Ansi seint um rassinn gripið - svo ekki sé sterkara að orði kveðið!

Ef ég man rétt, þá var einokun á matvörumarkaði gagnrýnd fyrir nokkrum árum af manni, sem nú um stundir er ekki beint í miklu uppáhaldi hjá þjóðinni - Davíð Oddssyni. Fyrir þetta var ekki aðeins Davíð gagnrýndur heldur og allir, sem dirfðust að kasta rýrt á afrek Jóhannesar eða Jóns Ásgeirs í Bónus. Þessir tveir virtust til langs tíma vera íslenskar þjóðhetjur og settar á stall með Jóni Sigurðssyni. Ég bjó í tólf ár í Þýskalandi og þar er til svipuð keðja, þótt ekki sé hún hlutfallslega jafn stór og Baugur, en þetta er verslunarkeðjan ALDI. Ekki eru Karl og Theo Albrecht - stofnendur verslunarkeðjunnar - settir á stall með þýskum þjóðhetjum á borð við Otto von Bismarck.

Þessi sami umdeildi maður sagði við annað tækifæri á Alþingi, að ekki væri þörf að ganga í ESB, því við Íslendingar hefðum sjálfir í hendi okkar að lækka gjöld á matvælum og gera matvælaverð sambærilegt því, sem við þekkjum frá nágrannalöndunum. Þetta varð síðan eitt af síðustu verkum síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Fjölmiðlalögin, sem í raun var fyrsta atlagan að þessari einokun nokkurra mannna, hlutu ekki náð fyrir augum þjóðarinnar. Skoðanakannanir sýndu að meirihluti þjóðarinnar var mjög sáttur við að auðjöfrar réðu hér allri fjölmiðlaumfjöllun. Sú hefur og raunin verið undanfarin ár. Þetta á án vafa nokkurn þátt í því hvernig mál þróuðust hér algjörlega eftirlitslaust af hálfu fjölmiðla og ríkisstofnana undanfarin ár. Allir sem reyndu að vara okkur við voru uppnefndir gleðispillar eða leiðindapúkar, sem ekki vildu taka þátt í veislunni, sem var að mati nær allra landsmanna - þar á meðal undirritaðs - mjög skemmtileg. Veisluþátttaka manna var misjöfn, en ég hafði sem betur fer vit á að ganga varlega um gleðinnar dyr og koma mér heim tímanlega ódrukkinn og á bílnum.

Segja má að báðar þessar tilraunir - lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda á matvæli og fjölmiðlalögin - hafi gjörsamlega mistekist. Davíð hafði á röngu að standa og lækkun gjalda skilaði sér að mjög litlu leyti til landsmanna og fjölmiðlalögin tóku ekki gildi af því að Baugsmaður nr. 1. - forseti lýðveldisins - neitaði að skrifa undir lögin. Ríkisstjórnin sá sem var, að tilgangslaust var að bera lögin undir þjóðina, því hún skildi ekki hvaða hagsmunir voru í húfi, enda hafði ríkisstjórnin ekki - frekar en fyrri daginn - talið nauðsynlegt að útskýra þau fyrir þjóð sinni og þingi. Nei, þessi lög - líkt og svo mörg önnur - átti að keyra í gegnum þingið með þingmeirihlutanum. Ekki var reynt að ná tímanlega málamiðlun við VG, þótt slíkt hefði eflaust verið hægt með lágmarksbreytingum á lögunum. Ekki má misskilja mig, því ég var og er sammála innihaldi laganna, líkt og ég hef yfirleitt verið sammála flestu, sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram. Nei, það voru vinnubrögðin í þinginu og sá skortur á samráði við þjóðkjörna fulltrúa og landslýð er viðgengist hefur sl. 15 ár, sem mér blöskraði og blöskrar stundum enn.

Ég spyr enn of aftur eins og fávís maður, er eitthvað af þessu nýtt: hringamyndun og krosseignahald, fákeppni eða að fyrirtæki beiti markaðsráðandi stöðu sinni hér á landi. Það er nánast sama í hvaða viðskiptum fólk stendur í þessu þjóðfélagi okkar, þetta virðast vera sér íslenskir verslunar- og viðskiptahættir, sem löggjafinn hefur ekki haft minnsta áhuga á að stoppa, þótt þeir séu allstaðar bannaðir í hinum vestræna heimi.

Að menn séu að vakna til lífsins núna, eftir að við Íslendingar erum búnir að búa meira og minna við einokun frá því að Gamli sáttmáli var undirritaður árið 1262  - í heimabæ flutningsmanns frumvarpsins, Ármanns Kr. Ólafssonar, Kópavogi - er að mínu mati svo sprenghlægilegt, að mér er skapi næst að skellihlæja!

Sennilega höfum við aldrei hætt að heiðra eitt ákvæði þessa sögulega sáttmála við Hákon gamla:

 Item at íslenzkir sé lögmenn og sýslumenn á landi váru af þeirra ættum, sem at fornu hafa goðorðin upp gefit.

Það er allavega ljóst, að þetta á við um pólitíska endurnýjun allra stjórnmálaflokka, því sömu erfða- og feðraveldi ráða lofum og ríkjum í öllum flokkum áratugum saman, kynslóð fram af kynslóð og engin leið virðist færa að ná þar fram breytingum.

Erfðaprinsarnir eru ákveðnir og aðeins þeim leyft að "hækka í tign", sem enga hættu skapa fyrir ráðandi öfl.


mbl.is Kalla á heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Frábær grein og mög fræðandi, takk fyrir hana, Guðbjörn. Við hana hef ég engu að bæta. Vil þó minnast þess að andstaða almennings við fjölmiðlalögin var bókstaflega framleidd af Baugsmiðlunum með ógurlegum tilkostnaði, rógsherferðum og afflutningi. Gunnar Smári og Jón Ásgeir skipulögðu það leikrit með tilstuðningi Hallgríms Helgasonar, Róberts Marshall og margra annarra. Miklar óheillakrákur. Nú sýpur almenningur seyðið af eigin heimsku. Sorglegt en satt.

Baldur Hermannsson, 21.12.2008 kl. 14:30

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góð grein Guðbjörn. Sammála að vanda.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 21.12.2008 kl. 18:11

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Fjölmiðlalögunum var ætlað að koma öllum fjölmiðlum, líka markaskránni, undir Sjálfstæðisflokkinn. Af hverju viltu það? Ríkisútvarpið, sem hefur tekist að ljúga því að það sé þjóðarnauðsyn, er hér um bil algerlega stjórnað af Flokknum. Eina undantekningin er Spegillinn. Ég þori ekki að fullyrða um Stundina okkar, eða ekki svo að ég viti hníflaðist varðhundur Flokksins Magnús Örn út í þann þátt.

Það er mér sérstök ánægja að fá, þó ekki nema eina, undirtekningu undir þá skoðun mína að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi tekið völdin 1262. Ég hef mikið barist fyrir þessari skoðun.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.12.2008 kl. 20:52

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Kristján þetta er frumleg skoðun og bráðskemmtileg, en hvort var Hákon gamli Framsóknar eða Íhald? Loðinn leppur var örugglega Framsókn, svo mikið er víst.

Baldur Hermannsson, 21.12.2008 kl. 21:26

5 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Fjölmiðlalögin, sem í raun var fyrsta atlagan að þessari einokun nokkurra manna, hlutu ekki náð fyrir augum þjóðarinnar."

Takk fyrir góðan pistil Guðbjörn. Varðandi fjölmiðlalögin, þá voru þau samþykkt á Alþingi en bara forsetinn neitaði að staðfesta þau. Þegar það gerist ber að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var ekki gert... af fullkomnu virðingarleysi þáverandi forsætisráðherra við þjóðina, Alþingi og stjórnarskrána - og komst að sjálfsögðu upp með það - og enginn sagði neitt.

En bara áður en útrásarvíkingarnir verða hengdir, þá hef ég verið að bíða eftir því að heyra af einhverjum þeim lögum eða reglugerðum sem þeir hafa annað hvort brotið eða farið gróflega á svig við. Að þeir verði dregnir fyrir dómara - og síðan hengdir. En það gerist bara ekki. Það er ekkert hægt að hafa á þessa menn - annað en að þeir hafi farið glannalega. Hvað svo sem segja má um útrásavíkingana, þá eru það stjórnvöld, þeir sem setja lögin, eiga að sjá um regluverkið og gegna eftirlitshlutverkinu sem hafa brugðist þjóðinni. Þetta eru vesalingarnir sem hafa brugðist okkur - og ber að draga fyrir dóm.

Að gefnu tilefni vil ég benda á virkilega góða grein Njarðar P. Njarðvík í Fréttablaðinu í dag sunnudag, þar sem hann gerir skrautlega úttekt á Alþingi...alger skyldulesning.  

Atli Hermannsson., 22.12.2008 kl. 00:05

6 Smámynd: Baldur Hermannsson

Atli, að sjálfsögðu mátti ríkisstjórnin draga til baka sitt eigið frumvarp, það væri nú annað hvort. Því miður er stjórnarskráin svo stuttorð og óljós að menn sem hneigjast til að beita orðhengilshætti geta fundið út úr henni nánast hvað sem er, amk hvað embætti forseta varðar. Vissar hefðir hafa skapast en Ólafi er í lófa lagið að gefa skít í þær allar ef honum býður svo við að horfa og það gerir hann. Þetta var allt samið í skötulíki á sínum tíma og líklega hefur engan órað fyrir því að nokkurn tíma yrði þörf fyrir nánar skilgreiningar og útlistanir.

Baldur Hermannsson, 22.12.2008 kl. 00:14

7 identicon

Ágæt grein.    Hann þarna (sem maður segir varla lengur nafnið á af ótta við ofsafengin viðbrögð)  hefur oft séð leikina og stöðuna fyrr en aðrir.  Stundum árum á undan.  Stundum mánuðum.       Nú tala allir um skorður á eignarhaldi örfárra auðmanna á fjölmiðlum.   Nú tala allir um "óreiðumenn" en flestir hváðu er það orð var fyrst notað  í viðtali fyrr í haust.

Ekki það að "hann" er líka skeikull sem við hin.

Nei kannski er hringamyndun og fákeppni ekki nýtt af nálinni hér.  En þetta Putalands krosseignarugl er það klárlega sem og þetta fyrrnefnda af þessum skala og stærðargráðu.      Stærðargráðu  sem verður kennslubókarefni í hagfræðum næstu árin um heim allan.

Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 00:17

8 Smámynd: Baldur Hermannsson

Valdimar, leyfðu þeim að hafa í frammi ofsafengin viðbrögð sem það vilja, þeir verða sér þá bara enn meir til skammar en orðið er. Flottir póstar á þinni bloggsíðu.

Baldur Hermannsson, 22.12.2008 kl. 01:10

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Baldur:

Takk fyrir og mér finnst tími til kominn að við hægri menn bloggum meira, því mér finnst mikil vinstri slagsíða hafa verið á blogginu síðan hrunið mikla átti sér stað.

Ég er gagnrýnn á mína menn og það eiga þeir því miður inni hjá okkur sjálfstæðismönnum. Tími hinnar blindu trúar á foringjann og óskeikulleika hans er liðinn - hafi hann nokkurn tíma verið við lýði, sem ég efast reyndar stórkostlega um.

Alla jafna er ég þeirra skoðunar, að best sé fyrir okkur sjálfstæðismenn að bera ágreining okkar ekki á torg, en þetta getur þó að mínu mati einnig verið ljóður á ráði okkar og þá sérstaklega við dramatískar aðstæður eins og núna. Nú ræðast menn saman í lokuðum grúppum eða á götuhornum, en heiðarleg umræða um forystu okkar og framkvæmda stefnu flokksins er því miður ekki tekin í sjálfstæðisfélögunum, fulltrúaráðum eða kjördæmisráðum.

Friðrik Hansen:

Við erum um margt sammála og þyrftum hreinlega að hittast milli jóla og nýárs. Ertu staðsettur á suðvesturhorni landsins?

Kristján Sigurður:

Hægri slagsíða á RÚV. Ég vildi óska að þetta væri rétt. Þar á fréttastofunni var til skamms tíma hærra hlutfall af kommum en í Vinstri grænum.

Minnist einhver fréttaflutnings þaðan fyrir síðustu kosningar eða af náttúruverndarmálum þegar kosið var um stækkun álversins í Hafnarfirði?

Fjölmiðlarnir okkar eru allir með króníska vinstri villu - meira að segja komin vinstri slagsíða á Morgunblaðið.

Sammála Baldri að þetta er skemmtilega skoðun hjá þér, en ég átti við alla flokka. Samfylking: Ágúst Ólafur Ágústsson; Sjálfstæðisflokkur: Bjarni Benediktsson og Árni Mathiessen; VG: Svandís Svavarsdóttir o.s.frv.

Valdimar:

Nei, Davíð er langt frá því að vera óskeikull - þótt hann sé og hafi verið snillingur - og að mínu mati hefði ekki átt að skipa hann sem seðlabankastjóra og ekki af því að hann sé ekki hæfur til þess, heldur af því að hann er Davíð Oddsson - einn umdeildasti Íslendingur allra tíma - og stjórnmálamaður. Hann hefði auðvitað átt að víkja ásamt fleirum úr pólitík og stjórnsýslu við hrun bankanna.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.12.2008 kl. 07:53

10 Smámynd: Neddi

Set hér inn svar mitt til Páls Vilhjálmssonar við hugleðingum hans um fjölmiðlafrumvarpið.

Fjölmiðlafrumvarpið, sem Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir, var illa unnið og til þess ætlað að koma höggi á ákveðna einstaklinga.

Lögin gengu mun lengra en sambærileg lög í löndunum sem að við berum okkur yfirleitt við (Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Bretland, Bandaríkin og fleiri) og það á tíma þar sem þessi lönd mörg hver voru að tala um að rýmka lögin.

Einnig er áhugavert að hugsa til þess þegar að Norðurljós urðu til á sínum tíma og menn þóknanlegir flokknum voru við stjórn þá máttu forystumenn flokksins ekki heyra á það minnst að sett yrðu lög  um dreifða eignaraðild fjölmiðla. Það breyttist svo skyndilega þegar að rangir aðilar komust yfir fjölmiðlana (sem þeir hefðu ekki gert of flokkurinn hefði haft dug í sér til að setja lög strax).

Ef lögin hefðu verið vel unnin og í takt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar hefðu þessi læti aldrei orðið. Ég hefði að minnsta kosti verið samþykkur þeim. Málið er nefninlega að fæstir eru á móti fjölmiðlalögum ef þau eru vel unnin og sanngjörn (nema kannski flokkurinn ef "réttir" aðilar stjórna fjölmiðlum).

Og svona að lokum þá þýðir ekkert að reyna að halda því fram að "Baugsmiðlar" hafi matað mig af þessari skoðun því ég kynnti mér frumvarpið sjálft, greinargerðina sem það var byggt á og lögin sem

Neddi, 22.12.2008 kl. 09:33

11 Smámynd: Atli Hermannsson.

Atli, að sjálfsögðu mátti ríkisstjórnin draga til baka sitt eigið frumvarp, það væri nú annað hvort.

Baldur. Þetta voru breytingar á gömlu útvarpslögunum sem þarna var verið að keyra í gegn og voru þær breytingar samþykktar sem lög frá á Alþingi þann 24. mai 2004.

Svo ég vitni nú bara í blaðamannafund sem haldinn var af þessu tilefni á Bessastöðum þann 2. júní 2004. Þá sagði Ólafur Ragnar meðal annars þetta.  

"Ég hef því ákveðið í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar að staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum og vísa því á þann hátt í dóm þjóðarinnar. Samkvæmt stjórnarskránni skal sú þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram „svo fljótt sem kostur er." .... Við búum að stjórnskipan, þar sem forseti Íslands og aðrir kjörnir fulltrúar sækja vald sitt og umboð til hennar. Þjóðin hefur samkvæmt stjórnarskránni síðasta orðið."

Atli Hermannsson., 22.12.2008 kl. 10:24

12 Smámynd: Baldur Hermannsson

Guðbjörn, ég hef um árabil verið virkur penni á enskri fótboltasíðu og bandarískri golfsíðu og þar kemurðu einfaldlega til dyranna nákvæmlega eins og þú ert klæddur, ekkert bjánalegt punt. Við sem erum hér að skrafa hver við annan eins og góðir kunningjar á kaffihúsi - við þurfum ekkert að bera í bætifláka fyrir einhverja stjórnmálaflokka, þú ert bara Guðbjörn og ég er bara Baldur. Mér finnst það andrúmsloft alltaf óheilbrigt þar sem viðræður fara þannig fram að allir eru stöðugt að bera í bætifláka fyrir eitt og annað. Ekki er ég á leiðinni í framboð, ég segi bara hug minn og hlusta með athygli á aðra sem það gera líka. Er ekki bara langbest að hafa það þannig, félagi Guðbjörn?

Baldur Hermannsson, 22.12.2008 kl. 13:02

13 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Guðbjörn.

Hafðu endilega samband. Netfangið mitt er: fhg@simnet.is.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.12.2008 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband