Búnir að finna upp "gullgerðarvél" norðan heiða - búa til peninga úr rusli

 

Líkt og lesendur þessa bloggs vita hef ég til þessa verið hlynntur stóriðju. Úr þessu held ég hins vegar að best sé að fresta öllum virkjunum og stóriðju um óákveðinn tíma, enda fást hvort eð er sennilega engir peningar til slíks næstu árin.

Þjóðin hefur og ítrekað lýst því yfir, að hún hafi engan áhuga á stóriðju eða orkufrekum iðnaði. Því er kannski best fyrir landsmenn, að finna fyrst til tevatnsins, hvað atvinnuleysi varðar áður en lengra er haldið í uppbyggilegri atvinnustarfsemi á borð við stóriðju eða orkufrekan iðnað, sem skilar gífurlegum útflutningstekjum til þjóðarbúsins og alvöru launum til þeirra, sem þar vinna.

Í kvöld var t.d. athyglisverð frétt í Ríkissjónvarpinu um jarðgerðarstöð í Eyjarfirði. Hér er um samvinnuverkefni atvinnulífs og sveitarfélaga í héraði að ræða. Aðstandendur verksmiðjunnar segja markmið stöðvarinnar að breyta rusli í peninga. Afkastagetan á að vera 13.000 tonn á ári og er hugsanlega hægt að nota þetta efni sem áburð eða til uppfyllingar.

Ferlið er þannig, að fluttur slátur- og fiskúrgangur í verksmiðjuna, þar sem hann er hakkaður og malaður og blandað saman við stoðefni, sem t.d. er garðúrgangur eða trjákurl. Síðan "meltist" úrgangurinn í í 8-10 sólarhringa og "þroskast" síðan í enn lengri tíma áður en "afurðin" er til. 

Ekki er enn nákvæmlega kortlagt hvað á að gera við "afurðina", en "vonir" standa til að hugsanlega sé hægt sé að nota þetta til áburðar eða sem jarðveg? þróunarverkefni er síðan framundan til að reyna að finna út úr hvað er í raun hægt að gera við úrganginn.

Eflaust er þetta síðan allt styrkt af Iðntæknistofnun og Byggðastofnun og svo auðvitað af burðugum sveitarfélögunum í nágrenninu! Þarna var sennilega um þann hátækniiðnað að ræða, sem náttúruverndarsinnar hafa svo fjálglega lýst undanfarin ár. Hátæknin felst í því að hakka einhvern ógeðslegan úrgang og láta hann úldna og blanda því saman við annan illa þefjandi, rotnandi plöntuúrgang og láta það úldna enn meira og reyna síðan að selja einhverjum þennan viðbjóð!

Þetta hljómar svo sannarlega uppbyggilega. Ekki að efa að æska landsins vill frekar vinna í úldnandi og illa þefjandi slátur- og fiskúrgangi en í snyrtilegu og nýtískulegu hátækniálveri.

Það verður varla landflóttanum fyrir að fara í Eyjafirðinum eftir að þessi gullgerðarvél rís þar!

En að sögn náttúruverndarsinna flæmir álverið fyrir austan hins vegar burt þar allt fólk og þeir einu sem fást til að vinna í álinu eru víst útlendingar!


mbl.is Búðarhálsvirkjun frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

   Mér finnst vanta eitt í gullgerðarvélina, það er að ekki skuli framleitt metangas út þessum lífræna úrgangi, nota mætti gasið til að framleiða rafmagn fyrir væntanlegt álver.

haraldurhar, 11.11.2008 kl. 00:11

2 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Já ég hef nú reyndar alltaf verið stuðningsmaður að nýta orku landsins. Ég er bara ekkert sérstaklega heitur fyrir fleiri álverum, ekki vegna þess áróðurs sem grasrótarhreyfingar hafa verið að reka á Íslandi um álver sé einhverhverskonar vondur iðnaður eða hernaðariðnaður eða eitthvað álíka kjaftæði. Ég held bara að við þurfum að hafa fjölbreytni í útflutningstekjum okkar og ál er farið að vega mjög mikið sem prósentu af heildarútflutning.

Ég er t.d. mjög svo hlynntur gagnaverum á Íslandi. Það er orkufrekur iðnaður en gefur samt af sér fleiri störf en álver fyrir hverja kílowatt stund, og laun í gagnaverum eru betur borguð þar sem þær krefjast meira af menntuðu starfsfólki.

En heyrðu Guðbjörn, svona á öðrum nótum, aldeilis eru rökin farinn að þrjóta hjá anti-ESB sinnum þessa dagana. Ég sé að það er ekki lengur hægt að kommenta á blogginu hjá Hirti stjórnmanni í heimsýn lengur.

Jón Gunnar Bjarkan, 11.11.2008 kl. 08:57

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, og sástu í Fréttablaðinu að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er farinn að ræða Evrópumálin og útilokar auðsjáanlega ekki neitt!

Undur og stórmerki framundan, sbr. yfirlýsingu Jóhönnu Sigurðardóttur um að ekki væri hægt að útiloka að stjórnarsáttmálinn yrði endurskoðaður m.t.t. til peningamála (evru) og ESB aðildar?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.11.2008 kl. 09:27

4 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Já þetta stefnir allt í rétta átt. Núna eru meira segja menn eins og Tryggvi Þór komnir á jörðina aftur og búnir að skipta um skoðun, orðnir stuðningsmenn Evru og ESB.

Lykillinn af því að ná þessum málum í réttan farveg er að draga ESB upp úr flokkspólitíkinni. Afhverju þarf það t.d. að vera stefna Sjálfstæðisflokksins að sækja ekki um ESB þegar meirihluti þeirra vill sækja um aðild, í það minnsta meirihluti sjálfstæðismanna áður en fylgið fór að hrynja af þeim í skoðanakönnunum. Afhverju má það ekki bara vera stefna allra flokka að leyfa þjóðina að verða dómarar í þessu máli. Framsóknarflokkurinn er alveg týpiskt dæmi um hversu mikið rugl þetta er orðið. Tvær svipur, Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson, standa frammi fyrir  100 fallbyssum, afgangurinn af framsókn, og reyna kúga flokkinn í því átt að reyna að koma í veg fyrir að þeir setji fram þá stefnu að leyfa þjóðinni að kjósa.

Því við skulum ekki gleyma, það getur ekki verið stefna neins flokks að ganga í ESB, enda hafa flokkarnir ekkert með það að segja. Stefnan er eingöngu að leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarviðræður og síðar kjósa um inngöngu, eða halda úti stefnu sem hindrar að þjóðin fái að kjósa um þessi mál. Og ég held að allir geti verið sammála um hvor stefnan sé lýðræðislegri.

Jón Gunnar Bjarkan, 11.11.2008 kl. 10:13

5 identicon

Ég veit ekki hvort ég eigi að hlægja eða gráta eftir lestur greinar þinnar um svokallaða "gullgerðarvél" norðan heiða Guðbjörn. Þú titlar þig með háskólagráðu (mest hissa á því að þau skyldu ekki vera fimm eins og hjá Georg Bjarnfreðarsyni)Förum aðeins yfir hvað raunverulega er verið að gera þarna: Níu sveitarfélög við Eyjafjörð og sjö fyrirtæki Eyjafjarðarsvæðinu eru stofnaðilar að Moltu ehf. sem fest hefur kaup á moltugerðarverksmiðju sem í fyrsta áfanga mun framleiða 4.500 tonn af jarðvegsbæti (moltu) úr 9.000 tonnum af lífrænum úrgangi á ársgrundvelli. Áætlað er að árið 2011, í þriðja áfanga, verði framleiðslan komin í 11.000 tonn úr 20.700 tonnum af lífrænum úrgangi. Það munu vera samkvæmt útreikningum um 91% af tilfallandi lífrænum úrgangi frá bæði fyrirtækjum og heimilum á svæðinu. Þá hefur fyrirtækið ennfremur kannað fýsileika þess að reisa lífmassaverksmiðju sem framleiðir orku úr lífræna úrganginum. Afurðin yrði metan sem bæði væri hægt að nota sem eldsneyti á bifreiðar og einnig er hægt að framleiða rafmagn úr lífmassanum. Metangasið myndi nægja til að knýja 3.500 bíla á ári. Evrópusambandið hefur gefið út tilskipun um að sveitarfélög á landinu öllu þurfi að hafa dregið úr urðun lífræns úrgangs á árinu 2009 sem samsvarar 75% frá viðmiðunarárinu 1995. Árið 2013 þarf hlutfallið að vera komið niður í 50% og 2020 í 30%.Hagrænir hvatar hafa því komið hugmyndinni að verksmiðjunni á það raunveruleikasvið sem hún er í dag. Kyoto-losunarkvótavirði framleiðslunnar yrði þá væntanlega 70.000 tonn sem að einnig er seljanleg afurð nú á síðustu og gróðurhúsa-lofttegunda-ríkustu dögum. Þetta eru sem sagt ástæður þess að farið er í þessa framleiðslu sem, nota bene, er hátæknileg og engum til vorkunnar að vinna við verðmætasköpun úr úrgangi. Tónninn í grein þinni ber vott um megna fyrirlitningu á starfsemi sem færir okkur í nútímann í eyðingu úrgangs sem er að verða eitt stærsta vandamál samfélaga í dag.

Benedikt Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 12:16

6 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Jon G Bjarkan Þú segir
"Ég er t.d. mjög svo hlynntur gagnaverum á Íslandi. Það er orkufrekur iðnaður en gefur samt af sér fleiri störf en álver fyrir hverja kílowattstund, og laun í gagnaverum eru betur borguð þar sem þær krefjast meira af menntuðu starfsfólki."
Samkvæmt frétt um daginn stendur til að byggja gagnaver í Hafnarfirði sem þarf 50 MW af orku Það kemur til með að skaffa 20 mans vinnu og 20 mans vinnu í afleiddum störfum það þarf semsagt meira en 1MW á starf. Nú langar mig að vita hjá þér hvað þarf þá mörg MW á starf í Alcoa og Straumsvik vinsamlega taka inn í dæmið afleidd störf. Ég hafði hugsað mér að leita þetta upp en þægilegra að fá það frá einhverjum sem að veit það. Sparar mér vinnu.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 11.11.2008 kl. 17:20

7 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Humm....

Verð nú bara að viðurkenna að ég er ekki með þær tölur á hreinu nafni minn Aðalsteinn. Ég man bara að þegar umræðan um þessi gagnaver stóð sem hæst og nefndir á vegum risa í tölvubransanum voru að koma hérna til lands þá kom þetta fram í öllum fréttamiðlum. Kom þar fram að Ísland væri samkeppnishæfast í heimi hvað varðaði staðsetningu fyrir gagnaver en til þess þurfti annan sæstreng sem eins og mér skilst er byrjað að leggja núna. Einnig að mengun frá þessum gagnaverum væri lítil eða enginn, að störf í þessum geira væru betur borguð en í álverum almennt og að minni orku þyrfti fyrir hvert starf. Man ekki eftir að nokkur hafi komið fram og reynt að deila á þessar fullyrðingar. 

Jón Gunnar Bjarkan, 11.11.2008 kl. 20:30

8 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Blessaður nafni Ég reyni að finna útúr þessu ég hef verið fylgjandi gagnaverum sem og öðrum iðnaði en mér brá þegar ég sá þessar tölur vegna þess að við erum að tala um að helming af Reykjanesvirkjun þyrfti til að skaffa 40 manns störf það er mikið á sig lagt.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 11.11.2008 kl. 20:37

9 Smámynd: Gerður Pálma

Blessaður Guðbjörn, mikið varð ég hiss að lesa þína umfjöllun 

´´Ekki að efa að æska landsins vill frekar vinna í úldnandi og illa þefjandi slátur- og fiskúrgangi en í snyrtilegu og nýtískulegu hátækniálveri´´ 

Æska landsins er vonandi lengra hugsandi og meðvitaðri en við sem höfum lokað fyrir skynsemisinnstreymið.  Moltugerð er innlegg í sjálfbæran iðnað sem vinnur með virðingu fyrir náttúrunni, og skapar heilbriðar tekjur inn í þjóðfélagið. Álver er mannskæður iðnaður frá upphafi til enda, Ísland er í miðjunni með vinnslu úr hráefni sem aflað er með ótamarkaðri vanvirðingu fyrir nátturnni sem við öll byggjum afkomu okkar og okkar afkomenda á.  Tekjur af álverunum, koma ekki í fjárhirslur Íslenska þjóðfélagsins, guði sé lof, því ef svo væri myndum við trúlega ganga enn lengra í eyðileggingarstarfseminni til þess að þóknast græðginni á kostnað hvers sem er.  Það þarf að leggja álversdæmin vinnslu- og fjárhagslega í smáatriðum fyrir almening til þess að hægt sé að mynda heilsteypta vitund um hvað er í gangi, það er að öllum líkindum mun verra en ´bankahrunið´allavega jafn ljótt.  

Gerður Pálma, 11.11.2008 kl. 22:04

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Benedikt Guðmundsson:

Ég skil nú ekki alveg þessi niðrandi "komment" þitt varðandi menntun mína? Ég hef menntun mína og lífsreynslu úr ýmsum áttum: listmenntun (óperusöngur), húmanísk (þýska) og félagsfræðileg (stjórnsýslufræði). En ég held að ég þurfi ekki að skammast mín fyrir minn bakgrunn eða menntun - síður en svo. Ég veit engin deili á þér, enda aðeins skráð IP-tala fyrir hendi. Ég hef að vísu bara ekki fimm háskólagráður, en ef góð menntun og víðtæk lífsreynsla er löstur þá ber ég þá byrði gjarna.

Greinin átti nú að vera ádeila á það sem ég myndi kalla "Óðurinn til sprotastarfsemi", sem tröllríður öllu um þessar mundir.

Á meðan "sprotastarfsemi" virðist vera algjörlega gallalaus eru álver slæmir, sóðalegir, gjaldeyrisgleypandi, óarðbærir, náttúrueyðandi, gamaldags og í einu orði sagt hræðilegur kostur til atvinnuuppbyggingar.

Ég er orðinn leiður á þessum einhliða áróðri gegn allri stóriðju. Staðreynd er að gagnaverið, sem opna átti á Keflavíkurflugvelli er komið á ís, ef það verður nokkurn tíma byggt og þannig er með ýmsa þá sprotastarfsemi, sem þar átti að byggja upp. Á meðan skaffar stóriðjan og fiskiðnaðurinn okkur þann gjaldeyri sem við þurfum til að komast út úr þeirri katastrófu sem við erum í.

Ég er orðinn leiður á innihaldslausum frösum endalaus tækifæri í einhverju, sem aldrei rætist neitt úr og innihaldslausri og ósanngjarnri umræðu í garð eins þess atvinnuvegs, sem hvað mesta vinna og gjaldeyri skapar í landinu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.11.2008 kl. 00:49

11 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Guðbirni til stuðnings þá hefur varla staðið steinn yfir steini hjá rökum forystumanns þeirra sem vilja hætta að nýta orku landsins. Nú síðast reif talsmaður Alcoa öll rök Andra Snæs í tætlur, í fréttablaðinu ég held það hafi verið. Auk þess eru fullyrðingar frá Andra eins og að Alcoa sé hergagnaframleiðendi vegna þess að ál frá alcoa sé notað í tomahawk flaugar frá her USA eru alveg eindæmum kjánalegar og eins og að fullyrða að hjólbarðaverkstæði sé bílaframleiðandi því bílar noti hjólbarða.

Jón Gunnar Bjarkan, 12.11.2008 kl. 02:32

12 Smámynd: Benedikt Guðmundsson

Sæll Guðbjörn,

Það sem þú kallar niðrandi komment varðandi menntun þína var rétt eins og grein þín ádeila á þekkingarleysi þitt um það málefni sem þú skrifaðir um og var uppspretta þess að ég tók mér penna(lyklaborð) í hönd. Hver sá sem vill láta taka sig alvarlega í umræðunni verður a.m.k. að hafa lágmarks þekkingu á því sem hann er að skrifa um. Með vísan í Georg Bjarnfreðason var ég skírskota til þess að menntun er ekki alltaf ávísun á getu manna til að fjalla um menn og málefni af einhverri skynsemi. Að öðru leiti kom ekkert fram í grein minni sem er tilefni fyrir þig að ausa úr skálum reiði þinnar um aðra atvinnusköpun en álver.

Benedikt Guðmundsson, 14.11.2008 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband