Er Valhöll núna farin að hafa áhyggjur af fylgistapi Sjálfstæðisflokksins?

Það væri synd að segja, að þessar slæmu niðurstöður okkar sjálfstæðismanna í skoðanakönnun Gallup komi mér á óvart. Að mér hefur verið hlegið undanfarna tvo mánuði, þegar ég hef varað við þessari atburðarás. Ég vildi að ég hefði haft rangt fyrir mér, en svo er því miður ekki.

Segja má, að frá því bankarnir hrundu fyrir tveimur mánuðum, hafi ríkisstjórninni tekist að gera fátt og það fáa sem hún hefur gert hefur verið mjög umdeilt. Þetta er eiginlega búið að vera eitt allsherjar klúður frá upphafi, hvort sem litið er til aðgerðanna eða fjölmiðlastríðsins, sem er nákvæmlega jafn mikilvægt í stríði af því tagi, sem við háum í dag.

Ummæli Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, frá því í dag:

Það er þjóðin sjálf, sem mun taka hina endanlegu ákvörðun um, hvort Ísland gengur í Evrópusambandið ...

eru svo sannarlega orð að sönnu. Þjóðin bregst einmitt við þessa stundina, t.d. með því að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn í hrönnum. Í raun má segja, að hér sé um kyrrlátan klofning að ræða eða vantraust á stefnu og forystu Sjálfstæðisflokksins. Fólkið treystir þessu fólki ekki og finnst það gjörsamlega spillt og að því standi á sama um örlög umbjóðenda sinna - íslensku þjóðarinnar. Jafn mikill sjálfstæðismaður og ég er, þýðir ekkert að loka augunum fyrir þessu. Það gildir einu, hvort þetta er rétt eða rangt, því svona kemur þetta fólkinu fyrir sjónir og það er það sem gildir í lýðræðisþjóðfélagi!

Það sem verra er, er að forusta flokksins í Valhöll virðist hafa litlar áhyggjur af þessu hruni flokksins - eins og þau haldi að þetta jafni sig að sjálfu sér, sem það gerir að sjálfsögðu ekki, þar sem djúp gjá er að myndast á milli kjósenda flokksins og þeirra sem ráða ferðinni í flokknum. Að vísu hefur verið sett af stað fundaröð um hugsanlega kosti og galla ESB aðildar, en ekki virðist mikill þungi fylgja þeirri umræðu, sbr. ummæli Styrmis í dag um "hinn þögli meirihluta". Þessi meirihluti ætlar sér ekki að hlusta á rök með og á móti ESB aðild. Nei, hann virðist þegar hafa ákveðið sig! Það sem ég hef þungar áhyggjur af er einmitt, að "hinn þögli meirihluti" ræður lögum og lofum innan Sjálfstæðisflokksins - nú sem endranær.

Þessi meirihluti er sennilega búinn að ákveða að hafna aðildarviðræðum eða hann stefnir að viðræðum með svo ströngum skilyrðum, að af aðild getur alls ekki orðið. Með þessu stefna þeir Sjálfstæðisflokknum á líknardeild íslenska stjórnmálaflokka, þar sem flokkurinn getur deilt herbergi með öðrum gömlum risa í íslensku stjórnamálalífi - Framsóknarflokknum - og nýgræðingnum - Frjálslyndum, þar til yfir lýkur fyrir þessa flokka. Í reynd deila þeir allir sömu örlögum, þótt heilsunni hafi hrakað fyrr og hraðar hjá Framsóknarflokknum og Frjálslyndum, virðist draga þeim mun hraðar af Sjálfstæðisflokknum þessa dagana.

Styrmir Gunnarssonar gleymir, að flokkur, sem einu sinni var stærsti flokkur landsins með um 40% fylgi - líkt og Finlandia vodki - er kominn niður í 20% fylgi - líkt og Campari. Það má vel vera, að Styrmir hafi á réttu að standa, að hinn svokallaði "þögli meirihluti" í þessum nú litla flokki - Sjálfstæðisflokknum - sé andsnúinn ESB aðild. Styrmir má þó ekki gleyma að 5-10% af þessum 21%, sem sjálfstæðismenn eru í dag, tilheyra hinum "háværa minnihluta" ESB sinna. Yfirgefi þessi 5-10% ESB aðildarviðræðusinna Sjálfstæðisflokkinn, mun Sjálfstæðisflokkurinn fara niður í 15% fylgi.

Skoðanakannanir sem sýna, að aðeins 30-40% þeirra, sem nú myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, vilja ESB aðildarviðræður eru eflaust réttar. Vandamálið - sem enginn talar um - er hins vegar að helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins hefur þegar yfirgefið flokkinn, m.a. vegna stefnu hans í Evrópumálum. 

Fyrrverandi hægrimenn, sem yfirgefið hafa flokkinn, væru þá um 20-25%. Þessir kjósendur kjósa ekki neinn af þeim flokkum, sem voru í framboði í síðustu kosningum. Því er mjög líklegt að nýr stór hægri flokkur verði til.

Ætli Sjálfstæðisflokkurinn ekki að enda líkt og Framsóknarflokkurinn og halda fyrri stöðu sinni, sem stærsti flokkur landsins, verða ESB andstæðingar innan flokksins að láta af andstöðu sinni gegn aðildarviðræðum við ESB. Einnig verður flokkurinn að íhuga minniháttar áherslubreytingar á stefnuskrá flokksins og síðan auðvitað að axla ábyrgð á þeim mistökum, sem gerð voru í efnahagsmálum undanfarin ár. Það verður einungis gert með breytingum á forystu flokksins og breytingum á ríkisstjórn.


mbl.is VG stærsti flokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

   Er ekki eðlilegt að hægri flokkur sé með 10 til 15% fylgi, eins og viðgengist hefur á Norðurlaöndum í áratugi.  Tími reghlífarsamtakanna er liðinn, enda ekki upp á neitt að bjóða í dag.  Varla sæti í nefnd.

haraldurhar, 1.12.2008 kl. 20:57

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Haraldur:

Það verða auðvitað til tveir hægri flokkar: Sjálfstæðisflokkurinn (Blanda af íhaldssömum þjóðernissinnum og frjálshyggjumönnum - skrítin blanda). Síðan yrði til nýr miðju hægriflokkur með þá innanborðs, sem annaðhvort eru hættir eða munu hætta í í núverandi Sjálfstæðisflokki. Þessi flokkur yrði ekki ólíkur gamla Sjálfstæðisflokknum, sem við öll þekktum og treystum, en hefur samt ESB aðild á stefnuskrá og hófsama markaðsstefnu nokkuð mikið til hægri við Samfylkinguna.

Ég vona hins vegar að Sjálfstæðisflokknum takist að ná "kúrvunni" á landsfundinum í janúar og að þá snúi þeir sjálfstæðismenn til baka, sem snúið hafa baki við flokknum á undanförnum misserum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 1.12.2008 kl. 22:42

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum logið sig áfram á ruslveitum og raðað leppum sínum á þær. En núna eru allar þessar ruslveitur skiljanlega  gjaldþrota ásamt gjaldþrota kerfinu sem þær hafa hjálpað til að svíkja áfram. Þegar ekki er einu sinni til lengur ruslpóstur til að selja sig með er nú fátt eftir. Hugmyndafræðin er fengin frá erlendum sækópötum þannig að án lygasjúkrar auglýsingamaskínu dugar hún varla í nema 10% fylgi eða svo.

Baldur Fjölnisson, 1.12.2008 kl. 23:25

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Guðbjörn.

Ég er orðin eins og biluð grammafónsplata ég segi alltaf eftir að hafa lesið greinarnar þínar. "Er þér algjörlega sammála".

Friðrik Hansen Guðmundsson, 1.12.2008 kl. 23:56

5 identicon

Staðreyndin er sú, að öll umræða um ESB-aðil Íslands hefur verið í skötulíki.  Umræðan hefur verið mjög yfirborðskennd og öll í þá veru að við inngöngu í ESB muni ríkja hér eilíf efnahagsleg sæla. 

Sem sagt, aðeins er talað um kosti þess að ganga í ESB, en alls ekki um gallana.  Þegar spurt er hvort einhverjir gallar séu á ESB-inngöngu, er skautað mjög yfirborðslega yfir þann hluta.

Það skal tekið fram, að ESB eru engin góðgerðarsamtök.  Aðildarríkin þurfa nefnilega að leggja ýmislegt til ESB til að vera þar gjaldgengir meðlimir.   Hvaða verði þarf Ísland t.d. að gjalda fyrir ESB-aðild?  Hvað fáum við í staðinn?  Ekkert er minnst á þetta í umræðunni um ESB-aðild.

Staðreyndin mun að mínu mati verða sú, að þau gæði sem hin "gömlu" ESB-ríki njóta af ESB aðild, munu ekki skila sér að ströndum Íslands.  Hér á ég t.d. við lægra vöruverð.  Ég er t.d. ekki viss um að við fáum hér Evrópu verð á vöru og þjónustu.  Hingað er t.d. of langt frá Evrópu og flutningar dýrir til landsins.  Þar að auki er fákeppnismarkaður hér á landi og mun verða áfram þó að við göngum í ESB.

Og talandi um það að tollar og vörugjöld verði afnumin, þá munu söluaðilar einungis notfæra sér það til að hækka álagningu.  Ríkissjóður mun þó verða af þessum tekjustofnum og því þarf ríkissjóður að finna aðra tekjustofna til að vega á mót þessu tekjutapi og því munu skattar hækka hér á móti.  Þannig munu nettó-áhrifin af niðurfellingu tolla og vörugjalda verða engin eða jafnvel neikvæð.

Og Guðbjörn, þó að við göngum í ESB, munu þið tollara ekki halda áfram að gramsa í farangri komufarþega til að passa upp á það að farþegar komi nú ekki með of mikið af ódýrum varningi til landsins og alls ekki meira en þennan eina lítra af sterku áfengi?  Þetta er bara eitt lítið dæmi um það að þó svo að við göngum í ESB, verði alls ekki um frjálsan fluttning á vöru og þjónustu yfir landamæri ESB-ríkjanna.

Og hvað með upptöku Evru í stað krónu?  Á hvaða gengi á að taka krónuna upp í Evru?   Er það á núverandi gengi 185 kr.? -  eða einhverju öðru gengi?  Þetta er ákaflega mikilvægt upp á framtíðar kaupmátt okkar í EVRU-samfélaginu.  Hafa ESB-sinnar eitthvað hugleitt þessi mál??

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 23:59

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Baldur:

Nei, hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er góð og gild og skilaði landinu meiri velsæld en hún hefur nokkru sinni séð. Sakarinnar er ekki að leita þar, heldur í mistökum embættismanna, stjórnmálamanna, þeirri alþjóðlegu kreppu, sem nú ríkir, en síðast en ekki síst að við vorum ekki með nógu öfluga mynt og ekki nógu vel tengd. Bæði teninguna og myntina er hægt að fá með ESB aðild.

Friðrik:

Ég vil ekki einungis fá athugasemdir frá þeim, sem eru mér ósammála, heldur einnig frá því fólki sem er mér sammála. 

Örn:

Gaman að heyra frá þér. Ég geri mér grein fyrir því að ekki einungis kostir fylgja aðild að ESB, en ég tel að kostirnir séu hreinlega fleiri en gallarnir.

Vöruverð í Finnlandi og Svíðþjóð lækkaði til muna við inngönguna í ESB og fjarlægð er í þessu sambandi afstætt hugtak. Bauhaus hefði komið til Íslands, væri það ekki fyrir íslensku krónuna og þá staðreynd að við erum ekki í ESB núna. Með þeirri verslun hefði vöruverð lækkað.

Ég er handviss um að ALDI, Carre de Four og fleiri keðju sæju tækifæri hér á landi er landið yrði hluti að ESB, sameiginlegum markaði og evrusvæðinu. Það skiptir litlu máli fyrir stórar keðjur á borð við ALDI, hvort þeir pakka í 20 gáma meira í viku og setja um borð í íslenskt skip í Hamborg. Þegar þeir senda 200 bíla af stað í verslanir sínar í Þýskalandi senda þeir um leið 50 í verslanir sínar í Finnlandi. Svona einfalt er það. Sömu sögu má segja um tryggingafélög og banka. Örn þetta er allt fullreynt innan sambandsins og sömu matvörukeðjurnar, byggingavörukeðjurnar, tryggingafélögin og bankana má sjá um alla Evrópu með vöru á svipuðu verði, en þó aðeins ólíku vegna misjafnlea hás virðisaukaskattsstigs.

Það þýðir ekki að horfa einungis þrönga hagsmuni tollarana á Keflavíkurflugvelli eða annarra stétta - t.d. starfsmanna Seðlabankans. Þótt tollararnir hætti að leita að varningi í töskum, sem er í raun minnsti hluti okkar verkefna, og starfsmenn Seðlabankans hætti að hækka stýrivextina, þá verður nóg fyrir okkur öll að gera. Ótakmarkaður innflutningur ferðamanna mun t.d. þrýsta á innlenda aðila í Kringlunni og Smáralind að hætta að okra á okkur og bjóða okkur vöruna á sambærilegu verði og innan ESB.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 07:55

7 identicon

Algjörlega sammála Haraldi hér á undan. Sjálfsæðisflokkurinn, sem konservatískur, hægri flokkur , á eftir að fara niður í  10- 15% fylgi, svipað og systurflokkar hans á Norðurlöndum, jafnvel neðar , eins og þeir hafa oft gert í Danmörku. Íslensk þjóð er búin að fá sig fullsadda á þessum ógurlega klíkuflokki, sem er búin að raða sínum flokksdindlum í bestu stöður ríkissins og hefur valdið þjóðinni þvílíkum skaða, að áratugi tekur að laga til eftir óstjórnina. Það kom að því, að þjóðin vaknaði!

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 08:34

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðjón:

Má vera að þú hafir á réttu að standa! Þú gleymir hins vegar, að úti á "kosningamarkaðnum" væru þá 20-30% af hægri kjósendum í leit að nýjum flokki og þetta fólk kýs hvorki VG eða Samfylkinguna.

Má ég hundur heita ef þá verður ekki stofnaður hófsamur hægri flokkur með ESB aðild á stefnuskrá, hófsama stóriðjustefnu, hófsama markaðsstefnu og fráhvarf frá ættar- og feðraveldi og þeim klíkuskap, sem einkennt hefur Sjálfstæðisflokkinn í nokkurn tíma.l

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 10:26

9 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Guðbjörn minn.

Þú þarft ekkert að stofna annann flokk.

Farðu bara til hinna sem eru sama sinnis og SAMFYLKIÐ GEGN ÍSLANDI með aðildarbullinu í ykkur.

Það liggur fyrir, að við fáum EKKI undanþágur frá fiskveiðsistefnu ESB.

 Það liggur fyrir, að við fáum EKKI undanþágur frá tilskipun um orkusölufyrirtæki og námur.

Þatta hefur aðeins í för með sér, að við verðum útjaðar með engin áhrif (hugsanlega 4 atkvæði af fl hundruð)

Einnig að þegar útlendingar haf afengið að versla á MARKAÐI með Kvótann og orkufyrirtækin, verður það þannig, að skipuin koma EKKI að landi hér, nema þa´stundum þegar þarf að gera smotterí við  þau.

Orkufyrirtækin verða búsett erlendis go greiða sína skatta þar, því samkvæmt LÖGUM ESB má ekki leggja á gjöld vegna námuvinnslu eða borana, vikrjan fallvatna eða annars orku öflunaraðgerðum (sett inn vegna Breta og Norðusjávar olíuborana)

Hvaða TEKJUR verða þa´til að greiða reikninginn vegna hjúkrunar okkar og skólagöngu barna okkar?

Nei minn kæri vinur, Samfylktu bara gegn afkomendum mínum hér á landi og ég mun snúast gegn þér af grimmd.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 2.12.2008 kl. 10:43

10 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hér hefur ekkert raunverulegt góðæri verið, aðeins ótrúlegt skuldasukk og vonlausar fjármálabólur sem alltaf lá fyrir að myndu springa. Allar viðvaranir um slíkt voru skipulega kjaftaðar í kaf árum saman af algjörlega óhæfum pólitíkusum og embættismönnum í stíl við þá. Afleiðingin er algjörlega gjaldþrota þjóðarbú og til að hámarka skaðann eru sömu ruglustrumparnir og keyrðu landið skipulega á hausinn enn við völd. Þessi ruglandi er augljóslega kominn inn á verksvið geðlækna, LOL.

Baldur Fjölnisson, 2.12.2008 kl. 10:56

11 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Bjarni:

Ég læt ekki hrekja mig í opinn faðm Samfylkingarinnar, enda er ég hægri maður en ekki gamall Allaballi!

Ef aðildarviðræður leiða í ljós að lýsing þín á ESB á við rök að styðjast, þar þjóðin að sjálfsögðu að spyrja sig, hvort stætt sé á að fara í sambandið!

Ég er sjálfstæðismaður, en þó ekki svo mikill að ég kysi flokkinn þótt hundur væri í framboði fyrir hann!

Þarna liggur munurinn á mér og mörgum þeirra, sem enn kjósa flokkinn (20% kjósenda).

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 11:27

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Bjarni:

Svona til viðbótar langar mig að segja að það er þessi vanvirðingartónn, sem maður hefur orðið fyrir árum saman, sem hefur hrakið helming sjálfstæðismanna úr flokknum.

Með sama áframhaldi tekst að koma flokknum á einu ári úr áfengisprósentu sterks áfengis niður í léttvínsprósentu og jafnvel niður áfengisprósentu sterks bjórs.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 11:31

13 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Guðbjörn minn kæri.

Umvörndunartónninn í mér, kemur til af því,a ð ég ann Flokki mínum og vill hreinsa hann af firru og hitasóttar óráði.

Sjáðu hvernig óvarkárir menn hafa farið fram í ýmsum málum.

Ekki hafa þeir einusinni haft fyrir því, að skoða og ígrunda vel, hvað í raun felst í svonefndu FJÓRFRELSI.

Fyrrum formaður okkar Davíð hefur sagt, að honum hafi ekki órað fyrir því, að menn hér yrðu svona heilagir í framkvæmd banna og tilskipana, heilagari en Páfinn.  Við la´, að OR yrði fyrir barðinu á þeim reglum og ljóst mun, að Íbúðalánasjóður fer jafnfljott og við förum þarna inn. (Tilskipanir opg áréttun þeirra frá 29. Sept s.l.)

ég ann heiðarlegri samkeppni,s em er þannig,a ð frelsi mitt verði EKKI helsi þitt, það að þú fáir að blósmstra er ekki endilega jafnt og þú fáir að breiða þig yfir allan svörðinn í kringum þig, .þannig ekkert fái þrifist né dafnað sme gæti ógnað YFIRRÁÐUM þínum.

Við sem erum af ,,gamla skólanum" í Floknum, erum afar trúir jafnrétti til að máta sig við MArkaðinn og frelsið EN hötum EINOKUN OG HÖFT hvort sem Höftin komi fra´Stjórnvöldum eða fyrirtækjum á MARKAÐI.

Semsagt, kíktu á grunnforsendur ESB í Markaðsvæðingu og svonefndu FJÓRFRELSI og hvað í því í raun fels.

Systir mín er ekkja fyrrum Utanríkisráðherra Portugala.  Hún segir að ef umræður fari af stað um aðild, verði ég að berjast sem Ljónin GEGN inngöngu Íslands og benti á ótal hluti því til áréttingar í ÞPortugölsku þjóðlífi og fyrirtækja ,,safni" hennar.

Mér er afar mikil alvara með þetta því ég veit og er ekki bara fullviss, heldur VEIT ég af reynslu, að Bretar taka það sem þeir vilja og setja svo reglur EFTIR að það er um garð gengið.  þetta hafa þeir ítrekað gert í samskiptum við minni máttar og því er allt annað en lokið.

SVo kvað einnig um aðra innan ESB

Með Flokkskveðju og Friðarins

MiðbæjarÍHALDIÐ

Bjarni Kjartansson, 2.12.2008 kl. 11:47

14 identicon

Guðbjörn.  Alltaf gaman að heyra í þeir, gamle ven.  Eigum við ekki að fara að hittast? - fá okkur kaffi eða lunch og ræða stjórnmál, efnahagsmál og ESB.

Ég er ekki að gagngrýna ykkur tollarana, þið eruð bara að vinna vinnuna ykkar.  Ég haf bara átt ágætis samskipti við þá. 

Hitt er annað mál að ég varpaði þessu fram til fá svör við því hvort að áherslur tollara við tollskoðun myndi ekki breytast við inngöngu í ESB.  Hvort að innganga í ESB myndi ekki þýða að ferðamenn mættu koma með meira magn af áfengi og varningi til landsins án þess að slíkt myndi þýða að viðkomandi ferðamaður væri að brjóta lög.  Þetta eitt yrði ágætis búbót fyrir fólk og ætti að stuðla að lægra vöruverði hér á landi.

Hitt er annað mál að ég efast um að keðjur eins og Aldi, Lidl og Carrefour myndu nenna að standa í því að setja á fót útibú hér á landi.  Við erum svo lítill markaður, auk þess að fjarlægðin hingað fyrir þá er mikil.  Að auki njótum við ekki þess að vera með landtengingu við meginland Evrópu eins og flest öll ESB-löndin, sem gerir að allir flutnigar, logístik og birgðahald til að þjóna Íslandi sem markaði er dýr og flókinn.  Í löndum ESB þar sem er bein landtengin milli landa, eru vöruflæði stöðugra og jafnara, sem gerir alla meðferð flutnings og birgðahalds mjög hagkvæma = lægra vöruverð.  Við njótum ekki þess lúxus að vera landtengd ESB.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 13:22

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Örn

Það er auðvitað rétt hjá þér með landtenginguna og skapar einhverja erfiðleika. En á móti má segja að landtengingin við Finnland er heldur engin og bílar þurfa annaðhvort að taka langa ferjusiglingu beint til Finnlands eða aka í gegnum Danmörku, taka ferju til Svíþjóðar og síðan ferju til Finnlands. Í Finnlandi eru þessar keðjur með verslanir. Það er ekkert má að henda einhverju í gám til Íslands þegar ekki þarf að tollafgreiða og hægt að skipa vörunni upp hér í höfn og beint í verslunina eins og um innanlandsmarkað væri að ræða. Með evruna að vopni er engin áhætta fólgin í þessum viðskiptum.

Auðvitað myndi vinna tollsins breytast gagnvart ESB löndum, en er óbreytt gagnvart löndum utan ESB. Við myndum leita jafnt og nú að fíkniefnum og öðrum ólöglegum innflutningi í varningi frá ESB eða sem kemur transit í gegnum ESB. Þetta er þó minni breyting en fólk heldur, því við erum hvort eð er aðallega að leita að fíkniefnum og svo auðvitað vöru sem er flutt inn á röngu viðskiptaverði eða of mikið í sendingum o.s.frv. Heimildir eru til að skoða varning - ef grunur leikur á um ólöglegt athæfi - er áfram fyrir hendi. Það er úrtaksleit á farþegum og frakt, sem dettur út hjá farþegum innan ESB.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 13:54

16 Smámynd: Þarfagreinir

Örn er með ágæta punkta - vissulega er það rétt að við á skerinu munum alltaf líða að einhverju leyti fyrir það að við erum ekki landtengd meginlandinu, og því er erfiðara og óhagkvæmraa að flytja vörur hingað en innan meginlands.

Örn minnist hins vegar líka á tollana í sama samhengi, og það er nokkuð sem mér hefur alltaf fundist kúnstugt. Tollarnir virðast miðast við að auðvelt sé að flytja vörur inn í landið, sem er auðvitað fjarstæða, miðað við ofansagt. Þetta er að því gefnu að markmiðið með tollunum sé að draga úr spurn eftir erlendum neysluvörum, en það hlýtur eiginlega að vera tilfellið. Ekki eru þeir til að vernda innlenda framleiðslu, því ekki er hér framleitt sérlega mikið af til að mynda bílum og iPodum.

Þetta er þó nokkuð út fyrir efnið. Ég er sammála Guðbirni í því að Sjálfstæðisflokkurinn líður meðal annars fyrir einaðra afstöðu sína gegn ESB-aðild, þó skýringarnar séu vafalaust fleiri.

Í allra versta falli finnst mér að leyfa ætti þjóðinni að kjósa um aðild, eftir að viðræður hafa leitt í ljós hvað slíkt myndi fela í sér. Allar helstu Evrópuþjóðir aðrar hafa kosið um aðild - því ættum við ekki að fá að gera það?

Þarfagreinir, 2.12.2008 kl. 14:04

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Tollar voru auðvitað upphaflega settir í tvennum tilgangi. Annarsvegar sem tekjulind og síðan til verndar eigin framleiðslu. Tollar eru í gildi áfram innan ESB en þó ekki milli aðildarríkjanna. Tollar gagnvart 3. ríkjum eru hins vegar í fullum gangi og á mun fleiri vörutegundum en hjá okkur. ESB er auðvitað tollabandalag og ekkert athugavert við það í sjálfu sér. Varðandi vörugjöldin, þá er það flóknara með þau, því þau leggjast bæði á innlenda og erlenda vöru og gera það að verkum að neysla á þeim varningi dregst hreinlega saman, hvort sem um innlenda eða erlenda framleiðslu er að ræða. Hærri gjöld á vöru leiða almennt til minni neyslu í þjóðfélaginu á þeim vöru, sem er skattlögð en einnig þeirri sem ekki er skattlögð.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 15:14

18 Smámynd: Júlíus Björnsson

Það glymur hæst í tómri tunnu.  Á það við um einstaklinga í öllum flokkum. Ættarveldin og klíkuveldin má grein í öllum flokkum.  Hjá öllum þjóðum. Flokkar eru fyrst og fremst sá þögli meirihluti sem veitir öðrum einstakilingum umboð sitt til að fara fyrir hönd flokksins.  Flokkurinn, þjóðin mun alltaf eiga síðasta fyrsta og síðasta orðið.  Uppgangur stóru þjóðana innan ESB er ekki fólkinu í þeim löndum að þakka, neí hann er ráðstjórnar beauro-kratinu að þakka.  Niðurjöfnunin í þeim stóru er ekki ráðstjórnar  beauro-kratinu að kenna, neí hún er fólkinu í þeim löndum að kenna.  Áhrif er ekki trygging um útkomu.  Litla þjóðir hafa lítil áhrif. Forréttindi fólksins hjá einni þjóð umfram jöfn réttindi hins fólksins er ekki á dagskrá hjá ESB beauro-kratinu hvers hópur er að sjálfsögðu jafnari en aðrir.

Frumkvæði um aðildarumræður verður að koma frá þeim sem telja sig hagnast mest á aðildinni.  Þetta er ekki spurning hvað ESB getur gert [skemmt] meira fyrir okkur þetta er spurning um hvað við getum gert fyrir þá. Stétt með stétt. Ekkert er nýtt undir sólunni. Nýjir forsvarar eru ekki nýr flokkur. Hlutirnir breytast ekki nauðsynlega þó þeim séu gefin ný nöfn. Auðlindir eru fé undirstaða alls vals og valds á öllum tímu sögunnar. Menningin mun alltaf kosta sitt. 

Júlíus Björnsson, 2.12.2008 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband