21.10.2008 | 13:49
Frábið mér, að einhver skrifi upp á skuldaviðurkenningu fyrir mína hönd, minna barna eða barnabarna!
Samkvæmt nýlegum fréttum eru skuldir þjóðarbúsins um 8.000 milljarðar króna.
Að sögn skiptast þær þannig, að um 15% erlendra skulda bankanna eru vegna mikillar neyslu, samneyslu og fjárfestinga landsmanna á undanförnum árum.
Stærstur hluti skuldanna, eða um 85%, er hins vegar tilkominn vegna skuldsetningar einkarekinna banka til fjármögnunar á fyrirtækjakaupum nokkurra tuga einstaklinga og fyrirtækja þeirra á erlendum mörkuðum.
Með undirskrift sinni ber þjóðin sannanlega ábyrgð á um 15% skuldanna og er að mínu mati meðvituð um þá ábyrgð sína. Til sönnunar skulda þjóðarinnar eru til staðar skuldabréf við ríkisbankana, Íbúðalánasjóð og ýmis fjármögnunarfyrirtæki. Það er siðferðisleg og lagaleg skylda mín og þjóðarinnar að standa skil á þeim skuldum.
Takist erlendum lánadrottnum ekki að leggja fram skuldabréf með minni undirskrift eða leiðtoga þjóðarinnar, þar sem ég/við erum annaðhvort greiðandi eða ábyrgðarmaður, vil ég fá að sjá vitni, myndir eða myndbönd, þar sem ég hægt er að sanna á óyggjandi hátt, að ég persónulega, eða réttkjörin stjórnvöld, hafi undirritaði slíka gjörninga.
Sé hægt að sanna fyrir mér á framangreindan hátt, að ég, eða leiðtogar þjóðarinnar, standi að baki 8.000 milljarða skuld, lýsi ég mig fyrir mitt leyti hér með gjaldþrota. Hafi leiðtogar þjóðarinnar undirritað yfirlýsingar eða skuldbindingar var það ekki með samþykki eða vitund þjóðarinnar eða Alþingis. Af þeim sökum er slíkur gjörningur marklaus með öllu, sbr. 40. gr. Stjórnarskrárinnar. Lánadrottnum mínum - og þjóðarinnar - mátti og má vera ljóst, að hvorki ég eða þjóðin vorum eða verðum borgunarmenn fyrir slíkri upphæð.
Jafnframt lýsi ég því formlega yfir, að enginn - hvorki íslensk stjórnvöld eða aðrir - hafa leyfi til að undirrita fyrir mína hönd, minna barna eða barnabarna samninga um yfirtöku fyrrgreindra skulda eða fara út í aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar til lúkningar þessara skulda. Gildir þar einu, hvort um samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er að ræða eða aðra aðila, erlenda eða innlenda.
Reykjanesbæ, 21. október 2008.
Vonandi niðurstaða fljótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Facebook
Athugasemdir
Guðbjörn: þetta er svo rétt hjá þér. Ég er algjörlega sammála þessu. Geturðu ekki komið þessu bréfi til ráðamanna. Ég er dauðhrædd um að þeir séu einmitt um þessar mundir að gera okkur, börnin okkar og barnabörn ábyrg fyrir himinháum skuldum sem við berum enga ábyrgð á. Ef það er þannig er verið að leiða þjóðina í þrældóm næstu áratugina.
Heiðrún (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 14:13
Það er alveg hreint mál að ef ríkistjórnin skrifar upp á slíkan samning þá verður uppreisn hérna í landinu, boðið til kosninga, þessir flokkar missa völdin og ný ríkistjórn riftir samningnum.
Sem samfylkingarmaður þá vona ég auðvitað að ríkistjórnin hengi ekki sjálfa sig með þessum hætti.
En við skulum bíða og sjá, ég bara trúi ekki að ríkistjórnin skrifi upp á slíkan samning, kannski eru skilyrðin fyrir lánunum ekkert til að hafa áhyggjur af. Ef um er að ræða flotgengi og háa stýrivexti og ekkert annað sem skilyrði, þá er ég sáttur að láninu verði tekið.
Jón Gunnar Bjarkan, 21.10.2008 kl. 14:14
Sem sjálfstæðismaður vona ég líka að stjórnin geri það ekki.
Ég vona einnig að IMF geri það að skilyrði að við göngum til viðræðna við ESB, en finnst ótrúlegt að þeir geri skilyrði um slíkt, þar sem það er svo pólitísk ákvörðun.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.10.2008 kl. 14:23
Ríkistjórnin verður að leggja til lög um að taka yfir slíka skuld eða einhverja aðra. Þessum lögum verður Forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson að vísa til þjóðarinnar. Það verður að kalla til Þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við tökum yfir allt að 700 milljarðakróna skuld og 600 milljarða króna lán.
IMF gerir ráð fyrir 100% skuldsettningu miðað við landframleiðslu sem er 1.300 milljarðar. Lánið er 600 milljarðar. ergó við eigum að taka á okkur skuld upp á 700 milljarða. Líklega skuld frá Bretum sem stjórna IMF með USA. neyða okkur til að skulda 1.300 milljarða fyrir 600 milljarða lán.
Fannar frá Rifi, 21.10.2008 kl. 14:34
Það er bara einn galli við komandi kostningar hvort sem þær verða fljótlega eða eftir 2,5 ár eins og vaninn segir til um: Það eru engir aðrir til að kjósa um!!
Fólk sem er sátt við hugsjónir og stefnu Samfylkingar og/eða Sjálfstæðismanna svona yfirleitt, á það allt í einu að fara að kjósa FG eða Frjálslynda? Kannski Framsókn? Ég upplifi mig í n.k. kostningalegri sjálfheldu: Vil ekki stöðuna eins og hún er, en hef ekkert betra að velja um. Hvað gerir maður þá??
Björg Árnadóttir, 21.10.2008 kl. 19:48
Góð grein hjá þér Guðbjörn. Hvernig komumst við undan þessu? það eru ekki bara komandi kynslóðir heldur fólk sem dettur í hug að flytja hingað frá útlöndum sem fær skuldina í bónus.
Ég er ekki með kosningarétt hér og skuli ég hafa rétt til þess að borga yfir tuttugu millur sem verður á hver einstakling eins og málin standa í dag.
Heidi Strand, 21.10.2008 kl. 20:41
Björg:
Ég var á fundi í gær hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjanesbæ. Ég er þegar byrjaður að tala um að við verðum að gera breytingar og einhverjir voru mér sammála. Ekki voru það margir, en nokkrir. Þessar breytingar verða að koma frá grasrótinni og hún verður að krefjast þeirra. Allt það fólk, sem til þessa hefur látið sér nægja að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, verður kannski að koma sjálft fram núna og byrja að vinna í flokknum. Það verður að hætta að láta mata sig og leggja sjálft eitthvað til málanna og koma fólki með svipaðar skoðanir og það hefur að. Fólki, sem vill breytingar og hefur hreina samvisku og hreinan skjöld.
Síðan höfum við auðvitað prófkjörin og Alþingiskosningarnar sjálfar til að koma fólkinu til valda. Hægt er að strika út og stilla upp á nýtt.
Það þarf að gera lýðræðið virkt upp á nýtt. Það verklag, sem tíðkast hefur í sumum stjórnamálaflokkum, þar sem fámennar klíkur og fjölskyldur hafa ráðið lofum og ríkjum verður að víkja fyrir alvöru lýðræði. Flokkarnir og stefnumál þeirra þurfa hugsanlega ekki að breytast mikið í grunninn, heldur verða áherslur að breytast og síðan verður að skipta út stórum hluta fulltrúa á Alþingi og í öðrum trúnaðarstöðum.
Takist það ekki, verður hugsanlega að stofna annan flokk. Það er hins vegar síðasta úrræðið í slíku uppgjöri.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.10.2008 kl. 21:26
Það þarf svipað framlag frá ESB sinnuðum Sjálfstæðismönnum eins og við sáum hjá ESB sinnuðum Framsóknarmönnum. Þar hættu þeir framsóknarmenn að láta stjórna með sig og fóru í blöðin með sínar hugmyndir, leggja málið í dóm þjóðarinnar.
Jón Gunnar Bjarkan, 21.10.2008 kl. 21:34
Sæll, já það getur heldur ekki verið að lánardrottnar bankanna komi saklausir frá óráðssukkinu! En mér býður í grun að embættismenn þjóðarinnar hafi innsiglað skuldaviðurkenninguna með yfirtöku bankanna. Málið var að láta þá róa og láta lánadrottnum eftir þrotabúið! Er það ekki annars hefðbundin aðferð við gjaldþrot fyrirtækja? Ríkið hefði síðan bætt almeningi sparifjártapið!
Sigfús Axfjörð Sigfússon, 21.10.2008 kl. 23:02
Vandamálið er einfaldlega að við höfum aldrei staðið frammi fyrir aðstæðum sem þessum og því veit enginn hvernig á að bregðast rétt við, hvorki stjórnmálamenn, bankamenn, lánadrottnar eða skuldunautar, almenningur eða aðrir.
Mér finnst algjörlega óþolandi ef lánadrottnar komast burt frá þessu aðeins með skrekkinn. Hverjir voru að lána íslensku bönkunum og og tóku með því áhættu? Var það íslenskur almenningur, sem var að lána? Nei, það var breskur almenningur, fyrirtæki og stofnanir. Ég sé bara ekki hvað það kemur mér við hvað einhverjir aðildar úti í heimi eru að eiga í viðskiptum við íslensk fyrirtæki. Ég tek ekki ábyrgð á því ef íslenskur fisksali fær greitt fyrir fisk og afhendir hann síðan ekki eða eða ef Marel selur einhvern búnað og fær greitt fyrir hann og afhendir búnaðinn ekki!
Hverslags bull er þetta eiginlega að gera íslenskan almenning ábyrgan fyrir viðskiptum einkafyrirtækja á þennan hátt?
Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.10.2008 kl. 10:34
Sammála. Mér finnst hin lögboðna ríkisábyrgð innlána allt annar handleggur en að fara að ábyrgjast ómældar upphæðir í alls kyns almennan rekstur þessara fyrirtækja þ.á.m. árshátíðir, fótboltaleiki og önnur boð fína fólksins í stórveislur í útlöndum. Þó þær upphæðir sem af þessum boðum og annari risnu hlutust séu smáaurar í heildarpakkanum þá eru þær þarna inni samt. Og mér verður illt af.
Ég er með lítinn rekstur sem gengur allt annað en vel í þessari orrahríð sem nú gengur yfir. Ég hef ekki orðið vör við að það sé neinn að bjóðast til að borga minn rekstur. Enda dytti mér aldrei í hug að fara fram á það. En hver munurinn er þarna á milli er mér ómögulegt að skilja. Nema... jú reyndar..... ríkið færi létt með að borga mínar skuldir og það myndi enginn skattborgari finna fyrir því!
Björg Árnadóttir, 22.10.2008 kl. 11:21
Steldu 100 milljörðum og þér er boðið til Bessastaða!
Steldu 100 milljónum og þér er boðið á Kvíabryggju!
Steldu 10 þúsund kall og þér er boðið á Litla hraun!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.10.2008 kl. 12:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.