Aðildarviðræður strax - evru sem fyrst


Íslenska peningamálastefnan


sedlabankastjorarnir.jpgÞað var í byrjun árs 2001 að ný lög voru sett um Seðlabanka Íslands og hvernig gengi krónunnar skyldi skráð. Ákveðið var að gengið yrði fljótandi og markmið Seðlabankans gengju fyrst og fremst út á að verðstöðugleiki væri tryggður. Í þessu felst í rauninni að vaxtahækkanir eða –lækkanir gengju frekar út á stýra gengi krónunnar en að stýra útlánum bankanna líkt og áður.

Landsins forni fjandi

Undanfarin ár hefur Seðlabanki Íslands háð mikla orrustu við landsins forna fjanda, verðbólguna. Þessa verðbólu má að stóru leyti rekja til alþjóðlegrar „útlánabólu”, sem byrjaði árið 2004. Þessi útlánabóla olli mikilli hækkun á hlutabréfum og húsnæði og það um allan heim. Segja má að allur heimurinn hafi alla tíð síðan verið á eyðslu- og fjárfestingarfylleríi. Græðgin tók völdin hjá bönkunum og fjárfestum, sem högnuðust mikið á fylleríinu og þá ekki síður hjá fjárfestum, hvort sem um einstaklinga, eftirlaunasjóði eða fyrirtæki var að ræða. 

Timburmennirnir

hafdiskolbeinsey.jpgTimburmennirnir voru slæmir. Verð hlutabréfa hrundi og verð á húsnæði mun líklega standa í stað eða lækka eitthvað, bæði hér á landi og annarsstaðar. Allskyns eftiráskýringar hafa komið á hlutunum og S.Í. verið gagnrýndur fyrir að hækkað ekki stýrivexti strax árið 2004. Eins hefði ríkisstjórnin getað dregið úr þenslu með minni framkvæmdum og með því að stíga á bremsuna varðandi vöxt velferðar- og menntakerfisins. Hægt hefði verið krefjast þess að bankarnir hægðu á útlánum og jafnvel að koma á bindiskyldu peningamagns. Þá hefði verið hægt að reyna að láta krónuna falla til draga aðeins úr viðskiptahallanum. Ekkert af þessu var gert og það var af því að enginn sá ástæðu til þess.

Stöðugleiki fyrir fyrirtæki og heimili

Það er oft gaman að kíkja á gömul gögn, sem maður sankaði að sér í „góðærinu”, og skoða þau nú í „hallærinu”. Í ársskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2005, sem bar nafnið: Fyrirkomulag gengismála á Íslandi – Horft til framtíðar, var farið ítarlega í peningamálastefnu Íslendinga og hvort horfið skyldi frá núverandi stefnu um fljótandi gengi. Ég man að ég las þessa skýrslu með hangandi hendi, enda hafði maður lítinn áhuga á breytingum í miðju góðærinu árið 2006. Fyrir tilviljun fann ég síðan í kvöld á netinu glærur sem Tryggvi Þór Herbertsson sýndi á morgunfundi FÍS 6. apríl 2006, þar mun hann hafa kynnt fyrrgreinda skýrslu þeirra Gylfa. Í skýrslunni var líkt og á undanförnum mánuðum verið velta upp nokkrum kostum til lausnar á peningamálum okkar: óbreytt ástandi (fljótandi gengi), myntráð, einhliða fastgengi (líkt og hér tíðkaðist fyrir 2001), einhliða upptaka evru, binda gengið fast við aðra mynt og að lokum myntbandalag, t.d. með því að ganga í ESB og taka upp evru. Flestir sem um málið hafa fjallað af einhverju viti eru sammála um að einungis séu tveir raunhæfir kostir í stöðunni: a) núverandi peningastefna, þ.e.a.s. sjálfstæð peningamálastefna og fljótandi gengi og b) að ganga í ESB og taka upp myntsamstarf með evrunni. Í fyrrgreindri skýrslu varð niðurstaðan sú að styðjast ætti áfram við núverandi fyrirkomulag, þ.e. fljótandi gengi.

Er krónan vandamálið eða lausnin?

kronur2.jpgMenn deila nú sem aldrei áður um svörin við tveimur þeirra mikilvægu spurninga, sem Tryggvi Þór Herbertsson og Gylfi Magnússon spurðu sig í fyrrgreindri skýrslu. Önnur spurningin er hvort sjálfstæð peningastefna sé ekki einmitt lausnin við áfalli líku og við urðum fyrir í október 2008. Ljóst er að mánuðum saman hefur viðskiptajöfnuður okkar verið hagstæður og það hjálpar okkur mjög hratt og örugglega varðandi aðlögum hagkerfisins að nýju jafnvægi. Einnig er ljóst að útflutningsgreinarnar standa sterkari nú þegar tekjur þeirra í krónum hafa aukist, þrátt fyrir að dýrari aðföng og hærri erlend lán geri þeim erfitt fyrir. Hin spurningin er hvort sjálfstæð peningamálastefna sé ekki í raun – að hluta til a.m.k. - uppspretta þess mikla vanda sem við stríðum við?.

Breyttar forsendur – breytt stefna

Öll framþróun á sér þannig stað, að maður að endurskoðar gamlar niðurstöður út frá nýjum forsendum og kemst að nýrri niðurstöðu. Ég er einmitt þeirrar skoðunar að nýjar forsendur sýni okkur berlega að krónan sé vandamálið, að betra sé að kasta krónunni og hefja aðildarviðræður við ESB sem fyrst og taka síðan upp evru við fyrsta mögulega tækifæri. Ekki eru mér allir sammála og sumir vilja halda áfram að lemja hausnum við steininn og láta sem allt sé í besta lagi, að við getum haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við getum ekkert gert frekar en aðrar smáþjóðir varðandi heimskreppuna, en peningamálastefnuna höfum við í eigin hendi.

Alexander mikli hjó á Gordons hnútinn

alexander.jpgÞað voru m.a. helstu rökin fyrir því að hverfa frá fastgengisstefnu og yfir til fljótandi gengis að þau lönd sem lentu í fjármálakreppum á undanförnum áratugum hefðu öll fylgt fastgengisstefnu og verið með sjálfstæðan gjaldmiðil. Þessi kenning hefur nú verið afsönnuð hér á Íslandi með hörmulegum afleiðingum. Vegna hás vaxtastigs hér á landi freistuðust heimili landsins og fyrirtæki til að skuldsetja sig í erlendum gjaldmiðlum og fjárfestu með þessum peningum í eignum hér á landi, aðallega fasteignum og bifreiðum. Skyndileg gengislækkun varð til þess að skuldir tvöfölduðust, en verðgildi eignanna hélst óbreytt eða fer lækkandi. Þessu til viðbótar hefur geisað hér á landi óðaverðbólga til lengri tíma, þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi sett sér markmið varðandi verðstöðugleika og gengi krónunnar. Þessi hluti núverandi peningamálastefnu hefur því heldur ekki sannað sig.

Hvernig er ástandið á Evrusvæðinu?

Auðvitað er ástandið innan ESB grafalvarlegt líkt og annarsstaðar í heiminum. Undanfarnir mánuði hafa þó sýnt okkur fram á að fjármálalegur stöðugleiki hefur verið meiri á evrusvæðinu en utan þess. Nægir að minna á ástandið hjá hjá okkur Íslendingum og í austurhluta Evrópu þessu til staðfestingar. Þessar þjóðir eru ekki aðeins að glíma við kreppuna, heldur einnig handónýta peningamálastefnu, sem birtist m.a. í óðaverðbólgu og gengishruni. Skuldabyrði heimila og fyrirtækja hefur aukist vegna gengishruns í öllum þessum löndum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir skuldunauta og lánadrottna. Þetta gengur í raun þvert á spár Tryggva og Gylfa í skýrslunni frá 2005, sem höfðu meiri trú á flotgengisstefnunni en evrunni við erfiðar aðstæður.

Peningamálastefnan gjaldþrota?

Flotgengisstefnan, sú stefna að halda beri gengi krónunnar stöðugu og koma þannig í veg fyrir verðbólgu, gekk auðsjáanlega ekki upp. Sú stefna að hafa ákveðið verðbólgumarkmið, sem ylli því að gengið breyttist sífellt gekk ekki heldur upp. Þeir fræðimenn (Tryggvi Þór og Gylfi) sem héldu því fram að hættan á verðbólgu og háu raungengi væri meiri í myntbandalagi í myntbandalagi verða að skýra mál sitt. Flotgengisstefnan varð að mínu mati að vítahring, sem erfitt reyndist að rjúfa: raungengið var árum saman allt of hátt, viðskiptajöfnuður þar af leiðandi óhagstæður; vextir allt of háir, sem leiddu til innflutnings á fjármagni; Íslendingar skuldsettu sig í ódýrum erlendum lánum og allt olli þetta gífurlegri þenslu, sem leiddi til mikilla tekna ríkissjóðs, sem bruðlaði enn meira og virkaði það sem olía á eldinn; að ógleymdri verðtryggingunni og vandamálum henni tengd. Líkt og ég áður sagði eru flestir hagfræðingar þeirrar skoðunar að um tvo kosti sé að ræða: flotgengisstefna Seðlabanka Íslands eða ESB aðild. Þar sem flotgengisstefna er að flestra mati mati í raun gjaldþrota er aðeins ESB aðild eftir. Stundum eru hlutirnir nefnilega mjög einfaldir.

Allir nema hrapparnir græða á evrunni

Viðskipti á evrusvæðinu eru í dag gegnsærri en þau áður voru og verðsamanburður á milli landa auðveldari. Samkeppni innanlands myndi aukast þegar til lengri tíma er litið, sem kæmi neytendum og fyrirtækjum til góða. Ekki er að efa að erlend fyrirtæki myndu renna hýru auga til Íslands þegar við værum komin með evruna, hvort heldur þau myndu brjótast til áhrifa á markaði hér eða kaupa sig inn á markaðinn. Þetta myndi gilda um banka- og tryggingastarfsemi jafnt og matvörumarkað. Sumir hafa bent á að Íslendingar muni loksins njóta kosta stærðarhagkvæmni, þar sem þeir eru orðnir hluti af stærri markaði. Að mati flestra útflytjenda yrði stöðugt gengi til þess að styðja við útflutningsgreinarnar.

Aukin alþjóðaviðskipti

Fáar en nokkur þjóð í heiminum hagnast líklega meira á alþjóðaviðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn og við Íslendingar. Það var fyrst með viðskiptum við útlönd að lífskjör okkar bötnuðu til muna. Árum saman höfum hlustaða á stór fyrirtæki á borð við Össur, Marel og CCP kvarta unda gengisflökti, sem eykur áhættu og kostnað í viðskiptum við útlönd. Leiða má líkur að því að sveiflur yrðu einnig minni í innflutningi en hingað til. Það muna flestir eftir því þegar dollarinn fór niður í 60 kr. og öll skip og jafnvel flugvélar voru fullar af bandarískum pallbílum. Til þessa hafa sumir fræðimenn talið að gengisflökt hafi ekki haft marktæk áhrif á útflutning og vísa þá jafna til fábreytni í útflutningi. Þetta er að mínu mati alrangt og minni ég t.d. á að mörg íslensk fyrirtæki hafa ekki treyst sér til að byggja sín fyrirtæki upp hér á landi vegna óstöðugs gengis. 

Money makes the world go around

imagesmoney-makes-the-world-go-around-small.jpgStaðreynd er – líkt og Tryggvi Þór og Gylfi bentu á – að evran hefur haft jákvæð áhrif á flæði fjármagns milli evrulandanna, m.a. vegna lægri viðskiptakostnaðar og samþættingar markaða. 

Í fyrrgreindum glærum Tryggvi Þórs Herbertsson bendir hann á kosti fljótandi gengis:

 

„... í sumum tilvikum ákveðið merki um styrka peningastjórn og geti ýtt undir óbeina erlenda fjárfestingu. Merki um þetta hafa sést undanfarið á Íslandi með skuldabréfaútgáfu erlendra aðila í krónum (Carry Trade) [innskot höfundar: jöklabréf]. Fjármögnun viðskiptahalla er alla jafna auðveld til skamms tíma litið en vandamál geta skapast ef fjármagnsflæði bregst eða minnkar verulega.


Í framhaldi af þessum orðum þeirra Gylfa og Tryggva bentu þeir á að ríki með sveigjanlegt gengi ættu auðveldara með að takast á við slíkar aðstæður en þjóðir sem fylgja fastgengisstefnu. Dæmi nú hver fyrir sig.

Áfram bendir Tryggvi Þór á að:

...innganga í myntbandalag með aðgengi að stærri og dýpri fjármálamarkaði en áður gæti hugsanlega skilað sér í aukinni erlendri fjárfestingu á Íslandi. Niðurstaðan er því sú að sennilega myndi aðild að myntbandalagi leiða til aukinna alþjóðaviðskipta og erlendrar fjárfestingar hérlendis.


Ósveigjanlegur vinnumarkaður

Gylfi og Tryggvi Þór bentu í skýrslu sinni á að margt benti til að laun séu ekki mjög sveigjanleg hér á landi því myndi minnkandi eftirspurn eftir vöru og þjónustu – líkt og er að gerast núna – frekar leiða til uppsagna starfsfólks en launalækkana ef við værum með fastgengisstefnu (evru) en fljótandi gengi. Ég leyfi mér að benda á að laun hafa verið lækkuð að undanförnu auk þess sem laun fólks hafa lækkað mikið vegna óðaverðbólgunnar undanfarið ár. Atvinnuleysi er að verða svipað hér á landi og í Evrópu. Rök Tryggva og Gylfa um að íslenskur vinnumarkaður sé ekki nægilega sveigjanlegur og því óráðlegt fyrir Ísland að afsala sér stjórn peningamála standast að mínu mati ekki sé miðað við þessar nýju forsendur.


Hagstjórn

Tryggvi og Gylfi benda á að með upptöku evru færðist ábyrgðin af hagstjórninni frá seðlabanka yfir á stjórnendur ríkisfjármála. Þeir benda á að séu seinvirkt stýritæki. Þeir efast jafnframt um að hagstjórnin geti byggst á fjármálastefnunni einni saman innan myntbandalags, þar sem uppgangur og niðursveiflur séu mismunandi innan evrusvæðisins auk þess sem þeir efuðust um „sveiflujafnandi áhrif” sameiginlegrar peningamálastefnu vegna ólíks miðlunarferlis peningamálastefnunnar. Einnig er bent á að ríkisvaldið gæti „lagt stjórnendum peningamála öflugt lið ef gjaldmiðill væri sjálfstæður og fylgt væri flotgengisstefnu.”

Niðurstaða

Ég geri ráð fyrir að þeir félagar, Tryggvi og Gylfi, hafi á sínum tíma komist að niðurstöðu sinni með vísindalegri nákvæmni, borið saman kosti og galla, sem leiddi síðan í ljós að núverandi stefna væri affarasælust fyrir okkur Íslendinga.

Ekki er ég hagfræðingur að mennt, en jafnvel aumum stjórnsýslufræðingi, óperusöngvara og tollverði er ljóst að forsendur hafa mikið breyst á 3-4 árum og sé litið til þessara sömu kosta og galla núna, 3. maí 2009, er ljóst að flestir plúsarnir eru ESB megin en færri „fljótandi gengis” megin.


mbl.is Ný ríkisstjórn um næstu helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Guðbjörn,

Krónan er nú samt það tæki sem okkur stendur til boða næstu árin. Innganga í ESB tekur 2-3 ár í besta falli og aðgangur að evru 3-7 ár í fyrsta lagi. 

Það getur varla munað mikið um eitt ár til eða frá í þessum árum öllum.

En okkur munar núna um hvern einasta DAG sem ríkisstjórnin getur einbeitt sér að því að greiða úr brýnustu úrlausnarefnum.

Þetta tal um "ESB og Evru STRAX" þarf að víkja fyrir brýnni málum.

Frosti Sigurjónsson, 4.5.2009 kl. 18:59

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Það væru mjög mikilvæg sendiboð að senda út í heim að við hefðum sótt um aðild að ESB og af þessum sökum tel ég að um mikilvægt mál sé að ræða.

Hitt er annað mál að þú hefur á réttu að standa ríkisstjórnin þarf að byrja sem fyrst að hjálpa fyrirtækjunum og heimilunum í landinu. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 4.5.2009 kl. 19:28

3 Smámynd: Sævar Helgason

Góð grein hjá þér, Guðbjörn-takk fyrir

Sævar Helgason, 4.5.2009 kl. 19:58

4 Smámynd: Jens Ruminy

Takk fyrir góða grein.
Mér hefur alltaf blöskrað að heyra jafnvel hagfræðiprófessora (eins og þá tvo sem þú nefndir) að tala um ágæti flotgengisstefnunnar. Það hljómaði eins og beint upp úr kennslubók frá góðum háskóla í Bandaríkjunum þar sem þeir hafa verið í námi.

En Bandaríkin eru mjög stórt hagkerfi (stærsta) þar sem fastagengisstefna gangvart helstu viðskiptavina (ESB, Kína, Japan) væri skaðleg. Ísland hins vegar er bara svo agnarsmátt, og við höfum einmitt séð hvernig alþjóða bankar og aðliar í viðskiptaheimi getaa leikið sér meðfjármagn á borð við þjóðhagsreikning heillar smáþjóðar. Þannig að rök fyrir einmitt fastagengisstefnu liggja í smærð hagkerfis Íslands.

Loks fann ég dæmi til að lýsa það sem virðist vera andstæður: að sækja strax um aðild að ESB eða leysa vandamæalin fyrst heima fyrir. Umsókn er nefnilega ekki tómstundaverkefni, það er eins og t.d. að byggja hús: kona mun væntanlega ekki sjá ástæðu til að hjálpa manni við þetta framtíðarverkefni nema að maðurinn lýsi yfir að hann ætli að giftast henni. Yfirlýsingin skiptir máli þó það þurfi ekki senda út brúðkaupsveisluboð strax, og sameiginleg uppbygging gengur strax auðveldara.

Jens Ruminy, 4.5.2009 kl. 20:30

5 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Guðbjörn!

Þetta er virkilega góð grein hjá þér!  Mjög þroskuð.  En þú kannt að þurfa að halda uppi vörnum innan þíns félagahóps.  Ég trúi því að þú fylgir þinni sannfæringu fast eftir.

Gengi gjaldmiðils okkar er vissulega einkunnagjöf fyrir hegðun okkar, líkt og Ástþór sjálfur Magnússon benti á.  En sagan sýnir okkur glöggt að okkur er einmitt ekki treystandi!  Almenningur hér á Íslandi geldur dýru verði hina taumlausu frjálshyggju sem skóp eignir og peninga í sýndarveruleika sínum.  Bókhöldin sýndu aldrei veruleikann sjálfan heldur mun meira magn auðs en raunverulegur var.  Þetta var ígildi þess að hér væri meiri peningur í umferð en raunin var.  Meira peningamagn þýðir verðbólga.  Meiri verðbólga kallar á hærri stýrivexti.  Hvað hefur allt þetta brölt kostað hinn venjulega, vinnandi Íslending sem situr sorgmæddur í rústunum?

Ég tekk hatt minn ofan fyrir þér í þetta sinn Guðbjörn!  Fara þarf strax í viðræður við ESB, ekki er eftir neinu að bíða enda tekur samningaferlið sinn tíma.  Svo skulum við sjá hvað kemur út úr því en stöðugleiki er mjög dýrmætur bæði fyrir einstaklinga og þjóðarbúið í heild sinni.

Ef sjálfstæðisflokknum tekst að vinda ofan af sérhagsmunagæslunni og Flokkshollustunni og stefna raunverulega á þau stefnumið sem sett voru árið 1929, þá væri jafnvel ég (sem þú kallaðir kommúnista einhverntímann!) tilbúinn að styðja hann!

Eiríkur Sjóberg, 4.5.2009 kl. 23:09

6 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Guðbjörn,

Við getum ekki reitt okkur á að "Mikilvæg sendiboð út í heim" skili árangri. Ástæðan er að það er ekki hægt að reiða sig á að Ísland gangi í ESB né fái Evru í bráð þótt stjórnvöld fari í viðræður.

Noregur gekk tvisvar til viðræðna en samningurinn var felldur í bæði skiptin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Heimurinn getur séð af könnunum að Íslendingar eru flestir á móti inngöngu í ESB eins og staðan er, og fylgi við þá leið fer nú minnkandi, þótt margir telji ekki saka að kanna hvað sé í boði.

Það er ekki hægt að senda nein marktæk skilaboð út í heim með umsókn í ESB. Það er allt of mikil óvissa um útkomuna.

Við getum hins vegar byrjað að taka á okkar málum. Það eru þau skilaboð sem heimurinn mun taka mark á.

Frosti Sigurjónsson, 5.5.2009 kl. 00:45

7 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Samningaviðræður við ESB hafa a.m.k. tvennan mikilvægan kost:

1)  að fá úr því skorið hvað hugsanleg aðild þýðir fyrir Ísland, hvað við fáum út úr samingum við ESB.

2)  að gefa alþjóðasamfélaginu til kynna að þjóðarskútan hafi tekið stefnu, og sé því ekki áfram stefnulaust rekald.  Okkur skortir mjög dýrmætan trúverðugleika!

Þetta yrði aðeins fyrsta skrefið í átt til hugsanlegrar aðildar.  Samningaviðræður eru alls ekki það sama og að þjóðin sé búin að taka afstöðu til málsins, síður en svo, en mikilvægt skref til þess þó, með eða á móti.  En sendir samt mikilvæg skilaboð til umheimsins.

Ég óttast meira þær raddir sem vilja halda í gamlan tíma og sömu stefnu og keyrt hefur okkur á fullri ferð í vondan skerjagarð.

Við þurfum þor, áræðni, myndugleika, skynsemi og heiðarleika til að byggja hér upp nýtt samfélag!

Að afneita hugsanlegri ESB aðild fyrirfram er afleit afstaða í afar þýðingarmiklu máli.

Eiríkur Sjóberg, 5.5.2009 kl. 01:09

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Eiríkur:

Hefði ekki getað svarað Frosta betur sjálfur - takk fyrir að taka af mér ómakið!

Ég ráðlegg öllum að kynna sér vel það sem sagt var til að selja okkur Íslendingum þessa flotgengisstefnu, sem er þó að mínu mati eini valkosturinn í landi með sjálfstæðan lögeyri í frjálsu markaðshagkerfi - sem við vonandi viljum halda áfram að vera?

Jens:

Kjarninn í minni grein er í raun að fljótandi gengi með svo litla mynt gangi ekki, að fastgengi gangi ekki upp í hagkerfinu eins og það var (fyrir rugl). Einhliða upptaka gengur ekki fyrir "alvöru" hagkerfi eins og okkar var og því er eini kosturinn ESB aðild og upptaka evru. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 5.5.2009 kl. 07:13

9 identicon

Guðbjörn; finnst þér ekki sennilegt að við þurfum að greiða meira af þeim skuldum sem við höfum verið að vinna að að losa okkur við ef við göngum í ESB? Viðsemjandinn mun væntanlega huga að hagsmunum eigin viðskiptalífs í þessu máli, er það ekki?

Segðu mér annað: Ert þú fylgjandi þeirri hugmynd sem komið hefur upp að fá stuðning Breta til þess að komast inn í ESB? Heldur þú að böggull fylgi skammrifi í því máli?

Það verður spennandi að fylgjast með þessu öllu saman. En mér finnst óeðlileg áhrif og stærð íslensku bankanna og þau áhrif sem það hafði á þróun mála hafa býsna lítið vægi í pistli þínum.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 08:21

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þorgeir:

Góður punktur hjá þér og sannur.

Auðvitað hafði stærð bankanna og áhrif þeirra og þó aðallega röng ákvarðanataka stjórnenda bankanna úrslitaáhrif varðandi örlög landsins. Um þetta er ekki hægt að deila og ég held að þetta muni koma enn skýrar í ljós þegar endanleg skýrsla um málið kemur út.

Ég var í þessum pistli hins vegar meira að víkja að opinberum aðgerðum í peningamálum, en ákvörðunum einkafyrirtækja og einstaklinga. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 17.5.2009 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband