15.11.2008 | 20:57
ESB - Evrópuþingið - sannleikurinn um vægi Íslendinga
Aðildarríki Evrópusambandsins eru í dag 27 og íbúafjöldinn um 492 milljónir. Þessi mikli fjöldi fólks býr á landsvæði, sem þekur 4324 milljónir ferkílómetra.
Evrópuþingið situr í Strassborg og þar eiga 785 þingmenn sæti, sem skiptast í stjórnmálaflokka, sem hér segir:
- Íhaldsmenn: 288 þingmenn
- Jafnaðarmenn : 216 þingmenn
- Frjálslyndir: 101 þingmenn
- Íhaldssamir þjóðernissinnar: 44 þingmenn
- Græningjar: 42 þingmenn
- Vinstri menn: 41 þingmenn
- Evrópuandstæðingar: 24 þingmenn
- Óháðir: 30 þingmenn
Fulltrúar á þingið eru valdir í beinum kosningum af íbúum aðildarríkjanna 27. Ofangreindir þingmenn eiga sæti í um 160 stjórnmálaflokkum innan ESB, sem hafa þó ákveðið að starfa saman í ofangreindum þingflokkum innan Evrópuþingsins.
Hér að neðan má sjá öll lönd ESB, íbúa ESB í milljónum, fjölda þingmanna, þúsundir íbúa að baki hverjum þingmanni á Evrópuþinginu og hlutfallsleg áhrif hvers þingmanns.
Malta | 0,40 | 5 | 80 | 10,35 | |
Lúxemborg | 0,47 | 6 | 78 | 10,48 | |
Kýpur | 0,78 | 6 | 130 | 6,21 | |
Eistland | 1,4 | 6 | 233 | 3,54 | |
Slóvenía | 2,0 | 7 | 286 | 2,89 | |
Lettland | 2,4 | 9 | 267 | 3,10 | |
Írland | 3,7 | 13 | 285 | 2,91 | |
Litháen | 3,7 | 13 | 285 | 2,91 | |
Finnland | 5,2 | 14 | 371 | 2,22 | |
Danmörk | 5,3 | 14 | 379 | 2,18 | |
Slóvakía | 5,4 | 14 | 386 | 2,14 | |
Búlgaría | 7,7 | 18 | 428 | 1,93 | |
Austurríki | 8,1 | 18 | 450 | 1,84 | |
Svíþjóð | 9,0 | 19 | 468 | 1,76 | |
Portúgal | 9,9 | 24 | 412 | 2,00 | |
Ungverjaland | 10,0 | 24 | 416 | 1,98 | |
Belgía | 10,2 | 24 | 425 | 1,94 | |
Tékkland | 10,3 | 24 | 429 | 1,92 | |
Grikkland | 10,6 | 24 | 441 | 1,87 | |
Holland | 15,8 | 27 | 585 | 1,41 | |
Rúmenía | 26,8 | 35 | 766 | 1,08 | |
Pólland | 38,6 | 54 | 714 | 1,15 | |
Spánn | 39,4 | 54 | 729 | 1,13 | |
Ítalía | 57,7 | 78 | 739 | 1,11 | |
Bretland | 59,8 | 78 | 761 | 1,08 | |
Frakkland | 62,1 | 78 | 757 | 1,06 | |
Þýskaland | 82,5 | 99 | 828 | 1,00 | |
Samanlagt | 485,4 | 785 | 615 | 1.35 |
Af ofangreindri samantekt má vera ljóst, að minnstu ríki ESB hafa hlutfallslega langmest völd innan sambandsins. Þannig hefði Ísland líklega 4-5 þingmenn á Evrópuþinginu með aðeins 320.000 íbúa á meðan Danmörk hefði aðeins 14 þingmenn með 5,3 milljónir íbúa. Við Íslendingar erum um 6,4 % af íbúafjölda Danmerkur en hefðum um 35% af þeim fjölda þingmanna, sem Danmörk hefur á Evrópuþinginu í dag.
Það er því tómt þvaður, að Íslendingar hefðu lítil áhrif innan ESB, allavega miðað við íbúafjölda og hvað Evrópuþingið varðar. Að auki hefðu Íslendingar tækifæri til að starfa innan stórra þingflokka á Evrópuþinginu að sínum hugðarmálum og að sameiginlegum hagsmunamálum stjórnmálamanna, sem hafa svipaðar skoðanir innan ESB. Þar að auki gætu Íslendingar unnið með þingmönnum Norðurlandanna, sem hafa með sér öflugt samstarf á þingi ESB. Þegar litið er til allra þessara staðreynda má vera ljóst, að Íslendingar hafa ansi marga þingmenn miðað við að þeir eru aðeins jafn margir og íbúar Bielefeld, Bonn eða Mannheim í Þýskalandi.
Hvaða bein áhrif haldið þið, að íbúar borga af svipaðri stærðargráðu og í Þýskalandi - eða annarsstaðar í Evrópu - gætu haft innan Evrópuþingsins?
Framsókn flýtir flokksþingi og tekur fyrir tillögu um aðildarviðræður við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Facebook
Athugasemdir
Ef við stöndum utan ESB og semjum við þá eins og Sviss gerði á stöndum við svona:
Ísland 1 atkvæði
ESB 1 atkvæði
sjálfstæð ríki mætast á jafnréttis grunndvelli.
ESB er sambandsríki. berðu saman muninn á ESB þegar Danir kusu um að ganga inn árið 1988 og það sem það er í dag.
ef við förum inn í dag 2008. þá verður það með sama hraða og þróunn og verið hefur, orðið að einu Ríki. United States of Europe. USE.
skiptir engu máli hversu mikið hlutfallslegt vægi við hefðu. 100% af 0 er samt sem áður 0. við hefðum ekkert eiginlegt vægi.
Fannar frá Rifi, 15.11.2008 kl. 21:09
Þú hefðir átt að fá þér vinnu í greiningardeildum bankanna. útreikningar þínir fá ekki neitt lýta út fyrir að vera eitthvað á pappír. en eins og pappírinn úr bönkunum þá var sá pappír bara sneppill með tölum sem hafði engan grunndvöll í raunveruleikanum.
Fannar frá Rifi, 15.11.2008 kl. 21:11
Jón Frímann:
Mínar tölur eru 492 milljónir íbúa, en mér urðu á mistök varðandi fjölda þingmanna, sem eru eins og þú segir 785, en eiga að fara niður í 750.
Eftir nýja "módeli" ESB eiga í Þýskalandi að vera 859.000 íbúar að baki hverjum ESB þingmanni, á meðan það eru 417.500 að baki hverjum dönskum þingmanndi og u.þ.b. að 67.300 að baki hverjum þingmanni á Möltu.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.11.2008 kl. 21:43
Sem þýðir þá að við höfum 4 atkvæði á móti 746 svona cirka ekki satt það er ekki eitthvað sem að vert er að sækjast eftir. Sérstaklega þegar að ESB hefur sýnt sitt rétta eðli
Jón Aðalsteinn Jónsson, 15.11.2008 kl. 21:49
Þetta breytir því ekki að 4-5 þingmenn hefðu mjög takmarkaða möguleika á að verja sér-íslenska hagsmuni, t.d hvað varðar samninga um tolla á sjávarafurðir til landa utan ESB.
Það sem meira er þá eru völd Evrópuþingsins mjög takmörkuð. Það er t.d framkvæmdastjórn ESB sem hefur frumkvæði að allri Evrópulagasetningu. Þingmenn geta ekki lagt fram frumvörp. Í framkvæmdastjórn ESB fengjum við að skipa einn kommisar sem bæri enga sérstaka ábyrgð gagnvart Íslendingum heldur einungis gagnvart sambandinu í heild.
Ákvarðanir í stærstu málum eru síðan teknar á fundi leiðtoga stærstu ríkjanna án þess að smærri þjóðir hafi þar aðkomu nema þá í mesta lagi á táknrænan hátt, samanber nýlegur Parísarfundur vegna bankakrísunnar.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 21:50
Jón Aðalsteinn:
Í dag tökum við stóran hluta laga ESB og gerum þau að okkar lögum án þess að hafa fulltrúa á Evrópuþinginu, eða innan annarra stofnana ESB.
Hvaða eðli ESB áttu við?
Hans:
Hvaða tolla áttu við? Þú verður að átta þig á að bestu fríverslunarsamningum okkar höfum við einmitt náð við EFTA og ESB ríkin og þess vegna flytjum við 70 % af okkar vörum út einmitt þangað og flytjum aðeins minna inn frá þessum ríkjum.
Það er flott, þegar einhverjir flokkar lýsa því yfir, að hafa náð hinum eða þessum fríverslunarsamningnum, en réttara er auðvitað að benda á hversu mikið er verið að versla við þessi lönd og hvort fyrirsjáanlegt er að verslun við þessi lönd aukist eitthvað í framtíðinni?
Samningar við lönd, sem við verslum lítið sem ekkert við eru lítils virði!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.11.2008 kl. 22:05
Jón Frímann:
Þú ert vinstri maður og ég hægri maður, en eitt eigum við sameiginlegt og það er að við viljum inn í ESB.
Við ættum kannski að hittast og stilla saman strengi á blogginu?
Ég geri allt fyrir opnum tjöldum og trúi því ekki á leynimakk. Því finnst mér ekkert af því að tala við samstarfsflokkinn, sem hefur meiri reynslu og þekkingu hvað þessi mál varðar, um ESB málin!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.11.2008 kl. 22:10
Takk fyrir mjög góða framsetningu Guðbjörn. Til viðbótar er bráðnauðsynlegt að halda því á lofti að þeir sem veljast á ESB þingið sitja þar sem þingmenn fyrir íbúa allrar Evrópu. Því yrðum við í raun með jafnmarga þingmenn og hverjir aðrir.
Þegar á þingið er komið eru það málefnaflokkar en ekki þröngir flokkshagsmunir sem ráða för. Þetta eiga að sjálfsögðu þeir sem aldir eru upp við sérhagsmunagæslu og flokksaga afar erfitt með að átta sig á. Því gæti dugað að benda einstaka þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á... þó ekki með neinum æsing... að íhaldsmenn, það er að segja þeir sem vilja græða á daginn og kippa með sér einni rauðvín með grillsteikinni á kvöldin, séu fjölmennastir á Evrópuþinginu.
góða helgi.
Atli Hermannsson., 15.11.2008 kl. 22:45
Ef Stjórnarskráin eða Lissabon sáttmálinn hefði farið í gegn þá fengi hvert ríki aldrei minna en 6 þingmenn. Danir fengju 12 þingmenn. Segjum að Grænland og Færeyjar myndi gerast sjálfstæðar þjóðir og ganga inn í ESB. Þá hefðu þau samanlagt meiri völd en Danmörk innan ESB því Grænland og Færeyjar hefðu sama þingmannafjölda og Danir en meiri völd de facto innan ráðherraráðsins því þar eru völdum skipt jafnt á allar þjóðir hversu stórar sem þær eru. Ég segi de facto innan ráðherraráðsins því fulltrúar þar sem koma frá öllum löndum eiga að vinna að hagsmunum ESB en ekki sinna eigin þjóða. Þingmennirnir eru hinsvegar fulltrúar sinnar eigin þjóðar.
Jón Gunnar Bjarkan, 15.11.2008 kl. 23:59
Utanríkisráðuneytið hefur hvorki vald né umboð til að "undirbúa umsókn inní ESB". Standi Ingibjörg fyrir slíku, er það brot á stjórnarsáttmálanum, ódrengilegt og sviksamlegt við Lýðveldið Ísland og bindandi ákvæði þeirrar stjórnarskrár, sem ISG sjálf hefur svarið hollustueið. Burt með slíka þjóðsvikara af þingi, ef hér var rétt farið með í fréttinni, sem tilgreind var.
Jón Valur Jensson, 16.11.2008 kl. 03:52
Jafnvel með Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi í slagtogi með okkur myndi það kosningabandalag einungis hafa í mesta lagi 52 þingmenn af 785, þ.e. 6,6% (fimmtánda hvern þingmann) og þætti mörgum erfið atsóknin, enda jafnvel ekki ávallt að treysta á þessi þrjú lönd.
En ef Lissabon-sáttmálinn verður ofan á, missa Danmörk og Finnland trúlega 2 x 2 þingmenn frá núverandi viðmiði, og Svíar missa tvo eða fleiri.
Innlegg Hans Haraldssonar kl. 21:50 er mjög gagnlegt, en ég geri athugsasemd við þessi hans þó sönnu orð:
Þetta segir nefnilega ekki alveg nóg, því að þessi kommissar "okkar" væri í raun tæplega okkar, heldur miklu fremur bandalagsins, því að honum leyfist ekki (sbr. reglum EBé) að vinna að neinum sérhagsmunum Íslands í framkvæmdastjórninni.
Jón Valur Jensson, 16.11.2008 kl. 04:09
Ég vil gjarnan draga lokasetningu mína í innlegginu kl. 3:52 til baka – sleppa slíkum dómi – en stend við þessi orð: Utanríkisráðuneytið hefur hvorki vald né umboð til að "undirbúa umsókn inn í ESB". Standi Ingibjörg fyrir slíku, er það brot á stjórnarsáttmálanum, ódrengilegt og sviksamlegt við Lýðveldið Ísland og bindandi ákvæði þeirrar stjórnarskrár, sem ISG sjálf hefur svarið hollustueið.
Jón Valur Jensson, 16.11.2008 kl. 04:52
Atli: Þetta er hárrétt hjá þér. Hægri menn og vinstri menn í Evrópu hugsar auðvitað á svipuðum nótum og það gera umhverfissinnar og frjálslyndir líka.
Jón Frímann:
Fyrirgefðu innilega að ég væri að kalla þig vinstri mann, þegar þú ert ósköp venjulegt miðjumoð eins og ég sjálfur. Munurinn á okkur er þó að ég er sjálfstætt miðjumoð á meðan þú ert þá óbundið. Ég hef þó aldrei dansað algjörlega eftir flokkslínunni í öllum málum, frekar en margir aðrir sjálfstæðismenn.
Ég hef enga trú á að verið sé að undirbúa umsókn Íslands inn í ESB.
Jón Valur:
Líkt og sagði við Jón Frímann hef ég enga trú á að verið sé að undirbúa umsóknum um ESB aðild og ég er sammála þér að slíkt væri í meira lagi undarlegt vegna ákvæða stjórnarsáttmálans þar um.
Hins vegar geta embættismenn verið að skoða ýmsa hluti í umboði ráðherra og við það er ekkert að athuga. Þannig hefur dómsmálaráðherra komið fram með hugmyndir, sem vitað var að samstarfsflokkurinn tæki ekki vel í. Þetta er eðli samsteypustjórna.
Allir:
Evrópusambandið er ekki frægt fyrir að valta yfir hagsmuni einstakra aðildarríkja sinna, heldur reynið það að ná sátt um málin. Þetta er auðvitað svolítið framandi fyrir okkur Íslendinga og lýsir ekki okkar lýðræðishefð, þar sem stjórnarfrumvörp eru keyrð í gegnum þingið á meirihluta og oft á síðustu stundu. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og hluti af okkar vanda.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.11.2008 kl. 11:55
Það er auðvitað fráðlegt að fara í svona útreikninga, en slíkt kemur ekki í veg fyrir þá staðreynd að við eigum þann kost bestann að sækja um og ganga í ESB hið fyrsta. Það er svo margt sem hægt er að gera betur fyrir íbúa landa sem vinna saman og eru meðstórt og öflugt bakland.
Fyrir 11 árum sameinuðust 4 verkalýðsfélög í Húnavatnssýslum. Þau voru fyrir sameiningu mis vanmáttug til að þjóna sínum félagasmönnum. Síðan hefur þjónustustigið hækkað til muna og félagsvitund aukist ef eitthvað er. Þetta var mikið framfaraspor.
Svo verður einnig með inngöngu okkar í ESB því þar eru öflugir sjóðir til marskonar stuðnings, ekki hvað síst við dreyfbýli norðan 62. breiddargráðu. Ísland er allt fyrir norðan þá gráðu.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.11.2008 kl. 15:44
Hólmfríður:
Mikið er ég sammála þér!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.11.2008 kl. 16:49
Til samanburðar má líklega hafa í huga að um alllangt skeið (og að einhverju leyti enn) hefur svokölluð landsbyggð á Íslandi haft þingmannafjölda langt umfram það sem íbúafjöldið hefði átt að skila þeim.
Það er vissulega umdeilanlegt hverju það hefur skilað þeim, ef til vill áhrifum, en ekki velmegun held ég að flestir geti verið sammála um.
En vissulega er einföldun að kenna það þingmönnum. Efnahagsleg gæði eiga nefnilega ekki upptök sín á þingum, en þing geta þó haft veruleg áhrif á dreifingu og tilurð þeirra.
Það er líka ljóst að þingmenn 6. stærstu ríkjanna, ef þeir standa saman (eins og "þingmenn kjördæma" gera á stundum, geta þeir ráðið því sem þeir vilja. Að hafa 1. eða 2. "bónusþingmenn" skipta þá engu máli.
Svo er það líka að valdið liggur ekki hjá þinginu í "Sambandinu". Hvað skyldi Ísland hafa marga fulltrúa í Framkvæmdastjórninni (ef að aðild verður) þegar fram líða stundir? Það er ljóst að þegar aðildarríki verða orðin um eða yfir 30, er ekki meininginn að öll smáríki eigi fulltrúa í Framkvæmdastjórninni.
G. Tómas Gunnarsson, 16.11.2008 kl. 16:57
Við missum öll yfirráð yfir hafsvæðinu í kringum Ísland og allri auðlindastýringu verður stjórnað frá Brussel. Noregur og Malta reyndu að semja um þessa hluti en það er ekki um það ræða.
Við inngöngu verður hafið í kringum Ísland Evrópu hafið
Ég veit ekki á hverju fólk ætlar að lifa hér í framtíðinni þegar stærstu liðir í útflutningstekjum okkar verða nýttar af öðrum þjóðum innan sambandsins en það kemur til með að gerast á innan við 10 árum. Ég tala nú ekki um ef um olíu er að ræða
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 16.11.2008 kl. 18:35
Samningar við Evrópusambandið , standa og falla með því að við, Íslendingar, getum gert sérsamkomulag við sambandið, um auðlindir hafsins og landsins. Ef ekki verður hægt að semja um okkar sérstöðu, höfum við ekki neitt að gera í þetta samband . Ekki hrífst ég af því að fá Breta eða aðra hingað til að veiða aftur hér við land og þá sérstaklega ekki Breta!
Eg ber samt smá von í brjósti um, að hægt sé að semja við bandalagið á okkar nótum, vegna þess að bandalagið hefur nú þegar brennt sig á sjávarútvegsstefnu bandalagsins, fyrri ára og hefur tekið nýja stefnu í kvótamálum í Norðursjó og Eystrasalti. Spurningin er aftur á móti, hvort að það hafi ekki verið of seint, þar sem fiskistofnar í Norðursjó og Eystrarsalti eru nánast útdauðir og hræðilegt að sjá þessa smáttitti, sem til dæmis frændur okkar Danir eru að landa í Hanstholm, Hirsthals og Skagen.
Friðjón G. Steinarsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 19:50
Ég lít á þessi mál - aldrei þessu vant - alveg sömu augum og Friðjón G. Steinarsson!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.11.2008 kl. 23:06
Guðbjörn. Það er sífellt talað um að sjávarútvegsstefna ESB henti okkur ekki. Ég hef því alveg sérstaklega lagt mig eftir því í hverju það er fólgið - en er litlu nær. Ef það eru einhver þau atriði sem við getum ekki sætt okkur við væri gott að einhverjir færu þá að skilgreina þau. Þeir agnúar sem eru á framkvæmdinni snúa allir að sameiginlegum fiskstofnum tveggja eða fleiri ríkja og koma okkur akkúrat ekkert við - og munu ekki heldur gera það eftir inngöngu. Mér er t.d. spurn; gæti óánægja sjómanna með litla kvóta við írska haf haft einhver áhrif hér við land. Nei, ekki frekar en að hún hafi í dag áhrif á sjómenn í Hanstholm eða Hirsthals.
Friðjón G. óttast t.d. að Bretar komi, en með hvaða flota er er spurn? Þeir fáu togarar sem þar eru eftir eru flestir í eigu Íslendinga og veiða til dæmis kvóta Breta í Barentshafinu. Sama með flota þjóðverja sem Samherji á. Vantar fleiri skip á íslandsmið?...ekki hvað ég veit og þeim mun ekki fjölga eftir inngöngu.
Það er álíka mikil hætta á að skip frá Spáni sigli hingað og að spænska veikin blossi upp aftur. Þeir hafa t.d. ekki sama búnað, enga þekkingu á staðháttum né reynslu við okkar erfiðu aðstæður. Þá hafa þeir enga veiðireynslu og fá því engar veiðiheimildir hér við land. Hins vega verður þeim frjálst að leigja sé kvóta hugnist þeim það. Hins vegar verða fjárfestingar erlendra ríkisborgara algerlega frjálsar og með þeim hætti gætu þeir komið ár sinni fyrir borð innan íslenskra útgerða.
Á þessum nótum eigum við að nálgast umræðuna því hún er það sem skiptir höfuðmáli. Viljum við t.d. að útlengingar eignist veiðiheimildir hér við land í gengum fjárfestingar í útgerðum? Því spyr ég einnig. Er líklegt að útlendingar sjái sér hag í því að fjárfesta í útgerð sem skuldar þrefalda ársveltu sína... og að uppistaðan í eigninni séu veiðiheimildir sem samkvæmt íslenskum lögum er sameign þjóðarinnar - úthlutað til eins árs og myndar ekki eignarétt. Vilji þeir það er það að mínu mati hið besta mál. Því það ætti að geta lækkað skuldir útgerðarinnar og bætt reksturinn sem er aðalatriðið.
Atli Hermannsson., 17.11.2008 kl. 09:30
Sjávarútvegsstefna ESB tekur líka skýrt fram um að veiðiheimildir ganga til þeirra sem hafa reynsluna, aðeins íslendingar hafa veitt hér við land og því ganga allar heimildir til okkar, þetta liggur alveg fyrir.
Síðan þarf að fá úr því skorið í aðildarumræðum hvort hægt sé að fá einhverskonar sérlausn sem eru ansi algengar. Sérlausnir eru ekki tímabundnar undanþágur og verða ekki verða ekki felldar úr gildi nema með samþykki allra ESB ríkja. Sérlausnir hafa því sama lagalega gildi og stofnsáttmáli ESB.
Við verðum t.d að fá úr því skorið hvort við getum komið í veg fyrir að íslenskir útgerðarmenn selji veiðiheimildir sínar út úr landi, ef það er ekki hægt samkvæmt stofnsáttmálanum, þá hvort hægt sé að fá sérlausn.
Jón Gunnar Bjarkan, 17.11.2008 kl. 14:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.