Vald spillir engum manni ...

Vald spillir engum manni. Hitt er annað mál, að heimskingjar, sem komast til valda, spilla valdinu. - B. Shaw.

Ég er sannur íhaldsmaður og ég hef skammast mín undanfarna daga.

Ég skammast mín fyrir hvernig Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók á málum undanfarna daga og því miður getur hann sjálfum sér um kennt. Það þarf meiri herkænsku en þetta til að stjórna stórri borg og Vilhjálmur hafði undanfarna mánuði með ýmsum ummælum sínum sýnt, að hann las kjósendur Sjálfstæðisflokksins og reyndar alla borgarbúa ekki rétt og var starfi sínu ekki vaxinn.

Jafn stoltur var ég af öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, sem stóðu við sína sannfæringu. Það væri betur ef fleiri gerðu slíkt í stjórnmálum. Ég tel það nærri einsdæmi í íslenskum stjórnmálum, að stjórnmálamenn hafi sett valdastóla sína að veði í máli, er varðaði grundvallaratriði í stefnu flokks þeirra.

Ég þekki Björn Inga Hrafnsson ekki, en ég hef illan bifur á ungu fólki, sem gengur í Framsóknarflokkinn og það á því herrans ári 2007. Afi minn var alla tíð framsóknarmaður og á þeim tíma var það hugsanlega skiljanlegt, þótt ég telji að hag sveitanna hefði verið betur borgið á annan hátt en með SÍS og Kaupfélögunum. Ég hafði einhvern smá skilning á þessari áráttu fólks fyrir 30 árum síðan, en skilningur minn gufaði gjörsamlega upp á meðan ég fylgdist með Framsóknarflokknum í tólf ára samstarfi með mínum eigin flokki. Í því samstarfi kom svo berlega í ljós að flokkurinn hafði enga stefnu, en stjórnaðist af hagsmunapoti og græðgi. Besta lýsing á Framsóknarflokknum, sem ég hef heyrt, er hann sé stærsta atvinnumiðlun landsins.

Það hljóta hreinlega að vera annarlegir hagsmunir á borð við valdasýki, sem ráða ferðinni þegar ungir hæfileikamenn á borð við Björn Inga Hrafnsson borgarfulltrúa eða Birki J. Jónsson alþingismann ganga í þennan mædda flokk. Ég held að hegðun Björns Inga sé einmitt dæmigerð fyrir hans flokk og muni í fyllingu tímans dæma sig sjálf. Í síðustu kosningum sýndi sig að Framsóknarflokkurinn er búinn að vera og hlýtur að hverfa nánast fyrir fullt og allt af hinu pólitíska leiksviði í næstu kosningum. Hægri armur flokksins kemur yfir til mín í vinstri arm Sjálstæðisflokksins og hinn armurinn fer yfir til kratanna, en stór hluti flokksins er þegar genginn til liðs við Vinstri græn.

Guðbjörn Guðbjörnsson

 

 


mbl.is „Fyrrum minnihluti bjargaði Birni Inga fyrir horn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Gunnarsdóttir

Þetta er eins og talað út úr mínum munni og er ég algerlega sammála því sem þú skrifar hér. Ég er einmitt Sjálfstæðiskona sem er ósátt við störf fráfarandi borgarstjóra en í senn mjög ánægð með borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hvað skal gera við Björn Inga, það veit ég ekki...fyrir mér er hann eigi maður mikill!

Ásthildur Gunnarsdóttir, 12.10.2007 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband