Höfuðlausn

Það er mín skoðun að við sjálfstæðismenn eigum að viðurkenna þær syndir, sem við frömdum og þótt ég hafi ekki verið þingmaður, ráðherra eða í valdamiklu embætti hjá flokknum, þá ber ég einnig ábyrgð.

Ég ætla mér því - fyrstur sjálfstæðismanna - að gangast við þeirri litlu ábyrgð, sem ég ber. Ég hef aðhyllst sjálfstæðisstefnuna frá árinu 1977, þegar ég var 15 ára gamall og kosið flokkinn í öllum kosningum síðan. Ég hef starfað innan flokksins í stjórnum sjálfstæðisfélaga, fulltrúaráða og kjördæmisráða og unnið í Alþingis- og sveitastjórnarkosningum frá því áður en ég fór erlendis 1986 og síðan að ég kom aftur heim 1998.

Jafnmikið og ég er stoltur af verkum Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til ársins 2004, þá verð ég að viðurkenna að ég er ekki mjög stoltur af afrekum hans undanfarin 4 ár. Það var á því herrans ári 2004, að mér var ljóst að flokkurinn gekk ekki heill til skógar, frekar en þáverandi formaður hans. Á fundi fulltrúaráðsins á þessu ári benti ég í mjög stuttri tölu á nauðsyn þess, að flokkurinn gengi í gegnum hugmyndafræðilega endurnýjun, sem að sjálfsögðu átti að byggjast á sjálfstæðisstefnunni. Nokkrir samflokksmenn virtust skilja hvað ég átti við, en flestir skelltu við þessu skollaeyrum og sennilega er ég fyrir vikið enn litinn hornauga í flokknum, sem "kverúlant". Síðastliðið vor bætti ég um betur og mótmælti formanni mínum, Geir Hilmari Haarde, þegar hann sagði að Evrópumálin væru ekki á dagskrá!

Nú er líklega komið að þeirri stundu, að velflestir sjálfstæðismenn átta sig á því, að ekki einungis Evrópumálin eru á dagskrá, heldur verður flokkurinn að fara í gengum hugmyndafræðilega erfiðisvinnu og endurskilgreina hlutverk sitt og markmið í anda hinnar klassísku sjálfstæðistefnu.

Án þess að það sé beint mitt hlutverk, tel ég að Framsóknarflokkurinn - og reyndar Samfylkingin einnig - verði að axla sinn hluta ábyrgðarinnar og fara í svipaða vinnu.

Frjálshyggjan er hugsanlega dauð, en auðhyggjan og sjálfstæðishyggjan eru langt frá því að vera dauð.

Sjálfstæðismenn verða að átta sig á því að það eru engin svik við málstaðinn að aðhyllast ESB aðild, vilja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni.

Vinstri menn verða að átta sig á því að það eru ekki svik við málstaðinn að vera á móti ESB aðild, og aðhyllast mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut og Miklubraut.

Hægri og vinstri mennska snýst um grundvallarlífsskoðun manna, en ekki slík dægurmál!


mbl.is Óska eftir 6 milljörðum dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Já það endar ekki vel fyrir Sjálfstæðisflokknum ef hann heldur þessari þrjósku gangandi mikið lengur. Fólk í landinu vill aðildarumræður við ESB.

Ég vil líka flugvöllinn úr vatnsmýrinni. Það væri tilvalið tækifæri að selja landið undir eitthvað flott skipulag, núna þar sem vantar pening.

Jón Gunnar Bjarkan, 21.10.2008 kl. 04:49

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Algjörlega sammála ykkur báðum. 

Vandamálið er að á meðan þjóðin er klofin í tvær ámóta fylkingar í aftöðu sinni  í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, afstöðunnar til Evrópusambandsins og upptöku Evru, þá er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins það ekki. Það er mjög einkennilegt að þessi fjölmenni þingflokkur skuli ekki endurspegla afstöðu þjóðarinnar í málinu. Ég vildi óska að í þingflokknum væri bara einn sem talaði fyrir upptöku evru og inngöngu í sambandið. Það gerði flokkinn svo mikið trúverðugri. Það er hreint ótrúlegt að þetta skuli geta hafa gerst þegar meirihluti kjósenda flokksins vill Evrópusambandsaðild. Eins einkennilega og það hljómar þá er eins og ósýnileg hönd hafi stýrt og stjórnað vali á þingmönnum flokksins síðustu áratugi því eingöngu hafa valist til starfans andstæðingar Evrópusambandsins.  

Nú er ég harður fylgismaður þess að Íslandi gangi inn í Evrópusambandið og tekin verði upp Evra. Því fyrr, því betra. Eins og staða mála á Íslandi er í dag þá er þetta mál málanna. Kjósi ég Sjálfstæðisflokkinn í mínu kjördæmi, eins og ég hef alltaf gert, þá er ég jafnframt að gefa varaformanni Heimsýnar, Sigurði Kára, atkvæði mitt. Illugi Gunnarsson situr einnig í stjórn Heimsýnar. Ef ég kýs Sjálfstæðisflokkinn þá er ég að kjósa gegn aðild að Evrópusambandinu. Ég vil ekki kjósa gegn aðild að Evrópusambandinu. Ég vil ekki kjósa varaformann Heimsýnar á þing fyrir mig. 

Það verða þung skref að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í dag þar sem ekki einn einasti þingmaður flokksins styður inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru. Þar fyrir utan bætist það forustuleysi í efnahagsmálum sem þjóðin horfir nú uppá þar sem embættismenn virðast stjórna för.  

Verði engin breyting á næstu misserum þá vil ég sjá annan valkost fyrir næstu þingkosningar. Ég vil geta kosið hægri flokk sem vill inngöngu í Evrópusambandið.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 21.10.2008 kl. 12:36

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðrik: Eins og talað úr mínum munni. Það er ekki öll von úti enn. Ég var á fundi með sjálfstæðismönnum og það eru miklu fleiri sammála okkur en nokkurn getur grunað og það í harðasta kjarna flokksins í grasrótinni.

MENN ERU AÐ KOMA ÚT SKÁPNUM - HVER Á FÆTUR ÖÐRUM - ALLT GÓÐIR OG GILDIR SJÁLFSTÆÐISMENN, HVER EINN OG EINASTI!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.10.2008 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband