15.12.2008 | 07:57
Þegar einn ráðherra og einfaldur meirihluti sveitarfélags er látinn ráða ferðinni fyrir landið ...
Það er ljóst að nokkrum rugludöllum í Hafnarfirði og víðar tókst að koma slíku róti á hugi Hafnfirðinga, að þeir litu fram hjá þeirri einföldu staðreynd, að álverið í Straumsvík hafði séð hundruðum Gaflara fyrir lífsviðurviðurværi um áratuga skeið í gegnum margar kreppur og mörg góðæri.
Á sama hátt virðist núverandi umhverfisráðherra Samfylkingarinnar hafa með seinagangi sínum og fjandsamlegum yfirlýsingum komið í veg fyrir álver á Bakka við Húsavík. Er þetta virkilega réttlætanlegt - hvar var fyrirhyggjan?
Síðan halda Andri Snær, Björk, Ómar og VG áfram að predika sama ruglið og áður. Þjóðin er svo dofin, að hún segir í skoðanakönnunum, að hún vilji að þetta sama fólk stjórni landinu. Þetta eru kannski eðlileg viðbrögð hjá þjóðinni eftir að hinir stjórnmálaflokkarnir, ríkisstjórnir og stjórnvöld hafa gjörsamlega brugðist á undanförnum 3-4 árum.
En fólk, hugsið ykkur um, í guðanna bænum! Haldið þið að við lifum á loftinu, á því að selja hvort öðru einhverjar innfluttar druslur í Kringlunni eða af því að greiða hvort öðru hárið og selja hvort öðru pítsur?
Nei, líkt og aðrar ríkar þjóðir þurfum við að framleiða eitthvað áþreifanlegt - eða óáþreifanlegt - og flytja út. Gildir þar einu, hvort það er fiskur, ál, ferðaþjónusta, tölvuleikir eða annað!
Ég viðurkenni, að álverin virðast hafa brugðist í bili, en hvar er sprotastarfsemin, sem þið stóriðjuandstæðingar lofuðuð í stað álveranna?
Þið eigið næsta leik og hljótið að vera tilbúin með hugmyndir og fjármagn, meira þarf ekki! Oft var þörf, en nú er nauðsyn!
Andri, Björk, Ómar, Samfylking, Vinstri græn og útlenskir og innlendir "spekúlantar" á ykkar vegum:
útflutningstekjur verða ekki kjaftaðar inn í landið í Kastljósum eða með einhverjum yfirlýsingum, heldur þarf að vinna fyrir þeim með höndunum og hugvitssemi!
Hætt við stækkun í Straumsvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:10 | Facebook
Athugasemdir
Mikið rétt. Það þyrfti að gera lista yfir það fólk sem „sparað“ hafa þjóðinni hvað mestar tekjur.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 15.12.2008 kl. 08:06
Hvers vegna leggurðu ekki frekar fram sjálfur einhverjar aktúalt hugmyndir?? Finndist þér í alvöru spennandi núna að vera með hátt í 90% af allri virkjanlegri orku landsins nýtta í áli? Núna þegar álverð hefur hrapað á árinu hafa tekjur þjóðarinnar lækkað gríðarlega af því.
Umhverfisráðherra barðist ekki gegn álveri, umhverfisráðherra fylgdi gildandi lögum og var úthrópuð fyrir. Væri nú munur ef stjórnsýslan almennt tæki sig á í þessum efnum, en léti ekki vini og vandamenn ganga fyrir.
Staðreyndin hins vegar er sú að þessi ákvörðun Rio Tinto hefur nákvæmlega ekkert með ákvörðun ráðherra að gera. Þessi ákvörðun Rio Tinto snýst um það og það eingöngu að álverð í heiminum hefur lækkað um hátt í 60% það sem af er þessu ári.
Þeir munu liggja aftur á þröskuldinum hjá okkur um leið og álverð nær aftur nýjum hæðum, vittu til. Það vona ég að Guð gefi að við verðum þá búin að láta okkur detta eitthvað nýtt í hug til þess að nýta orkuna í. Algert hugmyndaleysi okkar allra er það sem mér finnst sorglegast í ferlinu.
Það verða engar stórframkvæmdir á Íslandi á næstunni. Eftir sem að ég hef heyrt innan úr verkfræðigeiranum virðist vera útséð með að Orkuveitan eða Landsvirkjun fái nokkurs staðar fjármögnun á næstu misserum.
Innan verkfræðigeirans er reyndar stærsti óttinn núna sú raunverulega hætta sem er á því að Landsvirkjun verði komin í erlenda eigu skuldunauta sinna á næsta ári. Landsvirkjun þar endurfjármögnun lána sinna í febrúar skilst mér, lítur ekki vel út með að sú endurfjármögnun takist.
Já, nú hefði verið gott að vera búin að dreifa eggjunum í fleiri körfur. Ég tek undir með þessu fólki sem þú telur upp hér að ofan. Mikið væri nú dásamlegt ef að fleiri hefðu tekið undir með þeim og sett kraft í nýsköpun í stað þess að setja alla krafta í að berjast fyrir fleiri álverum.
Baldvin Jónsson, 15.12.2008 kl. 08:30
Ég er jafn sammála athugasemd Baldvins og ég er ósammála færslunni sem athugasemdin er gerð við.
Einu vil ég þó bæta við. Guðbjörn krefur álversandstæðingana um sprotafyrirtækin sem þau voru buin að lofa. Munurinn á sprotum og alsherjarlausnum úr Reykjavík er að fólkið í landinu er ábyrgt fyrir sprotafyrirtækjunum sínum. Það er ekki eins og Ómar eða Björk ferðist um landið, útbýttandi sprotum. Þau hafa komið með hugmyndir sem aðrir geta tekið upp, en umfram allt er það fólksins að hlúga að sínum litlu sprotum og gera þá að stórum trjám.
Ómar er í sjálfstæðri kvikmyndagerð. Björk semur og flytur tónlist, Andri Snær skrifar bækur. Þetta eru þeirra sprotar. Þar fyrir utan hafa þau komið með hugmyndir fyrir aðra. Hvað viltu að þau geri meira?
Villi Asgeirsson, 15.12.2008 kl. 08:57
Hárrétt hjá þér, Guðbjörn. Nú reynir á þetta fólk sem alltaf hefur verið að tala um "eitthvað annað" sem leið í atvinnuuppbyggingu á Íslandi.
Nú ættu Björk, Andri Snær, Ómar Ragnarsson, Samfylkingin, Vinstri Græn og aðrir besserwisserar sem hafa verið svo duglegir að tjá sig í ræðum og ritum gegn uppbyggingu í atvinnurekstri að gjöra svo vel að koma með sínar lausnir í atvinnumálum og redda þeim þúsundum starfa sem þau telja að hægt sé að búa til í staðinn fyrir að reisa hér orkufrekan iðnað. Nú reynir virkilega á þetta fólk. Þið megið trúa því að ekki mun heyrast mikið í þessu fólki næstu árin hvað þetta varðar. Nú fer það að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Hér að landi tekur nú við "Leikhús fáránleikans" í boði þessa fólks.
Mað því að tefja framkvæmdirnar á Bakka með kröfu um heildstætt umhverfismat, gerist það í millitíðinni sem Þórunn var að vona að myndi gerast, þ.e. að eitthvað yrði til þess að framkvæmdaaðilar myndu hætta við álverið. Það þurfti reyndar heimskreppu til og Þórunni og hennar fylgendum varð að ósk sinni. Ekkert verður að álveri við Húsavík né af annarri atvinnuuppbyggingu þar í nánustu framtíð. Þórunn hlýtur að dansa stríðsdans af gleði.
Nú hefur fagnaðarerindið um "Fagra Ísland" Samfylkingarinnar orðið að veruleika. Það þurfti reyndar heimskreppu til.
Örn Jónasson (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 08:58
Örn: "... sem hafa verið svo duglegir að tjá sig í ræðum og ritum gegn uppbyggingu í atvinnurekstri..."
Var ekki viss hvernig ætti að svara þessu, svo út úr kortinu er þessi staðhæfing þín. Þau hafa aldrei unnið gegn uppbyggingu í atvinnurekstri. Þau hafa bent á að öll eggin í einni körfu væri ekki góð hugmynd, eins og er að sannast núna. Kárahnjúkar eru reknir með tapi fari álverð undir 1550 dollara. Álverð er nú undir 1500. Landsvirkjun er að borga með þeim. Hvað viltu borga með mörgum virkjunum, ofan á þau lán sem þarf til að byggja fleiri álver og stíflur? Við höfum ekki efni á meiri stóriðju í bili.
Vísa svo til fyrra svars míns. Mér sýnist þú ekki hafa lesið það.
Villi Asgeirsson, 15.12.2008 kl. 09:24
Baldvin:
Ég hef ekki gefið mig út fyrir að vera með lausnir á öllum hlutum og stóriðjan er heldur engin allsherjarlausn. Hún er hins vega góð í bland við annað (sprotastarfsemi). Ég vil ekki fylla landið af álverum og virkja Gullfoss ef það er það sem þið haldið. Ég sé hins vegar ekki að menn standi í röðum með einhverjar sniðugar hugmyndir.
Fólk þarf lifibrauð, hvort sem það er í áli eða sprotastarfsemi.
Örn:
Sammála hverju orði.
Villi:
Það sýnir nú hversu "solid" allar ákvarðandi Landsvirkjunar eru að áætlanir miðist við það verð, sem er á áli í stærstu kreppu undanfarin 60-80 ár. Það sýnir í raun hversu "stabílt" álið er að það skuli enn vera svona dýrt.
Heldur þú virkilega að eðlilegt verð sé á einhverju í dag, hvort sem það er ál eða olía?
Heimurinn er að ganga í gegnum efnahagslega hamfarir!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.12.2008 kl. 10:17
Sem betur fer erum við með bæjarstjóra í Reykjanesbæ, sem þorir að standa í lappirnar!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 15.12.2008 kl. 10:19
Já nú er það orðið á ábyrgð fólksins í landinu hvað það gerir, til að skapa sér vinnu.
Guðbjörn varpaði fram þeirri réttmætu spurningu hvar þessar atvinnugreinar eru sem heita " eitthvað annað" og vill eðliega að þeir sem hafa talað um það komi nú fram með þær. Held að því sama fólki ætti að vera orðið ljóst að við sem völdum álverið, gerðum það vegna þess að við sáum ekki þetta "eitthvað annað" og því hlýtur boltinn að vera hjá þeim sem vita allt um "eitthvað annað" og þeirra hlýtur þá að vera að framkvæma það líka.
En ef einhver er ekki tilbúin að fara í þann rekstur, en er með hugmynd, sem hægt er að fá fjármagn í, getur staðið undir sér, og skapar þó ekki væri nema 5-10 störf skal ég framkvæma það, ekkert mál. En mig vantar bara að vita hvað þetta "eitthvað annað er" Kveðja
(IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 12:53
Já Guðbjörn það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. Þegar Hafnfirðingar höfnuðu stækkun sýndu þjóarnýðngarnir gífurlegar hagnaðartölur af bankastarfseminni við trúðum þeim tölum og tilhvers þá að reisa álver þegar bankastóriðjan skilaði tekjum í þjóðarbúið. Þetta var lýðræðisleg ákvörðun Hafnfirðinga og okkur ber að virða lýðræðið þótt við séum ósamála því.
Þórun tók sína eigin ákvörðun um umhverfismatið. Hún var að vinna sína vinnu og ég met það við hana að taka ákvörðun samkvæmt sjálfri sér. Ég var ekkert samála henni en það var þjóðin sem réð hana í vinnu og gerði það sem hún taldi vera rétt. Ég ætla ekkert að dæma verk hennar rétt eða röng því ég get allt eins haft rangt fyrir mér.
Offari (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 14:09
Sigurlaug, ég skil ekki hvað þú meinar hér að ofan? Telur þú að það hafi einhvern tímann EKKI verið á ábyrgð fólksins að verða sér úti um atvinnu? Það hefur alltaf verið fyrst og fremst fólkið í landinu sem að hefur séð um það. Til áréttingar þá er líka gott að hafa í huga að ríkið er líka fólkið í landinu.
Ábyrgðin er því ávallt okkar. Nýsköpunar hugmyndir kvikna á hverjum degi, það er kannski betri grunnur fyrir þær í dag hins vegar. Þeim var flestum blásið hratt út af borðinu meðan að fjárfestar (nýsköpun þarf nefnilega á þeim að halda skilurðu) gátu fengið yfir 15% ávöxtun eigin fjár bara með því að leggja það inn á reikning í banka.
Nú hins vegar þegar að bankadraumurinn er farinn í bili, er von til þess að það litla fé sem eftir er, leyti þá í að vaxa mögulega einhversstaðar í nýjum hugmyndum.
Baldvin Jónsson, 15.12.2008 kl. 14:45
Stóriðjuframkvæmdinar sem farið var í á þennslutímanum voru með til að halda gengi krónunnar of háu sem aftur gerði erfitt fyrir sprotafyrirtækjum að standa undir sér. Á sama tíma voru bankarnir að nota ríkistryggð innlán til að ná í margt af því fólki sem annars hefði farið út í sprotastarfsemi. Hefði verið áklveðið að nota svipaða upphæð og notuð var í Kárahnjúkavirkjun í sprotafyrirtæki án þess að það hefði skilað árangri gæti ég tekið undir gagnrýni þína en eins og stefna stjórnvalda hefur verið er ósanngjarnt að gjaldfella lausn sem aldrei var reynd.
Þetta er soldið eins og alkinn sem fer á AA fund og finnur aðferðinni allt til foráttu. Þegar hann svo fellur eftir viku á eigin vegum segir að þarna sjáið þið þessi spor virka ekki neitt. Það verður að vinna sporin til að þau virki og það þarf að búa til umhverfi um sprotafyrirtæki til að þau geti blómstrað.
Héðinn Björnsson, 15.12.2008 kl. 16:08
Nei Baldvin ég hef einmitt talið það vera á ábyrgð fólkisins, en sumir hafa hins vegar ekki talið að mörg okkar ættu að hafa þann ákvörðunnar rétt, eða hæfi til að ákveða hvað það ætti að vera, þó í meirihluta værum. Það er að segja , ef við vildum álver.
(IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 20:30
Sæll, Baldvin.
Finndist þér í alvöru spennandi núna að vera með hátt í 90% af allri virkjanlegri orku landsins nýtta í áli?
Þetta er ekki rétt.
Staðreyndin hins vegar er sú að þessi ákvörðun Rio Tinto hefur nákvæmlega ekkert með ákvörðun ráðherra að gera. Þessi ákvörðun Rio Tinto snýst um það og það eingöngu að álverð í heiminum hefur lækkað um hátt í 60% það sem af er þessu ári.
Ekki heldu rétt.
Það verða engar stórframkvæmdir á Íslandi á næstunni. Eftir sem að ég hef heyrt innan úr verkfræðigeiranum virðist vera útséð með að Orkuveitan eða Landsvirkjun fái nokkurs staðar fjármögnun á næstu misserum.
Ekki heldur rétt.
Rauða Ljónið, 15.12.2008 kl. 21:51
Halda einhverjir virkilega að við værum betur stödd með jarðýtur uppi á hverjum einasta hól við að tæta landið í sundur fyrir fleiri virkjanir? Fullt af fjárfrekum framkvæmdum í gangi, sem hefði jafnvel verið sjálfhætt vegna skorts á fjármagni og enn meiri skuldasöfnun?
Hvað sprotafyrirtækin varðar tek ég undir með Jónasi Kristjánssyni. Sprotafyrirtæki eiga jafn auðvelt með að flytja sig á milli landa og útrásarliðið, sem hótaði því á sínum tíma.
Hvort haldið þið að frumkvöðlar telji rekstri sínum betur borgið í landi þar sem eru 20% vextir eða 4%?
Theódór Norðkvist, 16.12.2008 kl. 02:03
Rauða ljónið - mikið væri nú gaman ef þú gætir mögulega rökstutt aðeins fullyrðingar þínar. Þetta er í besta falli bara kjánalegt svona.
Sigurlaug, þú kemur þarna inn á punkt sem er réttur og ber að virða. Vilji meirihluti fara í álversframkvæmdir og þar af leiðandi ríki um það lýðræðisleg sátt að þá að sjálfsögðu verður stefnt áfram á þær framkvæmdir.
AKkúrat núna stoppar allt einfaldlega á skorti á reiðufé til svona stórra framkvæmda.
Baldvin Jónsson, 16.12.2008 kl. 03:12
Sæll. Baldvin í megindráttum ferð þú með rangt mál 90% er ekki rétt, orkuverð til stóriðju fer yfir verð til almennisveitur þegar verð er komið í 3000$ og yfir.
90 milljarðar eru eftir í þjóðarbúinu á nú verandi álverði, álfyrirtæki eru tilbúinn að koma að því að fjármagna orkuiðnað.
Innlent | mbl.is | 16.12.2008
Mæla með Rio Tinto
GREINING Merrill Lynch mælir með kaupum á hlutabréfum Rio Tinto, en félagið er móðurfélag Alcan-samsteypunnar sem rekur álverið í Straumsvík. Kemur þetta fram í nýtti úttekt.
Kv Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 16.12.2008 kl. 13:58
Sæll Sigurjón og þakka þér svörin. Það er ekki rangt mál að miðað við núverandi skipulag og álver sem eru/voru á teikniborðinu sé um eða yfir 90% af allri áætlaðri nýtanlegri orku í áliðnaðinum. Hvernig færðu út að það sé rangt. Allar tölur vísa til þessa.
Álverð er í dag um $1500 og enn fallandi þannig að allar hugmyndir um að það nái einhvern tímann yfir $3000 á næstunni er draumórar einir. Ég veit reyndar ýmislegt meira um orkuverð til stóriðju en lofaði að halda trúnaði gagnvart þeim sem veitti mér þær upplýsingar, en get upplýst að verðið er hvorki alveg jafn slæmt og hörðustu umhverfissinnar hafa viljað halda fram né neitt nálægt því sem að hörðustu fylgismenn hafa viljað halda fram.
Álfyrirtæki VORU tilbúin að koma að því að fjármagna orkuiðnað gegn eðlilegri kröfu um ávöxtun þar á. Nú er hins vegar svo komið, og það er ástandið sem ég vísa til, að fjármagn er einfaldlega af mjög skornum skammti í heiminum í dag og afar dýrt sem stendur.
Það er ekki bara einhver bóla eða bull að innan verkfræðigeirans eru menn í alvöru afar uggandi um það núna hvað gerist í febrúar þegar að Landsvirkjun þarf að endurfjármagna lánin sem meðal annars voru tekin vegna Kárahnjúka. Fái þeir ekki endurfjármögnun, sem vel er mögulegt eins og staðan er núna, er raunveruleg hætta á því að Landsvirkjun verði að hluta til í eigu erlendra lánadrottna fyrr en varir.
Hvert verður þá orkuverðið inn á íslensk heimili? Ógnvænleg tilhugsun.
Baldvin Jónsson, 16.12.2008 kl. 21:46
Baldvin:
Það sýnir styrk rekstraráætlana Landsvirkjunar að gert er ráð fyrir að álverð geti farið niður í US$ 1.500 og samt standi virkunin undir sér.
Það sýnir styrk álsins, sem hráefnis, að verðið skuli enn vera svona hátt, þrátt fyrir að í dag ríki heimskreppa á borð við þá, sem kom upp 1929.
Olían er komin niður fyrir US$50 en var í hvað 150-170US$ fyrir nokkrum mánuðum.
Fiskverð hefur hríðfallið að undanförnu, eigum við að hætta að fiska og fjárfestingum í fiskiðnaði?
Auðvitað er ekki um eðlilegt ástand að ræða núna á neinum mörkum og því eru röksemdir þínar hálfgert bull.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.12.2008 kl. 10:21
Hvernig færðu það út að það sýni styrk rekstrarálætlunarinnar þegar að meðalverð á áli síðustu 15 árin er rétt um 1500 dollarana?
Hefði ekki verið meiri styrkur í því fólginn að gera áætlun sem væri ólíklegt að skilaði tapi?
Burtséð frá verði á áli akkúrat í miðri kreppunni, þá virðist staðreyndin vera sú að við skoðun viðmiðunarverðs á áli virðist óraunhæft að telja til undanfarin 3-5 ár í því sambandi, því eins og það er kreppa núna var einnig þennslubóla á flestum mörkuðum undanfarin ár.
En eins og ég hef ítrekað sagt, þá er ég ekki á móti álverum yfirhöfuð. Ég er á móti því að nýta svo mikinn hluta af orkuforða okkar í eitthvað sem skilar ekki meiri arði en raun ber vitni.
Er ekki lang eðlilegast að byggja upp framleiðslu iðnað hér sem er að framleiða vöru til neytenda? Það skilar að minnsta kosti hæstri ávöxtun fyrir þjóðina.
Baldvin Jónsson, 20.12.2008 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.