2.11.2008 | 19:48
Fjölmiðlalögin aftur upp á ríkisstjórnarborðið
Fjölmiðlar eru skoðanamyndandi í þjóðfélaginu. Þeir ráða hvað birtist og hvað ekki birtist í fjölmiðlum og einnig hversu mikla og djúpa umfjöllun mál fá.
Dreifð eignaraðild er það eina, sem getur tryggt sanngjarna og eðlilega umfjöllun fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi. Sú þróun, sem við séð á undanförnum árum, er stórhættuleg lýðræðinu í landinu. Undanfarna daga höfum við séð svart á hvítu hvernig auðmenn hafa misnotað sína aðstöðu til að kasta ryki í augu almennings.
Á tímum sem þessum, þegar hálfgerð upplausn er á fjármálamarkaði og eigur landsmanna og auðmanna ganga kaupum og sölum er gegnsæi mikilvægara en nokkurn tíma áður. Með setningu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga var gegnsæi og ábyrgð aukin í opinberri stjórnsýslu á Íslandi. þetta var gert í tíð Davíðs Oddssonar og af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Fjölmiðlalögin áttu einnig að vera spor í þá átt að tryggja eðlilega gagnrýna umræðu fjölmiðla í þjóðfélaginu. Í stað þess að styðja við þessi bráðnauðsynlegu lög ákváðu Samfylkingin og VG að nota málið í pólitískum hráskinnaleik og til að klekkja á ríkisstjórninni og þó sérstaklega Davíð Oddssyni.
Í umboði Samfylkingarinnar og VG hafa auðmenn landsins nú stjórnað umræðunni undanfarin ár og þannig komið í veg fyrir eðlilegt eftirlit fjölmiðla með útrásinni, bönkunum og stórfurðulegum fjárfestingum Íslendinga hér á landi og erlendis.
Vissulega báru stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins mikla ábyrgð á því hvernig málum eru fyrirkomið í dag. En hvar voru fjölmiðlar? Hvernig stóð á að gagnrýn umræða í garð auðmanna átti sér alls ekki stað, þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur hafi hringt og fjöldi erlendra fjölmiðla hafi gert sér mat úr feigðarför víkinganna. Getur ekki einmitt verið að eignarhaldið á fjölmiðlum hafi komið í veg fyrir eðlilega rannsóknarblaðamennsku og ýtt undir hversu mjög fjölmiðlar göptu upp í útrásarpésana.
Það hlýtur að vera krafa okkar sjálfstæðismanna, að tryggt verði að fjölmiðlalögin verði aftur sett á dagskrá Alþingis. Hvort þau verða samþykkt í þeirri mynd, sem þau voru eða í nýrri mynd er mér sama um, en ljóst er að lögin voru nauðsynleg á sínum tíma og eru það enn.
Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Facebook
Athugasemdir
Sæll. Hræddur um að þau færu sömu leið aftur, það vantar en þroska og skilning.
Kv. Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 2.11.2008 kl. 21:50
Já hvað gerir forseti vor ef fjölmiðlamálið kemst aftur á dagskrá og tala nú ekki um SJS
Guðrún (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 21:58
Ég hef einnig haft áhyggjur af vinstri sveiflu fjölmiðla og stóriðjuhatri fjölmiðlamanna.
Í kosningunum í Hafnarfirði var auðsjáanlegt hvaða skoðun fjölmiðlar höfðu. Hefði álverið í Hafnarfirði verið stækkað hefðu nokkur hundruð manns fleiri vinnu í Hafnarfirði í vetur.
Hefðum við í ár og í fyrra frekar hraðað ferlum en tafið, væri álverið í Helguvík öruggt og hugsanlega komin hreyfing á málin á Bakka.
Þetta eigum við nú krötunum og þó sérstaklega öfgaumhverfiskonunni Þórunni Sveinbjarnardóttur að þakka.
Ég hlakka til þegar Lúðvík og kratarnir verða útskýra þetta mál í næstu sveitarstjórnarkosningum í Hafnarfirði eða í þingkosningum í kraganum.
Kristján Möller á örugglega ekki heldur í vandræðum með að útskýra sitt mál í Norðausturkjördæmi eða Björgvin hér í Suðurkjördæmi.
Tvískinnungurinn í þessu liði með alla hluti er óþolandi!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.11.2008 kl. 22:21
Verð að svara honum Guðbirni aðeins.
Það er alveg ótrúlegt hvernig alltaf er öskrað ÁLVER ÁLVER þegar eitthvað bjátar á. Eigum við Íslendingar ekki að reyna að læra af reynslunni og reyna byggja upp margþætt efnahagslíf sem byggir á traustum og fjölbreyttum grunni. Við sjáum bara hvaða afleiðingar það hefur að leggja allt sitt traust á einn atvinnuveg nú þegar allt er að hrynja í viðskiptalífinu.
Heimsmarkaðsverð á áli hefur verið að hríðfalla síðan í sumar eins og þú getur séð hér http://www.basemetals.com/Aluminium/ . Það er alveg ljóst að stækkun álversins í Straumsvík og álver í Helguvík væri ekki að hjálpa okkur núna.
Hinsvegar sjáum við framm á gríðarleg tækifæri í ferðamannaiðnaðinum vegna gengis krónunnar og ég þakka guði fyrir að við erum ekki búin að eyðileggja landið okkar meira en við höfum nú þegar gert enda er það núna okkar helstu verðmæti.
Það skyldi þó ekki vera að "náttúruverndarkrúttin" hafi haft rétt fyrir sér allan tímann......
Davíð (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 23:13
Davíð: Mér sýnist að öll álver séu komin á klaka, þannig að þið Björk fáið ykkar tækifæri núna!
Við erum að horfa fram á að 15-20.000 manns missi vinnuna upp úr áramótum. Ég veit ekki hvað Björk getur tekið við mörgum í bandið til sín núna, en hún verður að leggja sinn skerf fram. Örugglega einhverjir smiðir, sem hún getur tekið með sem rótara, en þeir skipta ekki þúsundum er það annars?
Síðan er það lopapeysuprjón. Ég sé fyrir mér 3000 manns prjónandi peysur.
Fjallagrösin verða að bíða þar til næsta sumar, en segjum bara að við getum verið með 2000 manns á fjöllum frá vorin og langt fram á haust í grasatínslu.
Það koma engir ferðamenn að ráði á veturna, þannig að það verður líka að bíða, en segjum samt að 3000 manns fái vinnu í ferðaiðnaðinum, því það er svo "kúl" að þjóna til borðs og þrífa herbergi og klósett eftir útlendinga.
Síðan er það allt þetta "eitthvað annað", sem er ekkert mál að koma í kring en enginn veit nákvæmlega hvað er? Nú eru þetta held ég kalla - sprotafyrirtæki - 4000 manns í það og þá er þetta komið!
Þetta var nú létt verk og löðurmannlegt að finna starf fyrir 15-20.000 manns!
Ég hlakka satt best að segja til að sjá hvernig öllu þessu fólki verður reddað vinnu í rokkhljómsveitum, hestaleigum, hvalaskoðun og í annarri "sprotastarfsemi" - maður notar þetta orð þegar maður veit ekki hvað maður er að segja, en það á samt að hljóma eins og maður hafi vit á því, sem maður er að segja!
Í svona ástandi verður maður að láta sig dreyma og vera svolítið óraunsær!
Sprotastarfsemin - það er málið!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.11.2008 kl. 23:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.