Þjóðflutningarnir miklu frá Íslandi – 2009-2011

Homo SapiensAllt frá því að maðurinn varð í raun til hefur hann verið að flytja sig um set. Þannig fluttust forfeður okkar frá Afríku til Asíu og þaðan til Ástralíu og síðan fyrir um 40.000 árum til Evrópu. Fyrir 15-20.000 árum lagði maðurinn síðan undir sig Ameríkurnar báðar og þar með má segja að hann hafi verið búinn að leggja undir sig allar heimsálfurnar nema Suðuskautið.

Þessu til viðbótar hefur mannkynið sífellt verið að færa sig á milli svæða innan heimsálfanna. Á árunum 100-500 var t.d. einstaklega mikið um að vera í Evrópu hvað þjóðflutninga varðar. Allir voru á faraldsfæri, Vestur-gotar og Austur-gotar, Karþagómenn, Frankar, Vandalar, Húnar og Englar o.s.frv. Að þjóðflutningunum miklu til Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjáland undanskildum voru seinni tíma þjóðflutningar aðallega í kjölfar styrjalda, t.d. þegar landamærum var breytt í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinn. Þjóðverjar töpuðu héruðum, sem nú tilheyra Póllandi og Tékklandi, en Rússar hrifsuðu til sín stór landsvæði í Austur-Evrópu, sem Pólverjar höfðu átt.

víkingaskipVið Íslendingar erum m.a. afkomendur Germana, sem fluttu í þjóðflutningum frá norðurhluta Þýskalands og dreifðust um Skandinavíu fyrir um 12.000 árum síðan. Sjálfstæð þjóð urðum við Íslendingar síðan í kjölfar þjóðflutninga Norðmanna til Íslands. Norðmenn voru að flýja ofríki höfðingja, ofurskattheimtu og landþrengsli í Noregi. Við létum þó ekki hér staðar numið, heldur settist Eríkur rauði að á Grænlandi upp úr 982 vegna illdeilna hér heima fyrir. Sonur hans Leifur heppni gekk síðan enn lengra í „útrásinni” og settist að í Vesturheimi um 1000. Allar okkar útrásartilraunir á þessum tíma virðast þó mistakast, ef marka má söguna.

torfbærEkkert að ráði var um fólksflutninga frá Íslandi næstu 800-900 árin, þangað til Íslendingar flykktust til Kanada og Bandaríkjanna á árunum 1850-1914. Árið 1870 voru Íslendingar um 70.000 manns og sárasta örbyrgð var örlög þeirra flestra, lítil sem engin framtíðarvon um að efnahagsástand þjóðarinnar myndi nokkurntíma batna. Ekki bætti úr skák að tíðarfarið var erfitt á seinni hluta 19. aldar: kaldir veturmánuðir og köld sumur, hafís, stormar, sandfok og snjókyngi, auk þess sem mikið var um náttúruhamfarir. Afleiðingar þessa voru landfok, uppskerubrestir, heyskortur og fall búpenings land allt. Annar landflótti brast reyndar er síldarbresturinn brast á árið 1967 og fluttu þá þúsundir Íslendinga til Norðurlandanna og einhver hundruð til Ástralíu. Einnig fluttu nokkuð margir Íslendingar á brott í kreppunni upp úr 1990. Segja má að seinni tíma þjóðflutningar hafi tekst betur, en Vestur-Íslendingunum vegnaði vel vestanhafs og Íslendingum á Norðurlöndunum og Ástralíu einnig.

FæreyjarKreppan í Færeyjum og afleiðingar hennar hafa verið fréttaefni í vetur. Landflóttinn frá Færeyjum varð gífurlegur þegar fjórði hver Færeyingur missti vinnuna, en um 9000 manns eru taldir hafa yfirgefið eyjarnar á þessum tíma – um 15% eyjaskeggja. Mikið af ungu, efnilegu og vel menntuðu fólki hvarf á brott og fáir hafa snúið til baka. Ef svipaður fólksflótti brestur á hér á landi eru sambærilega tölu á bilinu 40 til 50 þúsund manns. Við slíka fækkun myndi að mínu allt brotna saman hér á landi og erfitt að ímynda sér afleiðingarnar. Tekjufall ríkissjóðs væri gífurlegt og til langframa. Um yrði að ræða gífurlegt offramboð á íbúðar-, iðnaðar- og verslunarhúsnæði. Aldursskipting þjóðarinnar myndi breytast mjög til hins verra, sem gerði lífsskilyrði hér á landi verri til næstu áratuga. Hér á landi yrði ekkert byggt næstu áratugina, með tilheyrandi atvinnuleysi fyrir iðnaðarmenn, þjónustufyrirtæki, arkitekta, verkfræðinga, gatnagerðarfyrirtæki o.s.frv.

Ég er að eðlisfari mjög bjartsýnn maður, en mér segir svo hugur að ástandið sé svo alvarlegt ,að hér þurfi til ríkisstjórn, sem hefur getu og þor til að taka á hlutunum. Fara þarf í allar þær framkvæmdir, sem mögulegar og byggja á nýtingu okkar auðlinda. Gera þarf ríkisstjórnum Bretlands og Hollands grein fyrir ástandinu hér á landi og það sé þeim ekki í hag að knésetja okkur á þann hátt, sem fyrirhugað er að gera Icesave samningnum er liggur fyrir Alþingi. Einnig þarf að fara í nauðasamninga við aðra kröfuhafa, með það að leiðarljósi að Íslandi verði mögulegt að greiða sínar skuldir til baka án þess að hér leggist allt í auðn. Sækja þarf um aðild að ESB eins skjótt og hægt er. Sé aðild að ESB ekki möguleg án þess að samþykkja Icesave samninginn, skal hætt við aðild þar til Evrópusambandið hefur skipt um skoðun.

FramkvæmdirEkki er hægt að bjóða þjóðinni upp á niðurskurð á ríkisútgjöldum upp á 30%, sem þýðir svipað velferðarkerfi og opinbera þjónustu og boðið er upp á í Austur-Evrópu. Þjóðin mun heldur ekki vilja búa við langvarandi 20% atvinnuleysi, hvað þá okurskattlagningu þá sem fyrirhuguð er. Þjóðin hefur aðeins eitt svar við slíkum aðgerðum, hún mun greiða atkvæði með fótunum og þriðji eða fjórði hver Íslendingur mun flýja land. Komi sá fólksflótti til, eru Íslendingar gjaldþrota og engum til gagns, hvorki ESB né lánadrottnum okkar. Ef stjórnvöld geta ekki gert alþjóðasamfélaginu þetta ljóst, eiga þau að segja af sér. Þýði þetta að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þar með „alþjóðasamfélagið” snúi baki við okkur er lítið við því að gera, þar sem við höfum að mínu mati engan annan valkost í stöðunni.

Lifið heil!


mbl.is Hætt við öll útboð í vegagerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Jóhannsson

Sammála flestu sem þú skrifar, utan þess að ganga í ESB. Það birokratíska alræðisveldi mun ekki gera neitt fyrir okkur án þess að fá eitthvað í staðinn. Og það eina sem við getum látið í staðinn eru fiskurinn, orkan og hreina vatnið. Það verður kannski kki mikið má fyrir ESB að hirða okkur upp í skuld þegar skuldadagar Icesave samningana renna upp...

Kveðja

Óli Jó

Ólafur Jóhannsson, 21.6.2009 kl. 17:02

2 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Guðbjörn.  Fínar hugleiðingar hjá þér um alvarlegt mál.

Fólksfjöldi á Íslandi eftir Sturlungaöld og fram til miðbiks síðustu aldar fór talsvert eftir veðri (og plágum).  Menning norrænna manna hvarf úr Grænlandi upp úr 1500, og þar spilaði kólnun loftslags einhvern þátt en þó ekki síður sú staðreynd að verslun víkinganna drógst verulega saman þegar Hansa-kaupmenn spruttu fram - hið norræna fólk í Grænlandi einangraðist við það frá umheiminum.  Þetta varð banabiti þess fólks (en þó sóttu Inúítar fram enda voru þeir ekki jafn háðir verslun við umheiminn og um leið hentaði það menningu þeirra betur þegar kólna tók í veðri (veiðar um ís t.d.)).

Þetta minnir okkur á það hversu mikilvægt það er fyrir Íslendinga að eiga í samskiptum við umheiminn.  Landið sjálft (einangrað frá umheiminum) stendur ekki undir þeim fjölda sem hér býr.  Viðskipti og samskipti við útlönd eru okkur algjörlega lífsnauðsynleg.

Ef fer sem þú nefnir að um 15% vel menntaðs fólks flýr frá Íslandi yrði það náttúrulega meira en hræðilegt!

Og ég er sammála þér með það að mjög varlega þarf að fara í að hækka skattana - það skrúfar enn frekar fyrir súrefnið sem þrotið er í íslensku efnahagslífi.  Vandinn er sá, enn og aftur, að ekkert er til í hlöðunum.  Veruleikinn, sem ekki verður flúinn, er alveg skelfilegur.

Mesta vonin felst ef til vill í því að byggja upp útflutningsgreinararnar með aukinni fullvinnslu hráefnis og afurða.

Eiríkur Sjóberg, 21.6.2009 kl. 17:08

3 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Guðbjörn, megi rödd þín hljóma sem víðast.

Frekari erlendar lántökur á hagkerfi sem er í erlendu greiðsluþroti eru ekki leiðin. Látum nú vera icesave ósköpin. Við eigum enga valkosti, við verðum að hafna öllum frekari lánum, reyna að halda frið við lánadrottna og aðrar þjóðir og sjóða innlenda krónuhagkerfið í verðbólgu. Við getum ekki tekið lán erlendis fyrir þeim krónueignum sem vilja flytjast úr landi. Gjaldþrota einstaklingur með lánstraustið á núllu bætir ekki stöðuna með frekari erlendum lánum.

Plan AGS um hallalausan ríkissjóð 2012 mun þurrka upp hagkerfið. Við munum hætta að starfa hvert fyrir annað af því að "við" höfum ekki efni á því! Þetta er klassískt þegar hringrás hagkerfa er brotin niður í kreppum. Algerlega til einskis.

Nú verður fólk að líta yfir sína persónulegu hagsmuni, nú verða ágreiningsmál og pólitík að víkja. Núna er ALLT undir.

Það er mín skoðun eftir gríðarlegar pælingar á ástandinu.

Kv.

Ólafur Eiríksson, 21.6.2009 kl. 17:14

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Óli Jó

Takk fyrir þetta og leitt að við séum ekki sammála varðandi ESB, sem ég tel vera hluta af lausninni, þ.e.a.s. ef það inniheldur ekki Icesave samninginn.

Eiríkur:

Við verðum að láta á það reyna hvort við spjörum okkur, þótt Bretar og Hollendingar vilji ekki við okkur tala.

Ég trúi því ekki að óreyndu, að þessar þjóðir þvingi okkur til að borga þessar skuldir óreiðumanna, en neiti að öðrum kosti að eiga við okkur viðskipti: neiti að kaupa af okkur fiskinn og álið og komi ekki hingað sem ferðamenn, neiti að selja okkur lyf, mat, olíu og iðnvarning! Ég veit ekki til þess að slíkt hafi gerst annarsstaðar, þar sem lönd hafa lent í þroti, því það er það sem við erum í!

Ólafur Eiríksson:

Ég er afskaplega feginn að einhver annar er sömu skoðunar og ég. Ég er búinn að liggja yfir þessu í allan vetur og búinn að fara einn hring, eða voru það kannski tveir!

Ég lendi alltaf með þessa sömu niðurstöðu og ég er hissa á að fleiri sjái þetta, þar sem þetta er í sjálfu sér borðleggjandi. Væri einstakling eða fyrirtæki að ræða í þessari stöðu yrði hann að mínu mati gerður upp, eða óskaði a.m.k. eftir uppgjöri. Ég er sjálfur t.d. búinn að ákveða að verði laun mín skorin niður um 20-30% mun ég selja húsið og bílinn og láta gera mig upp. Þetta drasl er mér einfaldlega ekki meira virði en sálartetrið mitt!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2009 kl. 17:36

5 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Það er nú málið.

Það eru okkar eigin innbyrðis átök, kröfur fjármagnseigenda, kröfur lífeyrissjóða og óbilgirni varðandi verðtryggingu auk verðbólguótta sem verða okkur að falli.

Lausn AGS er að reyna að lyfta upp skiptagengi krónunnar með frekari erlendum lántökum og kyrkja efnahagslífið til að halda aftur af verðbólgu.  Þessar aðferðir eru svo fráleitar að ég á í bili engin viðeigandi prenthæf lýsingarorð yfir þær. Einskonar efnahagslegt sjálfsvíg að fylgja þessum ráðum.

AGS verður að fara. Það kaldhæðnislega er að með því að hunsa ráðleggingar sjóðsins þá eigum við möguleika á að standa við okkar í framtíðinni og jafnvel borga eitthvað upp í icesave. 

Ólafur Eiríksson, 21.6.2009 kl. 18:11

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, og til hvers vilja þeir laga gengið? Er það ekki auðsjáanlegt?

Fyrst við erum með bölvaða krónuna og hennar galla, eigum við allavega að nýta kostina og prenta svolítið af peningum og koma með þeim hjólunum af stað! Ríkið á allt og getur stjórnað framkvæmdum og aðgerðum á þann hátt að þær verði ekki og gjaldeyrisfrekar!

Já, ég held að við verðum að kasta AGS út og þreyja þorrann! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2009 kl. 18:18

7 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Þeirra eigin rök eru að íslenskir aðilar með sín verð- og gengistryggðu lán þoli hvorki frekara gengisfall eða verðbólgu. Þannig byrjaði þetta í haust þegar menn héldu að hér væri á ferðinni langtum minni vandi en raunin er. Það átti að snarredda þessu með erlendum lántökum.

Þetta stöðumat er algerlega út í hött. Klassískt íslenskt verðbólguskeið a-la 1980 og gjaldeyrishöft verða himnasæla við hliðina á þeirri leið sem stefnt er að núna.

Forsvarsmenn lífeyrissjóða ættu að hugleiða hverju þeir söfnuðu í raun og veru síðustu árin. Tölum í bækur og færslum í tölvukerfi - það er það sem þeir söfnuðu ef frá eru taldar erlendar eignir. Það er þetta sem þeir eru að verja - IOU's á framtíðina með því að harðneita afnámi verðtryggingar eða lækkun á húsnæðisskuldum landsmanna. Sjálfir halda þeir að þeir séu að verja eitthvað!  Má ég minna á að það er til rafræn prentvél í seðlabankanum sem gæti búið til trilljón krónur í fyrramálið og ríkisstjórnin síðan skírt slummunna lífeyrissjóður landsmanna. 

Hver er munurinn á þessum sjóði eða því sem búið er að "safna" hér með svita síðustu áratuga? Eftir efnahagshrunið í haust þegar allar forsendur fóru út í loftið þá er munurinn hverfandi.

Hvernig ætli þeim gangi að innheimta þessi "verðmæti" þegar AGS verður búinn að kyrkja samfélagið til hálfs og hinn helmingurinn verður farinn úr landi. Hafa þeir hugsað málið til enda?

Svarið er NEI. Það virðist vera ótrúlega takmarkaður skilningur á því hverskonar abstraksjón peningakerfið er. Allavega virðast íslendingar ætla að gera sig gjaldþrota gagnvart útlöndum til að "bjarga" þessum tölvufærslum og fjárreiðubókum sem við köllum íslenska krónuhagkerfið.

Ólafur Eiríksson, 21.6.2009 kl. 18:48

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ólafur: 

Ég skil hvað þú ert að meina og af þeim sökum gekk ég frá mínum séreignarlífeyrissparnaði hjá Allianz - hafði ekki trú á efnahagslífinu hér eða fjárfestingum íslenskra lífeyrissjóða.

Ég hef einnig um langan tíma sagt að meira ætti að fjárfesta erlendis, hvað lífeyrissparnað ræðir. Fáir hafa verið mér sammála og auðvitað alls ekki þeir sem borga mótframlagið, en með sjóðina hafa bankarnir (atvinnurekendur) leikið sér að eigin vild, líkt og þegar hefur sést.

Auðvitað ætti að reka allar stjórnir þessara sjóða og stóran hluta starfsmanna þeirra. Suma stjórnarmenn og starfsmenn þarf jafnvel að lögsækja, þ.e.a.s. þá sem hafa gert þetta meðvitað og vitandi vits um að fjárfestingarnar voru vita verðlausar. Þetta þyrfti Sérstakur saksóknari einnig að athuga!

Mér finnst þetta samt svolítið einföldun hjá þér, að eignir lífeyrissjóðanna séu nær einskis virði. Einhvers virði hljóta t.d. veðlán í íbúðarhúsnæði að vera og einhver hljóta að vera fyrir öðrum lánum. Jafnframt verðum við að vona að ríkisskuldabréfin séu einhvers virði. En líkt og við báðir segjum er þetta verðlaust ef 40-50.000 manns fara úr landi?

Hins vegar er deginum ljósara, að mikið af kröfum verður að afskrifa, auk þess hlutabréf o.s.frv. kunna að vera lítils virði! Það er einnig ljóst, að hvort sem um er að ræða ríkisskuldabréf, veðlán eða hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum, þá eru þau lítils virði ef hér verður allt keyrt í þrot og ég býst við að það sé það sem þú átt við?

Ég er einmitt að halda því sama fram, þ.e.a.s. að þegar helmingur þjóðarinnar er efnahagslega við dauðans dyr og getur ekkert leyft sér neitt. Hinn helmingurinn er sennilega að pakka og á leið úr landi og þegar svo er komið er hér hvorki markaður fyrir byggingaframkvæmdir næstu áratugina eða einhver grundvöllur til verslunar og viðskipta.

Það sem ég óttast þó mest er að missa stóran hluta fólks á aldrinum 20-40 úr land. Fari svo lendum í gífurlegum vandræðum með rekstur landsins eftir 25-40 ár. Við verðum í raun komin í sömu spor og önnur Vesturlönd, þ.e.a.s. að það verða engir til að halda kerfinu gangandi, þegar við erum öll orðin gömul! Börn sem fæðast á næstu 20 árum munu síðan sjá fram á að verða skattpínd til að halda kerfinu gangandi og munu einnig hverfa á brott - vítahringur, sem erfitt er að komast úr!

Menn verða að athuga að það er þessi mannauður sem við höfum verið að fjárfesta í. Við höfum fætt, klætt og menntað þessi börn og þau eiga síðan að borga sjúkrahúskostnað o.s.frv. þegar við erum orðin gömul. þetta eru hin raunverulegu verðmæti í þjóðfélaginu - mannauðurinn. Sumar þjóðir hafa verið sniðugar, t.d. Bandaríkjamenn, Ástralir og núna Þjóðverjar og flytja inn skipulega ungt, vel menntað fólk (Brain drain). Við getum lagt peninga í lineyrissjóði, en ef fólkið vantar þá er það til einskis. Ég býst við að þú eigir við þetta? Við erum þá í raun komin 50-60 ár aftur í tímann efnahagslega og án framtíðar ef börnin okkar fara!

Persónulega held ég að verið sé að keyra allan atvinnurekstur og heimilin (landið) í hálfgert gjaldþrot með þeirri stefnu - eða öllu heldur stefnuleysi - sem hér hefur ríkt alla tíð frá í haust.

Það sem við þurfum eru alvöru leiðtogar, sem þora að berja í borðið og semja við þessar þjóðir! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2009 kl. 19:45

9 identicon

Góð grein hjá þér.

Við endum sennilega á slóðum forfeðra okkar í Afríku. 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 21:46

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Páll:

Já, ég er nú bara að setja hlutina í samhengi.

Mannskepnan er þannig að það er hægt að misbjóða henni ansi mikið!

Við Íslendingar sáum þetta vel frá 1262 og þar til við sáum fram á að komast héðan eitthvað annað til betra lífs.

Síðan fengum við sjálstæði og komumst til nokkurra efna, eða allavega það mikilla efna að við höfðum það ekki verra en fátækt fólk annarsstaðar í heiminum. 

Ef við verðum hins vegar sett í þau spor að hafa það verra en aðrar sambærilegar þjóðir og þurfum ekki að gera annað en að fara á skrifstofu Icelandair og kaupa okkur farmiða til Norðurlandanna eða meginlands Evrópu, þá gerum við það - allavega unga fólkið, sem á börn og framtíðina fyrir sér! Fólk hugsar þá um eigin framtíð og barnanna sinna, en ekki um það að borga til baka skuldir óreiðumanna, skulda sem það stofnaði ekki til. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2009 kl. 22:00

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðbjörn. það hafa verið þjóðflutningar í tíð sjálfstæðisflokksins sem ekki var gert svo mikið mál úr vegna þess að það snerti bara þá sem minna máttu sín. Hvað fluttu margir úr landi frá 1990-1995? Veist þú hvernig þeim fjölskyldum leið? Núna fyrst verður allt vitlaust vegna þess að núna tapa líka þeir ríku.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 21.6.2009 kl. 22:03

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Anna Sigríður: 

Ég skrifaði um þjóðflutningana upp úr 1990 í greininni minni. Kreppan upp úr 1990 var allt annars eðlis en sú sem núna er og ástæðurnar einnig allt aðrar.

Á bloggsíðu þinni segist þú vera "hlutlausum íslandssinn", sem styðjir þó "núverandi ríkisstjórn í því sem hún er að gera" og munir "styðja þá sem standa með fólkinu í landinu en ekki böðlunum sem sviku svo hræðilega".

Þetta er nú meira hlutleysið. Minni mig á hlutleysi Svía og Svisslendinga í heimsstyrjöldinni síðar, en bæði lönd áttu gífurleg viðskipti við Nasista allt stríðið! 

Ég sé að þú ert nægjusöm kona og mælir "með hýðishrísgrjónum, kartöflum og baunum sem er ódýr matur og gífurlega hollur". Þetta kaupir þú hjá "vini" þínum "Jóhannes gamli í Bónus", sem þú vorkennir "út af vandræðum Jóns Ásgeirs sonar hans. Þú segist ekki vera hagfræðingur en skiljir "þó eins og Jóhannes að lágt vöruverð og mikil viðskipti er það eina rétta. þá græða allir". 

Jón Ásgeir og Jóhannes eru búnir að okra á okkur í 20 ár - þótt hugsanlega minna en aðrir - og þessa svikahrappa ert þú að verja á heimasíðu þinni - je minn eini! 

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum:

Ekki myndi ég persónulega nenna að semja við einhvern sem skuldaði mér og segðist bara vilja sleppa. þannig er staða þjóðarinnar í þessu máli, og svo verðum við þá að rífast innbyrgðis um hver eigi sök á þessum reikningum. Getum ekki ætlast til að aðrar þjóðir eigi að líða fyrir það. Þannig sé ég þetta alla vega. Hef fulla trú á því sem þið eruð að gera. Eftir eitt ár eru hjól atvinnulífsins farin að snúast á fulla ferð og eignir fara að verða mikils virði víða um heim. þannig hafa allar kreppur þróast. það er alltaf best að semja um skuldir þó ervitt sé. þannig skapast traust og virðing. Án virðingar getum við bara farið til villimennsku frummannsins. Hef góða reynslu af að semja endalaust um skuldir. þarmeð skilur fólk að við ætlum að standa við skuldbindingar og viðurkenna að við höfum tekið þátt í röngum gildum (útrásin þótti svo æðisleg) en aldrey of seint að læra.

Ég sé ekki hversvegna við eigum eitthvað að vera að semja um skuldir Jóhannesar í Bónus, Jóns Ásgeirs og vina þeirra og kunningja. Ekki stofnaði ég til þeirra skulda og efast um að þú hafir gert það og ekki gerði Sjálfstæðisflokkurinn það heldur og hefur nú nógu mikið á samviskunni í þessum efnum samt!

Síðan heldur þú áfram:

Ísland er ekki ennþá klofið og þess vegna þurfum við að standa saman um að leysa vandann.

Ísland er algjörlega klofið í afstöðu sinni til þessara Icesave skuldbindinga og stór hluti þjóðarinnar og þingsins vill alls ekki gangast við þessum afarkostum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2009 kl. 22:47

13 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Tek undir þessar áhyggjur þínar Guðbjörn og tala af töluverðri reynslu.

Lenti í "óðu verðbólgunni" 1983-1984 þegar við vorum að byggja 1stu íbúðina.  Tíu árum síðar fengum við einfaldlega nóg af óstöðugleikanum.  Vorum að ærast við að vakna á morgnana og heyra " gengið féll" í morgun.  Útreikningar á væntu skuldleysi okkar hjóna lengdust, samt vorum við bæði í fínni vinnu, og hófleg í allri neyslu. 

Fluttum af landinu með "vont bragð" í munni, eftir 11 ára dvöl erlendis, í stöðugleika, ennþá í góðri vinnu bæði, er staðan algjörlega breytt.  Þótt landið, fjallið og fólkið laði enn að, þá er ekki á vetur setjandi í slíkri rússíbanareið, gengis, verðlags og hagstjórnar eins og Íslendingar hafa búið við um langan tíma.

Sumir hafa styttri þráð en aðrir í þessu sambandi, og ég er feginn að minn brann upp á miðjum 10. áratugnum, en það huggar samt ekki neitt, þegar hugsað er heim til ástvina og fjölskyldu, já og allrar þjóðarinnar. 

Punkturinn er þessi;  þeir sem flýja þetta ástand nú, munu varla snúa til baka aftur nema að mikið breytist í efnhagsstjórn og almennu siðferði á landinu.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 22.6.2009 kl. 01:09

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Já Guðbjörn það er ervitt að rífa sig upp og flytja til annars lands og sérstaklega ef maður stendur einn í því. þú meinar að við ættum að ganga í ESB og þá getum við sameinast um að vera á móti öllu sem þeir ákveða um okkar land? Eða verður þú fluttur þá frá vitleysu síðustu stjórnar? Ég geri ráð fyrir að fólk fái að vita hvað samningurinn hljóðar uppá, annars að sjálfsögðu er ekki hægt að greiða atkvæði um hann. Eins er það með ESB. Ekki er leyfilegt að ganga þar inn án þess að þjóðin kjósi um það.

Vilt þú ekki þjóðstjórn Guðbjörn sem er alveg hlutlaus? Ég hef mælt með því en kanski ekki á blogginu.

það er bara svo brýnt núna að eiða ekki tíma í að vera alltaf að skipta um stjórn því það kostar líka peninga og ekkert er gert á meðan. Hef aldrey mælt með útrásinni en oft furðað mig á að stjórvöld skyldu ekki grípa í taumana og Seðlabankastjóri fékk frelsi til að stjórna landinu. 

það var síðasta stjórn sem gerði okkur ábyrg fyrir ábyrgðarleysinu.Svo er það dálítið ríkt í mér að fyrirgefa þeim sem gera rangt og eru sjúkir í sínum framkvæmdum. þú pirrar þig á að ég skuli ekki fordæma Jóhannes í Bónus. Held að hann viti minnst um hvað þetta snýst enda er hann hér á landi ennþá. Hvar var fjármálaeftirlitið. Hefnd og hatur er ekki leiðin til góðra lausna þó það hafi verið notað í gegnum aldirnar með hörmulegum afleiðingum.

Grasið verður ekki eins grænt í Evrópu á nætstu árum eins og það hefur verið á undanförnum árum. Heldur þú að aldrei verði stríð aftur í ESB löndum? Vandamálið á okkar ágæta landi er að einungis hefur verið hugsað um lítinn hóp og hinir máttu bara eiga sig. þú vilt þó ekki fá þá aftur í stjórn? Og ef þú vilt það spyr ég hvers vegna? það skiptir ekki máli hvað flokkurinn heitir heldur hvort heiðarleiki og sanngirni ræður í honum. Svo að lokum takk fyrir að auglýsa bloggið mitt því ég meina hvert orð.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 22.6.2009 kl. 01:25

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jenný Stefanía:

Ég fór sjálfur út 1986 og hafði þá svipaða reynslu að baki, þ.e.a.s. misgengisárin þegar lánin hækkuðu og íbúðarverð lækkaði.

Ég fór hins vegar út í framhaldsnám í söng og endaði það með 12 ára dvöl í Þýskalandi og Sviss, en stöðugleiki er afskaplega mikill í báðum löndum. Eftir 10 ár vaknaði heimþráin. Ég sá að stöðugleiki var búinn að vera nokkur í 2-3 ár árið 1998 og ákvað að flytja heim. Ég hef reynt að gera allt rétt undanfarin 11 ár hér heima. Vann mikið og kom yfir mig og sparaði, keypti mér íbúð og svo ódýrt hús á Suðurnesjum, þar sem ég vann. Ég hef gert húsið aðeins upp og borgaði það með sparnaði, tók engin VISA lán, staðgreiddi allt innbú. Eina vitleysan sem ég gerði var að kaupa bíl á myntkörfuláni. Að auki lauk ég BA prófi og síðan meistaranámi með fullri vinnu.

Allt fyrir ekkert, því þrátt fyrir að hafa reynt að haga mér sæmilega skynsamlega er fótunum kippt undan manni. Sem yfirmaður hjá ríkinu er að sjálfsögðu búið að lækka launin hjá manni og núna á sennilega að taka mann niður í 400.000 kr! Þá á ég hvorki fyrir afborgunum af húsi né bíl og til að lifa. Maður veltir þá bara fyrir sér hvort maður nenni þessu. Kannski að maður pakki bara öllu í gám og drífi sig eitthvað út!

Anna Sigríður:

Já, ég hef horft til ESB sem hluta þeirrar lausnar sem við þurfum. Hins vegar er ég einnig þeirrar skoðunar að þá aðild sé ekki hægt að kaupa með því að vera píndur til að skrifa undir þessa Icesave samninga.

Jú, ég held að þjóðstjórn væri rétt og er búinn að vera þeirrar skoðunar síðan í janúar.

Það er einnig rétt hjá þér að ríkisstjórnir allt frá 2002 eru ábyrg fyrir þessu klúðri og VG eru stikkfrí. Nú eru þeir hins vegar búnir að vera í ríkisstjórn frá því í febrúar og það liggur ekkert eftir þá eða þessar ríkisstjórn - ekkert, alla vega ekkert af viti! Þeir geta ekki lifað á mistökum fyrr ríkisstjórna árum saman! Ef þeir geta þetta ekki, þá þurfa aðrir að taka við eða það þarf hreinlega að kjósa þar til starfhæf ríkisstjórn kemst á laggirnar!

Já, það fer í taugarnar á mér þetta oflof sem Jóhannes fær frá mörgum. Þetta er bara okrari eins og hinir, þótt hann okri minnst. Hann er bara alls engin þjóðhetja, því með peningum sem hann okraði á okkur lagði hann grunnsteininn að þessari vitleysu þeirra Jóns Ásgeirs. Jóhannes er enginn hálfviti og vissi nákvæmlega hvað sonur hans var að bauka!

Nei, grasið er yfirleitt ekki grænna hinum megin, hvort sem það er í Evrópu eða annarsstaðar. Ég hef ekki trú á styrjöld innan ESB, því löndin eru svo nátengds viðskiptalega og stjórnmálalega að þau geta ekki farið í stríð og það var einmitt hugmyndin hjá þeim sem stofnuðu sambandið eða minnsta kosti ein þeirra að koma í veg fyrir styrjaldir innan Evrópu í framtíðinni. Mér sýnist þeim hafa tekist vel til, allavega til þessa!

Ef þú lest þar síðustu færslu mína, þá sérðu að ég er einmitt að gagnrýna þetta klíkuveldi - lestu hana endilega og þá sérðu álit mitt á íslensku samfélagi undanfarinna áratuga!

Ekkert mál að auglýsa bloggið, þar var margt sem ég var sammála en ýmislegt sem ég var ekki sammála! 

Auðvitað klúðruðu bæði Davíð Oddsson seðlabankastjóri og Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins eftirlitsþættinum varðandi útrás bankanna og einnig má spyrja sig um ábyrgð Viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaráðuneytisins. Ríkisstjórnin hlýtur að hafa haft einhverja hugmynd um hvað væri að gerast frá árinu 2006, en í síðasta lagi frá árinu 2007.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.6.2009 kl. 07:19

16 Smámynd: Björn Emilsson

Ný þjóð sest að. Sjá menn ekki fyrir sér ´Nýja Ísland´Evrópubandalagsins. Þarf ekki einusinni að leggja neitt fram. Eiga hólmann sennilega nú þegar og fiskimiðin líka. ESB mun hefjast handa við að byggja upp nýja landið sitt.Straumur fólks til landsins mun fylla yfirgefið húsnæði islendinga Herstöðin endurbyggð á Keflavíkurflugvelli. Fiskimiðin ofnýtt . Olíu borðpallar rísa á Drekasvæði. Nægir peningar til að nýta sér gögn og gæði Gamla Fróns. Islensk tunga mun hverfa í daglegu tali. Herskatt fólk með aðra siði og þjóðfána hefur tekið við.

Kannske er bara spurningin, hvor verður fyrri til ESB eða Rússar.

Björn Emilsson, 22.6.2009 kl. 13:44

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Björn:

Góð pæling hjá þér, en ég var að heyra enn eina samsæriskenninguna! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.6.2009 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband