Vinstri menn strax teknir að deila - hvenær logar allt í óeirðum aftur?

Það kemur mér sem sjálfstæðismanni ekki á óvart að vinstri menn skuli þegar vera farnir að deila. Séu stefnuskrár flokkanna skoðaðar erum við annarsvegar með stefnuskrá hjá VG, sem er mjög ósveigjanleg í flestum atriðum, t.d. varðandi landbúnaðarmál, stóriðju og verslun og viðskipti. Hins vegar erum við með frjálslyndan sósíaldemókrataflokk, sem er með stefnuskrá, sem í mörgum málaflokkum dregur mjög dám af stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, s.s. varðandi markaðslausnir, stóriðju, verslun og viðskipti. Sumstaðar gengur hún jafnvel mun lengra, svo sem í landbúnaðarmálum og Evrópumálum. Auðvitað er stefnuskráin eitt og flokkurinn annað. Þannig er stefnuskráin enn í heilu lagi hjá Samfylkingunni, en flokkurinn gjörsamlega í tætlum og ekki batnar það ástand við að fara í eina sæng með erkifjendunum, kommunum! 

Samfylkingin er þegar farin að draga taum eigenda sinna - Baugsmanna og annarra auðjöfra - á meðan VG eru byrjaðir í sínu daglega lýðskrumi. Þrátt fyrir að heimildir séu fyrir hendi í hegningarlögum, þurfa þeir að koma með nýtt lagafrumvarp um kyrrsetningu á fjármagni, sem afbrotamenn hafa undir höndum.

Þetta er þó aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal. Að sjálfsögðu munu flokkarnir reyna að sýna hvor öðrum tillitssemi næstu 2-3 mánuðina til að slá ryki í augu kjósenda. Sameinist þeir hins vegar í ríkisstjórn að kosningum loknum - sem allar líkur benda til - munum við sjá mjög mismunandi áherslur hjá komandi ríkisstjórnarflokkum. Samfylkingin mun vilja halda áfram með áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og reyna að skera ríkisútgjöld niður eins og hægt er og byggja upp atvinnuvegina - m.a. byggingu virkjana, stóriðju og olíuleit á Drekasvæðinu. VG mun hins vegar ekki samþykkja nokkurn niðurskurð hjá ríkinu, vill í stað þess prenta peninga auk þess sem þeir munu snúast gegn einu bjargráðunum, sem við höfum: virkjunum, stóriðju og olíuleit. Þessu til staðfestingar nefni ég ummæli Hjörleifs Guttormssonar fyrir skömmu um friðun Drekasvæðisins.

Samfylkingin mun að sjálfsögðu gefa eftir með skelfilegum afleiðingum: óðaverðbólgu, gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga, auk þess sem það samkomulag, sem náðst hefur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verður sett í uppnám. Niðurstaðan verður fordæmalaust stjórnleysi og kreppa á Íslandi næstu árin. Ljóst er að þótt einhverjir skynsamir og jarðbundnir menn og konur kunni að finnast innan VG, þá ræður öfgafólk í grasrótinni alltaf ferðinni þar á bæ. Öfgafólk VG samanstendur af stuðningsfólki við hryðjuverkahópa á borð við Hamas, öfgafemínistum, virkilegum kommúnistum, umhverfishryðjuverkamönnum, stjórnleysingjum og skemmdarvörgum. Það er nákvæmlega þetta fólk, sem breytti friðsamlegum og gagnlegum mótmælum í uppþot og óeirðir fyrir framan Alþingishúsið á undanförnum vikum. Þótt Steingrímur sé öflugur og geti haft stjórn á slíkum lýð í nokkra daga eða nokkrar vikur, verður þessu fólki ekki einu sinni haldið í skefjum í nokkra mánuði.

Ef ofangreindum öfgahópum tókst að fella ríkisstjórnar með jafn öflugan þingmeirihluta og raun bar vitni og hræða Samfylkinguna svo mikið, að hún gerði bókstaflega í brækurnar og þorði ekki að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram, þá finnst mér ólíklegt að Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson leggi í að vera í andstöðu við þennan skríl og það innan eigin stjórnmálaflokks!


mbl.is Greinir á um kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

jeminn eini. Það er auðvellt að draga upp mynd af einhverju, brjóta hana svo niður og hljóma viturlega í leiðinni. Er það ekki?

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 08:26

2 identicon

Sem fyrrverandi sjálfstæðismanni að þá þykir mér sárt að sjá hvernig flokkurinn ítrekað skýtur sig í fótinn.

Þessi öfga viðbrögð sjálfstæðismanna að það geti enginn annar flokkur stjórnað landinu er það er að draga hann í svaðið. Hinir flokkarnir hafa sýnt auðmykt gagnvart því valdi sem þau eru að vinna fyrir þeas fólkinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hinsvegar slegið skjadborg utan um fyrrverandi formann flokksins sem hefur haldið flokkinum í gislingu í þeirri von um að halda illa fengnu seðlabankasæti.

Siðustu dagar hafa síðan einkennst af því að hver þingmaður sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum hefur komið í fjölmiðla og hellt úr skálum reiði sinnar og bent á að það voru hinir og þessir sem voru valdir þess að svo og svo fór. Aldrei hefur það komið upp (sbr. skrifin þín) að sá flokkur sem hefur stjórnað þessu landi síðustu 17 ár og farið með stjórn fjármálaráðuneytis í ennþá lengri tíma að þeir eigi einhverja sök.

Þangað til að sjálfstæðismenn viðurkenna það að þeir eigi líka þátt í því hvernig fór að þá mun ólin strekkjast og sú endurnýjun og endurreisn sem flokkurinn þarf mun aldrei eiga sér stað.

Ég vona það að ungir sjálfstæðismenn rísi nú upp og taki í halann á þeim risaeðlum sem stjórna flokknum og dragi þá tilbaka í samtímann þar sem flestir Íslendingar búa.

Kv. Jón Örn

Jón Örn (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 09:00

3 identicon

Vá... ertu ekki að grínast? Hvernig getur ágætlega vel gefið fólk haldið áfram að styðja flokk sem hefur sett ísland á hausinn með sinni ofsa frjálshyggju?! Þetta hræðslu áróður sem þið eruð allir að þvaula núna er ótrúlega heimskulegt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stuðlað að þessu rugli undan farin 17 ár en samt eru allir aðrir öfga-eitthvað?!

Sjálfstæðisflokkurinn er einn spilltasti stjórnmálaflokkur Evrópu, sem t.d. gaf bankana með þeim afleiðingum sem bitnar nú á almenningi. Að almenningur hafi það í sér að styðja enþá við þessi trúarbrögð sín með blindri flokksdýrkun er sorglegt. Samsekur landráðamaður ert þú að mínu mati.

Eyjólfur (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 09:19

4 Smámynd: The Critic

Eyjólfur: Myndi ekki segja að Sjálfstæðisflokkurinn væri spilltasti stjórnmálaflokkurinn, held að Framsókn eigi þann titil.

The Critic, 28.1.2009 kl. 09:35

5 Smámynd: Liberal

Guð hjálpi Íslandi með þessa maníaka við stjórnvölinn.  Það sem ég óttast mest er að VG fatti að þeir þurfa bara að hafa sig hæga fram yfir kosningar og lofa öllu fögru, en gera ekkert og þannig nái þeir völdum eftir kosningar.  Þá hafa þeir fjögur ár til að leggja landið í auðn, því við munum ekki fá að nýta okkar auðlindir, einkaframtaki verður úthýst, og vinnandi fólki verður misþyrmt með gríðarlegum skattahækkunum.

Skríllinn hefur rænt völdum og við erum hársbreidd frá því að fá yfir okkur martraðarkennda stjórn öfgaafla sem á eftir að valda áratugalangri kreppu.

Guð hjálpi okkur og gefi okkur gæfu til að losna við brjálæðingana í VG úr stjórn sem allra allra fyrst. 

Liberal, 28.1.2009 kl. 11:06

6 identicon

Ég er einstaklega óróleg þessa dagana, mun órólegri heldur en nokkurn tímann áður. Ég kvíði stefnu nýrrar ríkisstjórnar og ég held að hin nýja ríkisstjórn muni ekki ná að samræma stefnu allra flokka. Hins vegar er kannski kominn tími til að sjá hvernig Vinstri grænir ætla að halda á spöðunum í efnahagsmálunum og það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir halda á spöðunum í stórum kostnaðarliðum samanber heilbrigðismál og menntamál. Ég er samt með kvíðahnút í maganaum yfir löggæslunni, og því miður hef ég ekki miklar mætur á þeim manni sem mun koma til með aað ráða þeim málaflokki sem löggæslu og dómsmál heyra undir. Ég mun sjá alveg ótrúlega mikið eftir honum Birni Bjarnassyni. Bæði Samfylkingin og Vinstri grænir hefa ekki verið hlynntir eflingu lögreglunnar, og við höfum nú öll séð hversu´mikilvægt það er að hafa sterka lögreglu sem stendur af sér mótmælaölduna, þannig að ég vona að einhver muni koma og liðsinna honum Lúðvíki við að hreinsa skítinn í augunum! Guð veri með oss nú!

Hanna Björg Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 11:43

Hanna Björg Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 11:49

7 identicon

Góður Guðbjörn !

Látum þau bara valsa um í smátíma - en verði VG gefinn lengri tími en til 9. mai þá er landið ekki bara í kreppu heldur verður það í höndum ógnarafla

Það eitt er ég viss um og það er að Sjálfstæðisflokkurinn verður betri í stjórnarandstöðu heldur en nokkur annar hefur verið.

Mér finnst líka óþolandi að sjá Ingibjörgu Sólrúnu standa hvítþegna við hlið forsetans og Steingríms J og láta eins og hún eigi ekki sök á einu eða neinu sem gerst hefur undanfarið.
Er hún og almenningur búinn að gleyma því að hún var í meirihluta í ríkisstjórn ?
Af hverju er bara annar rekinn út af - það finnst mér ótrúlegt - það er ekki einu sinni gula spjaldið sem fer á loft gegn Samfylkingunni !

Munum að alltaf opnast dyr þegar gluggi lokast.

Kveðjur

Þórunn (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 11:57

8 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Geri ekki mikið upp á milli þessara flokka VG-SF.Mér fannst nú SF vera með skrílslæti gegn stjórninni þó hún væri í stjórn sjálf ,afar sundurlausflokkur og hafa lítið af frambærilegu fólki,því miður. Björgvin viðsk.ráðherra var nýleg að vanda um aðila sem hefðu tekið stöðu gegn krónunni taldi það mjög alvarlegt brot,sem það líka er,en sjálfur talaði hann allt síðasta ár um að krónan væri handónýt.

Ragnar Gunnlaugsson, 28.1.2009 kl. 13:07

9 identicon

Vá! Oft hefur maður séð ykkur sjálfstæðismenn á nálum, en málflutningur ykkar um þessar mundir er með ólíkindum. Mér sýnist full ástæða til þess að opna sérstaka áfallahjálp fyrir ykkur.

Það verður kosið í vor og þá bjóðið þið fram og náið völdum ef þjóðin vill það, annars ekki.

Róa sig, róa sig!

Gústaf Gústafsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 14:04

10 identicon

Ææ aumingja litli sjalla balla kútalingur svakalega er erfitt að vera ekki við stjórnvölinn lengur  sniff sniff

Stefán Pétursson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 14:12

11 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þau eru súr, sagði refurinn. Ofboðslega á íhaldið bágt. Þið eigið þó enga samúð frá mér.

Sigurður Sveinsson, 28.1.2009 kl. 17:33

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég bið nú sannan Guð að hjálpa mér! Læt ég þó ekki smámuni setja mig úr jafnvægi enda ýmsu vanur á langri ævi. En eftir að hafa lesið spár Liberal er mér öllum lokið. Það væri svo sem eftir öðru ef við fengjum nú kreppu ofan í allt góðærið sem styrk stjórn sjálfstæðismanna í efnahagsmálum hefur leitt af sér og vekur nú heimsathygli.

En við hverju má ekki búast ef aularnir í VG komast með puttana í dæmið og sundra öllum stöðugleikanum sem við búum við í dag!

Það er engu að treysta. En sérðu fyrir þér djúpa kreppu ef þessar voðalegu spár rætast Liberal?

Árni Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 18:09

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Örn & Eyjólfur:

Ég hef margoft lýst því yfir hér á blogginu hjá mér að við sjálfstæðismenn berum stærsta ábyrgð allra stjórnamálaflokka á því hvernig málum er fyrir komið. Það gerði ég strax í október, því það var svo augljóst, að ekki var hægt að benda neinn annan flokk, nema kannski Framsóknarflokkinn, sem ber jafn mikla ábyrgð.

Við skulum samt halda því til haga að ríkissjóður var skuldlaus við fall bankanna. Að mínu mati klikkuðu menn á því að setja ekki nógu stranga löggjöf og síðan klikkaði gjörsamlega allt eftirlit með bönkum og fjármálastofnunum, en þar ber Fjármálaeftirlitið stærsta ábyrgð og Seðlabankinn að sjálfsögðu einnig ábyrgð. Peningamálastefnan hefur einnig verið kolröng undanfarin ár og tilraunin með fljótandi gengi mistókst gjörsamlega. Þarf ég að sýna meiri iðrun? Hvað með Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn undanfarin ár, hvar er iðrun þeirra? Þeir benda á Sjálfstæðisflokkinn og bera af sér alla sök. Alþingi, sem löggjafarstofnun, ber einnig ábyrgð, því þingi ber samkvæmt stjórnarskrá ábyrgð á lagasetningu í landinu! Þar sátu VG og Frjálslyndir og Samfylkingin undanfarin ár og hefðu getað lagt fram löggjöf og komið með ábendingar, ef þessum flokkum hefur grunað að svona gæti farið! Eyjólfur, ef það róar þig geturðu sagt að ég sé samsekur. Minnir mig á grein, sem ég las einu sinni um sameiginlega sekt (þ. Kollektivschuld) Þjóðverja á fjöldamorðum gyðinga. Þannig eru þá Bandaríkjamenn "samsekir" um fjöldamorð á Indíánum, Rússar um morðin á tíma Stalíns o.s.frv. Það munar ekki um þetta hjá þér!

Ernir Erlingsson:

Flestir sjálfstæðismenn sem ég hef hitt frá því í nóvember hafa verið þeirrar skoðunar að Geir ætti að reka Davíð. Ég hef skrifað tugi pistla, þar sem ég hef hvatt til þess að Davíð verði látinn fara eða hvatt Davíð til að segja af sér!

Liberal:

Eins og mælt úr mínum munni! 

Hanna Björg:

Það eru fleiri en þú með hnút í maganum.

Hvernig heldurðu að þetta verði þegar stuðningsfólk hryðjuverkasamtaka, öfgafemínistar, öfgaumhverfissinnar og stjórnleysingjar stjórna hér þjóðfélaginu!

Þórunn:

Alvega sammála þér, þetta er svaka tækifæri og ég vona að Davíð komi loksins fram og skýri frá því, sem hann veit.

Ragnar:

Nákvæmlega! Ég vona að fólk átti sig á því í kosningunum að með því að greiða Samfylkingunni er það í raun að greiða VG sitt atkvæði! 

Gústaf & Stefán:

Við sjálfstæðismenn erum "saltrólegir" um þessar mundir. Auðvitað verður þessi stjórn sósílalista og kommúnista fljót að klúðra málum. Það gerist kannski ekki í vor, en í síðasta lagi að loknum kosningum. Verði stofnuð ríkisstjórn vinstri flokkanna í vor, stendur hún í mesta lagi 1 - 1 1/2 ár og svo erum við aftur komnir til valda. Það er allt í lagi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að taka smá frí eftir 17 ár og leyfa öðrum að komast að, en það er hins vegar verra fyrir þjóðina!

Sigurður:

Þarf enga samúð frá þér, en huggaður íslensku þjóðina þegar þið vinstri menn eruð búnir að gera mjög erfiða stöðu að gjörsamlega vonlausri stöðu. Kosturinn er þegar svo er komið að til er flokkurinn, sem kann að koma landinu úr vonlausum stöðum og aftur í góða stöðu = Sjálfstæðisflokkurinn!

Árni:

Auðvitað höfum við klúðrað þessu "Big time" undanfarin ár og við þurfum ekki einu sinni að reyna að verja það, því það er gjörsamlega vonlaust. Lestu svar mitt hér að ofan við athugsemdum Jóns og Eyjólfs, því þau svara þinni athugasemd líka.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.1.2009 kl. 19:59

14 Smámynd: Steinarr Kr.

Það mun ekki allt loga í óeirðum á næstunni.  Ungliðahreyfing VG er búin að ná sínu fram.  Núna á að reyna að berja á NATO fundi.

Kjaftasagan segir að Skattgrímur vilji setja hátekjuskatt á laun yfir 350.000.-  Miðað við þá tölu hljóta að vera mjög margir auðmenn í landinu sem hægt er að frysta eigur hjá.

 Nú fyrst er maður að verða hræddur.

Steinarr Kr. , 28.1.2009 kl. 22:52

15 identicon

liberal,við erum ekki hársbreidd frá því að fá yfir okkur martraðarkennda stjórn heldur erum við rétt að losna við martraðarkennda stjórn öfgaafla sem HAFA þegar ollið hér kreppu sem væntanlega mun standa hér áratug ef ekki lengur,og glæpamennirnir sem sátu hér að völdum dunduðu sér við það í 17 á að eitra stjórnkerfið og stofnanir í ríkisumsjá svo mér finnst það aumingjalegt af sjálfstæðismönnum að gangast ekki við glæpnum(en reyndar ekki óalgengt með fólk í afneitun)það er vesælt af íhaldinu (en ekki ólíkt þeim)að ætla þegar að reyna að kenna flokki sem verið hefur í stjórnarandstöðu um eign ófarir,en það kemur reyndar ekki á óvart frá sjálfstæðisflokknum,sem í sinni útópiu þekkir ekki mun á réttu og röngu.

árni aðals (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband