Ég trúði á "Íslenska drauminn" eða öllu heldur "Íslensku martröðina".

Ég er einn af þeim, sem trúði á Íslenska drauminn eða ætti ég frekar að segja Íslensku martröðina.

Draumurinn felst í því að eignast fjölskyldu, börn, hús, sæmilegt innbú og góðan bíl og fyrir þennan draum erum við Íslendingar til í selja sáluna í okkur og gerum það yfirleitt!

Dagurinn hjá mér í dag var þannig, að fyrst fór ég í vinnu nr. 1. (tollstjórinn á Suðurnesjum), en skellti mér síðan á fund hjá BSRB í vinnu nr. 2 (formaður Tollvarðafélags Íslands), ég notaði auðvitað ferðina í bæinn og skellti mér í vinnu nr. 3. (söngkennari við Söngskóla Sigurðar Demetz) og kenndi  þar söng í þrjár klukkustundir til kl.20.00. 

Vinnutími hins íslenska"Fásts" byrjar snemma morguns og endar seint á kvöldin. Það þarf að leggja ýmislegt á sig til að geta borgað af myntkörfu bílaláninu, verðtryggða húsnæðisláninu og matvörunni og tryggingaiðgjöld í þessu guðsvolaða landi.

Á síðastliðnu ári greiddi ég 700.000 af bílaláninu mínu og á sama tíma hefur það hækkað úr 3.900.000 í 8.700.000. Þetta er fallegur bíll og sparneytinn og mér er sagt að ég fái fyrir hann 4-5 milljónir, þótt hann sé 1 1/2 árs enda kostar hann sennilega 9 milljónir nýr.

Á sl. fjórum árum hef ég borgað af húsinu mínu um 4.000.000 í vexti og afborganir. Á sama tíma hefur húsnæðislánið farið úr 17.000.000 í 21.000.000 vegna séríslenskar verðtryggingar. Verðmæti hússins hefur hækkað úr 30.000.000 í 35.000.000.

Sömu sögu er reyndar að segja um námslánin mín, sem þó eru vaxtalaus. Þau eru nánast í sömu krónutölu eftir 16 ára afborgunartíma eða í 3.000.000, en samt er ég búinn að greiða sem nemur 120% af höfuðstóli lánsins.

Ég er einn af þessum vel menntuðu íslensku mönnum með 3 háskólagráður á ágætis launum í mörgum frekar öruggum og sæmilega launuðum störfum og ástandið er svona sæmilegt. Hvað segja þá aðrir, sem ekki eru á sæmilegum launum eða atvinnulausir eða öryrkjar!

Margir munu eflaust segja um fólk sem mig:

Þið tókuð þessar ákvarðanir og því verðið þið að eiga þetta við ykkur sjálf - allt rétt og satt!

Ég bjó 12 ár innan ESB og flutti heim fyrir 12 árum í "góðærið"!

Ég þekki vel til innan ESB og veit hvað er að búa þar. Reynið hins vegar að útskýra fyrir íbúum ESB hluti á borð við:

  • Myntkörfulán
  • Verðtrygging

Það mun enginn skilja ykkur!

Útskýrið fyrir venjulegu fólki innan ESB - eða annarsstaðar í heiminum - að bílalánið ykkar hafi meira en tvöfaldast á einu ári á meðan þið greidduð niður 17,5% af upphaflegum höfuðstóli lánsins.

Útskýrið fyrir einhverjum innan ESB, hvernig þið eruð búin á 4 sl.árum að borga 20% af upphaflegum höfuðstól húsnæðislánsins þíns og að upphaflegur höfuðstóll lánsins hækki samt um 25%.

Útskýrið fyrir venjulegu fólki, sem hefur tekið námslán hjá siðuðum þjóðum vestan hafs eða í Evrópu, að þið hafið í 16 ár greitt hærri upphæð en nemur upphaflegum höfuðstól og að lánið sé í sömu upphæð og þegar þú laukst námi!

Útskýrið fyrir þessu sama fólki frá Evrópu að matarverð sé hér 50% hærra en meðalverð matvæla innan ESB og að þjónusta sé 30% hærri en innan ESB.

Útskýrðu fyrir þessu sama fólki - hvaðan sem það er úr heiminum - að yfirdráttarvexti séu 28%!

Fólk utan úr heimi er almenn kurteist - jafnvel gagnvart Íslendingum - og mun eflaust láta sem svo að það sé hissa á að einhver búi hér eða það spyr hversvegna ekki hafi verið gerð hér bylting!

Í raun hugsar það samt sem áður hverslags hálfvitar við eiginlega séum!

Í guðanna bænum ekki segja þeim, að ofan á þetta allt þetta saman séum við svo skuldsettasta þjóð í heimi og það taki okkur næstu tvær kynslóðir að greiða niður skuldahalann, sem þrír einkabankar og 20-30 einstaklingar hafi komið okkur í.

Ekki segja þeim að þetta sé tilkomið vegna þess, að stjórnvöld hafi ekki staðið sig í stykkinu og geri nú allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir nákvæma rannsókn mála og tali um slíka úttekt sem "nornaveiðar" á hendur hálfsaklausu fólki!


mbl.is Spá 40% lækkun íbúðaverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Við trúðum öll á þetta helvítis rugl allt saman.

Ég var alveg foxillur út í alla erlenda gagnrýni sem kom á okkur. Maður eiginlega dauðskammast sín núna.

En hinsvegar var ég alltaf stuðningsmaður fyrir ESB, og mestu mistökin í þessu öllu var að við gengum ekki þangað inn fyrir löngu. Núna höfum við leyft þessum fávitum, eins og hvað heitir fiflið þarna í greiningardeild danske bank að hafa rétt fyrir sér, og núna gengur hann út um allt eins og einhver sérfræðingur um Ísland og heldur áfram með sínar hrakspár um 75% verðbólgu og við getum ekki sagt eitt einasta orð til að mótmæla því, því hann svarar bara: "og hvað vitið þið?"

Ég er svo hundfúll að manni langar helst til þess að berja næsta anti ESB sinna sem maður finnur. 

Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 22:07

2 identicon

Við trúðum ekki öll á þetta helvítis rugl allt saman

Eins og þú veist Guðbjörn, þá er gott að búa í Evrópu og það höfum við báðir prufað árum saman og fluttum báðir hingað í góðærið og græðgina, annar  trúði á rausið og ruglið, eg aftur á móti ekki. Færeyskur góðvinur minn, búsettur í Danmörku , hringdi í mig í fyrradag til að minna mig á, að eg hefði sagt honum fyrir þrem árum, að á Íslandi yrði kreppa í lok árs 2008. Þessu var ég búin að gleyma en hann vildi bara minna mig á, að þetta hefði staðist  hjá mér.

Jón Gunnar Bjarkan kallar hagfræðinginn úr greiningardeild Danske Bank fífl, af því sennilega, að maðurinn er vel menntaður hagfræðingur, sem hafði rétt fyrir sér í umfjöllun sinni um ástand peningamála, hér á landi. Þetta er hinn mesti dónaskapur og skiptir engu, þó menn séu í vondu skapi, eins og Jón Gunnar segist vera.

Nú horfir þó til betri vega., aðalsökudólgurinn, Sjálfstæðisflokkurinn að fara sömu leið og Framsókn og við hin, til vinstri að taka við rústunum  og verður erfitt að taka til eftir óráðsíu íhalds, s.l 17 ár!! Nato-vinirnir ,reyndust svo fjandvinir og allur áróðurinn um hina góðu vestrænu samvinnu, byggður á sandi!! Ekki fær þjóðin neitt að vita enn, hvað er í gangi í sambandi við lánakjör IMF, ef af verður og stjórnarandstaðan ekki heldur , allt er eitt stórt leyndarmál ,er þetta lýðræði?

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:06

3 identicon

 

 Èg skrifa athugasemd hér í stað þess að breiða meira úr mér á Sæmundarbloggi.
Mikið var gaman að heyra að einhver þekkir og syngur þetta fallega lag og ljóð "Jungfrun under lind"sem er skrifað fyrir aldamótin 1900. En það stendur enn fyrir sínu og Jussi er óviðjafnanlegur.
Ars longa, vita brevis est!

S.H. (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 07:59

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þetta er nú meira ruglið....svei mér þá ef við flytjum ekki bara aftur út. Þetta ár hérna á íslandi er búið að vera eins og snarruglaður farsi!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 7.11.2008 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband