Valhöll: vaknið og hafið þor til að viðurkenna vilja grasrótarinnar

VALHOLLÉg veit að það er ekki til siðs hjá forystu allra flokka að hlusta á grasrótina í flokkum sínum. Davíð Oddsson gekk t.d. svo langt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1996 að fullyrða að hlustaði maður um of á grasrótina myndu eyrun fyllast af ormum. Þótt Geir H. Haarde hafi hlustað aðeins meira á grasrótina - kallaði t.d. saman miðstjórn af og til - passaði hann vel upp á eyrun sín og hélt því að mestu sama verklagi og Davíð. Nú verðum við bíða og sjá hvað Bjarni Benediktsson gerir, en persónulega finnst mér að hann gæti hlustað meira á núverandi flokksmenn og síðan auðvitað á þá flokksmenn sem hugsanlega eru á leiðinni burtu að ógleymdum fyrrverandi sjálfstæðismönnum. 

Mér sýnist forusta allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins hafa áttað sig á því fyrir kosningar að vilji þjóðarinnar stefndi til stuðnings við aðildarviðræður. Vandamál Sjálfstæðisflokksins í vetur var að gömul og valdaþreytt klíka réði flokknum og hún var algjörlega andsnúin ESB og reyndar öllum breytingum og hafði heilaþvegið flokksmenn í 20 ár. Nýir og sprækir menn höfðu loksins losað sig undan galdri Davíðs og félaga og séð að það skynsamlegasta var að sækja um aðild og meira að segja ýjað að því í blöðunum í óþökk flokksforustunnar. Á síðustu stundu tókst afturhaldsöflunum með klækjum að ná yfir landsfundi flokksins og koma í veg fyrir allar breytingar. Ný forusta hafði ekki einu sinni verið kosin á landsfundi þegar málið bar á góma og gat hún því ekki hjálpað flokknum úr þeim ógöngum sem hann var kominn í.

EU FANINú er tækifærið komið fyrir nýja forystu að taka af skarið, sýna framsýni og þor og leiða flokkinn og stýra honum á ábyrgan hátt. Forustan á að byrja að móta nýjar áherslur, án þess að vera sífellt að horfa í baksýnisspegilinn til að sjá hvað Davíð, Geir eða Björn hefðu gert í sömu stöðu. Þeir eru hættir í stjórnmálum og þeirra skoðun skiptir í dag engu máli. Við viljum ekki stengjabrúður, heldur alvöru fólk af holdi og blóði og með skoðanir. Forustan verður að viðurkenna að fullkomlega eðlilegt er að þingið taki ákvörðun um aðildarviðræður, leyfa síðan þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að kjósa eftir eigin sannfæringu en ekki eftir landsfundarsamþykkt. Við megum ekki gleyma að sjálfstæðismenn voru og eru ekki einhuga í þessu máli - líkt og skoðanakannanir hafa alltaf sýnt fram á. Því ekkert óeðlilegt að þingmenn séu ekki heldur sammála í málinu.

Afleiðingar þess ef þingflokkur Sjálstæðisflokksins leggst gegn ESB aðild geta verið slæmar. Lengst af vorum við sjálfstæðismenn með 36 % fylgi. Í síðustu kosningum snéri 1/3 kjósenda bakinu við okkur og því eru við í 24% fylgi núna. Af þessum 24%, vilja 4 sjálfstæðismenn af hverjum 10 viðræður við ESB, 5 eru andvígir og einn er ekki alveg viss. Þetta þýðir í raun að 10 % af þessum 24 % vilja viðræður, 12 % eru andsnúnir viðræðum og 2 % vita ekki sitt rjúkandi ráð. Hvað gera þessi 10 % og 2 % ef forusta flokksins tekur einarða afstöðu gegn ESB aðildarviðræðum?

BJARNI & ILLUGIÉg er þess fullviss að muni þingflokkurinn kjósa sem einn maður gegn aðildarviðræðum, verður nýr hægri flokkur stofnaður. Það er mikil eftirspurn eftir slíkum flokki meðal kjósenda, því hann hefur úr fylgi 12% ónægðra sjálfstæðismanna að moða, sem snéru baki við flokknum í síðustu kosningum, síðan þessum 10 % sem enn eru í flokknum en vilja aðildarviðræður, að ógleymdum ónægðum hægri krötum innan Samfylkingar og framsóknarmönnum, sem kusu þann flokk eingöngu vegna þess að hann var "skásti" kosturinn. Slíkur flokkur ætti því hæglega að komast í 25% fylgi, meðan Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði niður í 12 - 14% fylgi. Hinn möguleikinn er að slíkt fólk flykkist yfir til Framsóknarflokksins og hreinlega yfirtaki hann. Framsóknarflokkurinn hefur verið að breytast í frjálslyndan miðjuflokk með stefnu sem höfðar til marga líkt og síðustu kosningar sýndu.

Nú er tími til kominn að vekja Þyrnirós í Valhöll! Maður spyr sig einungis, hvort prinsinn hefur kraft í sér til að brjótast í gegnum þyrnana í kringum höllina og síðan þor til að kyssa Þyrnirós? 


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: smg

Mitt álit er að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðið það ólýðræðislega sinnað batterí og sniðið að hagsmunum afla annarra en almennra kjósenda hans, að eina þróunin sem ég sé, er að flokkurinn haldi áfram að dala.

smg, 7.5.2009 kl. 08:19

2 identicon

Sama hvernig staðan í þessum flokk er í dag, hann er og verður dæmdur af sinni fortíð, sem hið mesta afturhald og spillingarafl í íslenskri stjórnmálasögu og er sama um hinn venjulega kjósanda flokksinns. Sannast það best á hinu langa og mikla, ömurlega málþófi, sem flokkurinn hélt uppi á Alþingi, vegna tillögu um stjórnarskrárbreytinar. Þar var útgerðarmafían varinn með hörku. Ef einhver breyting til meira lýðræðis hér, á að fara fram, verður að fara fram breyting á stjórnarskrá, fyrr skeður ekkert! Það er þessi flokkur algerlega á móti!!  

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 09:21

3 identicon

Hefði flokkurinn ekki bara gott af því að klofna? Það er ekki bara ESB málið sem þverklýfur hann í dag. Íhaldsarmur flokksins, sem hefur vaxið fiskur um hrygg eins og þú nefnir að hafi yfirtekið landsfundinn, og frjálslyndari armur flokksins eiga minna og minna sameiginlegt.

Það er dagljóst að íhaldsarmurinn ætlar ekki að sleppa taki sínu á flokknum og flokksforystunni. Þessi hópur boðar einangrunarstefnu í efnahagslífi og uppbyggingu landsins á grundvelli þjóðernishyggju. Alger afneitun af prinsippástæðum um að skoða kosti og galla við aðild að ESB er ein kraftbirting þessarar stefnu. Þess vegna töldu margir Sjálfstæðismenn sig ekki eiga samleið með flokknum lengur og kusu annað eða skiluðu auðu.

Kjarni málsins er að það vantar valkost í íslensk stjórnmál, frjálslyndan, markaðssinnaðan hægriflokk, sem hefur flest grunngildi Sjálfstæðisflokksins í sinni stefnuskrá, en er jákvæðari gagnvart hagnýtingu allra atvinnutækifæra til uppbyggingar landsins í alþjóðasamstarfi við nágrannaþjóðir okkar, Norðurlöndin og Evrópuþjóðir.  

Jóhannes (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 10:06

4 identicon

Sæll Guðbjörn,

Nú er ég ósammála þér starfsfélagi og flokksfélagi, Það sýnir algjöra uppgjöf og aumingjaskap að fara þarna inn. Til hvers? Við höfum allt til brunns að bera til að vera fremst meðal þjóða með öll okkar gæði hér heima, tilhvers að leggjast undir þetta regluverk esb? til hvers að gefa eftir hafsvæði fyrir utan 50 mílurnar þegar við þurfum þess ekki? til hvers að verða krækiber í helvíti á valdastóli esb með örfá þingmenn en eflaust fullt af nefndarmönnum (sem ráða litlu sem engu) og öllum þeim kostnaði sem því fylgir og fl. og fl.?

Það má skoða að skipta um gjaldmiðil enn það er leikandi hægt að gera án inngöngu í esb.

Það er okkar sérstaða og hlutverk okkar sjálfstæðismanna að standa fast á sjálfstæði okkar, verja það fyrir evrópusinnum og sýna fólki fram á þesssa vitleysu sem við myndum gangast undir ef þetta yrði niðurstaða þjóðarinnar.

Bestu Kveðjur Óskar

Óskar Þór Hallgrímsson (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 10:17

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Guðbjörn minn, með hvaða klækjum tókst einhverjum afturhaldsöflum að taka yfir landsfund Sjálfsstæðisflokksins? Mér er ekki kunnugt um það. Það var ekki einu sinni neinn sérstakur undirbúningur fyrir landsfundinn af hálfu okkar sjálfstæðissinna (sem þú átt væntanlega við). Það var rætt talsvert um það en sáralítið gert ef eitthvað. Ég ætti að vita það.

Landsfundurinn var einfaldlega alfarið á móti inngöngu í Evrópusambandið eins og þú veist enda á staðnum. Það var sama og enginn að tala fyrir slíku. A.m.k. ekki í ræðustól. Þú lézt þér nægja sjálfum að fara í ræðustól og kvarta yfir því einu að það væri svo erfitt að vera Evrópusambandssinni í Sjálfstæðisflokknum.

Annars varð strax ljóst á fundum Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í desember og janúar hvert stefndi. Þar var á hverjum einasta fundi gríðarleg andstaða við inngöngu í Evrópusambandið. Og við erum að tala um tugi funda um allt land, vel sótta af almennum sjálfstæðismönnum.

Ný skoðanakönnun, og aðrar á undan henni, bendir til þess meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilji hvorki einhverjar viðræður um inngöngu í Evrópusambandið né inngöngu sem slíka. Og alls ekki það síðarnefnda.

Hvaða grasrót ertu að tala um? Grasrót annarra flokka? Kannski Samfylkingarinnar? Það má fastlega gera ráð fyrir að flestir þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum, og mættu á landsfund hans og fundi um Evrópumál, hafi verið einstaklingar sem tilheyra kjarnafylgi flokksins. Þ.e. grasrót hans.

Þess utan er í bezta falli barnaskapur að halda að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 34-36% fylgi bara ef hann hefði tekið stefnuna á Evrópusambandið! Eða nokkurn veginn sama fylgi og í kosningunum 2007. Heldurðu virkilega að það eina sem hafi skipt kjósendur máli séu Evrópumálin en ekki fyrst og síðast bankahrunið og ábyrgð flokksins í þeim efnum?? 

Það má alveg gera ráð fyrir að kannski 2-3% af fylgistapi Sjálfstæðisflokksins hafi komið til vegna stefnunnar í Evrópumálum. En hversu mörg prósent heldur þú að flokkurinn hefði tapað ef hann hefði breytt stefnu sinni og tekið upp kúrs á Evrópusambandið? Sérstaklega í ljósi hinnar miklu andstöðu við það sem augljóslega er til staðar innan flokksins?? Það hefði ekki verið lítið.

Í stuttu máli sagt þá vilja sjálfstæðismenn upp til hópa ekki inngöngu í Evrópusambandið, það er ekki flóknara en það. Það bendir einfaldlega allt til þess. Forysta flokksins hefur einmitt hlustað á grasrótina.

---

Es. Það er annars svo merkilegt með þessar skoðanakannanir um Evrópumálin, ef spurt er um það hvort fólk vilji aðildarviðræður við Evrópusambandið er gjarnan meirihluti fyrir því en ef spurt er að því hvort fólk vilji sækja um aðild að sambandinu, sem þarf að gera fyrst áður en einhvers konar viðræður geta farið fram, þá hafa kannanir sýnt meirihluta gegn því.

Hjörtur J. Guðmundsson, 7.5.2009 kl. 11:45

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðbjörn minn ! Eg þekki hver þú ert en þú þekkir mig kannski ekki. Mér er alveg sama um alla flokka en mér er ekki sama um fólkið í landinu. Veit til dæmis ekki nákvæmlega hvað grasrótin er þó flestir aðrir viti hvað það þýðir. Mín skoðun er að ef það er til grasrót í bókstaflegri merkingu á Íslandi þá séu það íslendingarnir sjálfir. Mér er lífsis ómögulegt að skilja þetta á annan hátt, en tek við öllum ábendingum með þökkum.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.5.2009 kl. 16:53

7 identicon

Góður og málefnalegur pistill Guðbjörn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 17:42

8 identicon

FLokkurinn er náttúrlega í vandræðalegri stöðu með þessa samþykkt í ESB málinu sem engir flokkshlutar fylgja. Sannfæringarkraftur forystunnar fer eftir því.

Sverrir (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 17:49

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

smg:

Eigum við ekki að gefa Bjarna Benediktssyni tækifæri til að sýna hvað í honum býr, en ekki líkuðu mér yfirlýsingar hans um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til ESB aðildar.

Friðjón:

Við vitum að þið hjá VG og Samfylkingin hatar okkur sjálfstæðismenn og hægri menn almennt.

Jóhannes:

Sennilega hefur þú á réttu að standa!

Hjörtur:

Ég er t.d. að tala um fundarherferðina, sem Styrmir og Björn Bjarnason stóðu fyrir um land allt og síðan allan áróðurinn frá LÍÚ og útgerðarmönnum um land allt sem útmáluðu fyrir fólki í sjávarbyggðum hversu slæmar afleiðingar aðildin hefði og sama leik léku Bændasamtökin.

Ég vona að fólk í Valhöll átti sig á því að þótt hugsanlega hafi aðeins 2-3 % kjósenda yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn vegna afstöðunnar til ESB, þá var það fólk sem yfirgaf flokkinn vegna spillingar og ábyrgðarinnar á bankahruninu upp til hópa sama hægri fólkið og kýs að fara í aðildarviðræður við ESB. Þetta sýnir sig vel í því að hægri menn í Reykjavíkurkjördæmunum vilja aðildarviðræður og að fylgi flokksins minnkaði mest í þéttbýli. Sjálfstæðisflokkurinn hélt hins vegar betur fylginu á landsbyggðinni.

Mér finnst þetta svo augljóst og gleymdu því ekki að ég er nýbúinn að vera í prófkjöri og kosningabaráttu og talaði þá við hundruð ef ekki þúsundir manna og kvenna á landsbyggðinni og í þéttbýliskjörnum. Það var svo auðsjáanlegt að bændur á Suðurlandi og íbúar sjávarbyggðanna í Grindavík, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Höfn voru flest andsnúin ESB aðild á meðan íbúar Reykjanesbæjar voru opnari fyrir aðildarviðræðum. Ég var lengi búsettur í Reykjavík og meðlimur í Verði og hef mínar tengingar þar. Það var borðleggjandi og stór hluti sjálfstæðismanna í Reykjavík eru hlynntir viðræðum og að stór hluti þeirra sem yfirgáfu flokkinn voru fólk sem var hlynnt viðræðum. Það þýðir ekkert að bulla svona, Hjörtur, heldur verður maður að horfast í augu við staðreyndir. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.5.2009 kl. 17:53

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Anna Sigríður:

Auðvitað er átt við þjóðina, auðvitað er hún í raun grasrótin í hvaða stjórnmálaflokki sem er og þessu hefur forusta Sjálfstæðisflokksins gleymt undanfarin ár.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.5.2009 kl. 17:54

11 identicon

Kæri Guðbjörn

Síðast þegar ég vissi var Sjálfstæðisflokkurinn stjórnmálaflokkur en ekki félagsmálaklúbbur.

Meirihluti flokksmanna er þeirrar skoðunnar að verja skuli fullveldið þjóðarinnar. 

Meirihluti kjósenda flokksins kaus hann áfram.

Sjálfstæðisflokkurinn missti 9 þingmenn í nýafstöðnum kosningum, en fékk 16. Það er betra en að missa 16 og fá 9.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 23:01

12 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Guðbjörn, við skulum nú reyna að halda þessu á málefnalegu nótunum. Ekkert af því sem ég hef nefnt hér er bull heldur einfaldlega rök. Hvaða fundaherferð stóðu Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson fyrir? Ég hef ekki heyrt um hana en þekki þó báða ágætlega. Og ekki varð ég heldur var við neinar sérstakar áróðurherferðir LÍÚ. Bændasamtökin héldu vissulega fundi um landið í desember en aðallega til þess að heyra afstöðu manna að mér skilst. Á þeim fundum var sama og enginn stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið.

Og hvaðm segir að hægrimenn í Reykjavíkurkjördæmunum vilji hefja viðræður um inngöngu í Evrópusambandið? Hvað varðar það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst meira fylgi í á höfuðborgarsvæðiu en minna úti á landi skýrist vafalaust af því að bankahrunið og efnahagsvandræðin í kjölfar þess hafa bitnað miklu verr á íbúum suðvestur hornsins en á landsbyggðinni þar sem þensla síðustu ára var nánast ekki til staðar. Atvinnuleysi síðustu mánuði hefur aðallega orðið hér á þessu svæði en úti á landi vantar víða fólk.

Svo ítreka ég bara það að við ræðum þetta á málefnalegu nótunum en ekki með einhverjum gífuryrðum og öndum kannski líka rólega í leiðinni. Held að það sé farsælast.

Hjörtur J. Guðmundsson, 7.5.2009 kl. 23:24

13 Smámynd: Björn Heiðdal

Guðbjörn segir  "Ég gæti ekki svarað játandi við aðild, en vil samt í aðildarviðræður. "  Það er svona umræða sem er notuð til að rugla venjulegt fólk.  Annað hvort vill maður inn í ESB eða vera fyrir utan.  Ísland er ekki að fara að semja um eitt eða neitt sem skiptir máli.  Ef ég hef skilið Baldur Þórhallsson rétt þá snúast aðildarviðræður fyrst og fremst um tæknileg atriði.  Hversu mikið Ísland þarf að borga í sjóði sambandsins o.s.fr. 

Björn Heiðdal, 7.5.2009 kl. 23:34

14 identicon

Guðbjörn minn, það er kannski ekki málefnalegt að tala um að  VG eða Samfylking hati hægri sinna og Sjálfstæðisflokkksmenn. Kannski frekar að við vorkennum þeim, sem ekki hafa séð í gegnum spillinguna í t.d. stjórnsýslumálum og allt sem þar þrífst og hefur gert frá Lýðveldisstofnun og jafnvel fyrir hana.  Það er löngu tímabært að breyting verði á !!

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 08:32

15 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Guðbjörn

Fín grein hjá þér, nema ég hjó um óánægða hægri krata hjá í Samfylkingunni, held þú ofmetir það aðeins, þar virðast nú allir vera vinir í skóginum, því allir erum við nú jafnaðar og félagshyggjumenn í raun.

Kveðja Hannes

Hannes Friðriksson , 8.5.2009 kl. 10:54

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Pétur:

Við erum fjórir bræðurnir - vorum einu sinni allir sjálfstæðismenn.

Tveir hafa yfirgefið flokkinn og sá þriðji kaus flokkinn, en eftir því sem hann sagði mér með óbragð í munninum.

Við fórum úr 25 í 16 þingmenn. Ég fullyrði hér og nú að "tryggðaelementið" hjá mér og bróður mínum skiluðu flokknum 7 af þeim 16 mönnum sem flokkurinn hefur núna.

Við verðum ekki þarna fyrir ykkur í næstu kosningum, ef flokkurinn tekur ekki tillit til okkar skoðana.

Þrír af fjórum bræðrum mínum bíða eftir að nýr hægri flokkur verði stofnaður, svo þeir geti kosið hann.

Eruð þið kannski að sjá núna hvað ég á við? Þið stjórnið þessu ekki lengur! Ég veit að þetta er erfitt fyrir ykkur, en þetta er sannleikurinn.

Björn:

Ég vil ganga í ESB. Hins vegar getur óhagstæður aðildarsamningur fyrir okkur Íslendinga orðið til þess að ég hafni aðild að ESB.

Friðjón:

Kannski tók ég of sterkt til orða, en það átt þú nú einnig til eða er það ekki?

Tek undir með þér varðandi spillingu í stjórnsýslunni, hvort sem þá spillingu má rekja til Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins eða Samfylkingar.

Hannes:

Ég hygg að það séu margir "hægri kratar" innan Samfylkingarinnar, sem vel gætu hugsað sér samstarf með "hægri krötum" innan Sjálfstæðisflokksin og Framsóknarflokksins.

Við erum ekki öll jafnaðar- eða félagshyggjumenn, heldur erum við flest miðjumenn!

Dóra litla:

Þú skilur þetta seinna, þegar þú verður stór!

Ég var einu sinni Bubbi litli og þá sá ég ekki heldur í gegnum þennan vef, því hann er mjög flókinn!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.5.2009 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband