1.11.2008 | 13:12
Krónan - minningargrein
In memorian
Þegar krónan fæddist var hún frekar veikburða, en hafði þó mikinn stuðning frá foreldrum sínum í Danaveldi fyrstu æviárin. Á barns- og unglingsárunum náði krónan sér síðan aldrei verulega á strik, þótt hún væri landsmönnum til yndisauka, þar sem hún minnti þá á að þeir voru orðin frjáls og fullvalda þjóð. Vegna heilsuleysis treysti krónan sér nær alla tíð aldei í ferðalag til útlanda og lítill áhugi virtist vera hjá útlendingum að bjóða henni til síns heima. Því hefur krónan að mestu haldið sig á heimaslóðum alla sína ævi.
Þrátt fyrir heilsuleysið náði hún sér aðeins á strik einu sinni eða tvisvar á sinni stuttu en lánlausu ævi. Lánið var þó alltaf skammvinnt og það var líkt og örlögin vildu ekki að krónan nyti sannmælis á borð við aðrar myntir. Ítrekuð áföll og mótlæti voru hennar örlög og oft var henni hreinlega ekki hugað líf, t.d. árunum 1971 - 1991. Krónan hafði á þessum tíma þó ekkert val og þótt þjóðin elskaði hana ekki, þarfnaðist hún hennar, þar sem um engan annan valkost var að ræða! Krónan barðist því af veikum mætti fyrir lífi sínu og þjónustaði landsmenn eins og hún gat lengst af ævi sinnar. Það var ekki hennar sök að hún var veik og vanmáttug og því fyrirgáfu landsmenn henni jafnan.
Það má segja, að aðeins með hjálp nútíma haglæknisvísinda hafi tekist að koma lífi aftur og aftur í krónuna. Oft á tíðum jafnaði hún sig síðan nær fullkomlega og eftir að tekið var upp á að senda hana á heilsuhæli í Hveragerðis á nokkurra ára fresti, átti hún nokkur góð ár. Krónan fékk síðan vægt áfall árið 2001-2002. Á þessum tímapunkti hefði mönnum átt að vera ljóst, að tími var kominn til að senda hana á eftirlaun. Mikill er máttur nútíma læknavísinda og með mikilli inngjöf af peningamagni beint í æð og með því að gefa henni róandi og örvandi lyf á víxl, tókst að halda í krónunni lífi í nokkur ár til viðbótar.
Gömlu ráðin, sem þeir höfðu notað áratugum saman dugðu einfaldlega ekki lengur. Árið 2004 ákvað krónan, háöldruð og fárveik að láta draum sinni rætast og fara heimsreisu - það var feigðarför. Í þessu ferðalagi sínu veiktist hún af nýjum og óþekktum "græðisvírus". Auk þess komst hún í kynni við óprúttna aðila, sem seldu öllum sem hafa vildu hluta líffæra hennar. Sum líffæranna margseldu þeir jafnvel. Ónæmiskerfið réði ekki neitt við neitt og framhaldið þekkjum við.
Allt frá árinu 2007 hefur mátt sjá, að heilsu krónunnar hrakaði mjög hratt. Undanfarna mánuði er hún síðan búin að vera á gjörgæsludeild og nær meðvitundarlaus. Því miður gerðu læknarnir hver mistökin á fætur öðru í endurlífgunartilraunum og bætti það ekki úr skák. Óljóst er hvort mannlegum mistökum er um að kenna eða vankunnáttu. Réttarlæknar munu skera úr um það.
Nú liggur hún dáin og alein í líkhúsinu. Krónan var lengst af vinafá og átti sér aðeins örfáa aðdáendur. Nú síðustu mánuðina hafa flestir þessara örfáu vina snúið baki við henni og fáir heimsóttu hana á banalegunni. Jafnvel Hannes Hólmsteinn Gissurarson afneitaði næstum krónunni í Kastljósinu í gærkvöldi. Vanþakklæti eru laun heimsins.
Það eru þó örfáir aðilar, sem enn halda tryggð við krónuna og það jafnvel eftir að hún er dáin. Ég vil færa Geir Haarde, Agli Jóhannessyni, Hirti J. Guðmundssyni og félagasamtökunum LÍÚ öðrum aðstandendum krónunnar innilegar samúðarkveðju á þessari ögurstundu.
Ég veit af eigin reynslu að það er erfitt fyrir aðstandendur horfast í augu við sannleikann, að horfast í augu við dauðann, því hann er sár. Staðreyndirnar tala þó sínu máli og krónan er látin og við verðum að sætta okkur við það. Við skulum því öll leggjast á bæn og biðja fyrir krónunni, nú þegar hún er lögð af stað í sitt síðasta ferðalag.
Kæru vinir, ég hef varla brjóst í mér til að segja ykkur sannleikann, en sé mig samt tilknúinn til þess. Sum ykkar virðast jafnvel halda - í ykkar einlægu barnstrú - að hægt sé að endurvekja krónuna. Sannleikurinn er, að dauðinn er grimmur og krónan mun ekki snú aftur. Aðeins er vitað um eitt slíkt kraftaverk og það átti sér stað fyrir um 2008 árum síðan.
En hafið samt hugfast á þessum erfiðu tímum, að það er líf fyrir krónuna okkar eftir dauðann. Í himnaríki krónunnar er fjöldinn allur af öðrum myntum, sem hlotið hafa sömu örlög og þar ríkir eilíf sæla og hamingja fyrir allar fyrrverandi myntir þjóða heimsins.
Amen.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Guðbjörn
Já blessuð sé minning hennar, sú minning mun verða með okkur það sem eftir lifir.Og frískleiki hennar síðustu árin, sjaldan hefur maður séð jafn fjörmikinn enda á jarðvist, eins og krónan sýndi okkur. Og nú er hún farin.
Hannes Friðriksson , 2.11.2008 kl. 01:03
Fregnir af andláti krónunnar eru stórlega ýktar.
Hjörtur J. Guðmundsson, 2.11.2008 kl. 15:41
Hjörtur: Góður!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.11.2008 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.