Ofangreind orð fann ég og eru þau höfð eftir farsælasta leiðtoga okkar sjálfstæðismanna fyrr og síðar, Ólafi Thors. Fannst mér þau eiga vel við á þessum tímamótum, þegar vinstri menn eru að taka við landstjórninni.
Það er komið að vatnaskilum hjá okkur sjálfstæðismönnum. Eftir nær 18 ára stanslausa sigurgöngu í landsmálapólitíkinni urðum við í annað skipti undir í orrustu, en fyrsta orrustan var þegar við töpuðum í fjölmiðlamálinu víðfræga. Það var að þeirri orrustu lokinni, 2. júní árið 2004, að mér varð ljóst, að við sjálfstæðismenn værum líklega ekki á réttri leið. Líkt og hjá mörgum öðrum gerði ég samt lítið úr þessari tilfinningu minni og beitti minn innri mann þöggun.
Gamall frasi segir að enginn sé í stjórnmálum nema til að hafa áhrif og það má til sanns vegar færa. Mest áhrif hafa þeir sem eru við stjórn landsins. Vilji þjóðarinnar í dag er hvort sem okkur sjálfstæðismönnum líkar betur eða verr að við verðum ekki í ríkisstjórn, að við eigum ekki að hafa völd eins og sakir standa. Verkefni okkar er að breyta þeirri skoðun landsmanna og til þess höfum við 84 daga. Hvernig það verður best gert er að mínu mati erfitt verkefni að leysa, en alls ekki óyfirstíganlegt.
Hér fyrir neðan er sú nálgun, sem ég persónulega held að skili okkur sjálfum bestum árangri. Það sem gerir okkur sátt við okkur sjálf og gjörðir okkar, eykur að nýju sjálfstraustið og fær síðan vonandi aðra til að treysta okkur að nýju. Eini gallinn við þessa kristnu aðferðafræði er að hún verður að byggjast á hreinum tilfinningum, sannleika og algjörri einlægni viðkomandi, því annars skaðar hún þann sem beitir henni og hefur algjörlega þveröfug áhrif a aðra:
Fyrsta skrefið hefur verið stigið en það var að axla ábyrgð á okkar hluta ábyrgðarinnar. Við eigum hins vegar ekki að taka ábyrgð á gjörðum annarra eða utanaðkomandi áhrifum, nógu þungur er okkar kross samt!
Annað skrefið er að biðjast fyrirgefningar í nafni flokksins og reyna að fá fyrrum kjósendur til að sættast við flokkinn sinn. Þetta finnst eflaust mörgum einkennileg nálgun, en ég tel í ljósi mannlegrar reynslu að hún sé rétt.
Þriðja skrefið felst í því að sýna sanngirni og viðurkenna að mótaðilinn hafi að einhverju leyti haft rétt fyrir sér. Reynum ekki að verja okkur, halda fram okkar málstað og gera jafnvel lítið úr málstað mótaðilans. Við erum og höfum verið í tilfinningalegu uppnámi eftir bankahrunið og eigum því erfiðara með að greina raunveruleikann frá tilfinningum okkar. Við vorum því stundum komin á hálfgerðar "villigötur" á undanförnum mánuðum þegar við vorum að verja okkur. Þær ásakanir, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið fyrir, hafa sært okkur sjálfstæðismenn og að sjálfsögðu einnig okkar forystufólk. Til áratuga hafa stjórnmálamenn á borð við Geir Haarde, Björn Bjarnason og fleiri fórnað lífi sínu fyrir velferð þjóðar okkar og þá þarf ekki mikið til að raunsæið ruglist og við sjáum hlutina ekki í eins skýru ljósi og við annars myndum gera.
Fjórða skrefið er að mínu mati að iðrast, því án iðrunar er engin fyrirgefning. Sjálfstæðisflokkurinn þarf hugsanlega að auðmýkja sig aðeins og það getur orðið okkur erfitt, því við erum stoltur flokkur - og það ekki að ástæðulausu - beygjum okkur ekki í duftið svo auðveldlega. Ef við viljum ekki brjóta odd af oflæti okkar komumst við þó ekki lengra í bili!
Fimmta skrefið - og sennilega það mikilvægasta ef að flokkurinn vill ná viðunandi árangri í vor - er að flokkurinn sjálfur þarf að breytast. Við getum ekki breytt fortíðinni en við höfum framtíðina í höndum okkar - við getum breyst sjálf og það getur flokkurinn líka með hugarfarsbreytingu og nýju fólki.
Ég minni þó á að lykillinn að lausn vandans er að horfast í augu við fortíðina og gera hana upp og til þess höfum við ekki langan tíma. Samfara þessu verðum að að ýta biturð og vonbrigðum til hliðar og leita sátta við fyrrverandi félaga í Sjálfstæðisflokknum og þá sem okkur hafa treyst undanfarin ár, því án þeirra verður enginn varnarsigur upp á +30% þann 25. apríl næstkomandi.
Minnumst þess og viðurkennum fyrir sjálfum okkur og öðrum að hvorki við né aðrir eru fullkomin. Hvorki þú lesandi góður, stjórnvöld eða aðrir hafa haft fullkomna yfirsýn yfir þau erfiðu mál, sem að okkur hafa steðjað undanfarna mánuði og í raun undanfarin 2 ár. Þau erfiðu áföll, sem þjóðin hefur orðið fyrir, ollu því að þjóðin og okkar kjósendur eru ekki að öllu við okkur sátt þessa stundina.
Við verðum að biðja þjóðina fyrirgefningar og þegar við gerum það verðum við forðast allar málalengingar og teknókratamál. Við biðjumst fyrirgefningar í stuttu og skýru máli og lýsum yfir að við - líkt og allir aðrir - brugðust illilega á vaktinni og að með aðgerðaleysi okkar, t.d. varðandi lagasetningu og eftirlit, standi þjóðin nú frammi fyrir alvarlegum vandamálum. Við þurfum jafnframt að tilgreina nákvæmlega hvar við fórum út af sporinu.
Annað hvort í dag eða á morgun mun ég ég síðan taka fyrir mínar hugmyndir um framtíð Sjálfstæðisflokksins, sem er að mínu mati jafn glæst og hún hefur alltaf verið!
Heimspekingurinn La Rochefocauld heimspekingur:
Brestir, sem við höfum kjark til að viðurkenna, eru alltaf fyrirgefanlegir
Ingibjörg á Bessastaði í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Facebook
Athugasemdir
"Ef við kunnum okkur ekki hóf, snýst velgengni og velsæld, í vesæld og vansæmd"
Þetta var og er hárrétt hjá Ólafi. Ef eftirkomendur hans hefðu starfað eftir þessum einföldu reglum væri kannski ekki svona komið fyrir þjóðinni. Eftir Tæplega 20 ár er sjálfstæðisflokkurnn búinn að fella okkur svo laglega í skítinn að það verður seint hreinsað. Ég er venjulegur daglaunamaður og neita alfarið að eiga nokkurn þátt í þessu hruni.Það er eins og ykkur sé einhver firðþæging í því að segja að við öll berum þessa ábyrgð, en það er rugl.Á fjögurra ára fresti erum við eftirsótt og vinsæl, þá heitum við atkvæði, næstu fjögur ár eigum við að halda kjafti og láta stórnmálamennina um ferðina. Og þetta er árangurinn,ég hef ekkert um það að segja hvaða maður velst í hvað, atkvæði mitt fellur á flokkinn sem raðar svo sínum gæðingum á stallinn eftir flokksverðleikum.Síðan er búið að múlbinda þingmenn með þessu þingflokkadæmi, þar sem menn eru kúskaðir til hlýðni. Það þarf ekki nema tvo Íslendinga til að vera ósammála, og ætla að bera það á borð fyrir verðandi og fyrverandi atkvæði, að 20-30 manna þingflokkur sé sammála, hlýtur að kalla alvarlega á sálfræðiaðstoð, enda er þetta kjaftæði sem enginn trúir.
Með kveðju og gangi þér allt í haginn í söng og söngstarfi. Hitt læt ég liggja milli hluta
Ari Guðmar Hallgrímsson, 1.2.2009 kl. 15:11
Góð grein, en hvernig hefur fyrsta skrefið verið tekið? Ég hef beðið lengi eftir því en aldrei tekið eftir neinu slíku.
Guðbjörn (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 15:57
Ég fagna því Guðbjörn minn, að þú viðurkennir , að þjóðin vill ekki flokkinn þinn í ríkisstjórn og með því að lesa greinina, veit ég að þú veist af hverju flokkurinn þinn er svona óvinsæll. Það þýðir að augun þín hafa opnast og að þú sérð spillinguna sem að skapast af frjálshyggjunni, hugmyndafræði flokksins þíns, sem nú er steindauð og kostaði þjóðargjaldþrot , atvinnuleysi og skuldsetningu barnabarna okkar. Þökk sé þínum flokk!! Að iðrast er alltaf gott en eitt er víst, þjóðin verður ekki búin að fyrirgefa flokknum þínum , fyrir kosningar í vor og nýfrjálshyggjan verður jafndauð í vor , eins og í dag.
Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 08:50
Ólafur Thors var líka góður sjálfstæðismaður, ágæti Guðbjörn!
1.540 dagar duga, etv, í verkefnið sem þú leggur hér fyrir Flokkinn - séu menn reiðubúnir að vinda sér í það.
Hlédís, 2.2.2009 kl. 10:08
Ef ég fæ einhverju ráðið í komandi prófkjöri, þá verða þau og aðeins þau orð notuð. Hins vegar á heldur ekki að gera lítið úr verkum flokksins frá árinu 1991 - 2004!
Viljum við til baka til Síldarverksmiðja ríkisins, Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Lyfjaverslunar ríkisins o.s.frv.?
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.2.2009 kl. 22:11
Lastu í alvöru greinina hans Indriða H Þorlákssonar um arðsemi álvera? Ef svar þitt er nei þá hefðirðu svo sannarlega átt að gera það áður en þú skrifar svona einfeldningslega. Ef svarið er já, þá skil ég betur af hverju þér skrifar svona.
Það er ekkert á þessu að græða, það hlýtur þó að vera eitthvað sem þið íhaldsmenn skiljið.
Af öðrum skrifum þínum er það ljóst nú sem endranær að þið blámenn hafið engan áhuga á þjóðinni, fyrir ykkur fellst verðgildi hennar í því hvað hún er góð til neyslu og góð til skattgreiðslu. Hversu gróðavænleg hún er fyrir erlenda fjárfesta, því það er alveg ljóst að erlendir eigiendur álveranna eru þeir einu sem hagnast á álverum hér, og þannig væri það líka um olíuhreinsistöð. Það skattaumhverfi sem núverandi stóriðja hér býr við er fordæmisgefandi.
Hann er líka frábær pistillinn þinn um það hvernig eigi að ná aftur trausti kjósenda. Í hverju er iðrun ykkar fólgin? Hvernig hyggist þið bæta fyrir gjörðir ykkar? Ætliði að finna leiðir til að sækja aftur fé sem auðmenn stálu af þjóðinni í skugga valdsmanna flokksins og veðjuðu á ranga hesta? Ætliði sjáfir að greiða eitthvað til baka? Ætla einhverjir af þínum frammámönnum að viðurkenna afglöð í starfi og taka út refsingu fyrir það?
Ég held ekki. Hvergi í þeim pistli þínum er minnst á þjóðina eða hvað sé best fyrir fólkið í landinu. Það eina sem er, er að þú veist að þjóðin er búin að fá nóg af ykkur, traust hennar vinnið þið aldrei aftur á eigin spýtur, þess vegna hlakkar í þér yfir hverju því sem gæti komið höggi á vinstri stjórnina, svo að þið getið náð völdum aftur. Það er það eina sem vakir fyrir ykkur, að ná völdum aftur svo að þið og gerspillt viðhengi ykkar getið haldið áfram ykkar iðju.
Það er greinilega langt í að þú og þínir flokksbræður sýnið nokkra raunverulega yðrun, sem verðskuldar fyrirgefningu þjóðarinnar. Í því samhengi var gaman að lesa viðtal við Hannes Hólmstein í Mogganum í morgun. Þetta er allt samsæri gegn Davíð. Góða góða Davíð. Hvílík iðrun
Stóriðja er þjóðinni ekki fyrir bestu. Hún hefur jákvæð áhirf á hagkerfi þeirra landa sem eiga engra annarra kosta auðið, sakir fjármagnsskorts, þekkingarskorts, fátæktar og eymdar. Þá er illt betra en ekki neitt. Hér er þetta bara svo fjarri því málið.
Hættið nú þessum sandkassaleik og farið að setja velmegun þjóðarinnar í fyrsta sæti
Ekki velmegun flokksins
Guðmundur Ingi Þorvaldsson, 3.2.2009 kl. 12:43
Sæll kæri Guðbjörn.
Ég fagna prófframboði þínu og vil gjarnan leggja mitt af mörkum til þess að þú náir árangri.
Mér líst ofboðslega vel á þetta hjá þér.
Baráttukveðjur
Hanna Björg Konráðsdóttir
Hanna Björg Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.