9.11.2008 | 11:44
Frændur okkar og vinir eru Norðurlöndin og Þýskaland
Fyrir um 5-7 árum ákvað ég að hætta að hafa áhyggjur af því hvað fólk er að segja um mig. Auðvitað tókst það ekki alveg, en ég tók þó nokkur skref í áttina til þessa. Fyrsta skrefið var að segja meiningu mína, en þó aldrei á þann hátt að það særði fólk í kringum mig. Síðan tók ég ákvörðun um að vera vinur vina minna óvinur óvina minna.
Nú halda líklega allir, að ég bregðist fjandsamlega við þeim, sem eru mér ósammála. Nei, það var ekki það sem ég átti við, heldur reyni ég að umgangast eins lítið og mögulegt er það fólk, sem mér er illa við eða þoli ekki og sömu sögu er að segja um þá, sem hafa gert mér lífið leitt. Á sama tíma fylgi ég þó reglu, sem ég kynntist fyrir nokkrum árum, og útleggst á ensku "keep your enemies close" eða "haltu óvinum þínum nærri þér". Þetta geri ég þó án þess þó að hitta þá of oft eða treysta þeim á nokkurn hátt. Þessa reglu er hægt að hafa í huga varðandi umgang við Breta um alla ókomna framtíð!
Leiðum hugann að uppáhaldslandinu mínu, þar sem ég eyddi stórum hluta ævi minnar, Þýskalandi. Hver eru viðbrögð þeirra við því að tapa stórum peningum í "útrás" Íslendinga? Til þessa er ekki að sjá, að Íslendingar verði fyrir árásum þarlendra stjórnmálamanna eða er það?
Af Þjóðverjum fer það orð, að þeir séu ókurteisir og jafnvel ruddalegir. Þeir eiga að stela mat í stórum stíl af morgunverðarborðum hótela og tæma sykurkör. Það er að mínu mati mikil firra og byggir á misskilningi. Þjóðverjar smyrja sér oft brauð við morgunverðarborðið eða taka með sér ávexti, sérstaklega ef þeir eiga einhverja ferð framundan eða ef þeir eru nývaknaðir og lystarlausir. Þetta þykir sjálfsagt á þýskum hótelum og enginn hóteleigandi amast við því. Hér er því um ólíka siði að ræða.
Þjóðverjar eru upp til hópa hreinir og beinir í samskiptum sínum við fólk. Þeir eru vinir vina sinna, stundum kannski svolítið seinteknir sem vinir, en þeim mun tryggari. Það var í Þýskalandi, sem ég lærði ýmsa góða siði eins og að byrja ekki að borða fyrr en allir væru sestir við borðið og tilbúnir. Ég lærði að opna hurðina fyrir konum og ótal, ótal margt fleira í almennri kurteisi. Menn mega ekki líta svo á að ég hafi verið ókurteis, en íbúar Mið-Evrópu eru bara "dannaðri" en við Íslendingar.
Þegar við förum yfir vinahópinn í framtíðinni eigum við ekki að gleyma viðbrögðum ríkja Evrópu!
Styðja illa Íslendinga hjá IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:18 | Facebook
Athugasemdir
Fínn pistill.
Styrmir
Styrmir Sævarsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 15:50
Ég er sammála þér Guðbjörn að ég hef alltaf litið á þjóðverja sem vini íslensdinga. Fáar þjóðir sýna íslandi eins mikinn áhuga og vinsemd og þeir. Það urðu mér því nokkur vonbrigði að þeir af öllum mönnum hafi einnig viljað tengja saman innlánsreikninga eikafyrirtækis og lánafyrirgreiðslu IMF. Er þó ekki öruggur um að þær sögusagnir séu réttar. Þjóðverjar ættu að skilja öllum betur þjóðfélagshörmungar. Vona því að þeim finnist ekki í lagi að Íslendingar séu kúgaðir til Versalasamninga.
Jón Þorvaldur
Jón Þorvaldur (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 18:09
Eru þjóðverjar ekki eins misjafnir og aðrar þjóðir? Við höfum farið í frí til Þýskalands og finnst mer þjóðverjar sem við höfum verið í samskipti við. vera mjög snyrtilegir, kurteisir og reglulegir.
Mín reynsla af Bretum var frá hóteli og spítala og fannst mér þeir vera svolítið subbulegir. Ég er alls ekki að dæma öllum Bretum út frá mína reynslu.
Mér finnst Ameríkanar vera mjög kurteisir. það er mín reynsla.
Heidi Strand, 9.11.2008 kl. 18:34
Ég lít "kúgun" Hollendinga og hugsanlega Þjóðverja varðandi umsókn Íslendinga hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allt öðrum augun en hryðjuverkastarfsemi Breta, sem hugsanlega settu KB banka á hausinn og með beitingu hryðjuverkalaga stöðvuðu gjaldeyrisviðskipti milli Íslands að alþjóðasamfélagsins.
Það er ekki hægt að líta á það sem "kúgun", að erlend ríki og stjórnvöld þeirra vilji fyrir hönd sinna ríkisborgara fá einhver svör, hvernig leysa á vandamál sparifjáreigenda í þeirra löndum, sem orðið hafa fyrir tapi vegna gjaldþrota íslenskra banka. Það er einmitt hlutverk stjórnvalda í þessum löndum að gæta hagsmuna sinna borgara.
Á sama hátt er það hlutverk íslenskra stjórnvalda að vernda okkur Íslendinga fyrir því að borga skuldir, sem íslenskir óreiðumenn stofnuðu til, annaðhvort með því að stjórna einkafyrirtækjum eða með því stjórna og eiga einkafyrirtæki erlendis.
Að mínu mati er ljóst að ríkið (þjóðin) getur aldrei borið ábyrgð á skuldum, sem einkafyrirtæki eða einstaklingar stofna til hér á landi eða erlendis, líkt og um sjálfskuldarábyrgð sé að ræða, nema að ríkið hafi sérstaklega skuldbundið sig til þess með lögum. Slík lög hafa mér vitandi ekki verið sett á Alþingi. Ríkisstjórnin getur heldur ekki skuldbundið þjóðina á neinn hátt, nema að setja fyrirvara um samþykki Alþingis.
Á sama hátt og nefnt er hér að ofan ber ég persónulega fulla ábyrgð á mínum eigin skuldum, nema einhver annar hafi með fúsum og frjálsum vilja tekið að sér sjálfskuldarábyrgð á mínum lánum. Börn mín eða skyldmenni eða þjóðin bera heldur ekki ábyrgð á mínum mínum lánum, nema að hafa undirgengist slíka ábyrgð.
Ef Hollendingar, Bretar eða Þjóðverjar fullyrða eitthvað annað, þá er hér um grundvallarbreytingu á skilningi ríkja og einstaklinga varðandi ábyrgð á skuldum að ræða. Þessi ríki virðast líta sem svo á, að íslenska þjóðin beri sjálfskuldarábyrgð á öllum erlendum skuldum og því sé ekki nauðsynlegt að gera sérstakar tilraunir til að fá skuldina greidda hjá aðalskuldara, þ.e.a.s. að ganga að eignum bankanna. Í raun ætlast þau til að þjóðin ábyrgist - líkt og ábyrgðarmaður á láni - greiðslu skuldar, sem hún væri hans eigin.
Ef við viðurkennum þetta sem staðreynd bætast önnur lönd við, t.d. Japanir o.s.frv.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.11.2008 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.