22.1.2009 | 08:18
Sjálfstæðisflokkurinn getur því miður sjálfur sér um kennt
Ástandið er að fara úr böndunum og aðeins spurning hvort þegar hafi "brunnið" upp úr eða hvort ástandið eigi eftir að versna. Afleiðingar þess eru augljósar eða að ríkisstjórnin myndi springa. Það yrði áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn, því þetta er ekki besti tíminn fyrir kosningar, hvað hann varðar. Því miður getur Sjálfstæðisflokkurinn sjálfum sér um kennt. Þótt Geir Hilmar Haarde hafi vissulega staðið sig vel fyrstu 2 vikurnar eftir bankahrunið hefur nær algjört aðgerðaleysi einkennt störf forystu Sjálfstæðisflokksins undanfarna 100 daga. Tilsvör forystunnar og frammistaða í fjölmiðlum hefur verið gagnrýnisverð, svo ekki sé meira sagt.
Líkja má ástandinu við að landið hafi verið sótt heim af einhverjum stórum náttúruhamförum eða að stríðsástand ríki. Bæði fyrirtækjunum og heimilum landsins er að blæða út, sumum hægt og rólega, öðrum hraðar. Aðgerðaáætlanir ríkisstjórnarinnar og IMF kunna að virka skynsamlega á suma en á flesta landsmenn virka þær gjörsamlega máttlausar. Ég er efins um að IMF hafi nokkurn tíma átt við ástand eins og hér á landi. Að falla úr efstu sætum í lífsgæðum í heiminum niður fyrir miðju innan OECD er eitthvað sem þessi stofnun þekkir ekki. IMF þekkir heldur ekki áhrif verðtryggingar og myntkörfulána, því þetta eru séríslensk fyrirbrigði. IMF gerir sér ekki grein fyrir því að hjá stórum hluta landsmanna hafa venjulegar skuldbindingar af húsnæði og bílum meira en tvöfaldast og hjá þeim sem skulda í verðtryggðum lánum - flestir landsmanna - hafa afborganir aukist um 20% á einu ári. Matvæli hafa einnig stórhækkað vegna verðbólgu og gengishruns. Fólk sem var í góðum álnum fyrir ári nær ekki endum saman lengur. Við þetta bætist síðan atvinnuleysið, sem er nýtt fyrirbæri.
Lítið annað getur bjargað ríkisstjórninni en einhver stór björgunarpakki fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Víkja verður samstundis úr embætti yfirstjórn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins auk þess sem spilltir embættismenn í ráðuneytum og annarsstaðar verður að víkja úr stöðum sínum. Síðast en ekki síst verða forystumenn Sjálfstæðisflokksins að axla ábyrgð og gefa það skýrt til kynna - t.d. með því að þeir bjóði sig ekki fram á komandi Landsfundi flokksins í næstu viku. Með þessu er lýst yfir, að þeir vilji víkja fyrir nýju fólki innan flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki farið fram með sömu forystu í næstu kosningar og endurnýja þarf að stórum hluta þingflokkinn. Endurskoða þarf afstöðu til ESB og leysa þá hugmyndafræðilegu kreppu, sem einkennir flokkinn í dag. Það verður aðeins gert með því að skoða sjálfstæðisstefnuna í nýju ljósi, þ.e.a.s. ekki lengur í ljósi óheftrar frjálshyggju, heldur þess blandaða hagkerfis, sem þjóðin öll vill í raun búa við. Okkar áherslur verða að sjálfsögðu þær sömu og áður, þ.e.a.s. að tryggja einstaklingsfrelsið, að best sé að eftirláta markaðnum það eftir sem hans er og við höfnum hugmyndum um stéttabaráttu en sjáum fyrir okkur Ísland þar sem alla stéttir - stétt með stétt - vinna þétt saman að því að byggja Ísland aftur upp frá grunni. Taka verður stjórnarskránna til gagngerrar endurskoðunar, þar sem skerpa verður á þrískiptingu valdsins: auka völd Alþingis, efla aðhald með framkvæmdavaldinu, auka sjálfstæði dómsvaldsins.
Komandi Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður því vinnufundur, þar sem taka þarf til hendinni. Í húfi er framtíð flokksins og ég vil segja þjóðarinnar allrar. Hægri menn eru a.m.k. 40% þjóðarinnar og okkar hugmyndir skipta jafn miklu máli og hugmyndir vinstri manna, þótt halda mætti annað síðastliðnar vikur og mánuði.
Tveir lögreglumenn slasaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góðir punktar hjá þér. Stefna og aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ekki trúverðugar. Núverandi aðstæður kalla á breytingar.
Hagbarður, 22.1.2009 kl. 08:27
Eins traustur og góður maður og Geir er þá verður honum seint hrósað fyrir að eiga auðvelt með að tala við almenning á máli sem það skilur. Það er ekki nóg að vera duglegur bak við tjöldin ef fólkið í landinu líður eins og ekkert sé um að vera og ekkert sé verið að gera. Þessi ríkisstjórn hefur algerlega brugðist í upplýsingagjöfinni.
Fyrir fólkið í landinu þá þarf að gera eitthvað innan fárra daga eða vikna. Hinn almenni borgari finnur mest fyrir gjaldmiðlahruninu, þ.e. vöxtunum, verðtryggingunni, vöruhækkunum og tvöföldun íbúðalána hjá þeim sem eru með myntkörfulán. Sameiginleg ástæða fyrir tilvist þessa alls er krónan. Vextirnir og verðtryggingin eru til að verja krónuna en eru á hinn bóginn að drepa heimilin og fyrirtækin. Við þurfum að skipta um gjaldmiðil strax burtséð frá því hvort farið verði í viðræður við ESB eða ekki. Því verður að leita strax samninga við seðlabanka Noregs, Danmerkur eða USA um stuðning við annan gjaldmiðil.
Þá þurfum við fólk sem tjáir sig og kann að tala við fólk. Ég held að komist hefði verið hjá mörgu því sem gerst hefur síðustu daga með meiri tjáningu og fyrirhyggju. Hvað í ósköpunum átti að þýða að ræða áfengi í búðum meðan Róm brennur sem dæmi? Já það þarf að sópa úr hornunum.
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 11:16
Þingflokkurinn var reyndar töluvert endurnýjaður í síðustu kosningum. Mér finnst þessi prófkjör ekki skila okkur nógu mörgum góðum þingmönnum. Það sama á við borgarstjórnarflokkinn. Þurfum við ekki betra fyrirkomulag?
Baldur Hermannsson, 22.1.2009 kl. 14:01
gaman að heyra þig tala svona Guðbjörn, harðan Sjálfstæðismanninn, bara að forysta flokksins sæi þetta sömu augum og þú.
Það er ekkert sem þessi ríkisstjórn getur gert héðan af, hún verður að víkja. Fresturinn er liðinn, það skapast ekki hinn umtalaði vinnufriður fyrr en kosið verður og því er best að gera það sem allra fyrst. Það er óþolandi að heyra Geir segja í hverju viðtalinu á fætur öðru að það sé ekki á það bætandi að bæta við stjórnarkreppu við það slæma ástand sem nú ríkir. ÞAÐ ER STJÓRNARKREPPA NÚ ÞEGAR OG HEFUR VERIÐ SÍÐAN BANKAHRUNIÐ VARÐ og að ákveðnu leyti allt frá upphafi þessa stjórnarsamstarfs, því svo ósammála eru þessir tveir flokkar í mörgum veigamiklum málum og ber þar hæst Evrópusambandið. Að auki, og þetta held ég að gleymist oft, umheimurinn stendur gapandi yfir því að allir skuli enn sitja sem fastast eins og ekkert hafi í skorist og því skapast ekki hið nauðsynlega traust landsins í útlöndum fyrr en uppstokkun á sér stað.
Að lokum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið við völd æði lengi, "frá því fyrir rafmagnið" og hefur komið sér kyrfilega fyrir í stjórnkerfinu og embættismannakerfinu og er ekki haggað. Skyldi Geir og forysta flokksins vera verja hagsmuni þessa fólks og flokksins en ekki þjóðarinnar með því að stíga ekki til hliðar? Það er ég viss um að margt miður fallegt myndi líta dagsins ljós ef það yrði gerð almennileg rannsókn á þessu öllu saman.
Vilmundur Friðriksson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 15:40
Góð grein og fín greining.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 22.1.2009 kl. 19:43
Mér finnst þetta mjög góð og einlæg grein hjá þér , Guðbjörn- og efnislega á hún margt sammerkt með öllum öðrum flokkum.
Málið er að að við verðum að henda þessu úr sérgengna flokksræði og mynda hér lýðveldi með lýðræði.
Það er ömurlegt til að hugsa að það samfélag sem foreldrar okkar og við sem erum komin til nokkurs aldur, höfum byggt hér upp- skuli fyrir tilverknað ábyrgðarlausrar peningagræðgi á örfáum árum- komið á heljarþröm.
Sævar Helgason, 22.1.2009 kl. 22:10
Sæll Guðbjörn og takk fyrir góðan pistil. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að fá í andlitið núna er að hafa algerlega hundsað allar kröfur almennings um hina minnstu breytingu í stjórnsýslunni. Það hefur ekki svo mikið sem verið hægt að færa nokkurn mann til í starfi til að sýna smá lit. Í stað þess að sýna stjórnkænsku og gera þó ekki væri nema eitthvað lítilræði sem tappað hefði af óánægjunni hjá þeim herskáustu. Þá kaus flokkurinn að gefa hvergi tommu eftir og skella skollaeyrum við öllum gagnrýnisröddum. Guðbjörn; ef ekki verða rótækar breytingar á forystunni á landsfundinum... þá eru meðvirkir landsfundafulltrúar að gefa þjóðinni puttann.
Atli Hermannsson., 22.1.2009 kl. 23:16
Atli, það er háttur ómenna og níðinga að kaupa sér stundarfrið með því að fórna peðum í stöðunni. En við viljum Barrabas, ekki satt?
Baldur Hermannsson, 22.1.2009 kl. 23:19
Baldur:
Aldrei þessu vant ekki alveg sammála þér. Það þarf að fórna kóngi, drottningu og peðum í okkar röðum og þá vinnum við hugsanlega skákina - og gleymdu ekki að við teflum hraðskák!
Þið hin:
Ég er bara hreinlega sammála ykkur, þótt ég sé sjálfstæðismaður. Það eru til menn í okkar röðum (hægri menn), sem sjá málin í réttu ljósi!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.1.2009 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.