við skulum sjá hvort afstaða þín breytist ekki þegar byrjað verður að skera niður ellilífeyri, örorkubætur, loka sjúkradeildum, fækka lögreglumönnum auk niðurskurðar í háskólum og menntaskólum landsins.

Peningar vaxa ekki á trjánum! Hvað ætli álverin á Íslandi skapi mörg vel borguð störf auk annarra gjalda og umsvifa þeirra hér á landi.

Rafn:

Alveg sammála þér! Það opnast augun á fólki, þegar niðurskurðurinn byrjar og þá un fólk öskra eftir álverum, kísilverksmiðjum og gagnaverum!

Ég þoli ekki þennan vandlætingartón í fólki gagnvart atvinnuuppbyggingu í landinu. Við erum í raun gjörspillt af eftirlæti og góðæri og kannski þarf enn stærri skell til að fólk opni augun.

Verði ekkert úr framkvæmdum kemur sá skellur fyrr en fólki grunar!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 19:33

14 Smámynd: Hörður Þórðarson

Frábær færsla. Ég vil hins vegar benda á eitt.

" Hér á landi hefur maðurinn aðeins nýtt sér brotabrot þess landrýmis og þeirra landkosta, sem landið hefur upp á að bjóða."

Þetta er mjög útbreiddur miskilningur. Maðurinn hefur í 1000 ár, ekki bara nýtt, heldur nauðgað þessu landi. Með því að eyða skóg og beyta sauðfé á nánast allt land þar sem gróður getur yfirleitt þrifist hefur maðurinn valdið eyðileggingu sem á sér fáar hliðstæður. Það er skiljanlegt að þeir sem sjá landið á hverjum degi haldi að ástand þess sé gott og eðlilegt. Þeir þekkja jú ekki annað. Erlendir sérfræðingar sem komið hafa komið hingað hafa sagt að hér sé landeyðing með því versta sem þeir hafa séð.

Það er löngu kominn til til að skilningur á þessu aukist og meira púðri verði eitt í að friða landið og bæta þann skaða sem orðinn er. Hann er bjálki samanborið við þá flís sem virkjunaranstæðingar ganga með.

Hörður Þórðarson, 19.9.2009 kl. 20:17

15 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Árni, Río Tinto er ekki að bjóða stóra framkvæmdir hér það er ósatt.

Að tína fjallagrös og prjóna ullarsokka í pásum gefur engan gjaldeyrir.

Að hafa upp ósannindin frá Andra Snæ um Río Tinto hefur hann getið þess að Río Tinto var valið árið 2008 eitt af 10 best í heiminum öllum atvinnugreinum er snýr að siðferði og orðspori svissneska fyrirtækisins Covalence sem gefur fjölþjóðarfyrirtækjum einkunn í fyrirteljasiðferði -Best Ethical Quote Score.

Rauða Ljónið, 19.9.2009 kl. 20:27

16 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Hörður hvað var það fyrsta sem Ingólfur Arnason gerði er hann kom hér að landi?

Rauða Ljónið, 19.9.2009 kl. 20:28

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hörður:

Góður punktur hjá þér! Ég held að þeir sem hafi farið verst með þetta land og gera enn eru íslenskir bændur, sem hafa þurrkað upp mýrar og eytt kjarri og öðrum til að framleiða gras ofan í rollur og beljur. Þessi vinna hefur verið haldið áfram fram á þennan dag og engin lög við því. Álverin og virkjanir hafa ekki skaðað landið jafn mikið og stóriðjan.

Það er líklega engin matvælaframleiðsla jafn skaðleg náttúrunni og sauðfjárbúskapur! Það er því undarleg blanda að hjá VG að berjast fyrir bændur og um leið vernd náttúrunnar - ekki satt!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 20:39

18 Smámynd: Björn H. Björnsson

Það er alveg með ólíkindum hvað þú ert fljótur að gelyma því að það voru Framsókn og Sjálfstæðismenn sem keyrðu þetta land í kaf með þenslu og heimsrembingi. Með framkvæmdum sem þetta lítil þjóð hefur ekkert við að gera sbr. virkjun við Kárahnjúka. Hvaða þörf höfðum við fyrir það að fá yfir 2.000 útlendinga til að þræla fyrir okkur? Mig hryllir við þínum málflutningi. Hver er fjárhagsstaða orkufyrirtækjanna eftir allt þetta góðæri?

Þar að auki eru lambakjöt og kartöflur hollari matur en ál, ef þetta er ekki troðið út af sterum eins og víða er gert erlendis.

Björn H. Björnsson, 19.9.2009 kl. 20:54

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Uppsetningin hjá þér er einföld: Annað hvort ál eða fjallagrös. Niðurstaða: Auðvitað ál.

Ekki er hugað að því að þótt sex risaálver muni taka alla orku landsins muni aðeins 2% af vinnuaflinu vinna þar og þau plús tengd störf geti aldrei orðið fleiri en sem nemi 8% af vinnuaflinu.

Þú segir að samt muni álið bjarga atvinnumálum þjóðarinnar vegna þess að þessi 92% sem ekki tengjast því fái ekki vinnu við neitt annað en fjallagrös.

Ég telst umhverfisöfgamaður í þínum augum af því að ég er nú um stundir að berjast fyrir því að eitt hornið af Hellisheiði fái að vera í friði og eitt hornið af jarðvarmasvæðum Norðausturlands.

Það er þá munur eða þið hófssemdarmennirnir sem getið ekki séð af svo miklu sem einu einasta virkjansvæði, sem þið viljið virkja til þess að seðja hina gífurlegu þörf álveranna sem eru orkufrekasti iðnaður heims.

Ómar Ragnarsson, 19.9.2009 kl. 22:33

20 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll . Björn þú ferð rangt með Kárahjúkavirkjum kostaði 130 milljarða á sama tíma var hér byggt húsnæði fyrir 630 milljarða sem skila litlum arði meira og minna autt og hafði markfall neikvæð áhrif ólikt framkvæmdum við álverið sem skilaði þjóðarbúinu um 300 miljörðum í gjaldeyrir.

Össur hf. og Marel hf. eru á meðal best þekktu iðnfyrirtækja landsins og eru bæði á hlutabréfamarkaði. Þessi félög eru í rekstri sem talinn er áhættumeiri en rekstur Landsvirkjunar. Arðsemi eigin fjár í þessum félögum ætti því að vera umtalsvert hærri en hjá Landsvirkjun. Svo er þó ekki eins og sjá má í töflunni að neðan sem unnin er úr ársreikningum Landsvirkjunar og þessara félaga. Skýrsla Sjónarrandar sýnir arðsemi orkufyrirtækja í Evrópu aðeins til 2007 og því er látið staðar numið þar.

 

2003

2004

2005

2006

2007

Meðaltal

Landsvirkjun

4%

14%

11%

6%

29%

13%

Marel

17%

31%

18%

0%

4%

14%

Össur

11%

31%

15%

3%

4%

13%

Orkufyrirtæki í USA*

11%

10%

9%

10%

11%

10%

Orkufyrirtæki í Evrópu*

11%

12%

12%

15%

15%

13%

*  Upplýsingar úr skýrslu Sjónarrandar

Eins og sjá má er meðalarðsemi eigin fjár fyrirtækjanna svipuð á þessu tímabili og

Þess ber að geta að ef bætt er við árinu 2008 lækkar meðalarðsemi Landsvirkjunar nokkuð en snörp lækkun álverðs kom illa við afkomu fyrirtækisins á liðnu ári. Álverð hefur nú hækkað verulega á nýjan leik sem eykur aftur arðsemi fyrirtækisins.



Yfir 40 eða  42-44% af verðmætum Áls er talið verða eftir í landinu  og skilar því umtalsverðu fjármagni til þjóðarbúsins. Áliðnaður á Íslandi sem atvinnugrein hefur um 40 ára skeið verið en stærsta lyftistöng í atvinnumálum lands og þjóðar og Hafnfirðinga. Áliðnaðurinn hefur skilað inn í þjóðarbúið gríðarlegum verðmætum ekki bara í gjaldeyri og sköttum heldur einnig í þekkingu, hugbúnaði og vísindum. Orkugeirinn hefur blómstrað í kjölfar álbyltingarinnar á Íslandi. Virkjanir hafa verið reistar, orka  jökulfljóta beisluð sem og orka jarðvarma. 


Rauða Ljónið, 19.9.2009 kl. 22:37

21 Smámynd: Rauða Ljónið

Áliðnaður skilar nú um 80 milljörðum í gjaldeyri í þjóðar búið og er með um 46% af gjaldeyristekjum af útflutningsverðmætum veittan á ársgrundvelli er um 200 milljarðar.
Efst í Þjórsárdal malar Búrfellsvirkjun gull fyrir eigendur sína, mörg þúsund milljónir á ári hverju í svo til hreinan hagnað, enda upphaflegar fjárfestingar í mannvirkinu að fullu afskrifaðar eftir 40 ára rekstur.

Árið 1969 voru um eitthundrað verkfræðimenntaðir menn á landinu og áttu í erfiðleikum að fá sé vinnu við sitt hæfi á Íslandi. Nú eru um 3.500 verk- og tæknifræðingar og fjölgar ört, þrátt fyrir það er gríðarlegur skortur á fólki í þessari grein.
UM 22.500 manns eiga nú afkomu sína undir orkugeiranum og stóriðju á Íslandi. Tuttugu og tvö þúsund og fimm hundruð manns sem vinstrimenn vilja svipta lífsviðurværinu og tryggja að þeirra hagur og framtíð sé í lausu lofti.
Hvar skyldi allur þessi hópur 22.500 manna starfa? Hópurinn er í Ál geiranum Járn-blendinu, Landsvirkjun, Rei, Geysi Green, Orkuveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnum og fleiri fyrirtækjum og stofnunum sem öll fengu vítamínsprautu í kjölfar byggingar Álversins í Straumsvík.

Rauða Ljónið, 19.9.2009 kl. 22:40

22 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Björn:

Hingað koma engir útlendingar að vinna á meðan gengi krónunnar eru svona. Útlendingarnir komu hingað að vinna vegna þess að íslenskt vinnuafl var ekki að hafa í þenslunni sem var á þessum tíma.

Fjárhagsstaða orkufyrirtækjanna er einna best af öllum fyrirtækjum landsins. Þau verða hugsanlega nokkur af þeim fáu stóru fyrirtækjum, sem lifa þessa kreppu af. 

Já, og lambakjöt og kartöflur eru hin besta fæða. En umhverfisvænn hefur íslensku landbúnaður ekki verið í gegnum árhundruðin. Rollurnar hafa nagað allt upp til agna og þannig aukið uppblástur. Mikið af láglendi hefur verið tekið til ræktunar á grasi til heyverkunar. Þetta voru móar og mýrar, þar sem fuglar lifðu - þetta var villt náttúra, sem hefur verið fórnað til framleiðslu á lambakjöti. Það er því alrangt að stilla íslenskum bændum upp eins og einhverjum náttúruvinum. Það er bara ekki rétt. 

Ómar:

Þetta er alls ekki það sem ég er að segja og ég hef hreint ekkert á móti öðrum iðnaði eða annarri atvinnuuppbyggingu. Vandamálið er að nú er liðið eitt ár frá hruninu og ekkert bólar enn þessu "eitthvað annað" sem ykkur Andra Snæ er svo tíðrætt um.

 Hvað ætli sjómenn séu margir á Íslandi og þeir sem tengjast fiskiðnaði? Heldur þú að það séu eitthvað meira en þau 8-10 á vinnumarkaði, sem vinna munu við áliðnaðinn á landinu þegar álverin í Helguvík og á Bakka eru búin. Þetta snýst auðvitað að hluta til um fjölda starf, en þetta snýst einnig um verðmæti. Nú hefur álþynnuverksmiðjan hafið rekstur sinn og hugsanlega verður hægt að koma af stað fleiri fyrirtækjum, sem vinna eitthvað úr álinu. Það er auðvitað framtíðin.

Það sem ég er að segja er að við Íslendingar erum að nýta mjög lítinn hluta af okkar landi miðað við aðrar þjóðir. Langstærstur hluti Íslands er enn ósnortin náttúra og það er vel, en þjóðin í landinu verður einnig að hafa rétt á að nýta auðlindirnar, nákvæmlega eins og aðrar þjóðir hafa nýtt kolin í jörðinni, málma, olíu og gas. Nákvæmlega eins og sumar þjóðir hafa rutt í burt skógum til að rækta land og fæða þjóð sína. Það má að sjálfsögðu ekki ganga nálægt landinu, en við erum bara svo langt frá því að vera að misþyrma landinu á einhvern hátt.

Ég verð að taka undir sannfærandi rök Rauða Ljónsins hér að ofan og tölurnar tala sínu máli. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.9.2009 kl. 23:37

23 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég var að lesa á Morgunblaðsvefnum að hefja ætti framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Þetta eru að mínu mati miklar gleðifréttir og sýnir að ríkisstjórnin er að láta undan þrýstingi þjóðarinnar um vinnu og brauð!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.9.2009 kl. 08:09

24 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Vissulega er ég sammála því að mig langar ekki að sjá álver í hverjum firði en við þolum alveg nokkur stykki, sérstaklega ef ekki er annað jafnt fljótlegt í boði. Það sem við þurfum að skoða svolítið vel er hvort ekki sé hægt að auka virðisaukann af því með því að skila meira áli til innlendrar framleiðslu og útflutnings. Um leið og við finnum leið til þess margfaldast útflutningsverðmæti þess sem og virðisaukinn við störfin innanlands.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 20.9.2009 kl. 10:14

25 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Adda:

Það er einmitt næsta skref. Ég las einhvertíma viðtal við Íslending, sem unnið hafði fyrir Norsk Hydro um áratuga skeið. Hann sagði að fyrst kæmu álverin og 30-40 árum síðan kæmu síðan fyrirtæki, sem ynnu úr álin. Einmitt í ár eru 40 ár liðin frá stofnun álversins í Straumsvík, þannig að þetta er næsta rökrétta skrefið í atvinnuþróun. Það er nóg pláss í hrauninu milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar fyrir slík fyrirtæki! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.9.2009 kl. 10:56

26 Smámynd: Einar Karl

"eitthvað annað" er t.d. hugmyndir og plön um gagnaver.

Hræddur er ég um að ef byggja á 360 þúsund tonna álver í Helguvík og stækka í Straumsvík verði lítil orka eftir fyrir slíkar hugmyndir.

Gott væri að fá nánari skýringu á gjaldeyristekjum sem áliðnaður skilar í þjóðarbúið. Eru ekki öll álver á Íslandi í eigu erlendra fyrirtækja?

Guðbjörn: það er rétt að nú eru einmitt 40 ár frá því að álver reis í Straumsvík. Það var þá með framleiðslugetu upp 33 þúsund tonn. Þð hefur nú stækkað í nokkrum áföngum upp í 180.000, álverið hefur m.ö.o. hér um vil sexfaldast í framleiðslugetu. Menn vilja reisa tvöfalt stærra álver en það í Helguvík, eða 360 þús tonn. Til að knýja 360.000 tonna álverið í Reyðarfirði þurfti hina risavöxnu Kárahnúkjavirkjun og hið 57 ferkílómetra stóra Hálslón, líklega ein allra umddeildasta framkvæmd landsins síðustu áratugi.

Eitt sem sárlega vantar í þessa umræðu um fjölgun álvera er að fólk gerir sér litla sem enga grein fyrir þessum tölum og stærðum. Álrisarnir vilja risaálver, sem þurrausa orkugetu okkar. Viljum við það?

Einar Karl, 20.9.2009 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband