Kerfisbreytingar í ríkisrekstri - hvar er hægt að spara?

Hversvegna notar Geir Hilmar Haarde orðið kerfisbreytingar? Er það af því að það er hæfilega loðið til að hægt er að skilja það á ýmsan hátt eða er það til þess að fólk skilji það alls ekki? Sem stjórnsýslufræðingur dettur mér strax í hug breyting á rekstrarformi, t.d. úr ríkisrekstri í einkarekstur. Þó er hægt að nota orðið um ýmsar aðrar aðgerðir, sem yfirleitt miða að meiri skilvirkni í opinberum rekstri. Betra væri ef stjórnmálamenn töluðu skýrar til fólks, en ekki á "teknókratamáli". Oft er verið að tala um hluti, sem beinast alls ekki að því að minnka þjónustu eða lækka laun starfsmanna, heldur að hreinni og klárri hagræðingu, sem bitnar í raun á engum. Ekki er hægt að ætlast til að allir landsmenn fari að mínu fordæmi og ljúki mjög sérhæfðu námi í skrifræði.

Möguleikarnir til sparnaðar hjá hinu opinbera eru færri en maður gæti haldið við fyrstu sýn. Ástæðan er einföld eða að útgjöld ríkisins fara aðallega í tvo stóra málaflokka: heilbrigðismál og menntamál. Ef það á að spara eitthvað að ráði verður það að vera í þessum málaflokkum.

Hvað heilbrigðismálin varðar, þá eru tækifærin í sparnaði líklega þó nokkur. Eins og málum er nú háttað fá sjúkrahúsin fasta fjárveitingu á fjárlögum. Þessar tekjur eru í raun algjörlega óháðar hversu miklu sjúkrahúsin afkasta. Flest sjúkrahús virðast síðan nota fjárlögin meira til að styðjast við þau en að nákvæmlega sé eftir þeim farið. Árlega fara nær allar sjúkrastofnanir mjög mikið fram úr fjárlögum. Ástæðan er sögð vera að peningarnir séu of þröngt skammtaðir miðað við lögbundin verkefni stofnananna. Ekki ætla ég að bera brigður á það, enda treysti ég að fólk sé að reyna að gera sitt besta á sjúkrahúsum, líkt og annarsstaðar í opinberum rekstri. Ég hef unnið hjá hinu opinbera í yfir 20 ár og held að á flestum stöðum sé í raun vel haldið um peningana. Þetta þýðir hins vegar ekki að engir möguleikar séu til sparnaðar.

Víðast hvar annarsstaðar í heiminum hefur rekstri sjúkrahúsa verið breytt þannig, að í stað þess að fá fasta fjárveitingu á fjárlögum, hefur verið farið yfir í afkastatengt kerfi, þar sem læknum og sjúkrahúsum er greitt eftir fjölda og umfangi verkefni sinna. Þetta kerfi er að mörgu leyti ágætt, en hefur þó þann galla, að sjúkrahús reyna að komast undan því að taka sér "dýra" sjúklinga, sem ekki er mikill "hagnaður" af, en einbeita sér frekar að "hagkvæmum" aðgerðum/sjúklingum og reyna jafnvel að fjölga slíkum aðgerðum/sjúklingum eins og hægt er. Þetta var t.d. alþekkt í Þýskalandi, þar sem ég bjó um árabil. Einnig eru til önnur "réttlátari" umbunarkerfi, þar sem tekið er tillit til veikinda fólks, aldurs og annars, sem hefur áhrif á kostnað við umönnun sjúklinga. Sjúkrahúsin fá svo greitt í samræmi við kostnaðinn. Takist læknum eða sjúkrahúsum að lækna á "ódýrari" hátt halda þeir "hagnaðnum" eftir. Sjúkrahúsin reyna auðvitað að lækna sjúklinginn án þess að gera of margar blóðrannsóknir og beita hagkvæmustu mögulegu leiðum til að ná góðum árangri. Með öðrum orðum eykst kostnaðarvitund lækna og hjúkrunarfræðinga og þeir reyna að halda kostnaði í lágmarki. Nú hugsa kannski margir með sér, að þá reyni sjúkrahúsin að spara nauðsynlega umönnun. Ég tel það ólíklegt, því slíkt gæti haft í för með sér dýrari meðferð fyrir sjúkrahúsið og skaðabótakröfur sjúklinga eða aðstandenda þeirra. Slíkar kerfisbreytingar á íslensku heilbrigðiskerfi kæmu því aðallega í veg fyrir óþarfa kostnað og of miklar og "óþarfa" rannsóknir og lækkuðu með því kostnað í heilbrigðiskerfinu.

Það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur ríkisstarfsmenn að hugsa stanslaust um kostnað við allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Þannig hafa hlutirnir um árabil verið framkvæmdir hjá þeirri stofnun, sem ég vinn fyrir. Ég er hins vegar ekki viss um að þessi hugsun hafi gegnsýrt allan opinberan rekstur á sama hátt og hjá okkur. Ástæða þess að svo mikið var sparað hjá Lögreglu- og tollstjóranum á Suðurnesjum var sú, að um árabil hefur verkefnum fjölgað mun meira en fjárveitingar hafa hækkað.

Afar mikilvægt er fyrir ráðamenn og forstöðumenn að gera starfsfólki stofnana og almenningi ljóst, að markmið slíkra "kerfisbreytinga" sé einungis að fá meira út skattpeningnum, en alls ekki að skerða þjónustu eða lækka laun opinberra starfsmanna.

 


mbl.is Undirbúa ný fjárlög eftir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Blessaður

Eftir að ég horfði á mynd byggða á ævi konu sem vann við að sjá um hagræðingar fyrir Bandarísk tryggingarfélög get ég ekki verið sammála þér. Og hvernig hafa málsóknir gengið hér á landi alveg hörmulega. Ég held því miður að þessi sparnaður myndi kosta manslíf en það er kannski í lagi látnir kæra ekki eða kvarta. Er að kíkja á þetta sjálfur og mun lesa fjárlögin spjaldanna á milli og er viss um að þar finnast nokkrar matarholur Ég ætla að byrja á utanríkisráðuneytinu. Held að það sé hægt að spara þar all mikið með rafpósti og hoppfargjöldum.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 19.12.2008 kl. 22:46

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Það er voðalega vinsælt að tala um utanríkisráðuneytið og einhver gæluverkefni og síðan auðvitað Varnarmálastofnun. En ef það á að spara verður að fara í stóru liðina í fjárlögum, því sparnaður í öðrum liðum skilar einfaldlega ekki nógum sparnaði.

Það er enginn að tala um eitthvað bandarísk kerfi, þótt eitthvað sé hugað að kerfisbreytingum í átt frá föstum upphæðum á fjárlögum og meira út í greiðslur, sem tengjast afköstum sjúkrahúsanna og umfangi og raunkostnaði við aðgerðir aðhlynningu.

Heilbrigðisþjónustan hér er mjög góð, en það er líka til góð heilbrigðisþjónusta annarsstaðar en hér, sem kostar minna. Í dag er ekki um annað að ræða en að spara, því miður!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.12.2008 kl. 23:30

3 identicon

Mjög góður pistill hjá þér Guðbjörn. Þetta er akkúrat málið. Við höfum töluvert borð fyrir báru að hagræða í heilbrigðiskerfinu með því að endurskoða verkferla og auka gæðastjórnun. Við höfum engin úrræði til að lækka laun frekar en orðið er heldur verðum við að skoða hverja krónu og reyna að fá eins góða þjónustu, gæði og fyrir eins marga og hægt er. Ég fullyrði að ekki er hægt að finna íslending sem vill fara í bandaríska kerfið enda er það kolómögulegt, kostar þriðjungi meira en það íslenska af vergri þjóðarframleiðslu og þjónar illa allri þjóð sinni. Það þýðir ekki að forðast skuli einkarekstur alfarið nema síður sé. Í Taiwan t.d. er kerfið næstum ókeypis fyrir alla þegnanna og kostar minna af vergri þjóðarframleiðslu og er að mestu rekið af einkarekstri. Hræðsla við einkarekstur er því óþarfur, það er framkvæmdin sem hafa þarf áhyggjur af líkt og í opinbera kerfinu okkar.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 18:06

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Adda:

Þú ert nákvæmlega að skilja mig rétt.

Við þurfum að borga góð laun í heilbrigðiskerfinu til að fá gott fólk núna og í framtíðinni. Þetta eiga að vera störf, sem fólk sækist, hvort sem það eru sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar eða læknar eða annað starfsfólk sjúkrahúsanna, sem er fjölmargt og af ótrúlega mörgum stéttum.

Vandinn hefur verið að starfsmenn hafa aldrei upplifað svona breytingar nema á eigin skinni og án þess að þeir hafi hagnast á því!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.12.2008 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband