3.4.2009 | 10:42
Vinstri stjórn mun standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu
Það eru ógnvænlegar tölur um atvinnuleysi sem blasa við okkur landsmönnum um þessar mundir. Ljóst er að við þurfum á 20.000 nýjum störfum að halda og það eins fljótt og hægt er, því við getum ekki boðið fólki upp á að ganga um atvinnulaust árum saman. Hvað er til ráða er spurt og Sjálfstæðisflokkurinn hefur svör við því. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki aðeins reynslu í að fást við erfið efnahagsmál, heldur einnig reynslu í að búa til þúsundir starfa. Í slíkum hlutum göngum við hreint til verks!
Það sem leikur efnahagslífið hvað verst er að endurskipulagningu fjármálakerfisins hefur ekki enn verið lokið, en því þarf að flýta sem mest má. Án skilvirks bankakerfis eru bæði fyrirtæki og heimili landsins á vonarvöl. Líkt og nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, benti á fyrir tveimur mánuðum mun endurfjármögnun bankanna kosta mun minna en ætlað var. Því er ljóst að aðgangur að lánsfé fyrir atvinnulíf og heimili verður tryggður með þeim fjármunum sem við höfum undir höndum í gegnum lán erlendis frá.
Ganga verður frá samningum við erlenda kröfuhafa sem allra fyrst svo hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin sem nú eru í gildi. Við sem eldri erum en tvævetur munum að þeir sem höndla með gjaldeyri munu alltaf finna smugur til að komast hjá höftunum. Höftin sem sett voru á varðandi gjaldeyrisviðskipti voru neyðarúrræði og ber að afnema þau sem allra fyrst. Við Íslendingar þekkjum einnig haftastefnuna allt of vel og það á eigin skinni. Við vitum að spilling og sóun þrífst allra best í skjóli hafta.
Það er deginum ljósara að vinstri menn stefna aftur í miðstýrt og ríkisvætt þjóðfélag og þeir eru þó það heiðarlegir að þeir gera ekkert leyndarmál úr því. Þjóðin verður að gera sér grein fyrir, að þrátt fyrir að það sé kannski freistandi að treysta á að "stóri bróðir" leysi öll vandamál, þá er það tálsýn ein að slíkt sé hægt. Ríkið hefur aldrei búin til nein framtíðarstörf, hvorki hér á landi eða annarsstaðar. Þjóðir í austurhluta Evrópu, Kína og víðar gerðu um áratuga skeið tilraunir með módel kommúnista og sósíalista og sú tilraun mistókst. Nei, það eru einstaklingarnir, hvort þeir starfa einir eða í hópum, sem eru drifkraftur þjóðfélagsins.
Nýir eða hækkaðir skattar munu heldur ekki leysa vandamálið, því þeir hægja aðeins enn meir á efnahagslífinu og það er nákvæmlega það sem við þurfum ekki.
VG og stór hluti Samfylkingarinnar eru nær alfarið á móti nýtingu auðlinda okkar og þar með uppbyggingu orkufrekra atvinnugreina á borð við álver, hátæknifyrirtæki eða gagnaver. Þrátt fyrir áherslu okkar sjálfstæðismanna á nýtingu náttúru auðlindanna má að sjálfsögðu ekki ganga of nærri náttúru landsins. Það er hins vegar langt frá því að þau áform sem uppi eru geri það.
17.944 á atvinnuleysisskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gubjörn.
Ef að Sjálfstæðismenn eru vanir að taka á erfiðu efnahagsástandi. þá skil ég nú ekki hvernig þeir gátu ekki forðað okkur frá því sem að þeir komu okkur í með aðgerðarleysi sínu.
Og ég er viss um ,hvað svo sem að það er kallað til vinstri eða hvað, þá mun annað fólk laga þessa hluti . En það tekur tíma að taka til. Það sögðu þið sjálfir !"
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 11:20
Sæll Gudbjörn.
Segdu mér hver er munurinn á kommastefnu og frjálshyggju? Fyrir mér er kommastefna háir skattar og peningum dreift á velunnara.
Frjálshyggja háir óbeinir skattar ríkiseignir seldar eda gefnar til velunnara og svo fer allt til helvítis.
Gledilega páska Jón Gísli.
Jón Gísli Hardarson (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 11:28
Þórarinn:
Í skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins er farið yfir þau mistök, sem gerð voru á liðnum árum.
Einkavæðing sú sem átti sér stað fyrir einkavæðingu bankanna hefur ekkert með þau vandræði sem við eru í núna, heldur mistök við einkavæðingu bankanna og svo ýmis hagstjórnarmistök, m.a. hvað stjórn peningamála varðar.
Sjálfstæðisstefnan sem slík kom okkur ekki á hausinn, heldur ofangreind mistök, sem nákvæmlega er farið yfir á vefnum www.endurreisn.is.
Gleðilega páska!
Jón Gísli:
Það er hárrétt hjá þér að skattar hafa verið of háir hér á landi undanfarin ár og hið opinbera hefur þanist út. Þetta höfum við í grasrót Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt. Flokkurinn hefur hins vegar verið að lækka skatta undanfarin ár og það var vel.
Hvað "sölu" eða "gjöf" ríkiseigna varðar, þá er nú varla hægt að tala um það í neinu tilfelli. Mér fannst nú menn ekkert standa í röðum til að kaupa ríkisbankana, hvorki Íslendingar eða útlendingar. Hins vegar voru stór mistök gerð við einkavæðingu þeirra, þar sem ekki var hugað að því að selja þá í smærri bitum, ekki var hugað að dreifðari eignaraðild og ekki var hugað að því að hugsanlega hefði átt að selja einhvern hlut þeirra til útlanda.
Gleðilega páska!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.4.2009 kl. 12:53
Mistökin við sölu bankanna voru ekki bundin við aðferðina. mistökin lágu í þeim misskilningi að einkavæðing skuli jafnframt, og þó fyrst og fremst vera einkavinavæðing. þetta á við um sölu beggja ríkisbankanna. En mistökin í rekstri bankanna meðan þeir voru enn í eigu þjóðarinnar voru líka áberandi og allt af sömu orsök. Einkavinir skyldu njóta forgangs í aðgengi og þá ekki hirt sem skyldi um ábyrgðir og ábata. Þarna held ég að pólitíkusar úr öllum stjórnmálaflokkum hafi átt óskilinn hlut.
Vegna smæðar samfélagsins og vinatengsla í allar áttir þarf skilvirkara eftirlit hér en hjá öðrum og fjölmennari þjóðum. Og þá er ekki annað í boði en útlendingar.
Árni Gunnarsson, 3.4.2009 kl. 13:36
Er ekki best að þið takið til í ykkar málum áður en þið farið að sleggjudæma aðra. Þetta eru þvílíkir hræsnis -og hræðsluáróðurspóstar frá þér að þetta er að verða skemmtileg lesning. XD hefur skitið upp á bak og heimtar að fá umboð fólksins á ný, 2-3 mánuðum eftir hrun og gjaldþrot þjóðarinnar!? Þið ENGAN rétt á að gagnrýna aðra eftir að hafa drullað yfir íslenskan almenning árum saman.
Takið ykkur saman í andlitinu og hættið þessu bölvaða rugli.
XD þarf gott og langt frí og kannski getið þið komist á lappirnar aftur á endan með að hreinsa spillinguna úr þessum blessaða flokk. Ég vil leiða t.d. til lykta málin um sjóð 9 í Glitni sem engin veit hvað gerðist í.
Vonandi verður XD refsað duglega í næstu kosningum!
Hlynur Gudlaugsson (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 15:07
Ég vil þakka fyrir að birt er mynd af byltingarforingjanum Fidel Castró með þessari færslu. Það er gott að sjálfstæðismenn séu sér meðvitaðir um að byltingin lifir.
Castro rak auðvaldshyski Badista frá völdum og af eyjunni. Hann bað sína menn að þeir hefndu sín ekki á andstæðingunum, en lagði áherslu að þeir yrðu leiddir fyrir dómara og dæmt í málum þeirra.
Í fréttum hér á netinu er sagt frá því að Alþingisnefndin er nú að kortleggja fjármálaundrið á Íslandi og rekja slóðir. Við skulum sjá kvað kemur út úr því áður en við höfum uppi þau sjónarmið að vinstri menn standi gegna uppbyggingu atvinnulífsins.
Þegar menn hafa rústað fjármálalífi heillar þjóðar eins og hér hefur gerst tekur það tíma að koma hlutunum í lag og ég held að pólitískir gerendur ættu að halda sig til hlés á meðan.
En kærar þakkir fyrir myndina af Byltingarforingjanum.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 3.4.2009 kl. 17:14
Vissulega hafa Sjálfstæðismenn mikla reynslu af efnahagserfiðleikum, en þó aðallega í að orsaka þá, enda hafa Sjálfstæðismenn verið við völdin við öll þrjú stóru efnahagshrun Íslands, '68, '88 og '08.
Á tuttugu ára fresti hefur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega orsakað efnahagshrun og atvinnuleysi á massívum skala. Vissulega hafa Sjálfstæðismenn mikla reynslu af efnahagserfiðleikum.
Í gegnum tíðina hafa Sjálfstæðismenn líka staðið í vegi fyrir almennt velferðarkerfi á landinu, en á sínum tíma kæfðu þeir eða felldu niður tilraunir vinstrimanna til að koma á almannatryggikerfi 14 sinnum, hvorki meira né minna. 14 sinnum felldu þeir eða kæfðu slík frumvörp.
Er það rökrétt að treysta flokk með slíka sögu fyrir uppbyggingu landsins eftir nýjasta hrunið sem þeir orsökuðu?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf og mun alltaf vilja hafa völdin en firra sig ábyrgðinni sem fylgir þeim með því að halda því fram að "ríkið" sé ófært um að gera nokkurn skapaðan hlut. Í þeirra augum er það bara "einstaklingurinn" sem getur nokkuð. Samt sem áður vilja þeir stjórna ríkinu, en bara að því gefnu að þeir geti varpað allri ábyrgð á eigin mistökum og misgjörðum á einstaklinga, rétt eins og þeir hafa gert í kringum þetta nýjasta efnahagsundur sitt.
Kjartan Y. Björnsson (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 17:21
ég veit ekki hvort maður eigi að gráta eða að springa úr hlátri við svona bloggi, eru menn virkilega svona heilaþvegnir að halda slíku fram eins og í þessu bloggi helbláa mansins, og koma með einhverja kaldastríðs klæki og Castro hehehehe
guð forði okkur frá Nazistunum xD flokknum....
Tryggvi Bjarnason (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.