Náttúrverndarsinnar, herandstæðingar og aðrir sértrúarhópar

Hverjir eruð þið "náttúruverndarsinnar" að dæma þá, sem vilja nýta landsins gagn og gæði líkt og fyrri kynslóðir Íslendinga gerðu? Hvernig getið þið fullyrt að við elskum ekki landið okkar og náttúru þess?

Hvað með hann móðurafa minn, Skúla Jóhannesson, í Laxárdal í Dölum vestra, sem braut landið sitt og virkjaði bæjarlækinn? Elskaði hann ekki landið sitt, þótt hann hafi reynt að auka gæði þess sjálfum sér, fjölskyldunni og landinu öllu til góða. Hvað með hana ömmu mína blessunina, Lilju Kristjánsdóttir, sem stóð honum við hlið og hjálpaði honum í lífsbaráttunni, sem oft var hörð og miskunnarlaus. Það var mikið um dýrðir að Dönustöðum í Dölum, þegar fyrsta vatnið fór í gegnum litlu rafstöðina og rafmagnsljósið tindraði.

Hvað með föðurafa minn, Jens Hallgrímsson, sem var sjómaður og réri til fiskjar til að hafa ofan í sig og sína. Hvað með ömmu mína, Sigríði Ólafsdóttur, sem þvoði þvotta fyrir aðra í hitaveituvatninu í laugunum í Reykjavík, til að peningar væru til fyrir mjólk. Það var mikil umbreyting, þegar rafmagnsframleiðsla hófst í Reykjavík árið 1921 og fjölskyldur í Reykjavík fengu rafmagn. Það hefði verið dimmt í skammdeginu hjá afa og ömmu og börnum þeirra í Vogi á Baugsveginum í Skerjafirði hefði hin forljóta stífla og uppstöðulón í Elliðaárdalnum ekki verið byggð.

Allt var þetta fólk aðeins að nýta sér gæði landsins síns. Hver var að gera það á sinn hátt og allt elskaði þetta fólk landið sitt. Eðli málsins samkvæmt var það sennilega bundið landinu sterkari böndum en við, því það barðist við náttúruöflin og þurfti að hafa meira fyrir því landið gæfi það af sér, sem duga átti til lífsviðurværis á hverjum degi. Það var ekki alltaf fólkið, sem hafði betur í bardaganum við landið og náttúruöflin og líkt og aðrar fjölskyldur varð mín fjölskylda fyrir barðinu á því. Á þessum tíma voru Íslendingar ekki að velta því fyrir sér hvort Íslendingum myndi finnast  virkjunin í Elliðaárdalnum falleg eða ljót á því herrans ári 2008. Nei, þetta fólk var of upptekið við brauðstritið til að hafa áhyggjur af því.

Núna eru, sem betur fer, aðrir tímar, en sama fólk byggir þó í raun landið. Önnur tækni og tækifæri hafa komið til sögunnar til að nýta landsins gæði og auðvitað grípum við þau. Eins gerir náttúruvernd aðrar kröfur, t.d. varðandi umhverfismat o.s.frv., og það er einungis af hinu góða. Tíminn stöðvast ekki og áfram munum við líkt og forfeðurnir verða að nýta gæði landsins til að geta lifað af hér á hjara veraldar. Líkt og Norðmenn og Danir pumpa upp olíunni notum við okkar auðlindir. Líkt og Danir hafa fellt nær allan skóg og brotið nær allt landið til ræktunar, bæði til eigin nota og til útflutnings, líkt og Bretar, þjóðverjar og Frakkar hafa mokað upp kolum og brennt og notað í stálbræðslur í langan tíma.

Það eru hins vegar "handhafar hins eina endanlega sannleika", sem vekja mér áhyggjur og þarna á ég að sjálfsögðu við þá sjálfskipuðu "umhverfisverndaröfgasinna", sem mikið hefur borið á undanfarin ár. Mér finnst málflutningur þessa fólks einkennast af vissu yfirlæti eða skynhelgi. Já, ég vil segja "umhverfishelgislepju" og þar gengur "yfirgúrúinn", Björk Guðmundsdóttur fremst í flokki

Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni, að þessu fólki þyki það vera betra fólk en við hin  - raunsæisfólkið, sem vill nýta gæði landsins til að halda þessu skeri gangandi næstu árin og áratugina. Svo sterkur hefur áróðurinn verið - enda flestir blaðamenn leigupennar þessa fólks - að hálf þjóðin trúir orðið þessari vitleysu og vill auðvitað ekki vera í "lúsera" liðinu, sem vill virkjanir og álver. Nei, það er "hip" og "kúl" í dag á Íslandi að vera á móti atvinnuuppbyggingu. Hin firrta þjóð, sem í langan tíma hefur upplifað einstakt góðæri og ekkert atvinnuleysi, hefur verið heilaþvegin og veit auðvitað ekki betur, henni er vorkunn. Annarsstaðar í Evrópu og stendur fólk fyrir framan álver og önnur atvinnufyrirtæki og mótmælir lokun þeirra harðlega, veit sem er hversu mikilvægt það er að hafa góða og vel launaða vinnu. Annarsstaðar í heiminum, þar sem hungrið sverfur að, fagnar fólk því þegar verksmiðjan opnar í þeirra bæjarfélagi.

Umhverfisverndarsinnar haga sér þó hvað flest varðar litlu skár en við hin. Til þess að hressa upp á slæma samvisku sína, standa þeir fyrir einhverskonar "hópsyndaaflausnum". Þannig safnast þetta fólk saman reglulega:hlustar á rokktónleika, mótmælir eða festir ykkur upp í mastur einhversstaðar á hálendinu. Við þessar helgiathafnir skilur það yfirleitt illa við, sbr. þau reiðarinnar býsn af áldósum og plastflöskum sem þurft að hreinsa í burtu eftir stórtónleika Bjarkar.

Líkt og aðrir sértrúarhópar þarf þessi að hafa leiðtoga og af einskærri hógværð og lítillæti hefur Björk Guðmundsdóttir tekið það hlutverk að sér. Og líkt og með flest önnur trúarbrögð þarf að vera heili eða fræðimaður á bak við bókstafstrúna, en þar á ég að sjálfsögðu við Andra Snæ Magnason. Andri skrifaði niður hina heilögu ritningu Umhverfisverndarsinna, Draumalandið, sem vitnað er í á hátíðlegum trúarstundum. Almannatengslafulltrúi eða áróðursmeistari, sem lengi vel var "sponseraður" af ríkinu og hafði ótakmarkaðan aðgang til að koma áróðri á framfæri hjá RÚV, hefur lengi verið til staðar. Honum hentaði þó betur að vera dulbúinn til að byrja með, en að lokum kom hann út úr skápnum eftir að hafa afneitað trúnni nokkrum sinnum opinberlega. Sjónvarpsþættirnir hjá Ómari voru svo frábærir að eini samanburðurinn er við Leni Riefenstahl. Bernharður Guðmundsson og eftirmenn hans hjá Þjóðkirkjunni komast aldrei með tærnar, þar sem Ómar Ragnarsson og hans fylgismenn eru með hælana í þessum efnum. Ég kann ekki við að nefna þann óróðursmeistara á nafn, sem mér dettur helst í hug, svo langt geng ég ekki.

Á milli trúarsamkoma - þar sem hópsefjunin fer fram - þeysist "yfirgúrúinn" heimshornanna á milli á útspýjandi og mengandi þotum og þá sennilega ekki í sjálfboðavinnu? Hún fullyrðir allavega að það sé hægt að græða jafnmikið á poppi og á álverum. Það er ekki græðginni eða mikilmennskubrjálæðinu að fara fyrir á þeim bænum, heldur hógværðinni og lítillætinu.

Þessi "öfgaumhverfistrúarbragðastefna, sem tröllríður öllu í dag varðandi umhverfismálin - og þá er ég ekki að tala um þá auknu almennu umhverfisvitund, sem vaknað hefur á undanförnum árum og er nauðsynleg og af hinu góða, heldur firringuna - minnir mig óneitanlega á gömlu herstöðvarandstæðingana, sem voru einnig þeirra tíma góða samviska Íslands. Herandstæðingar sjá aldrei neina hættu neins staðar. Þeir segjast trúa á það góða í manninum. Sagan segir okkur ekki er heillavænlegt að trúa einungis á hið góða og nægir að minna samskipti Neville Chamberlain og Adolfs Hitlers í því sambandi.

Herstöðvarandstæðingarnir fengu líka svona "hópsyndaaflausn", þegar þau mótmæltu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna eða þegar þeir marseruðu til Keflavíkurflugvallar. Það er alltaf viss hluti af fólki, sem heldur að það sé hin góða samviska heimsins og viti allt betur en allir aðrir. Það skrýtna er að þessi hópur lítur svipað út, nema í stað Hekluúlpunnar er það núna komið með Palestínuklút, en "holningin" er sú sama.

Síðan höfum við hinn öfgahópinn, sem situr í Bandaríkjunum og marserar í bláum jakkafötum og með fallegt bindi annaðhvort í kirkju á hverjum sunnudegi og biður fyrir syndugum, eða þrammar í herbúningum inn í Víetnam, Kóreu, Kúpu og í seinni tíð inn í Afganistan og Írak. Það einkennilega er að þessir hópar þola ekki hvorn annan- þrátt fyrir að vera mjög líkir - fyrir utan klæðaburðinn að sjálfsögðu.

Þetta minnir mig einnig á gömlu kommúnistana, sem voru alltaf að tala um að frelsa fólk undan okinu. Framkvæmd stefnunnar varð að þessir sömu kommúnistar undirokuðu stóran hluta mannkyns um áratuga skeið - og gera reyndar enn í Kína. Sumir voru jafn trúir sinni stefnu í þessum efnum, þrátt fyrir fjöldamorð kommúnista á saklausu fólki í Sovétríkjunum, Kína og víðar og innrásir Sovétríkjanna í hvert ríkið á fætur öðru í Kalda stríðinu - 100 milljónir fórnarlamba.

Þetta minnir mig einnig á George W. Bush og innrásina inn í Írak (700.000 fórnarlömb), Joseph McCarthy og þær hræðilegu ofsóknir, sem hann stóð fyrir á sínum tíma, Adolf Hitler, Benito Mussolini og Seinni heimsstyrjöldina (50 milljónir fórnarlamba), Francisco Franco og ógnarstjórnina á Spáni og Augusto Pinchet og ógnarstjórnina í Chile (35.000 fórnarlömb), svo ekki sé hægt að saka mig um að nefna ekki báðar öfgarnar til hægri og vinstri.

Við erum öll samsek þegar kemur að umhverfissyndum og þurfum svo sannarlega að velta umhverfismálum fyrir okkur núna strax og í framtíðinni. Hluti af þessari breyttu hugsun er einmitt að nýta endurnýjanlega orku hér á landi til framleiðslu á áli. Annað skref væri t.d. að breyta samgöngum á Íslandi: léttlestakerfi, rafmagnsbílar o.s.frv.

Allar öfgastefnur eru jafn slæmar, hvort sem þær eru til hægri eða vinstri. Sama gildir auðvitað um umhverfismál, þjóðfélagsmál almennt (kapítalisma og kommúnisma) eða trúarbrögð (öfgar í kristni eða múslimatrú).

Meðalhófið er best.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Guðbjörn frábær grein hjá þér.

Kv. Sigurjón Vigfússon 

Rauða Ljónið, 13.7.2008 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband