Leki úr rannsóknargögnum kemur valdhöfum vel - tilviljun?

Þær árásir, sem Sjálfstæðisflokkurinn er undir þessa dagana, eru ótrúlegar og minna óneitanlega á þá aðför, sem gerð var að Framsóknarflokknum undir stjórn Halldórs Ásgrímssonar. Ekkert frekar en núverandi formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, ætla ég að verja þessa styrki frá Landsbankanum og FL-Group. Ég er jafnframt mjög ánægður með hversu afdráttarlaus ákvörðun formannsins var að endurgreiða þessa fjármuni.

Staðreynd er hins vegar að á þessum tíma var um fullkomlega löglegan stuðning við flokkinn að ræða, þótt vissulega megi gagnrýna hversu há upphæðin er. Hvað þau tvö fyrirtæki varðar er í hlut eiga er það að segja, að í lok árs 2006 voru þau og stjórnendur þeirra - ásamt Landsbankanum og stjórnendum hans - ásamt öðrum útrásarvíkingum í hópi óskabarna þjóðarinnar. Eini stjórnmálaflokkurinn, sem eitthvað gagnrýndi útrásina á þessum tíma voru VG. Ég leyfi mér að fullyrða, að langstærsti hluti þjóðarinnar var á þessum tímapunkti ásamt hinum stjórnmálaflokkunum og forsetanum í klappliði þessara fyrirtækja.

Það á auðsjáanlega að reyna að ganga á milli bols og höfuðs á flokknum mínum þessa dagana, en mönnum verður þar ekki kápan úr klæðinu. Mér er hins vegar spurn hvaðan allar þessar upplýsingar koma? Hverjir hafa aðgang að slíkum upplýsingum? Er líklegt að þessar upplýsingar komi frá Sjálfstæðisflokknum? Er líklegt að þeir starfsmenn, sem unnu hjá FL-Group, séu að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn nú rétt fyrir kosningar? Því miður læðist sá grunur að manni að upplýsingarnar séu úr niðurstöðum einhverra þeirra rannsóknaraðila, sem nú skoða bókhald þessara fyrirtækja. Upplýsingar sem sitjandi pólitískir valdhafar og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa nú undir höndum.

Enginn stjórnmálaflokkur auglýsti líklega meira en Samfylkingin í síðustu kosningum. Hvaðan komu peningar fyrir þeim auglýsingum, hver ætlar að skoða þau mál og hver ætlar að birta þær upplýsingar?

Hvaða upplýsingar eru að leka nákvæmlega núna - og um hverja - eru engin tilviljun og þjóna í raun hagsmunum núverandi valdhafa í þessu landi.

Það er gott að velta þessu einnig aðeins fyrir sér! 


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er sannleikurinn árás á SjálfstæðisFLokkinn?

Bobbi (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 10:28

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Börkur Hrafn: 

Þetta er ekkert yfirklór. Þeir sem ábyrgð bera á þessu svara auðvitað fyrir það, hvar í flokki sem þá er að finna. Ég bendi einungis á augljósar staðreyndir, þ.e.a.s. að aðrir flokkar hafi einnig háð dýrar kosningabaráttur, sem ógjörningur væri að fjármagna án ríkulegra styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum.

Ég er á engan hátt að ýja að því að Samfylkingin sé sá stjórnmálaflokkur sem er að draga þetta fram í dagsljósið og þaðan af síður Framsóknarflokkurinn!

Eini flokkurinn sem að öllum líkindum hefur ekkert að fela er VG og því þjónar það helst hans hagsmunum að þetta leki í fjölmiðla þessa dagana.

Bobbi:

Nei, sannleikurinn á alltaf rétt á sér, jafnt í þessum efnum sem öðrum og nákvæmlega það er ég að benda á í þessu bloggi mínu.

Ég vil allt upp á borðið í þessum efnum sem öðrum. Þeir sem hafa lesið mitt blogg síðan í haust og þekkja til mín vita að ég meina gjörsamlega það sem ég segi!

Ég vil hins vegar sannleikann upp á borðið hjá öllum, ekki einungis Sjálfstæðisflokknum.

Gaman væri t.d. að fá að vita hverjir stóðu að baki öllum þeim auglýsingarherferðum sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir undanfarin ár. Sá flokkur gengur nú fram fyrir skjöldu að þykjast vera gjörsamlega óspilltur, lýðræðiselskandi flokkur! Hvenær birtir hann reikninga sína? Er það tilviljun ein að ekkert lekur út um hann eða gæti það tengst því að flokkurinn styður minnihlutaríkisstjórn VG og Samfylkingar?

Stefán:

Já, það var mér ekkert skemmtiefni að lesa fréttina um þessa styrki frá Landsbankanum og FL-Group - rétt er það! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.4.2009 kl. 11:10

3 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Lærdómurinn er ekki síst sá hversu mikilvægt gagnsæið er.  Opin bókhöld og regluverk um stjórnmálaflokkana sem og aðra hluti er mikilvægt.  Allir ættu að fagna slíku.  Það veitir greinilega ekki af.

Enda hljóta allir réttsýnir menn að viðurkenna að pólítik og peningar eru slæm blanda og óæskileg. 

 Og vissulega á það við um alla flokka.

 Ég öfunda þó ekki Sjálfstæðismenn núna.  Bjarni Ben stóð sig samt ágætlega í gærkvöldi í Hafnarfirðinum - hann má eiga það.

Eiríkur Sjóberg, 9.4.2009 kl. 11:46

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Börkur:

Ég ítreka einungis þá skoðun mína að allt skal upp á borðið.

Eiríkur:

Já, Bjarni Benediktsson er ekki öfundsverður maður að taka við þessu búi og vissulega stóð hann sig vel í gærkvöldi.

Nei, peningar og stjórnmál fara ekki vel saman, en eru samt óhjákvæmilegri fylgifiskar hvors annars.

Af þessum sökum er fullkomið gagnsæi algjörlega nauðsynlegt!

Allir: 

Ég hjó eftir því í gær að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem skipar 1. sæti hjá VG í Kraganum, sagði að allar upplýsingar um þá sem studdu flokkinn væri að finna á vef VG. Þetta var ekki sannleikanum samkvæmt, en ég kannaði málið á vef VG rétt í þessu. Þar er einungis ársreikninga flokksins að finna.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.4.2009 kl. 12:06

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Hefnd Davíðs Oddsonar?

Það var mál kunnugra eftir uppákomuna á landsþingi þegar Geir H. Haarde  skammaði Davíð fyrir ræðuna sína og lét Davíð líta ansi illa út að Davíð myndi sýna Geir og reyndar öllum öðrum hvar Davíð keypti ölið.  Hafa innanbúðarmenn beðið í ofvæni eftir hefnd Davíðs en það væri algerlega úr karakter ef Davíð léti svona árás ósvarað.  Nú er  hefndin kominn og öllum ljós.  Geir hrekst úr pólitík með stórskaðað mannorð og arftakarnir í vonlausu vígi.  Ekki er með öllu ólíklegt að bæði Birni Bjarna og Davíð sé skemmt yfir stöðu mála.  Eða hvað segir Björn.is nú?

Sigurjón Þórðarson, 9.4.2009 kl. 12:23

6 Smámynd: Offari

Ég leyfi mér að fullyrða, að langstærsti hluti þjóðarinnar var á þessum tímapunkti ásamt hinum stjórnmálaflokkunum og forsetanum í klappliði þessara fyrirtækja.

Ég get verið sammála þér um þetta stór hluti þjóðarinar trúði þessari velmegun útrásarvíkingana enda voru sýndar hagnaðartölur sem greiddu skatta. Því miður er það orðin álitshnekkur í dag að hafa trúað þessari vitleysu en mér finnst betra að viðurkenna að ég trúði þessum blekkingun en að reyna að ljúga því að hafa ekki dáðst af þessum hagnaðartölum.

Enn að láta sér detta í hug að skella öllum reikningunum á þjóðina er vanvirðing við fólkið í landinu og það finnst mér sárast.

Offari, 9.4.2009 kl. 12:54

7 identicon

Telur þú þig heiðarlegan mann? Ef svarið er já, hvers vegna leggur þú lag þitt við óheiðarleika?

Valsól (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 13:39

8 identicon

Já allt skal upp á borðið, nema það komi Sjálfstæðisflokknum illa. Því það er greinilegt að þetta átti ekki að koma upp á borð. Ég skil ekki þessa tryggð manna við þennan flokk. Það mætti halda að þessi flokkur væri svo góð atvinnumiðlun fyrir frjálshyggjupésana, sem nota bene vinna flestir hjá hinu opinbera, að þeir séu að borga fyrir atvinnuna sem flokkurinn reddaði þeim. Geir meira að segja metur æru sína minna en stuðning sinn við FLOKKINN. Þvílíkur flokkur!

Valsól (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 13:42

9 identicon

PS. Þú flaggar hérna íslenska fánanum sem merki þess að þér þyki vænt um landið þitt, það þykir mér líka. Hvernig getur þú stutt flokk sem hefur farið jafn illa með þjóð sína og Sjálfstæðisflokkurinn?

Valsól (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 13:44

10 identicon

Sieg Heil !

Die Partei ist über alles !

S.H. (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 14:06

11 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Guðbjörn

Einhvern veginn átti ég nú ekki von á því frá þér að þú legðist í þá herferð mykjudreifarana að leiða athyglina frá hinu raunverulega vandamáli sem er sú gegndar og grímulausa spilling sem innan Sjálfstæðisflokksins ríkir þessa mánuðina. Það er alveg ljóst að allir flokkar hafa fengið styrki frá hinum ýmsu aðilum, en sennilega er engum sem hefði dottið í hug að taka við slíkum upphæðum deginum áður en lög sem þeir sömdu sjálfir um hámark slíkra greiðslna tæki gildi.

Nei Guðbjörn ég held að tími þeirra aðferða sem þið hyggist beita núna sé liðinn. Það er engin afsökun fyrir ykkur að Bjarni hafi staðið sig vel og klárað málið eins og þið segið svo oft þessa dagana. Nú er sennilega það eina sem þið getið gert að hafa hægt um ykkur, breyta um nafn á flokknum og skipta um kennitölu um leið.

Hannes Friðriksson , 9.4.2009 kl. 14:16

12 Smámynd: Jóhann Ólafsson

Sæll Guðbjörn.

Ég er sammála þér að þetta mál er afskaplega erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég er þó ánægður með hvað Bjarni tala skýrt í málinu og ætlar sér að upplýsa um alla styrki á árinu 2006. Það er hins vegar athyglisvert að allir fjölmiðlar landsins hafa í tvo daga ítrekað reynt að ná á framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar til þess að spyrja hvort styrkir til Samfylkingarinnar á árinu 2006 verði upplýstir. Framkvæmdarstjórinn lætur bara ekki ná á sér - merkilegt nokk. Orðið á götunni segir nefnilega að Samfylkingin eigi mjög erfitt að upplýsa um suma styrkina og þá sérstaklega hvaðan þeir koma.

Jóhann Ólafsson, 9.4.2009 kl. 15:03

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Frjáls framlög og styrkir til Samfylkingarinnar:

2001:    6.009.592
2002:    2.368.392
2003:    1.672.386
2004:    3.327.140
2005:    9.144.641
2006:  44.998.898
2007:  10.756.715   


Munur milli áranna 2005 og 2006 er tæpar 36 milljónir króna. Er vitað hvaðan þetta fé kom? Hvers vegna er árið 2006 svona frábrugðið öðrum árum?

Sjá ársreikninga Samfylkingarinnar:


http://www2.samfylking.is/media/files/Reikningar%20Sf%202001-2006%20LOK.doc

Auðvitað getur verið eðlileg skýring á þessum 45 miljónum, en ...  

Ágúst H Bjarnason, 9.4.2009 kl. 15:33

14 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Tja, það sem er stingandi er etv að þessar 45 millur eru talsvert lægri en "styrkurinn" frá Landsb. og FL til Flokksins.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.4.2009 kl. 16:05

15 identicon

Já það er athyglisvert sem hér hefur komið fram og mig langar nú bara að spyrja þig Guðbjörn hvort þú hafir velt fyrir þér af hverju þú átt ekki meira fylgi innan flokksins þíns en raun ber vitni í prófkjörum. ?  Getur verið að það sé vegna þess að þú ert heiðarlegur opinn og vilt eingum illt gera eða órétti beita?.

En það er líka athyglisvert að sjá hvaðan þessir peningar koma, hver bað um þá og í hvaða embætti sá maður var í þó hann vilji núna meina að hann hafi notið ódýrst heilbrygðiskerfis akkurat þegar peningarnir voru afhentir.

Já þetta var formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og það er rétt að eðlilega á Samfylkingin erfitt með að opna sitt bókhald og benda á að nýkjörinn varaformaður hafi verið duglegur í fjáröflun á þessum sama tíma enda Dagur B. Eggertsson í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Ég efast stórlega um að Birni Inga hafi dugað jakkaföt eða lán á Hummel úr dótakassa FL Group.

Þessir 3 menn stóðu að því að það átti að sameina OR og REI, þeir réðu Bjarna Ármannsson Glitniskappa sem stjórnarformann REI, á þessum tíma neitaði Geir Harði að leyfa nokkrum að bjóða í hlut ríkisins í HS nema GGE í eigu FL Group.

Nú sjáum við að vermiðinn á að afhenda þessum víkingum sem svo margir voru með glíu í augunum yfir var þessi

Sjálftökuflokkur     55 millur

Samfylking            35 millur

Framsókn              ?????

VG                         ekkert  þar klikkaði dæmið því Svandís lét sér nú það ekki nægja

Fólkið í landinu       það átti að borga hærra rafmagnsverð til að tryggja hagnað

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 17:04

16 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ha ? Fékk SF 35 millur frá Landsb, og FL ?

Nei, það stenst ekki miðað við uplýsingar sem við höfum.

Hins vegar er það rétt að fróðlegt væri að sjá styrkveitendur SF 2006.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.4.2009 kl. 17:38

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þetta vil ég undirstrika, feitletra og skáletra: Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvort Samfylkingin hafi LÍKA fengið pening frá Baugi. Þetta eru sjálfsagt svipað spilltir flokkar.

Það sem skiptir máli í þessu er að Sjálfstæðisflokkurinn sagði að baugur héldi uppi Samfylkingunni. Að Samfylkingin væri Baugsflokkur, "í boði Baugs".  Svo kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er Baugs- og Bjöggaflokkurinn. Og var þar að auki að fiffa með mútuígildisfé frá þessum óreiðuöflum rét eftir samþykkt laga og rétt fyrir gildistöku þeirra, sem settu þak á slíka fjárstyrki. Menn geta rembst eins og rjúpan við staurinn að bera flokkana saman, en Íhaldið toppar allt með HRÆSNINNI og BLEKKINGUNUM og LYGUNUM.

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.4.2009 kl. 17:45

18 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það verður hægt að komast að því hverjir studdu SF ótæpilega 2006 ef viðkomandi haf nú lent í banka og fyrirtækjahruninu. Þau gögn (afnmám bankaleyndar) munu koma fram. Þangað til verðum við að ímynda okkur að það séu Bónusfeðgarnir. Bara þeim til að dreifa skv Davíð O sem telst vita margt misjafnt. Ef það á að upplýsast fyrir kosningar verður að hafa hraðann á.

Gísli Ingvarsson, 9.4.2009 kl. 17:52

19 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

„Mér er hins vegar spurn hvaðan allar þessar upplýsingar koma?“

Er ekki aðalfagnaðarefnið að upplýsingar eru byrjaðar að koma fram?

Ég er í Samfylkingunni og ég verð ekki rólegur fyrr en að upplýsingar um þessi mál flokki liggja fyrir hjá mínumog birtar opinberlega.

Það hefur verið stöðugur söngur frá ýmsum sjálfstæðismönnum að Samfylkingin sé „Baugsflokkur“ og mikið dylgjað um það. Nú verður þessi nafngift ekki notuð framar þar sem Baugur stjórnaði FL grúpp þegar styrkurinn var lagður í flokkssjóðinn.

Nú liggur fyrir að árið 2006 fékk Samf. 45 milur (skv. ÁHB hér á undan) samtals í frjáls framlög.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið 55 millurnar auk allra annarra frjálsra framlaga. Það má því gera ráð fyrir að þetta hafi verið 100 -150 millur 2006.

Hjálmtýr V Heiðdal, 9.4.2009 kl. 18:02

20 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Á að vera: liggja fyrir hjá mínum flokki

Hjálmtýr V Heiðdal, 9.4.2009 kl. 18:03

21 identicon

Auðvitað er aðalatriðið að þessar upplýsingar eru að koma fram og naðusynlegt fyrir alla sem vilja vera trúverðugir að starfa fyrir opnum tjöldum. Það þarf að endurskilgreina bankaleynd og afnema hana þegar bankar hafa lánað stórar summur. Það þarf að afnema leynd á samningum um orkuverð til stóriðju á Íslandi og það þarf að draga þá sem stálu öllu sem var einhvers virði í söfnunarsjóðum á Íslandi fyrir dómstóla og dæma þá þar fyrir þjófnað.

En það er ekki minna um vert að átta sig á þeim stjórnmálamönnum sem hafa verið tilbúnir að standa vörð um einkahagsmuni umfram almannahagsmuni og þar er tríóið úr stjórn Orkuveitunnar þeir Guðlaugur Þór, Björn Ingi og Dagur B. fremstri í flokki og hættulegastir.

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 18:14

22 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Guðbjörn, ég vil byrja á því að þakka þér og þeim sem hér hafa tjáð sig fyrir málefnalegt og kurteislegt spjall. Þetta er gleðileg tilbreyting hér á blogginu.

Ég er algjörlega sammála Hjálmtý Heiðdal hér að ofan, verandi í Samfylkingunni, að allt þetta þarf að koma uppá borðið. Það að aðrir flokkar hafi þegið styrki sem af slíkri fjárhæð að mönnum blöskrar, svona á síðustu metrunum fyrir gildistöku laganna, réttlætir ekki fyrir þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 55 milljónir frá tveimur fyrirtækjum í lok árs 2006.

Og fyrst ég er farin að tjá mig þá verð ég að viðurkenna að ég er öllu spenntari yfir uppgjöri Framsóknarflokksins heldur en Samfylkingarinnar. Og eitt enn, það er "eðlilegt" að framlög til stjórnmálaflokkanna séu öllu hærri á árinu 2006 en árin þar á undan og eftir enda var verið að gera upp sveitarstjórnarkosningar á því ári og undirbúa Alþingiskosningar á árinu 2007. Þar fyrir utan stóðu mörg fyrirtæki vel á árinu 2006, skiluðu uppgjörum, sem síðar kom á daginn að voru nákvæmlega eins lygileg og þau litu út fyrir að vera á þessum tíma.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 10.4.2009 kl. 00:25

23 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sigurjón Þórðarson:

Ég hef enga trú á að Davíð Oddsson sé að leka slíkum upplýsingum í fjölmiðla rétt fyrir kosningar.

Offari:

Þú ert gjörsamlega að snúa út úr orðum mínum, líkt og þér er vant!

Það sem ég átti við er að þjóðin leit þessi fyrirtæki og stjórnendur þeirra ekki sömu augum í lok árs 2006 og hún gerir núna.

Valsól:

Já, ég tel mig vera heiðarlegan mann og ég er sjálfum mér samkvæmur og hef aldrei verið vændur um annað!

Það leynist misjafn sauður í mörgu fé, jafnvel í Sjálfstæðisflokknum.

Hannes:

Látum stóru orðin bíða aðeins, allavega þar til Jóhanna og Samfylkingin hafa opinberað sína styrktaraðila og upphæð stærstu styrkja!

Jóhann Ólafsson:

Já, við eigum von á fréttum frá Jóhönnu af Örk. Ætli þær komið fyrir kosningar?

Sigurður Haraldsson:

Já, rétt hjá þér. Bæði ég og aðrir sjálfstæðismenn þurfum að spyrja okkur margra spurningar, en ætli við verðum ekki að láta það bíða þar til eftir kosningar.

Ingibjörg:

Alveg rétt hjá þér: Ekkert réttlætir þessar upphæðir. 

Öll:

Það er hvergi gagnrýni að finna í mínu bloggi að þessar upplýsingar hafi komið fram, heldur er ég aðeins að benda á að aðrir stjórnmálaflokkar háðu einnig dýrar kosningabaráttur á þessum tíma og þær þurfti einnig að fjármagna.

Vitað mál er að fjárhagur Framsóknarflokksins og Samfylkingar þurfti einnig á "afréttara" að halda á þessum tíma. Þær tölur sem fram komu hér að ofan sýna að mínu mati að fleiri en einstaklingar hafa komið að því máli. Fjármál Framsóknarflokksins eru ekki opinber frekar en fjármál annarra flokka, þ.e.a.s. hvað þessa hluti varðar, þannig að ekki er hægt að fjalla neitt um þau. Óvíst er reyndar hvort nokkuð fyrirtæki treysti sér eða hefði áhuga á að styrkja stjórnamálaflokka, frambjóðendur í prófkjörum eða góðgerðastarfsemi ef það væri allt gert opinbert.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf sjálfur að fara nákvæmlega ofan í saumana á fjármögnun flokksins undanfarin ár og treysti ég formanni mínum, Bjarna Benediktssyni, fullkomlega til þessa. Sé um fleiri slíka styrki að ræða af þessari stærðargræður þarf að upplýsa um það, því slíkir hlutir leka alltaf út um síðir.

Ég vona síðan að Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn geri slíkt hið sama. 

 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.4.2009 kl. 10:05

24 Smámynd: Jóhann Ólafsson

Sæll guðbjörn.

Sæll Guðbjörn.

Jæja þá er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að upplýsa um sína styrki árið 2006 og það tók ekki langan tíma. Fyrir utan stóru og skelfilegu styrkina tvo og sem búið er að endurgreiða þá er ekkert þarna sem menn ættu að fara á límingunum út af (höfum einnig í huga að það er búið að breyta reglunum) Ég tók hins vegar eftir því að Jóhanna sagði í gær að það tæki Samfylkinguna nokkra daga að taka saman upplýsingar um styrkina sem Samfylkingin fékk árið 2006. Af hverju tekur þetta svona langan tíma ? Að vísu hefur það lekíð út að Samfylkingin fékk stóra styrki frá bönkunum árið 2006. Við bíðum spenntir eftir upplýsingum frá Samfylkingunni. Enn er ekki  ljóst hvað Framsókn ætlar að gera.

Jóhann Ólafsson, 10.4.2009 kl. 11:35

25 identicon

Þakka þér og flokknun fyrir framgöngu ykkar því með þessu hjálpið þið okkur andstæðingum ykkar best.

Árni Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 12:01

26 Smámynd: Offari

Sæll Guðbjörn ég ætlaði reyndar ekki að snúa útúr orðum þínum heldur taka undir þau. Annað hvort hefur þú misskilið mig eða ég hef komið því eitthvað vitlaust út úr mér. Og get því lítið annað gert en að biðjast fyrirgefningar á því.

Ég er ekkert sáttur við óstandið frekar en nokkur annar hér á landi.  En reyndar tel ég standa mun betur en margir aðrir sem lent hafa í hremmingum svo lítið þarf ég að kvarta.

Offari, 10.4.2009 kl. 15:03

27 identicon

Það sem ég skildi ekki síðastliðið haust er hvers vegna yfirvöld tóku ekki í taumana þegar þau fengu vitneskju um ótrausta stöðu bankanna, hvers vegna þau léttu eftirliti af bönkunum og skömmtuðu þeim svigrúm.  Núna skil ég þetta betur - BANKARNIR VORU BÚNIR AÐ BORGA FYRIR AÐ FÁ AÐ RÆNA ÍSLENSKA ÞJÓÐ.

Það er athyglisvert hve Sjálfstæðisflokkurinn hefur selt þjóðina ódýrt.  Það kostaði Landsbankann og FL-Group (Glitni) bara 60 milljónir að fá leyfi til að setja almenning í skuldafjötra sem tekur mannsaldur að greiða upp.  

Mútuþægni er glæpur og þessi mútuþægni er glæpur gegn sjálfstæði íslenskrar þjóðar.  Þær snautlegu tilraunir glæpamannanna til að klóra yfir glæpinn gera glæpinn aðeins meiri og sýnir fram á harðan og einbeittan brotavilja.

Útskýringar Guðbjörns pistilshöfundar og ásakanir um leka úr trúnaðarskjölum eru enn einn kaflinn í þessu leikriti fáránleikans.  Það er algjörlega fráleitt að ólögmæt háttsemi eins og mútuþægni sé varin af einhverskonar trúnaðarskyldu.   Þar er öllu snúið mjög alvarlega á haus og enn eitt dæmið um hve íslenskt þjóðfélag er morkið og spillt.

Mútuandstæðingur (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 17:42

28 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mútuandstæðingur:

Ég er alls ekki ósáttur við að þetta sé komið í ljós, bara alls ekki!

Ég er ósáttur við að mínir menn skuli hafa látið slíkt viðgangast!

Ég tek undir með formanninum: Ég er reiður og sár!

Ég hef um árabil varið þennan flokk og lagt honum til krafta mína, núna síðast með því að taka þátt í prófkjöri flokksins, þar sem ég skipta 8. sæti á Suðurlandi.

Ég er hreint út sagt ekki sáttur við þessi málalok, þótt ég fagni ákvörðun Andria að hafa sagt af sér. Annað var að mínu mati ekki boðlegt miðað við þá stöðu sem hann var í.

Nú verða Bjarni og Þorgerður að klára þetta dæmi! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.4.2009 kl. 19:41

29 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Gangi þér vel.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 10.4.2009 kl. 22:14

30 identicon

hvaða máli skiptir hver það er sem upplýsir um glæp eða spillingu eiginlega þegar um spillingu eða glæp er um að ræða hvort sem er?????????????

Er sektin eitthvað minni??

Minnkar það eitthvað gjörninginn ef einhver er að ná sér niðri á sjálftökuflokknum??? Glæpurinn er sá sami og spillingin augljós, það sér hver maður tenginguna við geysir green og vatnalögin og hvað þá heldur ótrúlega baráttu sjálftökuflokksins gegn því að auðlindir okkar skulu vera í eigu okkar stjórnarskrárbundið!!! Hvað hafa margar milljónir "dottið" inn rétt fyrir málþófið???

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 23:32

31 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Vá...meira að segja Gísli Freyr reynir ekki að stimpla þetta með ofsóknarstimplinum!!

Og ég sem hélt að hann væri sá allra versti þegar Sjálfstæðisflokkurinn væri annars vegar! Þú ert ....MIKLU verri

Heiða B. Heiðars, 11.4.2009 kl. 00:15

32 identicon

Veistu, ég bara verð að segja þetta. Mér bíður við ykkur Sanntrúuðum - Hendið Andra fyrir ljónin ( sem var í starfsþjálfun ) en hlífið kafbátnum Kjartani og co.

Árni Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 00:58

33 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Árni:

Eigum við ekki að bíða eftir að Bjarni ljúki "vorhreingerningunni"!

Ég er ekki efins um að hvert einasta húsgagn verður hreyft og þrifið þar á bak við, hver einasti skápur verður opnaður og þrifinn!

Ég ber jafn mikið traust til Bjarna og ég hef borið lítið traust til Geirs undanfarna 6-7 mánuði, það vita þeir sem lesið hafa bloggið mitt frá því í haust!!! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.4.2009 kl. 10:29

34 Smámynd: Sævar Finnbogason

Það er alveg sama hvaðan þessar upplýsingar koma, að mínu viti eru þetta upplýsingar sem hefðu átt að liggja fyrir í upphafi. Nú gera þær það og þá kemur ýmislegt í ljós. auðvitað vekur athygli að þetta gerist á sama tíma og sömu aðillar og greiða þessa risa styrki eru að reyna að koma sér inní orkugerann. Tilviljun að sá flokkur sem er í bestri aðstöðu til að koma þeim málum í höfn fái alla þessa peninga?

NEI ÞAÐ GETUR EKKI VERIÐ og það er nauðsynlegt að fólk fái að vita um svona nokkuð og að skrifa svona grein eins og þú gerir í ljósi þessarra upplýsinga, þar sem erfitt er að sjá hvort skiptir þig meira máli hagsmunir almennings eða orðspor FLOKKSINS er skólabókar dæmi um það sem er að hugarfari Sjálfstæðismanna.

Hagsmunir almennings af því að svona upplýsingum sé ekki sópað undir teppið eru gríðarlegir, það eru svona lekar sem hafa orðið til þess að regluverk og losa þjóðir við spillingu í gegnum tíðina ekki þöggun. Minni á Watergate og fleirri slík mál.

Sævar Finnbogason, 11.4.2009 kl. 13:28

35 Smámynd: Dexter Morgan

Var þér "skipað" að blogga um þetta, eða ertu svona vitlaus sjálfur,,,, bara að spá

Dexter Morgan, 11.4.2009 kl. 14:48

36 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sævar:

Ég er svo hjartanlega ósammála þér að það skipti ekki máli hversvegna og hvaðan upplýsingarnar koma.

Hinu er ég sammála, að auðvitað átti bókhald flokkanna að vera aðgengilegt, a.m.k. fyrir Ríkisendurskoðun. Þessum málum hefur nú verið í mjög gott horf og var Sjálfstæðisflokkurinn aðili að því samkomulagi ásamt öðrum stjórnmálaflokkum.

Dexter Morgan:

Er sjálfur svona vitlaus!

Mér hefur enginn skipað fyrir verkum nema yfirmenn mínir á vinnustað og ég vinn ekki fyrir Sjálfstæðisflokkinn. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.4.2009 kl. 18:20

37 Smámynd: Jón Ragnarsson

Skjótum sendiboðann!

Jón Ragnarsson, 11.4.2009 kl. 18:51

38 Smámynd: Sævar Finnbogason

Menn vilja oft hengja sig í fomreglum og hver man til að mynda ekki eftir símamanninum sem var refsað fyrir að koma upp um spillingu, landsbankamanninum sem var refsað fyrir að koma upp um spillingu og fleiri dæmi glæti ég nefn, svona vinna sjálfstæðismenn.

Það sem á við er að stundum verður að fara á svig við reglurnar til að koma veg fyrir að meira tjón. Ef okkur tekst að koma prinnsipplausum spillingarpólitíkus, Guðlaugi Þór út út pólitík með þessu máli er öllum greiði gerður.

Svo get ég ekki annað sagt en að yfirlýsing Coke mannsins og yfirmanns verðbréfasviðs Landsbankans er einhver aumasta tilraun til að hylma yfir sem sést hefur.Hreinn brandari. Guðlaugur hringir í vin sinn (sem er ekki litli sjálfstæðismaðurinn  út í bæ) heldur Þorsteinn í Coke (vðskiptafélagi Jóns ásgeirs og þeirra drengja) og segir að nú vanti pening, og svo framvegis.

Þetta er algerlega gegnsæ spilling. EKKI STINGA HAUSNUM Í SANDINN þið komist ekki útúr þessu þannig. Ef fólk á að geta treyst ykkur aftur verðið þið að hætta að benda á sendiboðann og taka til í ykkar eigin málum, menn verða að segja af sér eða reknir úr flokknum.

Sævar Finnbogason, 12.4.2009 kl. 16:08

39 Smámynd: Sævar Finnbogason

Ekki nátengdan Börkur, heldur einn af eigendum og vara stjórnarformann FL group. Ekki bara tengdan eða nátengdan.

Sævar Finnbogason, 13.4.2009 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband