Sjálfstæðismenn: vinnum að breytingum innan flokksins ...

Því miður eru allar mínar hrakspár að ganga eftir og í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri sýnir sig, að Sjálfstæðisflokkurinn er orðið þriðja stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi. Það er þó mikill misskilningur í gangi hjá vinstra liðinu í landinu, að kjósendur séu að færa sig til vinstri og að hægri menn sveiflist yfir í VG eða Samfylkinguna eins og ekkert sé!

Nei, stór hluti hófsamra sjálfstæðismanna er genginn í "Hægri flokk óákveðinna", en eftir sitja frjálshyggjumennirnir og nokkrir íhaldshundar á borð við sjálfan mig, sem eiga hvergi annarsstaðar heima. Þessi Flokkur óákveðinna - sem er reyndar aðeins stærri en Samfylkingin - verður örlagavaldurinn í næstu kosningum. Þetta finnast mér vera staðreyndir, sem liggja í augum uppi. Með þessu brotthlaupi sínu eru sjálfstæðismenn annaðhvort að lýsa yfir óánægju sinni með efnahagsástandið eða stærsta ágreiningsmálið innan flokksins í dag, sem er hvort fara eigi í aðildarviðræður og stefna að ESB aðild eður ei.

Það þarf engum blöðum um að fletta, að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið brugðust á undanförnum árum og þar á bæ verða menn að axla ábyrgð og fara. Einnig má vera, að þegar betur kemur í ljós, hver ber ábyrgð í þessu máli, þá verði einhverjir stjórnmálamenn að taka pokann sinn. Ég set þó stórt spurningamerki við það, hvort einhverjir stjórnmálamenn hefðu yfirleitt getað séð fyrir þá hörmunaratburði, sem yfir okkur hafa dunið á undanförnum vikum. Þetta er þó ekki fullkomin afsökun, því stjórnmálamennirnir hefðu átt að heyra í þeim viðvörunarbjöllum, sem hringdu víða hér á landi og erlendis undanfarin ár. Þetta mega stjórnmálamenn í öðrum flokkum, fjölmiðlar, "hagdeildir" bankanna, sumir "fræðimenn" og almenningur einnig taka til sín.

Hvað sem öðru líður vil ég spyrja: er rétta leiðin að segja sig frá stjórnmálaflokki, þegar maður er ósammála afstöðu forystumanna eða frammistöðu þeirra í einhverju einstöku máli. Nei, það er að mínu mati röng aðferð. Fyrst á að reyna að vinna þeim breytingum, sem maður vill gera á flokknum sínum brautargengis. Sé ágreiningurinn hins vegar svo djúpstæður og málið það mikilvægt, geta aðstæður kallað á, að nauðsynlegt sé að yfirgefa flokkinn og þá ekki endilega til að ganga í annan flokk, heldur hugsanlega með það að markmiði að stofna nýjan flokk.

Haldi fram sem horfir - þ.e.a.s. með fylgistapi og stjórnleysi innan flokksins og sé það vilji meirihluta flokksmanna - gæti þurft að gera breytingar á forystunni. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu er slíkt þó örþrifaráð. Forusta flokksins verður þó að gera sér grein fyrir því, að á einum mánuði hafa allar forsendur breyst og í kjölfarið hefur hugsunarhátturinn í þjóðfélaginu og innan flokksins breyst. Þetta krefst hreinlega einhverra áherslubreytinga varðandi stefnu og hugmyndafræði flokksins, s.s. fráhvarf frá óheftri frjálshyggju og brotthvarf til fyrri gilda flokksins, sem miðju og hægri flokks. Þessu hef ég - og reyndar mikið fleiri - talað fyrir í nokkur ár en lítið verið hlustað.

Þær breytingar, sem ég vil að verði á Sjálfstæðisflokknum er að hann breytist í hófsamari hægri flokk og að hann styðji aðildarviðræður að ESB. Fyrir aðildarviðræðurnar verðum við að skilgreina vel ströng skilyrði fyrir aðild, t.d. í þá átt að íslenskur landbúnaður og sjávarútvegur geti þrifist í landinu til langframa - þar má ekkert gefa eftir!

Það hugnast mér illa að eftirláta Samfylkingunni einni að semja um aðild að ESB!

 

 


mbl.is Samfylking með langmest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Þessi lesning var góð tilbreyting frá galdrabrennunum Guðbjörn. Hér hafa mörg mistök verið gerð og tel ég mikilvægt að fá utanaðkomandi aðila til að rannsaka það.

Að undanförnu hef ég aldrei verið spurð eins oft að því hvort ég vilji nú ekki máta mig inn í aðra flokka, en líkt og hjá þér er slíkt ekki á dagskrá. Það er ljóst að áherslur munu breytast og heyri ég það á mörgum í kring um mig að það eru mjög skiptar skoðanir á ESB málunum, líkt og við höfum heyrt hjá forystu flokksins.

Herdís Sigurjónsdóttir, 2.11.2008 kl. 11:13

2 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn er dauður.

Það þarf að stofna nýja flokka með nýju fólki til að endurreisa lýðveldið.

RagnarA (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 11:51

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, skoðanir eru skiptar innan flokksins varðandi aðild. Ég hef það þó á tilfinningunni að sumir forystumanna Sjálfstæðisflokksins noti ástandið í efnahagsmálunum á þann hátt að algjörlega óraunhæft sé að ræða ESB aðild, sem hluta af framtíðarlausn okkar vanda.

Þeir vonast til að ná stjórn á hlutunum á 1-2 árum og þjóðir á bara gjöra svo vel að halda kjafti á meðan. Síðan "þegar allt er komið í lag" - hversu lengi sem það varir nú - segja þeir að aðild að ESB sé ekki nauðsynleg. Þennan leik er búið að leika í nokkuð mörg ár.

Þjóðin hefur ekki áhuga á þessum leik lengur og meirihluti sjálfstæðismanna ekki heldur og þetta verður forustan að skilja. Geri hún það ekki endum við í 12-18% og það verður stofnaður nýr ESB hægri flokkur. Þá verða skoðanir auðvitað ekki lengur skiptar, því allir ESB sjálfstæðismennirnir eru horfnir annað!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.11.2008 kl. 11:58

4 identicon

Góður.

Kveðjur.

Daði.

Daði Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband