4.4.2009 | 11:41
Eiga ofsatrúarmenn að stjórna vali framkvæmdastjóra NATO
NATO og múslimar
Það er vissulega athyglisverð þróun hjá NATO ef 12 skopmyndir teiknara Jyllands-Posten eru farnar að hafa áhrif á val framkvæmdastjóra bandalagsins.
Að sögn Recep Tayyip Erdoğan, forsætisráðherra Tyrklands, hefur hann fengið símtöl frá 12 þjóðarleiðtogum múslimaríkja, sem hvatt hafa Tyrki til að beita neitunarvaldi gegn skipun Foghs í embætti framkvæmdastjóra. Auk þessa gagnrýndi Erdogan danska forsætisráðherrann fyrir að láta ekki loka kúrdískri sjónvarpsstöð, sem sendir út efni frá Danmörku.
Allt frá því að skopmyndirnar birtust hefur Anders Fogh Rasmussen verið sjálfum sér samkvæmur og haldið í heiðri þá lýðræðislegu stefnu Vesturlanda að fjölmiðlar séu frjálsir og engum sé heimilt að hafa afskipti af þeim nema þeir brjóti í bága við lög.
Við minnumst að sjálfsögðu viðbragða múslimaríkjanna á sínum tíma þegar Sádi-Arabar kölluðu sendiherra sinn heim frá Danmörku og Líbýumenn lokuðu sendiráði sínu í Kaupmannahöfn. Að auki mótmæltu vopnaðir múslímar fyrir framan sendiráð Dana og brenndu danska fánanna. Múslímar voru hvattir til að hunsa vörur Dana og mjólkurvörur og aðrar landbúnaðarafurðir hrönnuðust upp. Danir létu ekki kúga sig til hlýðni og ég verð að segja að ég dáðist að þeim á þessum tíma að standa svo fast á tjáningarfrelsinu og því að láta ekki önnur ríki hafa afskipti af innanríkismálum sínum.
Múslimar hafa þó ekki aðeins kvartað vegna þessara skopmynda, heldur einnig vegna banns Frakka og fleiri ríkja við kvenslæðum, sem við Vesturlandabúar litum á sem óbein tákn um undirgefni og kúgun kvenna.
Þróun sem enginn tekur eftir
Kannanir hafa sýnt að 40% breskra múslíma styðja Sharia-lög þar í landi. Í þessari sömu könnun kom fram að 20% múslíma í Bretlandi höfðu samúð með mönnunum sem gerðu hryðjuverkaárás í Lundúnum 7. júlí 2005.Reyndar gilda Sharia lög í Bretlandi að því leyti til að múslimum er heimilt að útkljá hluta sinna mála fyrir svokölluðum "Múslímskum gerðadómi" (e. Muslim Arbitration Tribunal). Sharia lög byggja á helgiriti múslíma, Kóraninum. Sem dæmi um ákvæði Sharia laga banna þau konum að aka bifreið eða fara út úr húsi án leyfis karlmanns auk þess sem konur verða að hylja sig frá toppi til táar þegar þær eru úti við.
Sem dæmi um dóma Múslímska gerðadómsins dæmdi hann svo í erfðamáli fyrir ekki allt svo löngu, að sonunum var dæmdur tvöfalt meiri arfur en dætrunum. Fyrir breskum dómstólum hefðu börnin að sjálfsögðu erft sömu upphæð. Í sex málum, sem lutu að heimilisofbeldi gagnvart konum, sendu dómarar Múslímska gerðadómsins mennina á reiðistjórnunarnámskeið og þeir hlutu enga frekari refsingu. Að dómnum loknum drógu konurnar kærur sínar til baka hjá lögreglunni og málið var dautt.
Virðing fyrir öðrum og virðing í okkar garð
Við Vesturlandabúar verðum að sjálfsögðu að virða trúarbrögð og siði þeirra sem lifa á meðal okkar, en við ætlumst að sjálfsögðu til þess sama frá öðrum, sem setjast að hjá okkur. Víðast hvar á Vesturlöndum, þar sem ég þekki til, eru í gildi einn siður og ein lög og á þetta einnig við um "fjölmenningarleg" samfélög líkt og í Bandaríkjunum. Siðurinn og lögin ná m.a. til klæðaburðar, frelsis fjölmiðla og tjáningarfrelsi almennt og þess réttarfars sem ríkir. Ég hef jafnan predikað umburðarlyndi gagnvart þeim sem hugsa öðruvísi, en slíkt umburðarlyndi má ekki leiða til misnotkunar á hugtakinu, því þá getur það snúist í andhverfu sína. Umburðarlyndi gagnvart óréttlæti, kúgun eða ofbeldi eru dæmi um slíka misnotkun.
Ef Anders Fogh Rasmussen hlýtur ekki starf framkvæmdastjóra NATO vegna þess að hann neitaði að hlýða skipunum Múslimaríkja um að skerða tjáningarfrelsi fjölmiðla og hefur skirrast við að loka sjónvarpsstöð, sem Tyrkir hafa óbeit á, verðum við Vesturlandabúar að íhuga okkar stöðu mjög alvarlega.
Líkt og Þorgeir Ljósvetningagoði er ég þeirrar skoðunar að affarasælast sé að ein lög og einn siður gildi í landinu. Ég skil því ekki afstöðu Breta varðandi undanþágu þeirra gagnvart Sharia lögunum og myndi aldrei sætta mig við slíkt fyrirkomulag hér á landi. Líkt og Anders Fogh Rasmussen myndi ég aldrei sætta mig við að önnur lönd blandi sér á framangreindan hátt í innanríkismál okkar. Ég sætti mig ekkert frekar við að ofsatrúarmenn stjórni því Varnarbandalagi, sem við Íslendingar eru meðlimir í.
Enn deilt um Fogh | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Facebook
Athugasemdir
Ágætur pistill.
Í máli Tyrkja og Rassmusen .. að svona vitleysu á ekki að hlusta á.
Átti hann sem forsætisráðherra dana kannski að banna frjálsa fjölmiðlun. Þannig virka hlutirnir ekki fyrir sig á vesturlöndum. Einnig hafa Kúrdar fullan rétt á að senda út sjónvarpsefni.
Svona öfgamenn á ekki að hlusta á. Verst með þetta neitunarvald.
Dapurleg þróun hjá Nato.
ThoR-E, 4.4.2009 kl. 12:11
Tyrkland er mjög sérstakt múslímaríki. Þar ríkir aðskilnaður trúar og stjórnmála og hefur herinn í landinu eftirlit með þessum aðskilnaði. Margir flokkar þar hafa verið bannaðir vegna þess að þeir hafa ekki nægilega skýr skil milli þessara tvenna þátta.
Þar hefur líka, eins og í mörgum vestrænum evrópulöndum, verið mikil umræða um slæðubönn og trúartákn í skólum landsins.
Ég tek undir með þér að ég er ánægður með að danir stóðu fast á málfrelsi sínu en Rasmussen er langt frá því að vera óumdeildur stjórnmálamaður m.a. vegna innflytjendamála gagnvart múslimum sem gæti haft áhrif á sjónarmið Tyrkja.
Það kæmi mér á óvart að Tyrkir beittu neitunarvaldi þar sem þetta er stjórnfarslega þróað ríki en þeim er ekki statt á öðru en að dissa þessa ákvörðun um Rasmussen þar sem múslimaheimurinn er dönum ennþá reiður.
Steinn Hafliðason, 4.4.2009 kl. 18:46
Ef stjórnmálaflokkar hafa verið bannaðir í Tyrklandi, þá þar ekki að ræða málið frekar. Þetta er Asíu-þjóð sem hefur ekkert í Evrópu að gera !
Það er aðeins 3% af þeirra landi í Evrópu !
V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 19:13
V.Jóhannsson, það hafa víða í evrópu verið bannaðir stjórnmálaflokkar og baráttan við öfgaöfl fer jafnt fram í evrópu eins og annars staðar í heiminum.
Steinn Hafliðason, 4.4.2009 kl. 20:03
Flott grein
Tryggvi Hjaltason, 5.4.2009 kl. 03:01
Það er alltaf gaman að lesa góða pistla eins og þennan. En það er eitt sem þú gleymtir að minnast á. Danir voru eitt af fáum ríkjum Evrópu sem tóku þátt í "krossför" Georgs W Bush til Írak.
Væri nú gaman að flétta því inn í.
Jón "Nonni" Jónsson (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 08:00
Ég get vel skilið reiði múslíma í garð Dana eftir þær ósmekklegu myndir sem birtar voru í Dönskum blöðum. Það er mikilvægt að Rasmussen biðjist afsökunnar á þeim svo styrkja megi samskipti ríkjanna að nýju.
Hilmar Gunnlaugsson, 5.4.2009 kl. 21:39
Sem betur fór þetta vel og Rasmussen fékk stöðuna, þótt mér hafi fundist einkennilegt að Tyrkir skuli hafi tekist að kúga út eina af toppstöðunum hjá NATO með athæfi sínu.
Steinn:
Já, það var verk tyrknesku þjóðhetjunnar Kemal Atatürk. Hins vegar hafa bókstafstrúarmenn alltaf haft sitt að segja, ekki síst úti á landsbyggðinni. Sá sem á endanum alltaf ræður ferðinni í Tyrklandi og grípur inn í er að sjálfsögðu herinn.
Ég held að stefna Rasmussen hafi ekkert sérstaklega farið í taugarnar á meirihluta Dana, heldur minnihlutanum, sem aðhyllist sömu "frjálslyndu" stefnuna og ríkti um áratuga skeið hjá Sósíaldemókrötum.
Hilmar:
Danska ríkisstjórnin getur ekki beðist afsökunar á gjörðum blaðamanns í þjónustu einhvers dagblaðs.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.4.2009 kl. 08:53
Við þurfum ekkert að styrka samskipti milli múslima og vestræna heimsins sérstaklega ekki þegar það þýðir að við þurufm að fórna okkar gildum fyrir miðaldarsiðferði
Alexander Kristófer Gústafsson, 6.4.2009 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.