ESB aðild - öll sund gætu lokast

ESB fániÉg hef áður komið fram með spádóma, sem ótrúlega oft hafa ræst. Að vísu hefur minn stærsti spádómur ekki enn komið fram, en hann er að Samfylkingin hafi nú þegar undir höndum drög að aðildarsamningi Íslands við ESB. Í þessum drögum er tekið á öllum helstu atriðum, sem orðið gætu ásteytingarsteinn í aðildarviðræðum Íslendinga og ESB. Yfirlýsingar Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB, og Joe Borg, fiskveiðistjóra ESB, renna að mínu mati styrkum stoðum undir þessa tilgátu mína.

Seðlabanki EvrópuÍ óformlegum þreifingum Íslendinga við embættismenn og stjórnmálamenn innan ESB, sem fram fóru samhliða viðræðum Breta og Hollendinga - og með vitund og vilja allra aðila -, var gengið frá því að Íslendingar gengju í Evrópusambandið 1. janúar 2011. Á sama tíma tæki Seðlabanki Evrópu að sér að verja gengi íslensku krónunnar miðað við ákveðið viðmiðunargengi, sem líklega er ásættanlegt fyrir Íslendinga. Á sama hátt er samkomulag um að hafi Íslendingar ekki greiðslugetu varðandi Icesave samninganna og aðrar gífurlegar skuldbindingar þjóðarinnar, muni Bretland og Holland fella niður hluta Icesave skuldanna, lækka vexti og lengja í lánstímanum og ESB koma landinu á einn eða annan hátt til aðstoðar.

 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Þetta er hluti af efnahagsáætlun Samfylkingarinnar, sem enginn hefur í raun séð og sósíaldemókratarnir hafa - eðli málsins samkvæmt - ekki getað opinberað og hefur ekki einu sinni lekið út eins og vaninn er þar á bæ.

Hinn hluti áætlunarinnar eru að sjálfsögðu lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslendinga og önnur lán frá Norðurlöndunum og síðan minni lán frá öðrum aðilum.

Öllum þessum efnahagsaðgerðum er stillt upp í ákveðinni tímaröð, sem ekki má riðlast. Þannig var ESB aðild Íslendinga skilyrði fyrir lánveitingu Norðurlandanna og AGS, en annað skilyrði er að gengið yrði frá Icesave samkomulaginu. Þetta eru auðvitað þau skilyrði, sem Norðurlöndin og önnur ríki hafa gert alla tíð síðan í vetur. Af þessum sökum hefur allt tafist svona von úr viti, þ.e.a.s. vegna þess að binda varð alla lausa enda við ESB, AGS, Icesave, erlendu lánadrottnana vestanhafs o.s.frv.

Krónan að sökkvaÞetta er í raun frumraun á svo flóknu ferli, þ.e.a.s. heimskreppu, hálfgerðu þjóðargjaldþroti efnaðs Vesturevrópuríkis, sem er meðlimur í NATO og EES og í Norðurlandasamstarfi. Þessu til viðbótar flækir málin réttaróvissa vegna Icesave vegna stórgallaðrar ESB reglugerðar, undarlegra og hugsanlega ólöglegra viðbragða Breta. o.s.frv. Það er því ekki að undra að þetta hafi staðið í öllu þessa mjög svo klára fólki hjá ESB, Evrópska Seðlabankanum, AGS, ríkistjórnum þeirra ESB aðildarríkja, sem hlut áttu að máli, t.d. Bretlands, Hollands, Þýskalands, Lúxemborg o.s.frv., íslensku ráðuneytanna, Seðlabanka Íslands og margra fleiri.

Hollenskir túlípanarÁ síðari stigum varð meira að segja endurfjármögnun bankanna hluti af þessum aðgerðum, en áhugi erlendra fjárfesta á íslenskum bönkum vaknaði einmitt við hugsanlega ESB aðild landsins og eftir að ljóst var að gengið yrði frá Icesave skuldbindingunum. Það var fyrst þá sem þessir vogunarsjóðir og aðrir fjárfestar gerðu alvöru úr hótunum sínum varðandi málssókn á grundvelli neyðarlaganna frá því haust, en áður töldu þeir eignirnar í þrotabúinu einskis virði. Ríkisstjórninni tókst reyndar að semja um að ekki yrði af málssókn á grundvelli neyðarlaganna, en stjórnin verður í stað fyir því tjóni, að þeir geta ekki selt þessar eignir. Sennilega er hagur að þessu fyrir báða aðila, því málssókn er tímafrek og dýr og óvíst hvað aðilar hagnast á henni.

Eflaust naga þýskir og aðrir evrópskir bankar sig nú í handabökin fyrir að hafa ekki tekið tilboði ríkisins fyrr í vetur. Erlendir fjárfestar, t.d. vestanhafs, AGS, Bretar og Hollendingar og ESB átta sig auðvitað á því að aðildarumsókn að ESB stóreykur virði íslenskra banka, tryggingarfélaga og annarra fjármálafyrirtækja og fyrirtækja á Íslandi almennt. Mér finnst þetta liggja í augum uppi og skil ekki að enginn annar en ég sjái samhengið þarna á milli. Af þessum sökum er tímaröðin á öllum þessum hlutum svona:

  1. Aðildarumsókn ESB
  2. Icesave samningurinn
  3. Fjármögnun viðskiptabankanna og aðkoma erlendra lánadrottna að fjármögnun þeirra
  4. Lánafyrirgreiðsla AGS, Norðurlandanna og annarra landa
  5. Hægfara endurreisn Íslands
  6. Sigur "vinstri stjórnarinnar" og hugsanleg vinstri stjórn í 8-12 ár

Verði ESB aðild ekki samþykkt og verði Icesave samningurinn ekki samþykktur, mun ríkisstjórnin halda velli. Samfylkingin er að sjálfsögðu með Áætlun B og hefur ámálgað þennan möguleika við AGS og ESB, Breta og Hollendinga og aðra lánadrottna og samþykkt fyrir sitt leyti að Íslendingar verði þá að finna fyrir refsivendi AGS, ESB og annarra lánadrottna - enda lítið annað fyrir Samfylkinguna og aðra landsmenn að gera úr því!

Alþingi ÍslendingaVerði þetta niðurstaða Alþingis verða bankarnir ekki endurreistir á föstudaginn, fjármagn mun ekki flæða til Íslands frá AGS, Norðurlöndunum og öðrum sem vildu lána okkur fjármuni. Það sem við blasir eru fjöldagjaldþrot, 20-25% atvinnuleysi, 20% niðurskurður á fjárlögum ríkisins og sveitarfélaga og skattahækkanir. Þetta myndi m.ö.o. þýða að efnahagsáætlun Samfylkingarinnar myndi ekki verða að veruleika og við myndum líklega lepja dauðann úr skel næstu 10-15 ár. Samfylkingin mun nota hvert tækifæri til að benda á að meirihluti Alþingis hafi hafnað ESB aðild, hafnað Icesave samningnum og þar með skapað sér sjálft þessi grimmu örlög. Samfylkingin verður með pálmann í höndunum, hvernig sem þetta mál fer - því miður!

Samfylkingin mun síðan slíta þingi og boða til nýrra kosninga þegar henni hentar, þ.e. þegar þeir eru á flugi og fylgi VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er í lágmarki. Ekki yrði ég þá hissa á að hún hlyti hreinan meirihluta á Alþingi. Það er einmitt af þessum sökum sem Samfylkingin er algjörlega róleg núna. Sáuð þið glottið á Helga Hjörvar nýlega og hversu sjálfumglaður hann var í Kastljósinu og hversu glaður og sjálfsöruggur Össur var í ræðu sinni og hversu róleg og yfirveguð Jóhanna var þegar hún sagði að þetta yrði knappt. Undanfarna mánuði hefur hún skolfið eins og lauf í vindi við minnstu áreynslu. Hún veit nákvæmlega hvernig þessi atkvæðagreiðsla fer á morgun. Samfylkingin hefur ýjað að öllu þessu við forystu VG og hún mun tryggja að gengið verður til aðildarviðræðna og að Icesave samkomulagið verður samþykkt.

Er þetta ekki allt borðleggjandi?

 

 


mbl.is Niðurstaða um ESB á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Alltaf gaman þegar einfaldir búnir að fá sér tvöfaldan blogga um lífsgátuna.  En eitt skil ég ekki alveg hjá þér.  Innganga í ESB stóreykur virði fyrirtækja á Íslandi almennt.  Er þetta illa ígrundað hjá þér eða eitthvað sem þú hefur rannsakað í þaula? 

Svo er annað skondið hjá þér.  Þú heldur AGS lánið sé ætlað í fjárfestingar og uppbyggingu á Íslandi.  Ertu alveg viss?

Björn Heiðdal, 15.7.2009 kl. 23:06

2 identicon

Þetta er absólút mögnuð flétta! Það er efitt að vera sjálfstæðismaður og ESB-sinni, en ég segi bara, og sletti, "get a life"! Samfylkingin er eini flokkurinn sem er heill að baki ESB umsókn. Það þýðir ekki að hann sé í einvherju samkomulagi við andskotann. Aðrir flokkar eru í innbyrðisdeilum um þetta mál og verða að leysa það. Hér eru engar díabólískar fléttur að baki, en það verður erfitt fyrir núverandi stjórn að sitja ef aðildarumræður verða felldar. Þá verða þeir sem líta á framtíð Íslands utan ESB og án Icesafe að finna móta okkar framtíð. Verði þeim að góðu!

Gunnar (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 23:11

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón:

Tíminn mun leiða það í ljós.

Björn:

Að sjálfsögðu eru fyrirtækin meira virði þegar allt er komið af stað hér með hjá AGS og Norðurlandanna. Með tilkomu evrunnar og ESB inngöngu hafa evrópsk fyrirtæki meiri áhuga á fjárfestingum hér á landi. Ég get týnt einhver gögn til á morgun ef þú vilt, en staðreynd er að við inngöngu allra ríkja í ESB hafa fjárfestingar frá öðrum aðildarríkjum stóraukist og jafnvel frá ríkjum úr öðrum heimsálfum, sbr. Austur-Evrópu. Þarna er ekki um einhver óskhyggju að ræða frá mér, heldur knallharðar staðreyndir! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.7.2009 kl. 23:22

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Í framhaldi vil ég minna á orð Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra á Alþingi í kvöld, þar sem hann tók skýrt fram að aðildarviðræðurnar tækju örugglega ekki langan tíma.

Hvað veit hann sem við - ég meina þið - vitið ekki!!! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.7.2009 kl. 23:38

5 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Sæll Guðbjörn. Ég held ég fari nærri um hvað þú syngur, vegna þess að ég hef haft það hliðstætt og þú á tilfinningunni um langt skeið að einhverjir "plúsar" fyrir Ísland séu í umræðu á bak við tjöldin em við almenningur höfum ekki fengið að vita um enn; og Alþingi ekki heldur, nema innvígðir stjórnarmeðlimir. Þ.e. að efnahagslega dæmið sem við blasir sé ekki eins slæmt og það lítur út fyrir vegna einhverra væntanlegra séraðgerða og eftirgjafa eftir á af hálfu viðsemjendanna innan ESB, ekki síst að því er varðar aðila Icesave-málsins.

Megin-ástæðan fyrir þessari tilfinningu er ásamt öðru sú að annað getur ekki skýrt ótrúlegan viðsnúning Steingríms flokksformanns Vinstri grænna gagnvart spurningunni um "sjálfstæði þjóðarinnar" og að hans mati áður meintrar hættu fyrir það við inngöngu í ESB. Ef ekki er einhver svona "dulin" ástæða að baki, sem kæmi væntanlega smám saman í ljós þegar um hægist í umræðunni um efnahagsþrengingarnar á Íslandi erlendis, sérstaklega Icesave-málið, þá hefur eitthvað hræðilegt komið fyrir Steingrím og klofið fyrri viðhorf hans í herðar niður við það og eftir að hann varð fjármálaráðherra í núverandi ríkisstjórn. Ég hef hingað til litið á Steingrím sem einn af bitastæðari alþingismönnum okkar og óvenjulega sannan gagnvart sinni sannfæringu og því sem hann stendur fyrir, a.m.k. fram að síðustu stjórnarmyndun. - Nú er bara að bíða og sjá hvort og þá hvaða tilfinningar hafa hlaupið með hvern í hvaða gönur!

Kristinn Snævar Jónsson, 16.7.2009 kl. 01:05

6 identicon

Mjög skemmtileg spá og nokkuð ítarleg.  Þú nærð líka að gera hana skemmtilega sennilega.

Ef þetta rætist þá færðu fyrstu verðlaun (eins heiðarlega og vel meint og hægt er).

Það er samt eitt sem liggur í þessu, veit ekki hvort þú hugsaðir þetta þannig, og það er að ef þetta er svona þá er þetta fólk í Samfylkingunni afburðafólk, klókt með eindæmum.  Ef svo er, svo reynist vera, þá er ég mjög sáttur.  Bjóst ekki við því.

Sjáum nú hverju fram vindur (vona að þú hafir rétt fyrir þér).

Kveðja.

S.H.

S.H. (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 01:09

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Kristinn:

Þú ert gjörsamlega að lesa mig rétt, sérstaklega m.t.t. Steingríms J. Sigfússonar.

Ég er ekki fylgjandi VG og Steingrími, en satt er að hann er trús sinni sannfæringu. Það þarf eitthvað mikið að hafa gerst til að hann skipti svo um skoðun.

Auðvitað er ESB aðildin eins og trúarbrögð fyrir Samfylkinguna og þótt ég aðhyllist aðildarviðræður, set ég þann fyrirvara að ásættanleg niðurstaða komi út úr þeim fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn. Það sem sem er hins vegar áherslan sem Samfylkingin lagði allt í einu á þetta mál í vetur og sú áhersla jókst síðan í aðdraganda kosninganna. Tilfinning mín fyrir því að við þekkjum aðeins 50% sannleikans í bæði Icesave málinu og ESB málinu er svo sterk að ég hef aldrei áður fundið fyrir slíku.

Við megum ekki gleyma að að við erum aðeins 300.000 manna örþjóð norður í Íshafi. Sem afkomendur Norðmanna, Íra, Skota, Svía, Dana erum við þjóð, sem tengist Norðurlöndunum og ESB öðrum böndum en Eistland, Lettland og Litháen. Við erum fyrir Þjóðverja söguþjóðin í norðri, sem hélt utan um germanskan arf þeirra. Við megum ekki gleyma að Skandínavar - og þar með við - eru afkomendur fólks, sem dreifðist um Norðurlöndin frá Norður-Þýskalandi, þótt lítið hafi mátt minnast á það eftir misnotkun nasista á þeirri staðreynd. Þrátt fyrir að hafa deilt við Breta í þorskastríðunum, stóðum við á bak við þá í stríðinu og vorum með þeirra her í landinu, sem við tókum vel á móti. Við erum bandamenn í NATO og gamlir bandamenn sumra ríkjanna í EFTA o.s.frv. Við erum ríki, sem á djúpar rætur í vestrænni menningu og höfum aldrei farið með stríði gegn annarri þjóð. Allt þetta og mikið meira hjálpar okkur núna, þótt útrásarvíkingarnir hafi vissu skemmt mikið fyrir okkur á Norðurlöndunum og í nokkrum ESB. Ég held að ESB átti sig á þeirri staðreynd að við lentum í höndunum á forhertum glæpamönnum, en sú staðreynd er alltaf að koma betur og betur í ljós, sem unnu hér gífurleg efnahagsleg hryðjuverk eða réttara sagt stríðsárás og lögðu með því hagkerfið í rúst.

Af þessum sökum verðum við ekki skilin eftir í neyð af bræðraþjóðum okkar á Norðurlöndunum og frændþjóðum okkar innan ESB.

S.H.:

Já, eigum við ekki að vona að þetta reynist rétt hjá mér! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 09:09

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þú hefur ímyndunarafl Guðbjörn, full mikið í þessu tilfelli held ég. Á hvaða forsendum ættu hin Norðurlöndin að loka á lánveitingar til okkar þegar þau hafa lýst því yfir að Icesave-samningarnir séu ekki forsenda þeirra? Sama með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, við erum þegar með samning við hann óháð þessum samningum. O.s.frv. Einhverjar haldbærar skýringar yrði að gefa á slíku og hverjar ættu þær að vera? Að við vildum ekki ganga í Evrópusambandið?

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.7.2009 kl. 09:40

9 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þess utan þurfum við ekki lán heldur einfaldlega að auka framleiðni.

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.7.2009 kl. 09:41

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hjörtur:

Já, ég hef ímyndunarafl í góðum skömmtum og það er að mínu mati af hinu góða. Ímyndunaraflið kemur í góðar þarfir, þegar fylla þarf í eyður, en allt frá því í haust hefur íslenska þjóðin verið illa upplýst. Slæmt var þetta hjá ríkisstjórn Geirs H. Haarde, en nú er það enn verra!

Ef að ESB aðildarviðræðurnar verðar slegnar út af borðinu í dag er Samfylkingunni sama um örlög Icesave samningsins - þetta er sannleikurinn málsins. Í kjölfar þessa myndi meirihluti VG snúast á sveif með stjórnarandstöðunni og samningurinn yrði felldur. Þá fara viðræðurnar aftur af stað og í kjölfar þess munu þau lönd, sem vildu lána okkur, segja að í ljósi svo mikils pólitísks óstöðugleika á Íslandi, m.a. m.t.t. þess að Icesave samningurinn var ekki samþykktur og ekki hafi verið farið í aðildarviðræður, hafi löndin ákveðið að minnka eða fresta aðstoð sinni. Við verðum sett í kæli eða frysti í eins langan tíma og þarf!

Það sem ég er að segja er að þið ESB andstæðingar hafið á réttu að standa, þ.e. að þetta séu allt samantekin ráð AGS, ESB, Norðurlandanna og jafnvel Rússa. 

Það er hins vegar ekki kjarni málsins, heldur að við erum algjört peð í öllu þessu tafli og höfum alltaf verið. Af þeirri ástæðu verðum við að tefla skákina á klókan hátt, þ.e. með því að fara í aðildarviðræður, semja um Icesave og skoða næstu 6 árin hvort og hvernig við komumst út úr þessari vitleysu og eins og þú segir réttilega: framleiða meira, flytja meira út!

Það er eina leiðin út úr þessum vandræðum og þar getur ESB aðild, styrkir og önnur hjálp frá ESB, evra, stöðugleiki, erlendar fjárfestingar o.s.frv. hjálpað okkur!

Hvort sem þér líkar betur eða verra þurfum við hjálp frá þessu fólki til að komast á lappirnar aftur, stundum verður maður að kyngja þjóðarstoltinu í smátíma til að komast í gegnum erfiðleikana! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 09:56

11 identicon

Góð kenning sem setur margt í samhengi. Þannig að fyrir sjálfstæðismenn þá er strategískt að pönkast í VG eins hart og mögulega í þeirri von að þeir brotni. Það er mikilvægt fyrir íhaldið að hindra vinstri stjórn, sérstaklega langvarandi.

Því ef ESB og Icesave verður hafnað þá er það sama og vantraust á SJS og hann búin að vera pólitískt séð. Án SJS þá á VG ekki séns í kosningum - of mikið róttæki, engin agi, ekki hægt að treysta þeim í samstarfi,  hafa ekki þol í erfið mál osfrv. Eftir stendur Sjálfstæðisflokkurinn, hann tryggði EFTA og EES samninganna. Hann einnig hefur aga í eigin röðum, þol í erfiðar ákvarðanir og beygja harða og trausta hugsjónamenn eins og t.d. HJG.

Þannig að þetta yrði þá Viðey taka tvö. Kratar geta ekki treyst á kommana en íhaldið tryggir stuðning. Íhaldið fær síðan stuðning í eigin röðum vegna þess að þeirrra liðsmenn óttast kommana meira en ESB - lesser of two evils.

Spurninginn er bara hvað velur VG - Völdinn eða eigin sannfæring.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 10:21

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Magnús:

Þessu prjónar þú við mína spá og mér finnst þú spámannlega vaxinn! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 10:24

13 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

... og (gleymdi að bæta því við) ég kenni vinsamlegast í brjósti um Steingrím fyrir að vera svona illyrmislega á milli steins og sleggju, annað hvort að vita betur og geta bara ekki sagt frá því enn (um "plúsana"), eða, ef það er ekki ástæðan, fyrir að hafa gjörsamlega tapað áttum. Í báðum tilvikum getur hann ekki hönd yfir höfuð sér reitt og varist höggum - ennþá. Sannkallaður "Steingrímur".

Hitt er annað, eins og þú tæpir á í viðbótinni, að mér finnst það yfirmáta skrýtið hvað lítið er talað um raunverulega gerendur í Icesave-málinu og bankahruninu. Sannast þar hin gamalkunna speki að oft er bakari hengdur fyrir smið, sárasaklaus.

Gerendur í Icesave-málinu og skuldsetningum hinna þriggja íslensku einkabanka sem urðu gjaldþrota s.l. haust eru ekki íslenskur almenningur, Alþingi, torráðinn lagabókstafur né aðgerðalitlir opinberir starfsmenn á áhorfendabekk, heldur yfirstjórn bankanna þriggja, þ.e. bankaráð þeirra og sérstaklega bankaráðsformennirnir. (Aðrir bankastarfsmenn hafa væntanlega farið eftir markaðri stefnu og skipun þeirrar yfirstjórnar í þeim efnum).

Hins vegar er það jafnljóst að íslensku bankaráðsmennirnir hefðu ekki getað skuldsett íslensku bankana sína ef þeir hefðu ekki fengið "ómælda" fyrirgreiðslu og lán í erlendum bönkum. Það var á viðskiptalegum grundvelli. Þar komu aðrir íslenskir þegnar hvergi nærri. Almenningur tók þau lán sem honum buðust í góðri trú á banka og íslenska stjórnsýslu. Þegar dæmið gekk loks ekki upp hjá íslensku einkabönkunum s.l. haust sátu vissulega erlendu lánveitendurnir eftir með sárt ennið. Nema hvað?! - og verða að taka afleiðingum þess á viðskiptalegum grundvelli. Þeir höfðu eins og aðrir aðgang að tölum um stórhættulega skuldsetningu íslenska bankakerfisins sem endaði í tíu til tólf-faldri upphæð landsframleiðslunnar íslensku. Samt veittu þeir íslensku bönkunum lán! Þeir geta sjálfum sér um kennt! Erlendu kröfuhafarnir skulu snúa sér að þrotabúum íslensku einkabankanna þriggja og sækja yfirstjórnir þeirra, bankaráðin og bankaráðsformennina sem störfuðu í tíð einkabankanna, til saka og til greiðslu á réttmætum kröfum (hverjar sem þær teljast nú með rétti vera), en ekki íslenskan almenning og skattgreiðendur sem ekki komu nærri viðskiptasamningum föllnu bankanna þriggja og lánveitendum þeirra.

Það er ekki fallega gert af stóru ESB-þjóðunum að reyna að kúga íslenskan almenning (alþingismenn) með hótunum og gylliboðum til hlýðni, sem þeir virðast vera að gera til að redda sjálfum sér fyrir horn með hriplekt ESB-reglukerfi sitt sem lét þessa lána-óráðssíu íslensku einkabankanna afskiptalausa þar til allt fór í strand. Þeir vita reyndar að bankakerfi ESB í heild er í húfi og gæti hrunið eins og spilaborg ef almenningur innan ESB fær veður af því að innistæður þeirra í virðulegum bönkum innan ESB gætu verið ótrygg(ð)ar eða vantryggðar ef upp kæmi íslenskt fordæmi um það að ríkið sé ekki ábyrgt fyrir skuldum (einka)bankanna.

Með öðrum orðum: Alþingi Íslands á nú úr vöndu að ráða sem aldrei fyrr - og klukkan bráðum að verða tólf!

Ég segi nú eins og Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og rasandi frammi fyrir orðnum hlut: "Guð hjálpi íslensku þjóðinni!", en vil jafnframt bæta við: ... og hjálpaðu alþingismönnunum okkar að taka réttar ákvarðanir! - sem fyrst, og alltaf (eða a.m.k. sem oftast)!

Kristinn Snævar Jónsson, 16.7.2009 kl. 10:38

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Kristinn:

Flott athugasemd hjá þér!

Ég er algjörlega sammála þér varðandi ábyrgðarhlutann, þótt ég vilji nú bæta útrásarvíkingunum sjálfum við stjórnendur bankanna.

Ég get heldur algjörlega undanskilið yfirmenn Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans eða gert lítið úr ábyrgð þeirra stjórnmálamanna, sem við völd voru. Ítrekað var varað við gífurlegri útþenslustefnu íslensku bankanna og stjórnvöld og stjórnmálamenn skelltu skollaeyrum við þeim viðvörunum. Forystumenn þjóðarinnar gengu meira að segja svo langt að fljúga til útlanda og boða fagnaðarerindið um meinta fjármálasnilli hinna íslensku víkinga. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega minna á ferðir Ólafs Ragnars Grímssonar, Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til New York, Kaupmannahafnar, Kína, Miðausturlanda og Indlands, en ferðirnar voru í raun svo margar og langar að erfitt er að telja þær allar upp.

Guð hjálpar þeim, sem hjálpa sér sjálfir!

Af þeim sökum þurfum við að fara í aðildarviðræður og semja um Icesave og taka síðan slaginn við Bretana og Hollendingana innan ESB. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 11:34

15 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Guðbjörn,

mjög athyglisverð færsla hjá þér.

Ef þú hefur rétt fyrir þér þá mun þessi leið tryggja að Ísland verði ekki gjaldþrota ríki. Eftir sem áður eigum við sjálfsagt að borga sem mest af skuldum okkar. Því mun innganga í ESB gera okkur það mögulegt, samkvæmt þinni kenningu. Eftir stendur sú framtíð að við munum rétt slefa fyrir ofan núllið með púli og striti. Ungt fólk á Íslandi mun sjálfsagt reyna að velja sér annað land til búsetu.

Ég tel að kenning þín sé rétt því hún er í samræmi við markmið lánadrottna okkar. Það er ekki þeirra hagur að Ísland fari á hausinn og hér verði upplausn. Hagur lánadrottna okkar er að við borgum sem mest af skuldum okkar til baka á skipulagðan hátt. Því ferli finnst þeim best að stjórna frá Brussel því þeir eiga hvort er eð önnur erindi þangað.

Gunnar Skúli Ármannsson, 16.7.2009 kl. 15:01

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar Skúli:

Hárrétt skilgreint hjá þér.

Ég held meira að segja að það sé lánadrottnum fyrir bestu að fólk haldist í landinu, en að öðrum kosti fá þeir kröfur sínar ekki greiddar til baka! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 15:25

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, Einar, þannig er lífið!

Sumum er þetta gefið og öðrum ekki - þykir það leitt  

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 23:39

18 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, Einar, svona "by the way"!

Sástu hvernig atkvæðagreiðslurnar fóru í dag?

Næst eru það Icesave samningarnir, síðan "endurræsing" bankanna og svo ... 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 23:41

19 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já og núna er vinnan framunda!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband