Pattstaða í íslenskum stjórnmálum

Til þessa hefur mér sýnst vera ákveðin pattstaða uppi í íslenskum stjórnmálum, sem skapast af því að báðir stjórnarflokkarnir eru þeirrar skoðunar, að þeir myndu tapa á að fara í kosningar í dag eða á næstu mánuðum. Nauðsynlegt sé að hanga saman út þetta ár og fram á það næsta, þ.e.a.s. komast að sem mestu leyti út á lygnan sjó og vera farin að eygja einhverja bót mála.

Við kosningar núna hræðist Samfylkingin að tapa forskotinu, sem hún hefur haft í undanförnum kosningum á vinstri vængnum, og að VG komið verði stóri vinstri flokkurinn í íslenskum stjórnmálum. Þá hefur Samfylkingunni ekki aðeins mistekist að vera það sameiningarafl, sem marga vinstri menn dreymdi um á sínum tíma, heldur yrði flokkurinn að "hækju" í hugsanlegu vinstra stjórnarsamstarfi. Það er eitt að láta slíkt yfir sig ganga með "stærsta" stjórnamálaflokki landsins, sem er hægri flokkur, en annað að láta neyða sig í hjónaband með Steingrími Joð og félögum.

Vandi sjálfstæðismanna er öllu meiri og þótt flokkurinn hafi bætt við sig nokkrum prósentum frá síðustu skoðanakönnun er engin ástæða til að slaka á eða fagna. Flokkurinn er einungis með um 25% atkvæða. Enn eru mjög margir kjósendur óákveðnir og minni líkur en meiri að þeir skili sér aftur til Sjálfstæðisflokksins, nema að kraftaverk eigi sér stað. Ég veit ekki hvað öðrum finnst, en mér finnst árið 2009 ekki bera með sér að það verði kraftaverkaár! Frammistaða Valhallar og borgarfulltrúa flokksins í REI málinu var til skammar og þrátt fyrir frábæra vinnu Hönnu Birnu er það mál ekki gleymt. Þótt Geir Haarde hafi notið velvilja þjóðarinnar og flokksins fyrstu vikurnar eftir bankahrunið var það skammgóður vermir og nú finnst almenningi lítið hafa gerst. Ríkisstjórnin er að mati almennings ákvarðanafælin, þreytt og rúin trausti.

Að auki er Sjálfstæðisflokkurinn algjörlega klofinn í afstöðu sinni til ESB. Yfirlýsingar formannsins, sem eflaust voru ætlaðar til að róa báðar fylkingar, hafa skilað þveröfugum tilgangi. Þetta á ekki síst við eftir ofureðlilega yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar um að rétt væri að halda þingkosningar og endurnýja umboð þingmanna, sé á annað borð farið í kosningar um ESB aðildarviðræður í vor. Nú er því ekki einungis ágreiningur um, hvort halda eigi til aðildarviðræðna, heldur einnig um hvort kjósa skuli um hvort aðildarviðræður eigi að hefjast.

Þarna opnaði forsætisráðherra að mínu mati enn eina "Pandóruöskjuna". Hugsanlega var þetta þó ekki eins rangt hjá Geir og það virðist við fyrstu sýn, því samkvæmt grísku goðafræðunum var óvíst um, hvort askjan hafi verið opnuð óvart eða vísvitandi. Eftir að búið var að opna öskjuna og hleypa því illa út, var aðeins vonin ein eftir í öskjunni!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Mér finnst afleitt ef ekki verða kosningar í vor - síðasta lagi í haust. Ég held að Geir meini það, þegar hann segist ekki kvíða kosningum. Sannið þið til, íhaldið mun ná vopnum sínum og fá góða kosningu. Mig grunar að heilsubrestur Imbu sé meginástæða þess að hún treystir sér ekki í harðan og óvæginn kosningaslag. Og það getur enginn annar leitt flokkinn. Og hvaða kosti ætti hún svo eftir kosningarnar? Samfylkingin er í bobba.

Baldur Hermannsson, 4.1.2009 kl. 15:16

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Kosningar með góðum og illum afleiðingum er nauðsyn.Lýðræði er nú bara svoddan vesen. Það er alltaf matsatriði hvað kemur sér illa og hvað vel eftir því hvar maður stendur. Sjálfstæðismenn eru í alveg jafn vondri aðstöðu nú og eftir eitt ár eða tvö. Það sem þeir standa fyrir núna er bara málþóf. Það er staða þjóðarbússins sem ætti að vera aðaláhyggjuefnið og að forysta okkar hefur ekki úrræði (sjálfstæðisflokkurinn) og/eða hefur ekki umboð til úrræða (samfylkingin).

Það sem er líka áhyggjuefni Sjálfstæðismanna er að þá vantar öruggt málgagn. Morgunblaðið er ekki jafn traust og áður. Áróður er afar mikilvægur og sá sem hefur á vél á bak við sig vinnur kosningar svo einfalt er það. Geir stendur illa innan flokksins þegar til lengri tíma er litið. Hann þarf ekkert að kvíða neinu ef kosningar verða eftir eitt eða tvö ár því þá verður hann ekki í forystu flokksins.

Gísli Ingvarsson, 4.1.2009 kl. 18:18

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Guðbjörn.

Ég sé ekki annað en formaður Sjálfstæðisflokksins hafi flækt stöðuna enn frekar með þessari yfirlýsingu. Það var væntanlega tilgangurinn. Hann sér þetta sem leið til að láta umræðuna snúast um annað en aðalatriðin og til að vinna sér tíma. Hugsanlega óttast formaður Sjálfstæðisflokksins að Ísland muni ná viðunandi samningum við ESB og þjóðin muni í framhaldinu samþykkja að ganga í ESB.

Með kosningum um hvort eigi að fara í samningaviðræður þá er verið að drepa málinu á dreif. Engin veit þá í raun um hvað er verið að kjósa þegar enginn samningur liggur fyrir. Þá er hægt að nota alla miðla til að hræða þjóðina upp úr skónum. Þá er hægt að búa til slíka Evrópugrýlu að þjóðin mun fella í kosningum að leitað verið eftir samningum við ESB. Sjálfsagt hafa margir andstæðingar aðildar áhuga á að fá í tvennum kosningum tækifæri til að koma í veg fyrir að Ísland gangi í ESB. Formaður Sjálfstæðisflokksins virðist vera í þeim flokki.

Þá vil ég benda þér Guðbjörn á nýja heimasíðu Norræna íhaldsflokksinssem verið er að setja á netið þessa dagana. Vona að hún veki áhuga.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 21:22

5 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Vil bara styðja þá athugsemd Friðriks að almennar kosningar um aðildarviðræður eiga ekki rétt á sér. Við fengum ekki að kjósa um hvort gera ætti Neyðarlög eða Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem allt er mjög afdrifaríkt. Kosnungar um einhverjar viðræður eru kosningar um ekki neitt. Ég myndi ekki mæta á kjörstað.

Gísli Ingvarsson, 4.1.2009 kl. 22:05

6 Smámynd: Offari

Ég held líka að kjósendur séu komnir líka í pattstöðu. Í dag eru orð og loforð ekki tekin trúanleg. Kosningar í dag verða frekar byggðar á trú manna á Esb aðild en stefnu flokkana.

Offari, 5.1.2009 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband