ESB & Sjálfstæðisflokkurinn - enn á ný verið að þæfa málið?

Stærsta frétt dagsins er að sjálfsögðu að Landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið flýtt til 29. janúar á næsta ári. Ég spái því að þessi fundur verði mikill átakafundur, þar sem ekki aðeins verður tekist á um ESB aðildina, heldur einnig hugmyndafræði flokksins og forystu hans.

Undanfarin 15 ár hefur flokkurinn að margra mati fjarlægst hina sígildu hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, sem gerði flokkinn að þeirri breiðfylkingu hægri fólks í landinu, sem hann er. Stefna flokksins hefur breyst í hreinan og kláran frjálshyggjuflokk og meirihluti þingflokksins styður þá stjórnmálastefnu einarðlega. Flestir kjósendur flokksins hafa hins vegar snúið baki við þeirri stefnu eða voru henni aldrei fylgjandi. Upp til hópa eru kjósendur flokksins ósköp venjulegt hægra fólk eins og ég, sem ekki eru neinir öfga frjálshyggjumenn, þótt þeir vilji að sjálfsögðu nýta hinn frjálsa markað til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Næststærsta fréttin er stofnun enn einnar Evrópunefndarinnar til að fara yfir kosti og galla ESB aðildar. Tilfinning mín er, að þetta sé ein viðbótar tilraun minnihluta sjálfstæðismanna, sem ekki styður aðild að ESB, til að þæfa málið. Þetta mæta fólk virðist ekki átta sig á því, að þetta er algjörlega tilgangslaus tilraun. Það verður að segja um þessa nefnd, að bæði formaður nefndarinnar og varaformaður eru mjög sjálfstæðir og sterkir einstaklingar, sem ekki láta segja sér fyrir verkum. Þeir munu eflaust vinna sitt verk af miklum heilindum og leita víða fanga og ekki taka við skipunum þeirra, sem ekki vilja aðild eða þeirra sem vilja óbreytt ástand. Það sem þarf að forðast á Landsfundi er einhverskonar málamiðlun, sem ekki tekur á málinu. Við þurfum ákvörðun - já eða nei! Ákvörðunin verður hugsanlega afdrifarík og sársaukafull fyrir flokkinn, en hjá henni verður ekki komist. Ef ákvörðunin kemur ekki mun flokknum hins vegar blæða hratt eða hægt út.

Það sem stuðaði mig verulega á fundinum í Valhöll í dag voru ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins um aðild að sambandinu. Í öðru orðinu sagðist Geir ganga opinn til samstarfs við ESB yrði það niðurstöða Landsfundar. Í hinu orðinu úthúðaði hann sambandinu fyrir afstöðu þess í Icesave málinu og spurði landsmenn, hvort þeir hefðu virkilega áhuga á samstarfi við slík ríki. Það er því engum blöðum um það að fletta, hvaða hug forsætisráðherra ber til ESB aðildar, hann vill hana ekki undir neinum kringumstæðum. Þar af leiðir, að hann mun vinna gegn ESB aðildarviðræðum fram að næsta Landsfundi. Geir var þó eins og alltaf heiðarlegur og sjálfum sér samkvæmur og sagði að allir vissu af hans afstöðu í málinu og hún kæmi því ekki á óvart.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að mínu mati aðeins um tvennt að velja. Annars vegar getur hann haldið sig við núverandi stefnu, en þá klofnar flokkurinn í tvennt. Til verður mjög lítill 10-15%, sem verður einkennileg blanda af frjálshyggju- og heimastjórnarflokki, sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn og hins vegar verður til hófsamari hægri flokkur, sem vill ESB aðild. Til að sátt náist með örmunum, þurfa þeir báðir að gefa eitthvað eftir. Flokkurinn þarf engu að síður að breyta lítillega um stefnu og taka kúrsinn í átt til fyrri gilda og stefnu flokksins. Að auki verður að nást sátt um, að stefnt skuli að ESB aðild sem allra fyrst, helst á næsta ári. Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins krefst þessara breytinga og einnig helstu stuðningsaðilar hans - atvinnulífið!

Leita verður allra leiða til að fá ESB til að gera undantekningu vegna upptöku evru og að hún verði tekin upp á sama tíma. Þetta ætti að vera mögulegt vegna þess neyðarástands, sem hér ríkir og smæðar markaðarins.


mbl.is Þrír leiða Evrópustarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Hvað er þetta sem maður er að heyra að haukarnir innan Sjálfstæðisflokksins undir forystu Davíðs séu að reyna koma Þorgerði Katrínu á kné? Stöð 2 virðist hafa einhverjar heimildir fyrir því. Stefnir ekki bara í að Davíð sé að fara snúa aftur?

Jón Gunnar Bjarkan, 14.11.2008 kl. 20:53

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Er eitthvað því til fyrirstöðu að þú kjósir bara Samfylkinguna. Ekki berst hún gegn markaðshagkerfinu, fremur en systurflokkar hennar í Skandinavíu. Ertu ekki eitthvað pólitískt áttavilltur?

Gústaf Níelsson, 14.11.2008 kl. 21:52

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einu var ég alveg sammála formanni mínum, fólk tekur ekki afstöðu í stjórnmálum út frá einu stefnumáli. Hægri menn halda áfram að vera hægri menn!

Vandamálið er - líkt og Óli Björn Kárason orðaði það svo skemmtilega í grein sinni "Flokkur í ólgusjó":

Ég hef ekki fjarlægst flokkinn - flokkurinn hefur fjarlægst mig

Aðalástæðan fyrir því að ég myndi aldrei geta kosið Samfylkinguna - systuflokk sósíaldemókrata á Norðurlöndum - komst skýrt fram um daginn í frétt á mbl.is:

Danir eru heimsmeistarar í skattlagningu tekna þegnanna samkvæmt útreikningum endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækisins KPMG.  Þar í landi eru svonefnt jaðarskatthlutfall 59% en í Svíþjóð, sem kemur næst, er þetta hlutfall 55%. Á Íslandi er hlutfallið 35,7%, samkvæmt útreikningum KPMG.

Jaðarskatthlutfall er það hlutfall af síðustu krónunni sem launþegi vinnur sér inn sem rennur til hins opinbera.

Ég er ekki pólitískst áttavilltur, heldur flokkurinn minn og hann mun aftur finna sinn kúrs - hafðu engar áhyggjur!

Það er fullkomlega eðlilegt að flokkur, sem hefur verið í ríkisstjórn í bráðum 18 ár þurfi að fara í einhverja naflaskoðun og við erum snögg að því!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.11.2008 kl. 06:14

4 Smámynd: Jón Ingvar Bragason

Góð yfirferð yfir málið! Held reyndar að það séu um 15% sjálfstæðismanna harðir andstæðingar aðildar ESB og 15% fylgjandi.

Þarna á milli er um 70% flokksmanna sem er mjög íhaldssamur og hefur hingað til ekki viljað taka afstöðu til málsins og telur að ekki hafi verið færð nægilega sterk rök fyrir aðild. Þess vegna tel ég þetta raunhæfa leið að setja þessa nefnd á koppinn og voandi tekst að setja fram góða punkta í umræðnu.

Sjálfur tilheyri ég þessum 15% sem er mjög fylgjandi aðild að ESB og tel það einu raunhæfu leiðina fyrir íslendinga.

Jón Ingvar Bragason, 15.11.2008 kl. 11:30

5 identicon

Flokkurinn,er fljotur að bregðast við!.Þessi orð lét Geir Haarde út úr sér í úvarpsviðtali í gær, aðspurður út í breytt viðhorf til Evrópubandalagsins. Flokkurinn væri ekkert að apa eftir samstarfslokknum, Samfylkingunni! Breyttar aðstæður, sagði formaðurinn! Og fljótur að bregðast við! Við hverju? Óánægju landsmanna með Seðlabankastjóra og Fjármálaeftirlit? Fimm vikur síðan að hrun nýfrjálshyggjunnar skall hér á og ekkert gert. Eftirlitsaðilarnir sem brugðust eru  látnir rannsaka sjálfa sig. Fylgið hrynur af flokknum,(mér er sama) og veit, að ekki mun honum takast að auka fylgið við flokkinn, þrátt fyrir umsnúning í Evrópustjórnmálum.

Nei, landsmenn kenna þennan flokk við hrun efnahagskerfis og nýfrjálshyggju, pólitískra ráðninga  og spillingu. Þar er ástæðan fyrir fylgishruninu. Sennilega þarf svo að hækka skatta og hafa á svipuðu róli og í Skandinaviu, af því að við , skattborgarar, verðum látin borga fyrir eftirlitsleysið , óráðsíuna og spillinguna!

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 13:28

6 identicon

Og.... skatturinn er nú þegar á Íslandi, eins og þú segir, 35,7% + 24,5 % virðisauki, Guðbjörn, samtals 60,1% Það tók Fjármálaráðherra 3 ár , að sjá það út, að alltaf var verið að auka skattbyrðina á þá sem minnst hafa launin....

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 15:02

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Eins og staðan er að verða hjá ESB þá höfum við ekkert út úr ESB aðild nema við getum hugsanlega tekið upp evru einhverntíma í framtíðinni, í fyrsta lagi eftir tvö ár.það þarf að skipta um mynt sem fyrst þessvegna á að fara í það af fullum þunga að athuga með að taka upp aðra mynt en krónu.Ef þessi ríkisstjórn gerir það ekki þarf aðkoma henni frá.

Sigurgeir Jónsson, 15.11.2008 kl. 16:58

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðjón:

Virðisaukaskatturinn á Íslandi er 24,5%,14% og 7%.

Í Danmörku, Svíðþjóð og Finnlandi eru hann 25% og í Noregi 24% og mér skilst að virðisaukaskattsstigið sé þetta á allar vörur, allavega er það þannig í Danmörku. Það skemmtilega er samt að matvöruverð er tugum prósenta lægra þar en hér, þrátt fyrir að munurinn á virðisaukaskatti skuli verða 18%

Bættu þessum prósentutölum endilega við 53% og 59% og þá erum við komnir í skuggalegar tölur miðað við þína útreikninga, sem standast auðvitað ekki!

Í Hvítarússlandi er hann 25% - en ég held að það sé eina þjóðfélagsskipulagið, sem þú aðhyllist í Evrópu. Því miður lágu ekki fyrir upplýsingum um virðisaukaskattsstigið í Norður-Kóreu eða á Kúbu.

Jón Ingvar:

Ég held að þetta séu réttar tölu ef þú lítur til flokksbundinna virkra sjálfstæðismanna - sem eru auðvitað þeir sem fara á landsfund og því eiga þessar tölur þínar rétt á sér.

Ég var hins vegar að tala um kjósendur flokksins og vísa til nokkurra kannana undanfarna mánuði.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.11.2008 kl. 18:56

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Ég er því miður ekki viss um að þetta verði neinn átakafundur. Þingflokkurinn allur er að því er virðist sömu skoðunar og Geir. Einn þeirra er varaformaður Heimsýnar og annar í stjórn Heimsýnar. Enginn af þingmönnum flokksins virðist ætla að leiða þessa baráttu okkar Evrópusinnana í flokknum.

Það verða þá hugsanlega einhverjir í grasrótinni sem verða með óróa á fundinum. Svipað eins og þegar kótamálin voru til umræðu. Það verður við ramman reip að draga á Landsfundinum ef stjórn flokksins og allir þingmenn ætla, eins og hingað til, að leggjast gegn því að farið verði í aðildarviðræður.

Ég er ekki bjartsýnn. Ég er ákveðinn að ég ætla að kjósa hægrisinnaðan borgaraflokk í næstu kosningum. En ég ætla ekki að kjósa varaformann Heimsýnar á þing fyrir mig verði ekki samþykkt á Landsfundinum að fara í aðildarviðræður við ESB og málið í framhaldinu sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.11.2008 kl. 19:06

10 identicon

Ekki veit ég neitt um skattamál hins hægri sinnaða þjóðernissinna , sem ræður ríkjum í Belarus!! Enda haft lítinn áhuga á honum og aðhyllist þann hægri-mann ekki að neinu leiti. Danmörku þekki ég kannski betur til, enda búið þar. Þar er til dæmis hátekjuskattur , sem þarft er að koma hér á, að sjálfsögðu. Ég veit að skattur er hár þar, en hann er notaður í velferðakerfið., Barnhaheimili frí, spítalar, slysavarðstofur, tannlækningar barna , upp að 18 ára aldri og virðast allir sáttir við að borga háa skatta, enda Danir stoltir af sínu velferðakerfi! Veit því miður lítið um Kúbu eða Norður Kóreu, annað en það , að talað er um sem staðreynd, að heilbrigðis- og skólakerfi Kúbverja , sé það besta og fullkomnasta í bæði mið- og Suður Ameríku.

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 20:21

11 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Það sem menn virðast reyndar alltaf gleyma þegar talað er um Kúbu er að þeir hafa þurft að þola viðskiptabann af hálfu USA í marga áratugi. Hvernig væri efnahagur Íslands núna ef ESB hefði haldið úti viðskiptabann á okkur í allan þennan tíma? Ekki góður allavega, svo mikið er ljóst.

Ég er reyndar hægri sinnaður sjálfur og kaus í fyrstu alltaf Sjálfstæðisflokkinn en eftir að ég varð einarður aðdáandi ESB þá sneri ég mér yfir í að kjósa Samfylkinguna, einfaldlega vegna þess að langtímastefna Sjálfstæðisflokksins og utanríkispólitík er varla til og það sem er til er glórulaust.

Jón Gunnar Bjarkan, 15.11.2008 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband