Flokkur óákveðinna enn stærstur með 35%

Þessi athugasemd Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors kemur að sjálfsögðu engum á óvart og er nú engin stórspeki þegar nær komið er að lokum þessa erfiða vetur. Það mikilvægasta sem dr. Ólafur lætur hafa eftir sér er: „Auðvitað getur þetta breyst verulega fram að kosningum“. Þetta á ekki síst við í þessum kosningum þegar enn eru um 35-40% kjósenda óákveðnir.

Að mínu mati eru það einmitt þessir óákveðnu kjósendur, sem athyglin ætti að beinast að. Þeir munu ráða úrslitum í kosningunum í lok apríl næstkomandi og breyting á afstöðu þeirra gæti haft úrslitaáhrif í kosningunum. Vinstri atkvæðin hafa skilað sér til vinstri flokkanna og einnig atkvæði þeirra "miðjumanna" sem voru innan Sjálfstæðisflokksins, en því miður hafa yfirgefið hann nú.

Spurningin er hins vegar hversu tryggir aðrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru sem snúið hafa bakinu við flokknum? Hvað gera þeir þegar á hólminn er komið? Geta gamlir sjálfstæðismenn hugsað sér að styðja vinstri stjórn, annaðhvort með því að kjósa vinstri flokk eða með því að skila auðu eða ekki fara á kjörstað? Vilja þeir byggja hér upp "skandínavískt velferðarkerfi" með fjölþrepa skattkerfi, mun hærri sköttum og endalausum ógagnsæjum millifærslum á peningum milli fólks.

Vilja gamlir sjálfstæðismenn ekki bara halda leiðinni okkar, Íslensku leiðinni, líkt og vinstri prófessorinn Stefán Ólafsson kallaði hana. Leið blandaðs hagkerfis, þar sem ríkið tekur aðeins að sér að leiðrétta markaðsbresti, tekur að sér þau verkefni sem markaðurinn sinnir alls ekki eða illa. Leið sem einkennist af hófsamri skattlagningu, leið sem tryggir frelsi einstaklinga og fyrirtækja, leið sem tryggir öllum góða afkomu, bæði þeim efnameiri og efnaminni, án þess þó að búa til "félagslegt hengirúm" fyrir fólk. Þau mistök gerðu grannþjóðir okkar og hafa æ síðan verið í hálfgerðum vandræðum og verið að reyna að skera það kerfi niður eða breyta því.

Ég hef trú á að okkar gömlu kjósendur skili sér til baka fyrir kosningar og það mun gerast í síðasta lagi í kjörklefanum. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar verk að vinna til að það gerist örugglega. Endurnýjun verður að eiga sér stað á framboðslistum, uppgjör líkt því sem Endurreisnarnefnin lagði fram verður að klárast, skipta verður um forystu í flokknum og við verðum að eiga kraftmikinn og góðan landsfund. Þetta verk hefur hafist og nú er bara að spýta í lófana og ljúka verkinu!


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halló! Hvar hefur þú verið? Varstu virkilega ekki búinn að frétta að 'íslenska leiðin' er búin að rústa efnahagslegri velferð okkar?

Vegna þeirra stjórnhátta sem hafa viðgengist hér, erum við nú búin að afsala okkur fjárræði okkar og bara tímaspursmál hvenær Landstjórinn frá AGS tilkynnir að við þurfum að selja Bandarískum stórfyrirtækjum orku- og/eða vatnsréttindin.

Ég ætla rétt að vona að gamlir sjálfstæðismenn séu ekki svo glórulausir að kjósa áframhaldandi stjórn flokksins sem stefndi sjálfstæði okkar í voða. Því miður er ég þér þó sammála um að það mun líklega gerast. Flokkapólitík er nefnilega náskyld trúarbrögðum og endurspeglast t.d. í áróðri gegn 'skandinavisku velferðarkerfi' sem er nú sennilega það mannúðlegasta og barnvænasta sem til er í heiminum í dag. En já, það að öll börn eigi kost á tannvernd og tómstundastarfi kostar það sennilega að örfáir drullusokkar eru í erfiðari aðstöðu til að sölsa undir sig auð og völd og það munu gamlir sjálfstæðismenn sennilega aldrei sætta sig við.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 08:50

2 identicon

Guðbjörn þarf almenningur í þessu landi að kvíða skandinavísku fjölþrepaskattkerfi? Þessi sami almenningur sem lifir við eða undir fátæktarmörkum. Þú segir að frjálshyggjan tryggi frelsi einstaklinga og fyrirtækja. Hættu þessum rykmokstri,  fólk svíður í augun undan þessu. Varðandi "þessa óákveðnukjósendur" telst ég til þeirra. Ég er þó ákveðin í að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn (alias Sakleysisflokkinn).

Kolla (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 13:42

3 identicon

Góðan dag; Guðbjörn tollheimtumaður, og þið önnur, hér á síðu !

Hefi raunar; litlu við að bæta, mjög raunsönnum lýsingum þessarra heiðurs kvenna, Evu Hauksdóttur, og Kollu.

En segi þó; Guðbjörn ! Láttu af; fölskvalausum átrúnaði þínum, við niðurrifs öfl samfélags okkar.

Samvizka þín; yrði mun hreinni !

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi  /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 14:41

4 Smámynd: Offari

Ég er í flokki óákveðna vegna þess að hér eru engar breytingar í boði. Framsókn er í það minnsta kominn með hugmyndir en ég hef ekki trú á því að hér verði gerðar úrbætur fyrr en við annað hvort lútum vilja samfylkingarinar og biðjum ESB um hjálp því við viljum ekki hjálpa okkur sjálf.

Eða við losnum við samfylkinguna úr stjórn og hjálpum okkur sjálf.

Offari, 4.3.2009 kl. 18:03

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jæja, þarna færðu þversniðið af hlutdeild ykkar í óákveðnum atkvæðum, sem er raunar hærra hlutfall, sé tekið mið af nýliðnum skoðanakönnunum. Það er annað, sem þú hefur kannski ekki séð í þeim skoðanakönnunum, en það er sú staðreynd að hinir óákveðnu eru ekki taldir með og prósentuskipting milli flokka einvörðungu tekin af þeim sem ákveða sig. Þetta þýðir að þið og raunar allir hinir eruð með um helmingi lægra fylgi yfir heildina.  Sérðu eitthvað grilla í veruleikann í gegnum blámann núna?

Það munu 15% kjósa ykkur.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.3.2009 kl. 01:29

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Jón Steinar! Eru 15% þjóðarinnar algjörlega út úr kortinu á Íslandi? Tek undir hvert orð í athugasemdinni.

Offari er með stóran sannleika: Að leggjast iður og biðja ESB um hjálp eð hjálpa okkur sjálf! Ég styg í því að við eigum að standa á eigin fótum. Get ekki gert að því að hagfræðingurinn sem talar fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar er öðruvísi maður enn flestir íslenskir stjórnmálamenn.

Hann hreyf mig a.m.k. og ég held að ég kjósi þennan mann bara. Mín skoðun er að einmitt svona fólk vantar í Íslensk stórnmál.

Vonandi fær þessi 15% þjóðarinnar vitið fyrir kosningar.

Óskar Arnórsson, 5.3.2009 kl. 09:04

7 identicon

Mér líst mjög vel á Borgarahreyfinguna líka.  Vonandi ná þeir góðu fylgi til að hafa áhrif. Leggjumst á sveifina með þeim, þú líka Guðbjörn.

Kolla (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband