Atgervisflótti brostinn á, stjórnmálamenn karpa um orðinn hlut ...

Lax að stökkvaÉg hef verið gagnrýninn á mína menn í Sjálfstæðisflokknum undanfarin 1-2 ár og fengið bágt fyrir frá mörgum. Þetta skiptir mig litlu máli, því ég get synt mjög lengi á móti straumnum, eða allt þar til meirihluti minna ágætu manna sér ljósið. Þessa gagnrýni mína á Sjálfstæðisflokkinn má ekki misskilja á þann hátt, að ég hafi yfir nóttu breyst í vinstri mann - eins og margir virðast halda - því fer nefnilega víðs fjarri. Ég deili ekki jafnaðarhugsjóninni með Samfylkingunni eða umhverfisöfgahyggju og skattahækkunar- og launaflatneskjustefnu VG, hvað þá blautum draumum beggja vinstriflokkanna um einhvern óskapnað, sem þeir kalla "norræna velferðarkerfið", sem yrði til þess að Íslendingar þyrftu að borga um og yfir 50% í launaskatt.

Ólafur ThorsNei, ég var upp á kant við mína menn í einu einasta máli, sem er að ég vildi ganga til aðildarviðræðna við ESB. Nú er þetta mál vonandi komið í farveg og þá held ég áfram að berjast fyrir því að við sjálfstæðismenn göngum til þeirra viðræðna af heiðarleika og dugnaði, eins og okkur er einum lagið, þ.e.a.s. ef við finnum þá eiginleika innra með okkur eftir allt sukkið og svínaríið undanfarin ár. Við sjálfstæðismenn verðum að taka ákvörðun um hvort við ætlum að taka þátt í aðildarviðræðunum eður ei. Flokkurinn verður einnig að taka afstöðu til þess, hvort hann ætlar að vera andsnúinn aðild um aldur og ævi, þ.e. hvaða niðurstöðu sem aðildarsamningurinn skilar okkur. Þessu máli er auðvitað hægt að fresta, en okkur er með því enginn greiði gerður. Skynsamlegast fyrir flokkinn er að koma strax með einhverja yfirlýsingu um málið. Að mínu mati væri skynsamlegast - og skapaði mesta sátt innan flokksins - að segja, að við svo búið ætli flokkurinn ekki að komast að niðurstöðu í þessu máli, þ.e. afstöðu um væntanlegan aðildarsamning. Þetta er þó ekki sú yfirlýsing, sem ég kysi persónulega að sjá - líkt og flestum er ljóst - því ég vildi sjá flokkinn segja að við vildum aðild, nema að samningurinn væri svo slæmur að hann útilokaði aðild.

Bjarni og Kjartan á SelfossiNokkru áður en samningurinn verður lagður í dóm þjóðarinnar, getur Sjálfstæðisflokkurinn síðan gert upp hug sinn, hvort hann vill taka afstöðu til samningsins eða ekki. Sjálfstæðislokkurinn getur einnig ákveðið að taka ekki afstöðu til samningsins - þótt vissulega væri það einkennilegt - , en eftirlátið það frambjóðendum flokksins að gefa upp afstöðu sína í þingkosningum, er fara munu fram samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn. Ef ekki er farin sú leið að eftirláta þingmönnunum eftir þessa ákvörðun, er að mínu mati deginum ljósara, að Sjálfstæðisflokkurinn mun klofna, því hvort sem flokkurinn yrði andsnúinn eða hlynntur viðræðum, myndu stuðningsmenn eða andstæðingar ESB aðildar stofna nýjan hægri stjórnmálaflokk til að tryggja framgang síns máls á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðisflokknum er því enn mikill vandi á höndum í þessu máli, þótt málin gætu auðvitað skýrst þegar samningurinn lítur dagsins ljós. Ef aðildarsamningurinn verður afburða góður eða slæmur gæti skapast samstaða um að hafna samningnum alfarið eða að stærstur hluti flokksins - aldrei harðlínumennirnir - samþykkti að styðja aðild Íslands að ESB.

Árn Johnsen - ESB andstæðingur nr. 1Auðvitað þurfum við sjálfstæðismenn, sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og stærsta stjórnmálaafl landsins - skv. síðustu skoðanakönnun - að halda uppi málefnalegri og heiðarlegri stjórnarandstöðu á Alþingi. Fyrir utan ESB málið, þar sem sumir þingmenn fóru að mínu mati offari í málflutningi og notuðust við lygar, ýkjur og aðrar rangfærslur í málflutningi sínum, hafa mínir staðið sig ágætlega. Þannig lögðu sjálfstæðismenn fram ágætis efnahagstillögur, þótt seint væri, og hafa verið með uppbyggilega umræðu um þau fáu mál, sem borið hafa á góma. Ég er allavega feginn að sjálfstæðismenn eru ekki á sömu vegferð og þingmenn Framsóknarflokksins, sem með lýðskrumi sínu og afstöðu sinni í ESB málinu, hafa tapað miklu af sínum trúverðugleika. Sömu sögu má segja um Borgarahreyfinguna.

Svavar Gestsson, Icesave klúðrari nr. 1Í Icesave málinu hefur málflutningur margra sjálfstæðismanna verið mjög góður. Þar hafa sjálfstæðismenn í raun verið með einu réttu stefnuna, sem byggist á því að samþykkja í sjálfu sér samningana - enda líklega ekki um annað að ræða. Mikilvægt sé hins vegar, að Hollendingum og Bretum sé ljóst, að þetta samþykki þingsins sé þó háð mjög ströngum skilyrðum eða fyrirvörum. Reyndar eru fyrirvarar í samningnum sjálfum, en lögfróðir menn eru þeirrar skoðunar, að þeir gangi ekki nógu langt og að þeir séu ekki nógu skýrir og að á þessu þurfi því að gera bragarbót. Þar sem ekki var vandað til í samningaviðræðunum, sem var stjórnað af "amatörum", þarf að bæta úr núna. Fyrirvararnir verða þó að vera þannig úr garði gerðir, að samningurinn verði samþykktur af Bretlandi og Hollandi. Við þurfum á því að halda, að úr okkar lánamálum leysist og að ekki hlaupi snurða á þráðinn í aðildarviðræðunum við ESB.

Kárahnjúkar - vinna fyrir allaÞegar þessu er lokið byrjar þó að mínu mati ballið. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, að stjórnarflokkarnir eru varla sammála um eitt einasta mál og nægir þar að nefna Evrópusambandið og Icesave, en einnig aðra hluti á borð við orkufrekan iðnað og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Það er einmitt orkan í iðrum jarðar og í fallvötnunum, sem er það við höfum og það er það sem útlendingar hefðu hugsanlega áhuga á að lána okkur út á og byggja upp hér næstu árin. Þarna er vaxtarbroddurinn í efnahagslífinu hjá okkur næstu ár, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er ljóst að hægt er að gera átak í ferðaiðnaði og það mun skila okkur auknum gjaldeyristekjum, en stóru peningarnir eru í raforkunni og olíunni. Ætlum við okkur að komast aftur á lappirnar, verðum við að vera dugleg og sparsöm, nýta þá landkosti sem við höfum og síðast en ekki síst ganga til samstarfs við Evrópusambandið.


mbl.is Hundruð flytjast til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þennan pistil Guðbjörn hann er góð hugleiðing. Ég tel að þau umskipti hafi orðið hér á landi að nauðsynlegt sé fyrir forustu Sjálfstæðisflokksins að boða til hreinskiptinna umræðna um stöðu og stefnu flokksins.

Jón Magnússon, 25.7.2009 kl. 10:47

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jón, hvað Evrópumálin áhrærir var það gert sl. vetur og niðurstaða fengin á landsfundinum í marz.

Hjörtur J. Guðmundsson, 25.7.2009 kl. 11:04

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón:

Já, og við munum öll hjálpast að við það!

Þjóðin þarf á okkur hægri mönnum að halda, því að með vinstri stefnu komumst við ekki út úr vandanum.

Íslendingar eru mjög ólíkir íbúum Norðurlandanna að því leyti að við erum einstaklingshyggjumenn en þeir eru meira félagshyggjufólk. Líklega kemur þetta til af því að hér voru kotbú og smá útgerðarbændur ráðandi - þótt hér hafi einnig verið mikið til að vinnufólki, á meðan erlendi voru búin stærri og almenningi meira skipt í húsbændur og hjú.  

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.7.2009 kl. 11:04

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hjörtur:

Það er gott og blessað að vera Íhaldsmaður, en ég held að jafn skynsömum manni og þér megi vera ljóst að landsfundarsamþykktin er ekki lengur "aktuell", þar sem við höfum sótt um aðild.

Nú þurfum við að taka ákvörðun um hvort við ætlum að taka þátt í aðildarviðræðunum á uppbyggilegan hátt eða lýsa því yfir að við séum um aldur og ævi andsnúin ESB, hvað sem raular og tautar. Ég veit að það er það sem þú vilt, en sé það vilji forustu flokksins er flokknum stærri vandi á höndum en þig grunar. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.7.2009 kl. 11:13

5 identicon

Góður pistill. Ég er á sama báti og þú. Finnst eins of flokkurinn minn hafi mist tökinn. Gömlu kex-in eru enn að láta í sér hvína af og til.

Við erum æði margir í flokknum sem erum ESB sinnar, þingið hefur ákveðið að ganga til samninga. Betra að við eigum sæti að því borði. Það sem annars mun gerast er að menn eins og ég munum kjósa ESB flokk einusinni til að tryggja inngöngu.

Jón (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 15:00

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón:

Hjörtur, Loftur, Jón Baldur og félagar segja samt að við ESB sinnar innan flokksins séum ekki til, en allsstaðar sem ég fer hitti ég slíka, nema kannski í í Vestmannaeyjum, Höfn í Hornafirði, Þorlákshöfn og í Grindavík!

Flokkurinn hleypur á eftir fylgi ESB andstæðinga innan flokksins en lætur fylgi ESB sinna lönd og leið og það mun á endanum hafa afleiðingar.

Sennilega er þetta rétt hjá þér og menn munu kjósa Samfylkinguna einu sinni til að tryggja inngöngu Íslands í ESB, þ.e.a.s. ef aðildarsamningurinn verður þá ásættanlegur. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.7.2009 kl. 16:10

7 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

,,hvað þá blautum draumum beggja vinstriflokkanna um einhvern óskapnað, sem þeir kalla "norræna velferðarkerfið", sem yrði til þess að Íslendingar þyrftu að borga um og yfir 50% í launaskatt"

Já þær eru mismunandi hugsjónirnar hér í heimi.  Tók eftir í fréttum nýverið  að Arnold Schwarzenegger bæjarstjóri sker niður allt mögulegt í kreppunni, velferðarflokkunum, menntakerfinu, heilsugæslunni lækkar ellilífeyrisgreiðslur og fl.og fl. gerir allt nema hækka skattana. Hugsar vel um sína.   

Þórdís Bára Hannesdóttir, 25.7.2009 kl. 19:29

8 Smámynd: Björn Halldórsson

Hvet ykkur ESB kumpána til þess að ganga til liðs við Samfylkinguna. Leiðandi afl til framtíðar í Íslenskum stjórnmálum. Jafnaðarstefnan hefur aldrei átt meira við en nú á tímum misréttis og svo er SF eini flokkurinn sem treystandi er til þess að koma Íslandi inn í Evrópubandalagið.

Björn Halldórsson, 25.7.2009 kl. 20:46

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Nú er eg enginn sjálfstæðisflokksmaður og hef aldrei verið - en talandi um esb og Sj.st.fl - Þá er nú samt engu líkara að einhver sé búinn að rugla skelfilega í sumum þingmönnum varðandi esb.  Það er td. átakanlegt að sjá mann eins og Guðlaug þór hérna á Hrafnaþingi (dáldið langur þáttur og umræður byrja ekki strax)

http://www.inntv.is/Horfaáþætti/Hrafnaþing/Hrafnaþing17072009/tabid/979/Default.aspx 

Þorsteinn Páson verður að útskýra fyrir honum grunnstaðreyndir varðandi esb.  Guðlaugur talar bara eins og Hjörtur í Heimssýn !  Nei, meðan ástandið er svona - þá er ekki að vænta mikilla breitinga varðandi afstöðu sjalla gagnvart esb, held eg.

(Það eru nú nokkrir góðir punktar í þessum umræðum.  Td. er verið að tala um hvernig esb muni þróast, þá bendir Þortsteinn skemmtilega á,  að þegar Ísland gekk í NATO undir, má segja,  forystu sjalla, þá þurfti Bjarni Ben aldrei að ræða það hvenig NATO yrði hugsanlega kannski eftir 60 ár)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.7.2009 kl. 22:15

10 Smámynd: Einar Þór Strand

Ein spurning hvað villtu sækja til ESB?

Einar Þór Strand, 25.7.2009 kl. 23:46

11 identicon

Áhugavert myndband með Þorstein Pálsson og Guðlaug Þór.

Mig langar samt gjarnan að vita hvenær Ingvi Hrafn missti vitið, eða hvort hann hefur alltaf verið svona geðveikur.

Ég sjaldan séð jafn ómálefnanlega fjölmiðil, stunda jafnmikla barsmíði á íslenska tungu.

Það væri gaman að sjá Ingva og aðra hægrimenn koma einu sinni hreint fyrir fyrir sínum dyr, og viðurkenna að það voru þeirra menn og þeirra nýfrjálshyggja sem lagði Ísland í rúst.

Það er svo sorglegt að sjá Ingva Hrafn haga sér eins og einhver drukkinn prédikari og kenna Svíum um ástandið okkar.

Sveinn Guðbjörgsson (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 10:08

12 identicon

Einn viðauki hér.

Í þessu myndbandi staðhæfir Hallur Halsson einnig að ef Íslendingar gengu í ESB myndi, myndi enskan verða okkar opinbera tungumál innan 200 ára.

Síðast þegar ég vissi notaði ESB mikla fjármuni í að varðveita tungumála arfleiðir hinna mörgu tungumála ESB þjóða. Vinkona mín sem starfar innan ESB sagði mér að miklar fjárhæðir væru sett í verkefni sem að snúast um að styrkja stoðir tungumála og mállýskur sem standa á höllum fæti, t.d. Velsku og Katalónísku.

Sveinn Guðbjörgsson (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 10:34

13 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Finnst þér ekki athyglisvert Guðbjörn að stór hluti flóttans er til Noregs ríkis sem er búið að fella aðild að ESB og er núna með þeim ríkjum sem að standa einna best af sér kreppuna. Við erum ekki ólík Noregi her er fiskur ef he´re kemur olía líkjumst við þeim enn meir og eftir því sem að við byggjum upp meiri iðnað gerum við það einnig. Því er svolítið kaldhæðnislegt að aðalflóttin virðist liggja til Noregs og Kanada ríkja sem hafa það ekki á stefnuskrá sinni að ganga í ESB fljótlega.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 26.7.2009 kl. 10:35

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Aðalsteinn:

Enn er hér engin olía og fiskurinn er að skornum skammti og mun ekki standa undir áframhaldandi aukningu hagvaxtar hér á landi, nema þá að við göngum í ESB, en þar með myndu tolla á fullunninn fisk falla niður og við gætum farið að fullvinna fiskinn hér á landi og til hinna ESB ríkjanna.

Það er engin kaldhæðni í þessu og því miður ekki hægt að bera saman Ísland og Noreg í þessu tilliti.

Hvað gerist hjá þeim þegar olían er búin og olíusjóðurinn líka, hefurðu pælt í því? Norðmenn voru með fátækari ríkjum Norðurlandanna áður en olían fannst, það er staðreynd!

Ef hér finnst olía, sem ég auðvitað vona, þá hrifsar ESB hana ekki til sín, frekar en olíu Breta eða Dana.

Sveinn:

Það var engin "nýfrjálshyggja" sem kom okkur á hausinn, heldur glæpamenn í íslensku bönkunum og svo glæpamenn í "íslensku útrásinni".

Auðvitað gengu menn of langt í afnámi reglna í fjármálageiranum á undanförnum áratugum og það var gert til að auka frelsi í viðskiptum. Við megum hins vegar heldur ekki gleyma hverju þetta frelsi í viðskiptum hefur skilað í þróunarlöndunum og á Vesturlöndum í auknum lífsgæðum. Það hafa ekki einungis slæmir hlutir komið út úr auknu frelsi í viðskiptum. Við Íslendingar eigum allt okkar undir því að frelsi í viðskiptum viðgangist og fórum fyrst að hafa það sæmilegt hér þegar við fengum viðsskiptafrelsi (afnám einokunar). Að ég tali nú ekki um aukningu viðskipta á fyrstu tveimur áratugum 20. aldar, sem síðan kom bakslag í heimskreppunni miklu. Mistökin, sem gerð voru í kjölfar heimskreppunnar, voru einmitt að fara of langt í hina áttina og setja of miklar hömlur og takmarkanir á milliríkjaverslun. Þessar hömlu, sem birtust m.a. í tollamúrum og tæknilegum hindrunum á viðskiptum landa á milli, urðu til þess að hagvöxtur minnkaði mikið. Síðast en ekki síst urðu þessir tollamúrar til þess að iðnvædd ríki héldu sínu forskoti og fátæku ríkjunum tókst ekki að brjótast út úr fátækt sinni með því að selja ódýr matvæli og annan varning til iðnvæddu ríkjanna í skiptum fyrir vélar og tæki til að komast á sama "standard" og Vesturlönd. 

Með takmörkunum á viðskiptum eru allir að skjóta sig í fótinn! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.7.2009 kl. 12:30

15 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Auðvitar er hægt að líkja okkur við Noreg og ætti Guð Guð að muna að þeir fóru heldur ylla út úr stríðinu, en víst hefur olían hjálpað til. Það var Gro Harlem Brundland sem sem kom Noregi vel á lappirnar með mjög svo mikilli frekju og 2 ára verðstöðvun. Ég man að viðskiptavinir mínu sögðust aldrei haft eins mikið á milli handanna eins og þá!! Ég er búinn að vera þarna ansi lengi og er þetta eins og að koma heim nema hvað spillingin er ekki svona hroðaleg og menn ERU HANDTEKNIR ÞAR fyrir svona starfshætti eins og hefur tíðkast undanfarin 20 ár á Íslandi. Það liggur við að blindir sjái þetta

Wolfang

Eyjólfur Jónsson, 27.7.2009 kl. 13:17

16 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Tja - hmm, spurning hver er rétta leiðin?

Samþykki með fyrirvörum, er sama og að hafna núverandi samningi, nema ef mótaðilarnir samþykkja þann gerning. Þá, hefur samningnum verið breytt.

Því sama má ná fram, með því að einfaldlega láta málið dragast nægilega lengi, þar til núverandi samkomulag er fallið úr gildi, skv. ákvæðum þess. En, þ.e. tímarammi, sem kemur fram, ef samingurinn er lesinn. Ef hann er ekki uppfylltur, er samkomulagið fallið alveg sjálfkrafa.

Einfaldast, er að Alþingi samþykki, helst með miklum mun, ályktun þ.s. kemur fram, að Alþingi samþykki í prinsippinu að Ísland muni taka á sig ábyrgðir sambærilega þeim sem Icesave samkomulagið kvað á um. Einnig, að Alþingi lýsi sig viljugt til að semja um slíkar ábyrgði. Að auki, að fram komi rammi um það, hvernig samkomulag Alþingi sé til í að ræða.

Ef þessi hlutir koma skýrt fram, ætti alveg að vera hægt að hefja nýjar samingaumleitanir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 29.7.2009 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband