Spyrjum að leikslokum

Harold Wilson, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sagði eitt sinn að ein vika væri langur tími í stjórnmálum. Þessi orð mín má ekki skilja sem svo að létt verk sé framundan fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Óskar Bergsson við að endurheimta traust borgarbúa. Verkefnið er samt að mínu mati viðráðanlegt og treysti ég Hönnu Birnu ágætlega til þeirrar vinnu. Hanna Birna hefur sýnt af sér festu og myndugleika og minnist ég sérstaklega frammistöðu hennar á hinum fyrsta borgarstjórnarfundi fyrrverandi meirihluta - númer 3 - í janúar síðastliðnum, þegar krakkalýður, stjórnleysingar og kommúnistar voru uppi með skrílslæti, dyggilega studd af borgarfulltrúum þáverandi og núverandi minnihluta í Reykjavík.

Ég held samt sem áður, að mikilvægt sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík að skoða árangur borgarstjórnarflokks síns næsta árið og taka að því loknu ákvörðun, hvort nauðsynlegt sé að stilla upp algjörlega nýjum frambjóðendum í næstu kosningum. Ljóst er að flokksforustan verður einnig að fylgjast betur með gangi mála í Reykjavík og annarsstaðar en hún hefur gert undanfarin tvö ár. Það getur borið vott um mikinn styrk og vilja formanns og varaformanns að vera ekki sífellt að grípa inn í atburðarásina og vísa ég þá til stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum nú um stundir. Það þarf líka sterkan formann til að leyfa þingmönnum - og jafnvel ráðherrum - að tjá sig frjálst og óhindrað í sumum málum, þar sem menn greinir á, s.s. innan Samfylkingarinnar varðandi virkjunar-og stóriðjuáform. Síðan þarf auðvitað tvo sterka forystumenn þegar flokkar eru ekki alltaf sammála, líkt og auðsjáanlegt er varðandi Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Flokkarnir eru tveir ólíkir stjórnmálaflokkar - annar miðjuflokkur til vinstri og hinn miðjuflokkur til hægri. Oft er flokkarnir sammála en auðvitað greinir þá einnig á og slíkt er fullkomlega eðlilegt.

Mér fannst aginn innan Sjálfstæðisflokksins á stundum allt of mikill þegar Davíð var við völd og kann í raun betur að meta stjórnunarstíl Geirs H. Haarde og Þorgerðar Katrínar. Hins vegar finnst mér að bæði Geir Hilmar og Ingibjörg Sólrún ættu að íhuga, hvort ekki færi betur á að reyna að lækka "prófílinn" aðeins á ágreiningnum í haust og næsta vetur og sýna meiri samstöðu. Sjálfstæðar skoðanir þingmanna og ráðherra eru góðar og gildar og auðvitað eru þingmenn samkvæmt stjórnarskrá aðeins bundnir af eigin samvisku, en allt er gott í hófi. Þegar almenningur er órólegur er óskað eftir festu og öryggi í stjórn landsins. Ég sakna þessa í núverandi samstarfi og minnist með söknuði samstarfs Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. 

Ljóst er að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa fengið tvö tækifæri á þessu kjörtímabili og klúðrað þeim báðum. Nú hafa þau fengið þriðja tækifærið til að sanna sig og væri að mínu mati óskynsamlegt og óréttlátt að veita þessu sama fólki fleiri tækifæri til að sanna sig. Það er mikið til að hæfu fólki á öllum aldri innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem bíður á hliðarlínunni. Það sama gildir að sjálfsögðu um landsmálin.


mbl.is 26,2% segjast styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Sjáfstæðisflokkurinn situr upp með borgarfulltrúa sem hafa brugðist kjósendum, sjálfum sér og öðrum. Það er staða sem breytist ekki þó skipt sé um hækju. Orðspor Framsóknar í borginni er ekki líklegt til fylgisaukningar...

Hanna Birna er ekki að ná til fólks.... pirruð, stíf, ómálefnaleg.... svona er þetta nú bara minn kæri.

Jón Ingi Cæsarsson, 17.8.2008 kl. 11:59

2 Smámynd: Björg Árnadóttir

Ég held að Gísli Marteinn sé einmitt þess vegna að fara úr landi og í nám. Þá getur hann komið aftur eftir hæfilega langan tíma og kynnt sig sem "nýjan" kandidat í borgarmálum en þó með reynslu! Ég er reyndar mest hissa að það skuli ekki fleiri borgarfulltrúar reyna að skilja sig frá borgarmálefnunum eins og staðan hefur verið undanfarið.

Björg Árnadóttir, 17.8.2008 kl. 21:26

3 Smámynd: Halla Rut

Nám GMB í útlöndum þar sem borgarbúar borga brúsann er enn eitt dæmi um spillingu og óheiðarleika Sjálfstæðismanna.

Halla Rut , 17.8.2008 kl. 22:13

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Það er auðvitað ekki annað hægt en að taka undir orð Jóns Inga í fyrri málsgrein athugasemdar hans, því þau eru algjörlega rétt.

Ég er ekki sammála þér varðandi Hönnu Birnu. Það er ekki að marka þótt hún hafi aðeins verið pirruð í vetur í kringum REI málið og annað klúður. Hver hefði ekki verið pirraður í þessum sporum.

Síðan er auðvitað ekki hægt að afskrifa Sjálfstæðisflokkinn, þrátt fyrir tímabundinn mótbyr. Fólk breytis nú ekki pólitískri lífsskoðun sinni úr því að vera til hægri og til vinstri út af einhverju svona klúðri.

Ég er algjörlega ósammála Höllu Rut. Það eru margir, sem stunda nám með vinnu. Þannig lauk ég BA námi og MPA námi með fullri vinnu og skilaði fyrsta flokks árangri á báðum stöðum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.8.2008 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband