Vinstri sveiflan sem betur fer í rénun ...

Vonbrigðin fyrir stjórnarflokkana hljóta að vera allnokkur. Þegar vinstri bylgjan náði hámarki um miðjan nóvember var fylgi vinstri flokkanna samanlagt um 65% en hefur nú lækkað í 55%. Það eina sem hefur gerst er að eftir stjórnarslitin við Sjálfstæðisflokkinn hefur vinstra fólk nú yfirgefið VG og fært sig aftur yfir í Samfylkinguna. Tala vinstri manna er því lægri á landinu núna en í haust. Vinstri sveiflan er í rénun, þeim hefur ekki fjölgað frá því í haust heldur fækkað um nánast 10%.

Staða Samfylkingarinnar er enn aðeins veikari en við síðustu kosningar, þótt þeir hafi næstum náð fyrri styrk sínum. VG hafa styrkt sig um 10% frá síðustu kosningum, en tapað miklu sé miðað við skoðanakannanir í haust, þegar þeir höfðu meira en tvöfaldað fylgi sitt frá kosningunum. Framsóknarflokkurinn hefur styrkt sig nokkuð frá síðustu kosningum, en tapað miklu af því fylgi sem þeir bættu við sig á landsfundinum er þeir kusu sér nýja forystu.

Vissulega hefðu niðurstöður þessar mátt vera okkur sjálfstæðismönnum aðeins hagstæðari, en þróunin er þó í rétt átt - upp á við! Við höfum verk að vinna, ekki síst af því að við eigum 10% fylgi inni miðað við síðustu kosningar. Við sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hljótum að gleðjast yfir góðu gengi flokksins hér, sem er um 36%. Mörgum þykir ég eflaust mikill bjartsýnismaður þegar ég set stefnuna á við verðum með svipað fylgi á landsvísu, en ég tel það raunhæft markmið að stefna að.

Svarhlutfall í skoðanakönnuninni er 63,2%, sem er svipað og í síðustu könnun. Þetta þýðir að margir eru enn óákveðnir og í því eru fólgin sóknarfæri fyrir okkur sjálfstæðismenn. Mér segir svo hugur um, að á meðal óákveðinna kjósenda séu einmitt þessi 10%, sem nú lýsa ekki stuðningi við nokkurn flokk, en eru í raun sjálfstæðisfólk.

Ég lýsi því enn og aftur yfir að gamall sjálfstæðismaður á erfitt með að setja krossinn sinn við Framsóknarflokk eða Samfylkingu og segja má að sjálfstæðismaður sem tæki upp á því að kjósa VG ætti að leita sér lækninga hið fyrsta, því hann hlýtur að hafa orðið fyrir miklu áfalli.

Með ótrúlegum áróðri og lýðskrumi hefur vinstri mönnum tekist að skella allri skuldinni á okkur sjálfstæðismenn. Vissulega berum við einhverja ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir hér á landi, en það gera einnig aðrir flokkar og mestu ábyrgðina bera að sjálfsögðu þeir sem stjórnuðu hér viðskiptalífinu: viðskiptabankarnir og útrásarvíkingarnir. Þetta hafa erlendir sérfræðingar bent á, m.a. Svíinn Mats Gustavsson og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, en íslenskir fjölmiðlar haft lítinn áhuga á að fjalla um.

Jafnframt hafa vinstri menn í allt haust borið á borð rangar og villandi upplýsingar um skuldastöðu okkar Íslendinga og látið í ljós skína að þjóðin sé í raun gjaldþrota. Þetta er alrangt, þótt nú eftir áfallið sé staða okkar vissulega verri en áður, er hún hvað skuldir varðar í raun svipuð og annarra vestrænna þjóða.

Við sjálfstæðismenn verðum að einbeita okkur að því að ná fyrrum félögum okkar, sem yfirgefið hafa flokkinn, aftur til baka í okkar raðir, þar sem þeir eiga heima og þar sem þeir eru velkomnir að hjálpa okkur við endurreisn landsins í anda Sjálfstæðisstefnunnar. 

 

 


mbl.is Ríkisstjórnin fengi meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Skaftason

Sæll Guðbjörn

 Ein spurning. Ertu með þessari færslu að segja að þeir menn og konur sem hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina en kjósi nú að styðja VG í einum kosningum séu geðveikir? Ég les ekki annað úr skrifum  þínum.

Bragi Skaftason, 27.2.2009 kl. 10:20

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég þekki nú einn sjálfstæðismann sem ætlar að kjósa VG í vor. Hann er alveg bráðfrískur á geðsmunum. Þið sjálfstæðismenn verðið bara að taka afleiðingum gerða ykkar. Þið berið meginábyrgðina þó fleiri séu sekir.

Sigurður Sveinsson, 27.2.2009 kl. 10:33

3 identicon

Sæll Guðbjörn.

Grein þín er, að mínu mati, er nokkuð langt úr samhengi við veruleikann. Skoðanakönnunin sýnir að nú er hægt að mynda tveggja flokka vinstri blokk. Ég bendi einnig á að það er athyglisvert að nú ganga sjálfstæðismenn í endurnýjun lífdaga með því að berja í borð og segja að nú þurfi aldeilis að skerpa á hugmyndafræðinni. Skerpa á hvaða hugmyndafræði? Skerpa á hugmyndafræðinni sem hefur svifið yfir hér undanfarin 18 ár? Skerpa á hugmyndafræði þess að rjúfa bræðralagið um velferðarkerfið, þá þjóðarsátt sem um það hefur verið?

Það hefur verið skýlaus krafa allra að nú sé mál að linni. Gömul gildi stjórnmálanna, hnífstungu-, hræðslu- og valdhrokastjórnmál eiga að grafast undir með þeim skít sem hér flaut. Niðufall íslensks þjóðlífs er stíflað af eintómri mykju og það eru flestir sem vita úr hvaða dreifara sú mykja er komin. 

Um leið og krafan snýr að því að grafa þá pólitík sem þú stendur greinilega fyrir þá er ekki úr vegi að biðja þig farsældar og velgengni í því sem þú tekur þér fyrir hendur í nánustu framtíð og von um að þú hættir að tala með öfugum enda meltingarinnar, það fer ekki neinum vel

Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 10:34

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Bragi:

Skemmtilegur útúrsnúningur Bragi, en ef þú ert ekki alveg læs er nú til dags hægt að leita sér hjálpar við lesblindu.

Byrjaðu ná á því að lesa textann hér að neðan hægt og rólega og stækkaðu letrið á skjánum hjá þér. Reyndu að vera í umhverfi, þar sem ekkert truflar þig. 

segja má að sjálfstæðismaður sem tæki upp á því að kjósa VG ætti að leita sér geðlækninga 

Hvað heldur þú að margir hafi snúið bakinu við Sjálfstæðisflokknum og byrjað að kjósa VG? Hvað heldur þú að margir hafi snúið bakinu við VG og byrjað að kjósa okkur? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.2.2009 kl. 10:36

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er svo erfitt fyrir Sjálfstæðismenn að tapa eða viðurkenna mistök. Samt væri það þeim bráðhollt.

Kanski verður það talið sigur að vera ekki minnsti flokkurinn í vor.

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.2.2009 kl. 10:43

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar:

Það er skiljanlegt að liðsmenn VG skulu ekki vera hressir þegar fylgi flokksins tekur slíka dýfu í kjölfar mikillar uppsveiflu í skoðanakönnunum haustsins. Bíðum eftir að talið verði upp úr kjörkössunum.

Flugið á Steingrími J. Sigfússyni lækkar líklegast aðeins í kjölfarið á þessari skoðanakönnun og krafan um endurnýjun á forystu VG eykst. Sú krafa mun einnig verða hávær hjá Samfylkingu, nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir hefur ná flokknum aftur á strik.

Þú skrifar fjálglega:

Gömul gildi stjórnmálanna, hnífstungu-, hræðslu- og valdhrokastjórnmál eiga að grafast undir með þeim skít sem hér flaut. Niðurfall íslensks þjóðlífs er stíflað af eintómri mykju og það eru flestir sem vita úr hvaða dreifara sú mykja er komin.
 
Í næstu setningu líkir þú síðan Sjálfstæðuflokknum við "drulludreifara". Þið vinstri menn segið eitt og meinið annað og eruð svo skemmtilega ósamkvæmir sjálfum ykkur. Talið um málþóf hjá okkur eftir að hafa stundað málþóf hjá okkur í 18 ár. Talið um ómálefnalega umræðu okkar, þegar þið hafið stundað ómálefnalega umræðu í allt haust og í raun í 18 ár! Merkilegur þjóðflokkur!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.2.2009 kl. 10:53

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnlaugur:

Við erum samkvæmt þessari skoðanakönnun annar stærsti stjórnamálflokkur landsins og á uppleið!

Aðeins Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bættu við sig fylgi frá síðustu könnun. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.2.2009 kl. 10:55

8 identicon

Já Gunnlaugur skeleggur sem þú ert.

Ég hreinlega veit það ekki...en væri ekki skynsamlegra af þér að eyða þessum kröftum þínum í að "styrkja" hugmyndafræði flokks þíns heldur en að agnúast út í þá sem aðra skoðun hafa á hugmyndum um stjórnmál. Það er auðvelt að ráðast og gagnrýna önnur hús þegar þín eigin Valhöll er öll útötuð í driti Fálkaforystunnar. 

Ég væri samt til í að sjá þig í 1. sæti Suðurkjördæmis. Árna frænda þinn Johnsen í annað sætið og kannski Eggert Haukdal í þriðja sætið. Það væri úrvals herbergi. 

Gangi þér vel minn kæri vin, ég ætla ekki að málþófa þig. Þú mátt eiga þessa umræðu aleinn í undralandinu þínu.

kv. Ilmandi VinstriGrænn Gunnar, sem hefur aðrar hugmyndir um þjóðfélagið en þú

Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 11:13

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar:

Ég óska þér einnig alls hins besta í prófkjöri þínu og vona að vinstra fólk í Samfylkingunni á borð við Mörð Árnason og félaga sjái sóma sinn í að ganga í þann flokk, þar sem þeir eiga heima: VG.

Þá væri Samfylkingin (Alþýðuflokkurinn) aftur stjórntækt stjórnmálaafl og línurnar skýrari í íslenskum stjórnmálum. Sennileg væri besta lausnin að stofna eitt eða jafnvel tvö stjórnmálaöfl til viðbótar á vinstri vængnum, því í raun er um 3-4 vinstri hreyfingar að ræða, sem fyrirfinnast í 2 stjórnmálaflokkum. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.2.2009 kl. 11:20

10 identicon

Já sem betur fer er vinstrisveiflan að minka, Sjálfstæðisflokkurinn getur þá kannski vonast til að geta tekið við aftur eftir kosningar, flokkurinn fór nenfilega svo vel með landið síðast þegar hann var í stjórn. Það er ótrúlegt hvað mönnum getur dottið í hug, Sjálfstæðisflokkurinn skilur við landið í rúst og þú getur ekki peðið með að fá að klára landið alveg og koma því gjörsamlega niður í skítinn. Ég held að Sjálfstæðisflokkuinn ætti ekki einu sinni að bjóða fram, heldur fara í naflaskoðun og spyrja sig á hvaða vegleið þið eruð. Hvort þið þurfið ekki að endurskoða eitthvað í hausnum á ykkur og skammast ykkar. Ég kaus einu sinni Sjálfstæðisflokkinn og ég hef marg oft beðið fólk afsökunar á glapræði mínu. Fyrr myndi ég láta slíta af mér handlegginn en að setja x viðD.

Valsól (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 11:25

11 Smámynd: Oddur Ólafsson

Skammastu þín fyrir að draga geðsjúkdóma inn í þessa umræðu. 

Oddur Ólafsson, 27.2.2009 kl. 11:28

12 identicon

Ó hvenær kemur sá dagur að Íslendingar saki ekki hvorn annan um geðveiki, lesblindu, heimsku þegar tekist er á um hugsanir og hugmyndir?

Hafið þið miðaldra sjálfstæðismenn engin önnur vopn, orð, hugsun... til að verja ykkur en blammeringar og hroka?

Bryndís (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 11:30

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Oddur:

Rétt athugasemd hjá þér og biðst ég velvirðingar á þessu. Ég breytti því orðalagi í:

ætti að leita sér lækninga hið fyrsta
 

Bryndís: 

Hver er með hroka hér? Ef við hægri menn svörum fyrir okkur er það hroki, ef við viljum tala á Alþingi er það málþóf!

Vinstri menn ausa skítnum yfir mann hér á blogginu og enginn segir neitt, en ef við svörum fyrir okkur á hreinni og klárri íslensku erum við hundskammaðir!

Þið ættuð að líta í eigin barm!!! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.2.2009 kl. 11:36

14 identicon

Ég lít í eigin barm, enda saka ég aldrei neinn um geðveiki né lesblindu. Nú er boltinn hinsvegar hjá þér...

Bryndís (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 11:39

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Bryndís:

Varðandi lesblinduna var mér fullkomin alvara. Ef einhver les það út úr setningunni að allir sjálfstæðismenn séu geðveikir, þá er viðkomandi annaðhvort ekki læs eða lesblindur. Í minni fjölskyldu er lesblint fólk, sem er gífurlegt hæfileikafólk og hefur ná langt á sínu sviði. Það er enginn ljóður á ráði fólks að vera lesblint, en þá á að leita hjálpar við vandamálinu. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.2.2009 kl. 11:42

16 Smámynd: Bragi Skaftason

 Ég sé ekki að ég hafi verið að snúa út úr setningunni sem hljómar svona og þú vitnar í:

segja má að sjálfstæðismaður sem tæki upp á því að kjósa VG ætti að leita sér geðlækninga

Ég vil nú bara byrja á því að lýsa því yfir að ég styð ekki VG né er ég Sjálfstæðismaður. Ég er bara manneskja með áhuga á ýmislegu og manneskja með samvisku og skoðanir.  Ef ég sé hluti skrifaða á opinberum vettvangi sem vegur að heiðri manna og eru jafnvel aðdróttanir að tæpri geðheilsu manna í stórum hópum þá verður mér hverft við. Ekki halda að ég sé með þessari athugasemd að hnýta í þig sem persónu, það eina sem ég gerði var að spyrja þig beinnar spurningar og lýsa því sem fyrir mér bar og þeim skilningi sem ég dró af skrifum þínum. Ég er mjög feginn að lesa hér neðar í athugasemdum að ætlun þín var ekki að saka allt þetta góða fólk, sem þú augljóslega telur að sé ekki margt, um geðveilu eða þaðanafverra. Gleðiefni.

Góðar stundir

Bragi Skaftason, 27.2.2009 kl. 12:30

17 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir hugmyndafræði sem berst fyrir lífi sínu um allan heim vegna þess að almenningi víðast hvar er að verða ljóst að hugmyndafræðin ykkar byggir á rányrkju, þó þið talið fjálglega um frelsi einstaklingsins. 

einstaklingurinn má sín einskis í ykkar allra besta heimi allra heima, nema hafa fullar hendur fjár.

hugmyndakerfi ykkar, klisjur Hannesar Hólmsteins, eru að fuðra upp.

hvers vegna? - jú, vegna þess, eins og kommúnisminn: þessi hugmyndafræði virkar ekki í praxís og hefur aldrei gert.  

eina haldreipi Sjálfstæðisflokksins er að hoppa upp í ESB-vagninn án þess að vita hvert hann leiðir.

Sjálfstæðismenn eiga ekkert fylgi inni. - eiga í raun ekkert inni hjá neinum Íslendingi eftir að hafa gefið veiðileyfi á helstu veðmæti íslensku þjóðarinnar.  

íslenskur almenningur gleymir því ekki svo glatt.  

Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 16:49

18 identicon

Sæll. Guðbjörn.

Ég velti því alvarlega fyrir mér hversu greinagóður þú ert að greina  skoðanir fólk (Analýsera fólk). Það ægir öllu saman af öllum stefnum og eina leiðin til gæfu er að styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Það er bara ekki rétt hjá þér.

Öfga vinstri menn og öfgahægri menn og allur sorinn þar á milli.

Sko, í dag er árið 2009.

Hugmyndir fólks um flokka eru að breytast og það verður þannig í framtíðinni að fólk fær að kjósa sér talsmann á þing sem fer við hugsjónir þeirra. 

Ekki frammreiddur fulltrúi flokksini af einhverjum eigingjörnum broddborgurum sem að hafa nú sýnt þjóðinni hvað er í boði ( gott dæmi þessa dagana                  "Sigurður Kári".

Sjálfstæðiflokkurinn, Nei takk

.(Kannski í framtíðinni þegar augu floksráðenda opnast.)

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 17:09

19 Smámynd: Þorsteinn Egilson

 Sæll Guðbjörn,
ég geri fastlega ráð fyrir því að þú sért hinn vænzti maður, viljir  fólki þínu og nágrönnum vel.

En, hefur þér ekki komið til hugar að þetta " .... og segja má að sjálfstæðismaður sem tæki upp á því að kjósa VG ætti að leita sér lækninga hið fyrsta, því hann hlýtur að hafa orðið fyrir miklu áfalli" sé einmitt raunin eftir 18 ára valdasetu xD.

Áherzlur þínar á FLOKKINN ÞINN valda mér áhyggjum, þ.e. að áfram eigi að miða allt við áframhaldandi blindað flokksræði. Persónulega finnst mér xD hafa unnið sér inn gott frí frá stjórnvölum þessa lands. Eins og þú sjálfur, þá eru Katrín Jakobs, Steingrímur J, Ögmundur, Atli Gísla og fleiri í liði VG vel meinandi og kraftmikið fólk. Tími þeirra er auðvitað bara kominn og ykkur heittrúuðum sjálfstæðismönnum er alveg óhætt og reyndar mun óhættara nú en það sem xD hafði forystu um að leiða okkur í. Eftir kosningar óska ég þess að allir sem þangað ná myndi ríkisstjórn að frátöldum Sjálfstæðisflokknum.

Gangi þér vel í þinni pólitík, það er alls staðar þörf fyrir gott fólk, en gerðu sjálfum þér þann greiða að taka málefni og einstaklinga framyfir FLOKKINN.

Kveðja,

Þorsteinn Egilson, 27.2.2009 kl. 17:44

20 identicon

Gullvagninn (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 17:58

21 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvaða hroki er þetta eiginlega í þessum undarlegu sjálfstæðismönnum? Þeir segjast bara ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum landsins. Það er auðvelt að spila með þessa menn. Nú trúa þeir því að fólk treysti þeim fyrir fjármálum!

Einhverjir galgopar sem treysta því að þeir séu auðtrúa gefa þeim atkvæði í skoðanakönnunum og sjallarnir trúa þessu eins og nýju neti.

En meðal annara orða: Til hvers eruð þið að bjóða fram Guðbjörn? Það er nú ósköp lítið eftir af þjóðareigum handa ykkur að skipta á milli vina og kunningja.

Það er ekkert eftir til að ásælast- hefur enginn sagt ykkur það ennþá?

Bíðið heldur þar til vinstri flokkarnir hafa lagað til og sleikið sárin í rólegheitum á meðan.

Árni Gunnarsson, 27.2.2009 kl. 21:34

22 identicon

Sæll, Guðbjörn.

Ég legg það ekki í vana minn að rita á bloggsíður. Mig langar þó að kynna þér sjónarhorn mitt; sjónarhorn 25 ára manns sem er óháður öllum stjórnmálaflokkum og stefnum.

Af samskiptum við jafnaldra mína dreg ég þá ályktun að mín kynslóð er þreytt. Hún er auðvitað þreytt á ástandinu, rétt eins og flestir Íslendingar. En það er fleira sem kemur til. Ég held að mín kynslóð sé dálítið uppgefin á pólítíkusum. Í sífellu fáum við þau skilaboð frá okkur eldra og reyndara fólki að pólítík sé eins og knattleikur þar sem etja kappi lið „hægrimanna“ og „vinstrimanna.“ Þegar ég les bloggsíðu þína þá fæ ég einmitt þessa svekkjandi tilfinningu: „Æ, ekki enn einn frambjóðandinn sem sér tilveruna í svarthvítu, vinstrimenn, hægrimenn, við og þeir.“

Mín upplifun af veröldinni er nefninlega svo ólík þessu. Pólítík er ekki kappleikur. Það eru engin lið. Það er enginn sem sigrar. Ég vildi óska þess að frambjóðendur, hvar í flokki sem þeir standa, létu af þessari gamaldags og karllægu kappleikja-vinstri/hægri-stemningu.

Ég veit það eitt, að um leið og ég greini það í máli stjórnmálafólks að „hægrimenn séu spilltir“ eða „vinstrimenn séu á móti öllu“, þá fyllist ég þrúgandi vonleysi og missi allan áhuga á eiganda þeirra orða.

Áðurnefnd kynslóð er líka dauðuppgefin á stjórnmálamönnum sem elska flokkinn sinn. Ég varð aldeilis undrandi þegar flokksbróðir þinn, Bjarni Benediktsson, sagði, kinnroðalaust, daginn sem upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði: „Í dag þurfum við að leggja flokkshagsmuni til hliðar.“

Það var og! Þarna stóð ungur og glæsilegur þingmaður og flutti okkur einlæglega þau tíðindi að til væri eitthvað sem heitir flokkshagsmunir sem þyrftu að mæta afgangi við aðstæður sem þessar. Í orðunum felst sú viðurkenning að flokkshagsmunir skipi einhvern sess í daglegu stjórnmálaamstri.

Ég varð mjög hryggur við þetta. 

Guðbjörn, við þurfum ekki fleiri þingmenn sem sjá heiminn þessum augum. Við þurfum fólk sem er tilbúið að þjóna okkur en ekki flokknum sínum. Ég vona að þú sért rétti maðurinn til þess – þá getur nefninlega orðið gagn af þér!

Að lokum:

Ég upplifi það sem vott um dómgreindarleysi þegar fullorðinn maður sækir í líkingar við sjúkdóma til að leggja áherslu á mál sitt. Það eru til fjölmargar heppilegri leiðir til að skerpa á merkingu orða sinna.

Gangi þér vel, Guðbjörn. Ef svo vill til að þú hljótir brautargengi þá óska ég þess að þú berir gæfu til að þjóna okkur með sæmd og látir hvorki ást þína á flokknum né „vinstri/hægri einföldunina“ draga þig af leið.

Virðingarfyllst,

Andri Bjarnason.

Andri Bjarnason (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 21:39

23 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

"Vinstri sveiflan sem betur fer í rénun ..."

Er nokkuð eðlilegra, en eftir langvanandi pólitískt fylliri, ómennsku, brambolt og eyðileggingu í sálrænu ölæðiskasti þar sem engu er eirt, að menn formæli fylliríinu og því sem orsakaði það og menn lofa, á meðan á timburmönnunum, þynnkunni og fráhvörfunum stendur, að gera svona aldrei aftur.....???? 

Ég spái því, að þegar að kosningum kemur í vor, verður Sjálfstæðisflokkurinn aftur orðinn stærstur, en því miður verða VG næststærstir, því sumir geta hangið á hatrinu, ómennskunni og pólitíska fylliríinu mjög lengi, sumir hætta aldrei í slíkri vímufíkn.

Samfylkingin, hinsvegar, verður farin að nálgast fylgi Framsóknarflokksins.

Ríkisstjórnin núverandi hefur skjólstæðing sem enginn ætti að treysta.  Skjólstæðing sem enginn getur treyst.  Þvímiður gerðu Sjálfstæðismenn það.  Nú kannast Framsókn ekkert við að hafa átt þátt í langvarandi mistökum þarsíðustu ríkisstjórnar. 

"Það er illt að eiga Framsókn (-armann) að vin." 

Kveðja, Björn bóndi   

Sigurbjörn Friðriksson, 27.2.2009 kl. 22:18

24 identicon

Sæll frændi,

Ég verð að segja að ég er eiginlega jafnmikið ósammála þér og hægt er. Ætla þó ekki að vera í orðaskaki við þig varðandi þessi mál hérna. Ég hygg að VG muni láta finna meira fyrir okkur en svo að þið náið sama fylgi ;) Gangi þér annars allt í haginn í prófkjörinu.

Ásmundur Einar Daðason (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 00:53

25 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Andri Bjarnason:

Góð athugasemd hjá þér, sem ég las vel og af athygli!

Dæmi um málefnalega umfjöllum vinstri manna um mig (dæmi nú hver um sig hver er meiri dóni):

þá er nú líklega betra bara að halda í dýralækninn sem kann ekki ensku og aðra jólasveina sem sitja á þingi fyrir sjalla 
 
Til forystu í þessum flokki veljast eingöngu hrokafullir eiginhagsmunapotarar 
 
Hvaða hroki er þetta eiginlega í þessum undarlegu sjálfstæðismönnum
 
 
að almenningi víðast hvar er að verða ljóst að hugmyndafræðin ykkar byggir á rányrkju 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.3.2009 kl. 15:11

26 identicon

Sæll á ný, Guðbjörn.

Þegar fólk tjáir sig með þessum hætti skýrist það gjarnan af tvennu:

1. Fólk er rökþrota.

og/eða

2. Fólk skilur ekki merkingu og gagnsemi rökræðu.

Þetta hefur vitanlega ekkert með stjórnmálaafstöðu að gera; ómálefnaleg skrif eru einmitt bara það – ómálefnaleg! Þess vegna er fullkomlega gagnslaust að afgreiða þetta sem málflutning „vinstri manna.“

Enn á ný: Ég upplifi þessa liðaskiptingu sem skaðlega einföldun og hún dregur úr þeirri skerpu sem er nauðsynleg til sjá þjóðfélagið og þarfir þess skýrlega. Lof mér að útskýra það nánar:

Um leið og einhver hugsar, segir eða ritar „Við hægri menn“ eða „Við vinstri menn“ þá hefur hann tekið ákvörðun (oftast ómeðvitaða) um að einfalda veruleikann. Þetta er eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt því við getum ekki meðtekið allan heiminn og þurfum því að flokka upplýsingar. Þess vegna tölum við um Vestfirðinga sem heild því við getum ekki kynnst þeim öllum!

Vandamálið við þessa einföldun er dálítið augljóst þegar kemur að samskiptum við þann hóp sem einföldun okkar skóp: Við eigum á hættu að missa af mikilvægum upplýsingum. Sá sem er gallharður sósíalisti gæti túlkað allar mótbárur við hugmyndir sínar sem „kapítalískan áróður.“ Þar með missir hann eflaust af fjölmörgum skynsamlegum tillögum þeirra sem eru annarrar skoðunar og missir um leið af möguleikanum til að þroska hugmyndir sínar frekar.

Því betur sem stjórnmálamaður gerir sér grein fyrir einfölduninni sem felst í þvi að segja „Þið vinstri menn“ eða „Þið hægri menn“, því líklegri er hann til þess að geta mætt þörfum þjóðarinnar sem hann vill þjóna, þjóðar sem er margbrotnari en svo að henni megi skipta í lið vinstri- og hægrimanna.

Kveðja,

Andri Bjarnason

Andri Bjarnason (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband