Gjaldþrotið kom Seðlabankanum og ríkisstjórninni ekki á óvart

Undanfarna 6-7 mánuði hef ég beðið aðgerða ríkisstjórnarinnar, sem hafa til þessa tíma ekki verið mjög miklar eða áhrifaríkar. Ég tel mig þekkja sæmilega til minna manna í ráðherrastóli og þingmannaliðs Sjálfstæðisflokksins og tel þá bæði prýðismenn og vel gefna. Einnig tel ég að ráðherrar og þingmenn Samfylkingar séu að sama skapi gott fólk og vilji þjóðinni vel, þótt ég sé auðvitað síður sammála þeim ágæta stjórnmálaflokki.

Auðvitað hefur maður spurt sig hversvegna ekki hafi verið gripið fyrr til aðgerða. Ástæðan er að mínu mati einfaldlega sú, að þetta ágæta fólk í ríkisstjórn, fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti og Seðlabanka Íslands hefur allan tímann búið yfir meiri upplýsingum en við, sauðsvartur almúginn. Ég geri ráð fyrir að Seðlabankinn hafi haft nákvæma vitneskju um erlendar skuldir bankanna og gjalddaga lána þeirra. Þeir vita einnig u.þ.b. hvert gjaldeyrisinnstreymið er. Það þarf því engan snilling til að sjá að þegar venjulegt gjaldeyrisinnstreymi er til landsins og engin leið er að ná í gjaldeyri að láni - líkt og nú - þá skapast gífurlegur gjaldeyrisskortur á ákveðnum tímabilum. Lögmál markaðarins segja okkur, að þá hækkar gjaldeyrir í verði - líkt og við sjáum núna - og þetta er í raun ekki flókið að sjá fyrir.

Geir, Ingibjörg, Davíð, Árni og Björgvin hafa því haft tíma síðan í vor til að plana, hvað þeir gera. Þau hafa fljótlega séð, að lítið vit var í að eyða þeim litlu gjaldeyrissjóðum, sem landið á í að styrkja krónuna tímabundið, þar sem hún félli hvort eð er alltaf jafnóðum vegna gjaldeyrisskortsins, sem var fyrirsjáanlegur vegna Jöklabréfanna og annarra endurgreiðslna erlendra lána. Þess vegna ákváðu þeir að leyfa krónunni að falla líkt og þeir hafa gert og gripu ekki til neinna ráðstafana, sem hafði að sjálfsögðu góð áhrif á viðskiptajöfnuðinn og stöðvar núna að lokum þensluna í landinu.

Eflaust hafa þeir síðan bara beðið rólegir eftir að Glitnir eða einhver annar banki bankaði á dyrnar hjá Seðlabankanum og óskaði eftir aðstoð. Þeir hafa einnig verið búnir að sammælast um að ekki væri hægt að koma til hjálpar öðruvísi en að hagur ríkissjóðs væri tryggður. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki búinn að vinna í því í 17 ár að koma skuldum ríkissjóðs niður í 0 krónur vegna sukks á árunum 1971-91 til að taka á sig nýjar skuldir árið 2008 fyrir sukk og svínarí og ofurlaun útrásarliðsins og borga þær niður á 10-15 árum. Það væri pólitískt sjálfsmorð fyrir flokkinn. Eina leiðin var því sú leið, sem valin var og ég er afskaplega sáttur við hana. Glitni á auðvitað ekki að selja fyrr en gott verð fæst fyrir hann og þá til hæstbjóðandi, en ekki á afsláttarverði til þeirra, sem settu bankann á hausinn. Ríkissjóður er engin ölmusustofnun fyrir ríkisbubba þessa lands.

Hver bankar næst á dyr Stjórnarráðsins eða Seðlabanka Íslands? Hvað vildi Björgúlfur svo seint að kveldi? Hversvegna stóðu Landsbankinn og Straumur í þessum viðskiptum í dag? Getur verið að Björgúlfur hafi ekki viljað þekkjast svipað tilboð Geirs og Davíðs til bjargar Landsbankanum og sé að reyna að bjarga sér sjálfur út úr einhverjum vandræðum. Síðan fylgist KB banki með af hliðarlínunni.


mbl.is Jón Ásgeir: Sagði að þetta yrði feigðarför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Sé þetta rétt hjá þér (eins og ég vona) þá klikkuðu þeir illa á PR hlutanum. Það er í raun alveg óskiljanlegt að Geir kynni ekki þessar aðgerðir! Hann hefur allt frá því hann tók við af Davíð þurft að sitja í skugga hans og jafnvel stundum verið sagt að hann sé leppur hans. Lætur svo eftir Davíð að kynna svona gríðarlega stórt mál! Gersamlega ótrúlegur dómgreindarskortur í PR. Vona innilega að það sé það eina sem er að í þessu máli.

Björg Árnadóttir, 1.10.2008 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband