Fjörður skyldi milli frænda og vík á milli vina

Úrslit kosninganna eru ljós og Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað illa. Auðvitað eru nokkrar ástæður fyrir þessu hruni og að mínu mati eru þessar helstar:

1. Refsing fyrir klúðrið undanfarin ár (2002-2008 – sjá skýrslu endurreisnarnefndar á 100 síðum)
2. Óhóflegir styrkir til flokksins og eins frambjóðanda á undanförnum árum
3. Léleg frammistaða í allan vetur hjá fyrrverandi formanni flokksins og forsætisráðherra, samráðherrum hans og alls þingflokksins 
4. Tengsl nokkurra forystumanna flokksins við peningastofnanir í aðdraganda hrunsins og á eftir hrunið
5. Allt of lítil endurnýjun á framboðslistum flokksins, sérstaklega í Reykjavík
6. Klíkur innan flokksins sem stjórna honum beint og óbeint
7. Hagsmunagæsla fyrir LÍÚ
8. Landsfundur sem skilaði ekki af sér endurnýjun í stefnumálum flokksins
9. Afstaða flokksins til aðildar Íslands að ESB
10. Stefna flokksins í efnahagsmálum kom of seint fram á sjónarsviðið
11. Tillaga flokksins um að Ísland ætti að sækja um að taka upp evru með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ódýrt kosningabragð sem virkaði þveröfugt á kjósendur

STAATSOPERAð þessu öllu upptöldu má í raun undrun sæta hversu góð útkoman var. Sennilega má þakka þetta góða gengi Bjarna Benediktssyni. Bjarni var kraftmikill og trúverðugur og allir sem ég hef talað við – andstæðingar sem félagar mínir í flokknum – segja að hann virki heiðarlegur á fólk. Ég held hann virki ekki aðeins heiðarlegur, hann er heiðarlegur!

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn stæði sig vel á árunum 1991 - 2002 er það að sjálfsögðu löngu gleymt. Það er eðli stjórnmálanna að maður lifir ekki lengi á fornri frægð. Gamli söngkennarinn minn í Austur-Berlín sagði mér eitt sinn að óperusöngvari væri aðeins jafn góður og síðasta sýning hans var og þannig er það einnig í stjórnmálunum. Klikki einn hár tónn er maður undir pressu, klikki tveir getur maður leitað að nýrri vinnu og fiskisagan fréttist fljótt í óperuheiminum líkt og í stjórnmálunum!

Undanfarnar vikur og mánuði hef ég talað við mikinn fjölda sjálfstæðismanna, bæði á landsfundinum og þó ekki síður á ferðalagi mínu um suðurkjördæmi, allt frá Garði á Suðurnesjum til Hafnar í Hornafirði. Ég talaði við bændur, verkafólk, sjómenn, iðnaðarmenn, sýslumenn og framkvæmdastjóra iðnfyrirtækja og útgerðarfyrirtækja. Þetta er einhver mest gefandi og skemmtilegasti tími sem ég hef upplifað og ég kynntist yndislegu fólki allsstaðar í kjördæminu. Sú vinna og þeim fjármunum sem ég varði til þessa var vel varið.

SUDURLANDÁ ferðalagi mínu kynntist ég í fyrsta skipti almennilega sjálfstæðismönnum á landsbyggðinni. Það er skemmst frá því að segja, að mikill munur er á afstöðu sjálfstæðismanna á landsbyggðinni til margra megin málaflokka og þeirra sem búa í Reykjavík eða öðrum þéttbýliskjörnum. Þetta á ekki síst við um afstöðu varðandi ESB, landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Fólkið á mölinni áttar sig alls ekki á því að í raun byggjum við afkomu okkar að stóru leyti á sjávarútvegnum og fólkið sveitunum og í sjávarbyggðunum segir með réttu að góðærið hafi aldrei komið til þeirra, en nú eigi þau að borga brúsann, m.a. með hækkuðum skatti og niðurskurði í þjónustu. Þessu til viðbótar vill þjóðin á mölinni æða inn í ESB, sem eyðileggur að sögn bænda og útgerðarmanna fyrir landbúnaði og sjávarútvegi. Auðsjáanlegt er að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur ekki lengur sama fylgis í Reykjavík og áður og sömu sögu má segja um aðra þéttbýliskjarna, m.a. Reykjanesbæ. Hverjar eru ástæður þessa og hverjar eru ástæður þess að við Sjálfstæðismenn náðum ekki vopnum okkar aftur fyrir kosningar.

Ástæðan er að mínu mati einföld. Kjósendum í þéttbýli finnst Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur höfða jafnmikið til sín, hann hunsi að mestu hagsmuni borgarbúa og þeirra er búa í þéttbýli, en berjist þeim mun meira fyrir hagsmunum bænda og útgerðarmanna, flokkurinn sé að breytast úr frjálslyndum og víðsýnum hægri flokki með þjóðlegum karakter í þjóðlegan íhaldsflokk, einangrunarsinna og hagsmunagæsluaðila. Þetta sannaði síðasti landsfundur að mínu mati svo ekki var um villst og umræður um að færa eignarrétt þjóðarinnar á náttúruauðlindum í stjórnarskrá einnig. Sterkar raddir innan Sjálfstæðisflokksins vilja nú helst einangra sig frá umheiminum. Þær líkja Evrópu við Þriðja ríki Hitlers og segja Evrópubúa ekki hafa áhuga á öðru í viðræðum en að stela af okkur fiskinum og öðrum auðlindum okkar. Síðan byrja menn að líkja aðildarsamningi ESB við Gamla sáttmála og standa fastar á því en fótunum, að innan ESB myndu taka við fyrir okkur Íslendinga tímar fátæktar, arðráns og auðmýkingar. Já, við myndum þá upplifa aftur hörmungar líkar þeim sem voru örlög okkar undir Norðmönnum og Dönum. Aðrir segja að ESB sé að liðast í sundur og evran sé að líða undir lok og af þeim sökum taki því ekki að sækja um aðild.

EU FLAGGENMeð þessari einangrunarstefnu færist Sjálfstæðisflokkurinn ekki aðeins frá viðskiptalífinu, líkt og augljóst hefur verið á undanförnum mánuðum, heldur færist hann einnig frá mörgum frjálslyndum mönnum innan flokksins. Þessir frjálslyndu sjálfstæðismenn – ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýliskjörnum – eru sammála ASÍ, stærstum hluta Samtaka atvinnulífsins og fleiri samtökum, að okkur sé betur borgið innan ESB en með þeirri heimóttalegu, þjóðernis- og einangrunarstefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú fyrir.

Forystu Sjálfstæðisflokksins varð fyrst ljóst að ESB málin væru á dagskrá þegar Samfylkingin setti þeim stólinn fyrir dyrnar varðandi áframhaldandi stjórnarsamstarf. Það dugði ekki að Samtök iðnaðarins og ASÍ og stór hluti Sjálfstæðisflokksins væri sömu skoðunar og Samfylkingin. Kristján Þór Júlíusson og Árni Sigfússon voru sendir út af örkinni og bjuggu til eina stærstu nefnd, sem starfað hefur í nafni flokksins – Evrópunefndina. Starf nefndarinnar varð kraftmikið og árangursríkt og nefndin komst að frábærri málamiðlun í ESB málinu. Þegar þessi árangur varð ESB andstæðingum ljós fylgdu í fótspor Árna og Kristjáns, Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson – málpípur íhaldsaflanna í flokknum. Þeir Björn og Styrmir hertóku að nýju Evrópuumræðuna innan Sjálfstæðisflokksins. Með hræðslurökum og hindurvitnum tókst þeim að skapa ótta meðal flokksmanna á landsbyggðinni og vekja þannig upp gamlan Evrópudraug Davíðs Oddssonar. Að þessu loknu var vel passað upp á að ESB andstæðingar skiluðu sér vel á landsfundinn. Ekki leist mér á blikuna þegar á landsfundinn var komið og því fór sem fór. Sem betur gaf sig fram á sjónarsviðið fyrir skömmu víðsýnn Engeyingur, Benedikt Jóhannesson, og umræðan var hafin upp á annað plan.

Frjálslyndir hægri menn gera sér hins vegar grein fyrir að lykillinn að áframhaldandi uppbyggingu þess blandaða markaðshagkerfis, sem við Íslendingar erum svo stolt af, er að ganga í ESB. Leiðin úr núverandi ógöngum felst í öflugum iðnaði; ferðaþjónustu, fiskvinnslu og viðskiptum; ekki kotbúskap og trilluútgerð. Til þess að við getum fjárhagslega leyft okkur að styrkja íslenskan landbúnað í framtíðinni líkt og hingað til, sem allir sannir Íslendingar vilja gera, verða aðrar atvinnugreinar að standa sterkum fótum. Þessa staðreynd verða bændur að skilja! Alvöru atvinnustarfsemi innanlands og alvöru útflutningsgreinar, sem standa í samkeppni við erlenda aðila, þurfa á þeim stöðugleika og því vaxtastigi að halda, sem fylgir alvöru lögeyri. Er Sjálfstæðisflokkurinn að verða holdgervinur hinna gömlu gilda Framsóknarflokksins - afturhaldsins - á meðan Framsóknarflokkurinn er að verða hinn frjálslyndi markaðsflokkur landsins með þjóðlegu ívafi, sem er opinn gagnvart umheiminum og Evrópu? Öðruvísi mér áður brá!

Spá mín er að nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki að sætta þau ólíku sjónarmið, sem nú ríkja innan flokksins, verði til annar öflugur miðju eða hægri flokkur á Íslandi á næstu mánuðum. Slíkur flokkur hefði ekki aðeins ESB aðild á stefnuskrá, heldur einnig að hluta til önnur og frjálslyndari grundvallarsjónarmið en Sjálfstæðisflokkurinn hefur í dag. Við megum aldrei gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður upp úr tveimur flokkum, Frjálslynda flokknum og Íhaldsflokknum. Þeir tveir armar hafa alla tíð verið til innan flokksins. Það hefur stundum verið grunnt á því góða milli þeirra, sem hefur komið berlega í ljós í aðdraganda þessara kosninga og þeirra á undan. Það er mín skoðun að þolinmæði frjálslyndra sjálfstæðismanna sé að þverra.
mbl.is Ekki víst að langt sé í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Tímamótagrein hjá þér Guðbjörn.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 27.4.2009 kl. 22:28

2 identicon

Sæll frændi !

Mikið rétt hjá þér. Þú nefnir margar góðar ástæður fyrir að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkin og ég veit að þú átt auðvelt með að bæta mörgum ástæðum við.  Sjálfstæðisflokkurinn er ekki rétti flokkurinn fyrir þig frekar en mig. Um annað erum við í flestu sammála eins og ég hef oft sagt við þig. Við erum flokkslegir andstæðingar en ekki pólitískir.

Kveðja,

Skúli Einarsson

Skúli Einarsson (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 00:59

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll frændi!

Miðað við það pólitíska landslags, sem nú er á Íslandi er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn sem höfðar til mín.

Ég veit að í okkar ætt er mikið af vinstra fólki, þ.e.a.s. í móðurlegg, en vandamálið er að í mig vantar algjörlega þetta "jafnaðarmannagen". Ég trúi á frelsi einstaklinga og fyrirtækja til athafna, orðs og æðis. Ég trúi á markaðslausnir, nema að markaðsbrestir komi í veg fyrir að þær virki. Ég trúi á lága skatta. Ég trú því að ríkið eigi aðeins að taka þau verkefni að sér sem einstaklingar og fyrirtæki geta ekki eða vilja ekki sinna, m.ö.o. ég er er andsnúinn ríkisforsjá.

Ég á hvergi annarsstaðar heima en í Sjálfstæðisflokknum. Vandamálið er að það þarf að taka til í innviðum flokksins; í stofnunum hans, í stefnu hans og meðal þeirra er starfað hafa fyrir flokkinn.

Ég er ekki einn um þessa skoðun og takist Bjarna Benediktssyni ekki vel til í þessar tiltekt er ég ansi hræddur um að flokkurinn eigi eftir að taka nýja og enn meiri dýfu.

Þetta þarf að gera strax og af miklum krafti og því sem næst fyrir opnum tjöldum, enda er ekki hægt að fela slíkar breytingar þegar þær fara af stað. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.4.2009 kl. 06:59

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það ætti einmitt að vera orðið all rækilega ljóst að stærstur hluti sjálfstæðismanna vill ekki loka Ísland í áhrifaleysi inni í tollabandalaginu og verðandi stórríkinu Evrópusambandinu.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.4.2009 kl. 10:15

5 Smámynd: Offari

Ég kaus ekki sjálfstæðisflokkinn því mér fannst hann vera úrræða lítill og ekki vilja bjarga heimilum landsins. Evrópusambandsaðild finnst mér ekki eigi að vera í umræðuni núna og finnst það virkilega ósmekklegt af Samfylkinguni að notfæra sér Óstandið til þess að troða sínum gæluverkefnum inn á aðra flokka meðan önnur aðkallandi verkefni bíða.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að setja heimili landsins í meiri forgang til að vinna aftur atkvæði mitt og tryggja þarf að kosningarbaráttan verði ekki svo fjárfrek að hún geri stjórnmálaflokka of háða fjársterkum aðilum.

Offari, 28.4.2009 kl. 10:43

6 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Sæll Guðbjörn.

Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn - einmitt vegna afstöðu hans til ESB og stefnufestu í því máli, þar sem hann lét EKKI menn eins og Vilhjálm Egilsson og Þorstein Pálsson ráða för.

Og bara þér til upplýsingar þá þekki ég ekki einn einasta mann sem er Sjálfstæðismaður og studdi flokkinn, sem er hlynntur ESB aðild.   Búa þeir nú samt allir hér á höfuðborgarsvæðinu ??

Nei, flokkurinn tapaði fyrst og fremst vegna þess að hann hefur setið við stjórnvölinn í 18 ár og þ.a.l. hlaut að koma að því að fylgið hryndi, sérstaklega með tilliti til stöðunnar í efnahagsmálunum. 

Ekki vegna klúðurs Davíðs.  Þetta er bara bullskýring og ekki mark takandi á þeim ESB sinnum innan flokksins sem halda þessu fram.  Davíð er ekki eini maðurinn í Sjálfstæðisflokknum sem er á móti ESB !!

Sigurður Sigurðsson, 28.4.2009 kl. 11:10

7 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Ég tek undir það sjónarmið hjá þér að það sé pláss fyrir frjálslyndan flokk eins og gamla Sjálfstæðisflokkinn ef talíbanarnir ná undirtökum í honum og flæma fólk í burtu.

Að því hef ég vikið í skrifum á þessum vettvangi og ég þóttist sjá þess merki í málflutningi  hjá fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar. Þá á ég við ýmislegt sem fram kom í hinni frægu Borgarnesræðu hennar, þar sem menn máttu vel sjá hvernig hún bar víurnar í athafnamenn og atvinnurekendur. Að vísu voru það fyrirtæki sem áttu undir högg að sækja vegna málaferla forystumanna í skattsvikamálum. Hitt er alveg dagljóst að Ingibjörg Sólrún sóttist grimmt eftir því fylgi sem leiðandi öfl í Sjálfstæðiflokknum voru að hrekja á brott.

Núna hygg ég að þau sjónarmið víki um hríð, þegar alþýðuflokkskonan Jóhanna Sigurðardóttir tekur höndum saman við fyrrum urrandi róttæklinga (núverandi vinstrisinna) og myndar félagshyggjustjórn.

Á endanum er þetta kannski spurning um hvar Sjálfstæðisflokkurinn vill finna sér syllu í íslenskri pólitík: sem hagsmunavörður útgerðar og heildsala eða sem flokkur allra landsmanna, sem hlynntir eru markaðsbúskap og athafnafrelsi einstaklinga. Slíkt fólk er að finna mjög víða, og það eru ekki endilega stóreignamenn.

Flosi Kristjánsson, 28.4.2009 kl. 13:23

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

SISI:

Það má vel vera að þú þekkir enga sjálfstæðismenn sem vilja ESB aðildarviðræður, en ég þekki heilan helling af þeim. Reyndar eru þeir vandfundnir á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, en hér í Reykjanesbæ er sægur af þeim.

Það má líka vera að þau 30% sem flogin eru frá flokknum séu einmitt ESB aðildarviðræðusinnar. Þeir örfáu sem eru á minni skoðun hafa sig hæga, enda eiga þeir ekki sjö dagana sæla innan flokksins, svo sem sjá má af kommentinu frá Hirti, og tóninum í svarinu frá þér og Offara. 

Flosi:

Þú ert að lesa mig hárrétt og hugsanlega vill Sjálfstæðisflokkurinn vera á þeirri syllu sem hann nú er á?

Ég tel vera til heilan helling hægri krata úr Samfylkingunni og frjálslyndra og miðjumanna innan Sjálfstæðisflokksins, sem gætu fundið sig í slíkum flokki. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.4.2009 kl. 17:01

9 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Takk fyrir það Guðbjörn,

Vil þó bara minna þig á síðustu orð Olli Rhein - "engin undanþága frá sjávarútvegsstefnu ESB fyrir Íslendinga "

Er nú ekki kominn tími til að hætta þessu þvargi um ESB og snúa sér að því verkefni sem stendur okkur nær:  að leysa vandræði fjölskyldnanna í landinu sem allflest eru að lenda í gríðarlegum vandræðum ???  Er það ekki brýnna verkefni heldur en þessi þvæla um ESB ??

Sigurður Sigurðsson, 28.4.2009 kl. 17:45

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

SISI:

Nei, ég tel það eitt brýnasta verkefnið, sem við stöndum frammi fyrir í dag, að fara í viðræður við ESB og leiða það máli til lykta í eitt skipti fyrir öll með þjóðaratkvæðagreiðslu. Fari mál svo að aðild verði ekki samþykkt, verðum við að kanna, hvort ekki sé skynsamlegt að taka upp evru einhliða, því ég sé enga aðra lausn á okkar peningamálum. Krónan er dauð og rís ekki aftur upp frá dauðum. Aðeins Dalai Lama endurfæðist á þennan hátt.

Við megum ekki gleyma að við það eitt að hefja ESB aðildarviðræður sendum við ákveðin skilaboð út í heim og lánadrottnar róast aðeins. Ákveðum við að ganga inn er ég viss um að ESB reynir á einhvern hátt að hjálpa okkur, t.d. varðandi stuðning við krónuna eða einhverskonar neyðarupptöku evru. Mér finnst einsýnt að slík aðgerð fari fram í sumum ríkjum Austur-Evrópu á næstu mánuðum eða misserum. Ég býð ekki í það þegar við þurfum að fara að endursemja um erlend lán okkar, t.d. lán Landsvirkjunar, á þeim vöxtum sem okkur nú bjóðast, þjóð rúin öllu trausti og vinalaus með öllu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.4.2009 kl. 06:44

11 identicon

Bölvað bull er þetta, þessi flokkur er , eins og þú telur upp sjálfur Guðbjörn, gjörsamlega búinn að klúðra sjálfum sér, þú ert alla vega ekki á sömu línu og Talíbanarnir, sem hafa gengið frá flokknum , svo að segja dauðum og ættir að segja þig  úr flokknum. Eitt er víst, að þeir sem þar ráða, ætla sér að halda völdum. Ýmislegt á svo líka eftir að koma í ljós, við rannsóknir á hruninu, sem verður örugglega ekki jákvætt fyrir flokkinn. Fylgi flokksins á enn eftir að minnka og sennilega springur flokkurinn í frumeindir! Færðu þig í annan flokk hið snarasta !

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 13:19

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðjón:

Lítum nú á flóruna sem er til boða:

Samfylkingin - Í grunninn félagshyggjuflokkur, en hneigist þó frjálslyndis í afstöðu sinni til allrar atvinnustarfsemi. Er hlynntur ESB.

Kostir: Er hlynntur ESB og með ágætis afstöðu til atvinnulífsins í landinu. Að stærstum hluta engir rugludallar.

Gallar: Er hentistefnu flokkur, sem fylgir í raun engri stefnu í sumum málum, heldur skoðanakönnunum. Er félagshyggju- og skattahækkunarflokkur, sem vill stefna á "félagslegt" hengirúm fyrir alla sem á því þurfa að halda og það sem verra er einnig fyrir þá sem ekki nenna að vinna og þurfa ekki á því að halda. Lítill hluti gamalla Allaballa og Kvennalistakvenna hefur ótrúlega mikið að segja innan flokksins og Kratarnir í raun alveg í vandræðum með þá, sbr. síðustu stjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn - sjá umfjöllun hér að ofan

Vinstri græn - Er mikill félagshyggjuflokkur, sem hefur umhverfis- og jafnréttismál í fyrirrúmi.

Gallar: Er flokkur sem stundum hneigist til kvenrembu og öfgastefnu í umhvergismálum, er látlaust á móti öllu, stór hluti flokksins vill ganga mjög langt til vinstri og til algjörrar launajöfnunar (sósíalisma eða kommúnisma). Mikill flokkur ríkisútgjalda- og skattahækkana.

Kostir: Tóku ekki þátt í sukkinu og svínaríinu í kringum útrásarárin og vöruðu við ýmsu í aðdraganda þess, s.s. klúðrinu í ríkisbúskapnum, stefnu Seðlabankans o.s.frv. (Vöruðu reyndar , t.d. að stíflan við Kárahnjúka myndi bresta. Er hún farin eitthvað?) Eru sjálfir sér samkvæmir og að mörgu leyti traustir allavega á meðan Steingrímur J. hefur stjórn á þeim. Hræddur um að hver höndin verði upp á móti annarri ef ekki tekur sterkur leiðtogi við af honum.

Framsóknarflokkurinn - Fór á heimasíðuna og þar stendur í einu orðinu að flokkurinn sé félagshyggjuflokkur og í hinu að hann sé frjálslyndur markaðshyggjuflokkur. Hvað hann er í raun fer eftir því með hverjum þeir eru í ríkisstjórn.

Kostir: Eru mjög sveigjanlegir í samstarfi, raunsær flokkur varðandi stóriðju og atvinnulífið, engir rugludallar og draumóramenn og hafa aldrei verið. Eru hlynntir ESB aðildarviðræðum með ströngum skilyrðum. Komu með einhverjar hugmyndir um hvernig taka ætti á efnahagsvandanum.

Gallar:  Hefur alltaf verið ótrúlega spilltur hentistefnuflokkur og ótrúlegur hagsmunagæsluflokkur, klíkuskapurinn og fyrirgreiðslan í fyrirrúmi. Koma sínum mönnum allsstaðar að. Miklir peningamenn alltaf í raun ráðið ferðinni (fyrr á tímum SÍS) nú nokkuð stór klíka stóreignamanna, sem tóku fullan þátt í útrásinni. Sennilega sömu menn við völd þrátt fyrir að þeir segist vera búnir að moka flórinn.

Borgaraflokkurinn -  ?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 1.5.2009 kl. 12:40

13 identicon

Veit ekki Guðbjörn með Borgaraflokkinn, verður þú ekki bara að stofna enn einn flokkinn?" The Liberal Democrats til dæmis"? Kannski gott mál, verður þá bara eitt brotið við  sundrungu Sjálfstæðisflokksins, sem er sennilega ekki langt í!

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 21:47

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðjón:

Þetta er hárrétt hjá þér að manni finnst maður lítið eiga heima með þessum heimastjórnarmönnum, þjóðernissinnum og öfga frjálshyggjuöflum.

Ég skil ekki þetta með enn eitt öfgabrotið? Ef þú átt við Frjálslynda flokkinn, þá var hann aldrei fugl né fiskur af því að hann var stofnaður í kringum eitt mál.

Það er heldur fátæklegt að stofna flokk í kringum eitt mál, t.d. ESB aðild. Þetta er eitthvað sem þarf að skoðast í víðara samhengi. Líkt og ég hef margoft lýst yfir sýnist mér að engar forsendur séu lengur fyrir því að ég eigi heima áfram í sama flokki og Gunnar Rögnvaldsson, Hjörtur J. Guðmundsson, Hallur Hallsson, Loftur Altice Þorsteinsson og Jón Kristinn Snæhólm svo einhverjir séu nefndir.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.5.2009 kl. 09:31

15 identicon

Sæll Guðbjörn

Það er engin vandi að vera séður eftirá eins og máltækið segir.  Ég man ekki eftir að skoðanir þínar á flokknum og störfum hans hafi komið svona skírt fram í prófkjörsbaráttunni.  Í kosningabaráttunni varst þú upptekinn við að verja kvótakerfið og berjast á móti fyrningaleið Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna  og rökstuddir það með því að benda á bæjarútgerðir sveitarfélaga sem á árum áður var tómur taprekstur og baggi fyrir íbúa sveitarfélagana.  Það er ljóst að í ljósi kosningaúrslita verðum við sjálfstæðismenn verðum að taka höndum saman verja flokkin okkar. Við skulum ekki gleyma því að undir forustu Sjálfstæðisflokksins var Ísland orðið eitt besta velferðar samfélag í heimi sem klúðrað var tímabundið fyrir okkur landsmönnum með takmarkalausri græðgi útrásarvíkinga. Guðbjörn það er greinilega mikill viðsnúningur hjá þér og einhverjar fjaðrir farnar að myndast.

Kveðja Sigmar     

Sigmar (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 09:46

16 Smámynd: Baldur Hermannsson

Síðasta klausan er stórfurðuleg. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki eiginkona þín. Ef þú hefur ekki þroska og umburðarlyndi til að sætta þig við þá staðreynd að í stjórnmálaflokki verða ævinlega margir menn með öðru vísi skoðanir en þú, þá ættirðu að vera utan flokka. Það er heldur alls ekki aumt hlutskipti að standa utan flokka - margir góðir drengir hafa valið þann kost og farnast vel.

Baldur Hermannsson, 2.5.2009 kl. 14:02

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Baldur:

Ég er ekki þannig maður að ég sé "óflokksbundinn" mjög lengi!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.5.2009 kl. 23:06

18 identicon

Guðbjörn, margur góður drengurinn og konur, hafa yfirgefið flokkinn þinn upp á síðkastið og munu ekki snúa aftur, hneyksli öfganýfrjálshyggjunar var og er of mikið. Held að við séum alla vega sammála um það og örugglega margt annað! Rannsóknir á þessu hneyksli eru hafnar og niðurstöðurnar, leyfi ég mér að segja, verða banahögg flokksins, ef þeir sem ábyrgð báru í ríkisstjórn og á öðrum stöðum, sína ekki þann manndóm , að játa á sig mistök og ábyrgð á því sem skeði. Ég er smeykur um, að sumir hafi jafnvel brotið lög og geti því verið dæmdir sem sakamenn. Um að gera að yfirgefa þetta sökkvandi fley! 

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband