2.4.2007 | 11:00
FRUMRAUN BLOGGARANS
SADDA ÞJÓÐIN
Ég er búinn að fylgjast með mbl-blogginu um nokkurn tíma og verð að viðurkenna, að þótt ég hafi í byrjun verið ögn skeptískur á þennan miðil í byrjun, þá hefur hann á stuttum tíma heillað mig algjörlega upp úr skónum. Í kjölfar úrslita kosninganna í Hafnarfirði í gær ákvað ég síðan að slá til og byrja að tjá mig á þessum vettvangi um menn og málefni, þó aðallega málefni. Þetta er gert í von um það að geta snúið einum villuráfandi sauði á rétta braut.
Ég verð að viðurkenna, að ég er í hópi þeirra, sem frekar hefðu viljað sjá álverið í Straumsvík stækka en leggjast af. Hins vegar hafði ég að sumu leyti skilning á sjónarmiðum andstæðinga stækkunar, sérstaklega m.t.t. þess að álverið er að komast inn í miðja byggð. Ég sá á forsvarsmönnum Sólar í straumi, að þeir margtöluðu um að ekkert hefði í raun breyst og að hafnfirðingar myndu vakna í dag og allt væri líkt og áður en straumsvíkurfárið braust út fyrir nokkrum mánuðum. Þetta finnst mér skelfileg einföldun á málinu og ég veit ekki hvort um óskhyggju eða forheimsku er að ræða. Auðvitað er ekkert eins og það var áður en þessi umræða hófst. Öllum hafnfirðingum má vera ljóst að álverið er í dauðteygjunum og að yfirlýsingar Rannveigar Rist varðandi framtíð álversins voru ekki hótanir, heldur blákaldur sannleikurinn. Að mínu mati verður að öllum líkindum ekki beðið til 2014 eða hvenær orkusamningurinn rennur nú út heldur verður álverinu lokað á næstu 3-4 árum. Ég vona að þá verði þetta eitthvað annað komið komið á koppinn, því annars er hætt við að nokkuð margir hafnfirðingar verði nauðbeygðir til að leita vinnu eitthvað út fyrir Hafnarfjörðinn jafnvel til annarra landa. Þetta á ekki síst við ef spá Seðlabankans um 5 % atvinnuleysi og frekar harða lendingu verður að veruleika. Það sem mér finnst oft skrítið við lýðræðislegar kosningar er að líkt og í þessu tilfelli geti 89 einstaklingar á kosningaaldri hugsanlega með augnabliksákvörðun og án þess að hafa kynnt sér málin til hlýtar svipt á einu bretti hundruði fjöldskyldna í Hafnarfirði afkomu sinni.
HJÁLPAR KANNSKI HÓFLEGT ATVINNULEYSI OG MINNI HAGVÖXTUR?
Hér hægra megin má sjá mynd af starfsmönnum álversins Hamburger Alu-Werke haustið 2005. Um nokkurra mánaða skeið mótmæltu þeir lokun síns vinnustaðar, en því miður án nokkurs árangurs. Í lok október árið 2005 lokaði álverið og þúsundir íbúa lífsviðurværi sitt. Opinberar tölur í Þýskalandi segja að atvinnuleysi sé um 9.8 % eða 4.108.000 manns. Réttar tölur eru miklu hærri, þar sem hið opinbera fegrar tölurnar með allskyns atvinnubótavinnu.
1986-1998 bjó ég meira og minna í Austur-Þýskalandi, Vestur-Þýskalandi, Sviss og sameinuðu Þýskalandi. Þetta var á þeim tíma í lífi mínu þegar ungt fólk mótast. Þegar ég kom til Austur- og Vestur-Berlínar var Vestur-Þýskaland á hátindi velmegunar tímabils síns. Um margt minnir mig ástandið hjá okkur núna á þetta ástand. Þýska þjóðin var södd og hálfpartinn hrokafull og það sem meira var, hún vissi ekki hvað hún hafði það gott og hvers vegna hún hafði það svo gott. Stuttu síðan voru þýsku ríkin sameinuð og núna vita allir sem fylgjast með heimsmálum að ástandið hefur verið mjög slæmt undan 15-17 ár, þótt aðeins séu þeir að rétta úr kútnum eftir að tveir stærstu flokkar landsins tóku sig saman og fóru í stórar aðgerðir.
Að mínu mati þarf þjóðin kannski á smá bakslagi að halda núna til að átta sig á hlutunum. Því væri hugsanlega rétt að setja stopp á allar virkjanir og stóriðju í einhver fjögur ár. Þá sjáum við grænt á gráu hvort þeir sem missa vinnuna í álverinu fá ekki vinnu hjá við eitthvað fjármálavafstur í London hjá KB banka og múrararnir í kerskálunum geta snúið sér að hugbúnaðargerð fyrir Microsoft.
En grínlaust, hafnfirðingar hafa sagt sína skoðun, það ber að virða og að taka afleiðingunum. Nú þarf Sól í straumi að axla ábyrgð gjörða sinna og útvega þessu fólki, sem er að missa vinnuna, öruggt og vellaunað starf, t.d. við þetta óskilgreinda eitthvað annað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.