18.5.2009 | 20:18
Niðurskurður hjá hinu opinbera
Fyrir liggur að útgjöld ríkisins verða meiri en tekjurnar á næstu árum. Rekstur íslenska ríkisins er ekki frábrugðinn rekstri heimilis eða fyrirtækis, þar verða gjöld og tekjur að haldast í hendur. Ef tekjur ríkisins eru meiri en útgjöld er vaninn að greiða niður skuldir, bæta í útgjöldin eða lækka skatta. Undanfarin ár gerðu ríkisstjórnir Íslands einmitt þetta. Íslenska ríkið var frekar skuldsett þegar fyrsta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (Samfylkingar) tók við völdum árið 1991. Í byrjun ríkisstjórnarsamstarfs Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokksins var mikið skorið niður hjá ríkinu og var það ekki vinsælt frekar en núna. Aðhald var síðan mikið hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem tók við völdum árið 1995.
Á blaðamannafundi sumarið 1995 lýsti Davíð Oddsson forsætisráðherra yfir að kreppunni væri lokið og góðæri myndi taka við. Það var eins og við manninn mælt að mikill vöxtur var í atvinnulífinu næstu ár á eftir. Tveir ríkisbankar voru seldir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, en einnig nokkur önnur opinber fyrirtæki. Afgangurinn er flestum kunnugur, þ.e.a.s. áframhaldandi góðæri sem endaði í trylltu ástandi sem enginn hafði hemil á, hvorki stjórnvöld, bankarnir, lífeyrissjóðir, almenningur eða fyrirtæki landsins. Nú erum við aftur komin í sömu spor og árið 1991 eða öllu frekar enn erfiðari spor.
Hvað er til ráða? Allir hafa heyrt að mikilvægast er að komu heimilum og fyrirtækjum til hjálpar, sem er auðvitað hárrétt, en færri einbeita sér að þeim erfiðu verkefnum sem við okkar blasa: niðurskurðinum hjá hinu opinbera. Flestir horfa auðvitað í eigin barm - ekki síst þeir sem líkt og ég vinna hjá hinu opinbera eða eru upp á það opinbera komin vegna bóta, lífeyris eða vegna þjónustu, sem þeir njóta frá hinu opinbera. Sjálfur hef ég þegar tekið á mig mínar byrðar, sem birtast í niðurskurði á launum mínum og hlunnindum. Það er auðvitað ekki auðvelt að skera niður útgjöld hjá sjálfum sér, sérstaklega þegar lán - innlend sem erlend - og matvara hefur hækkað í verði. Það er alltaf auðveldara að skera niður hjá öðrum.
Auðvitað erum við opinberir starfsmenn ekki sáttir við að taka á okkur byrðarnar af bruðli annarra, þegar við nutum aldrei ávaxtanna af hinu svokallaða "góðæri" undanfarinna ára. Ríkissjóður er tómur - og í raun í mínus - og því er ekki um annað að ræða en að skera niður, viljum við ekki leggja byrðarnar á framtíðarkynslóðir.
Við opinberir starfsmenn verðum að taka á okkur byrðarnar núna. Í framtíðinni verðum við hins vegar að minnast þess að ríkið hefur alltaf talað um að launin okkar væru örugg og það sama gildi um atvinnuöryggi okkar. Hvorutveggja er ekki sannleikanum samkvæmt, svo sem nú má sjá. Í framtíðinni krefjumst við sömu launa og á hinum almenna markaði, því laun okkar eru ekki trygg og atvinnuöryggið ekki heldur, þótt við búum hugsanlega við meira atvinnuöryggi en aðrir Íslendingar.
Forsætisráðherra flytur stefnuræðu í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Facebook
Athugasemdir
Ég hræðist það að sú hugmynd að reyna að halda starfsmannafjöldanum hjá ríkinu uppi muni þegar við lítum til baka eftir nokkur ár verða talin mistök.
Það er verið að keyra öll laun í landinu niður á þeirri forsendu að fleiri geti haft störf hjá hinu opinbera. En gallinn er sá að jafnvel þó svo sum opinber störf séu ómissandi, á það alls ekki við um þau öll. Ég skil ekki alveg hvernig það á að ganga upp að annars vegar verði störfum haldið uppi með því að fá starfsmenn til að lækka laun sín, en hins vegar að skera niður kostnað. Launakostnaður hlýtur einfaldlega að vera mjög hátt hlutfall hjá hinu opinbera og annar kostnaður væntanlega að mjög stóru leyti tengdur starfsmannafjölda. Að einhver vinni óþarft starf á lágum launum, gerir starfið ekkert betra, sérstaklega ekki ef beinn kostnaður af starfi hans kemur jafnvel í veg fyrir að stofnunin sem viðkomandi vinnur fyrir geti beitt sér af fullu afli.
Leiðin útúr kreppunni mun tæplega koma í gegnum hið opinbera. Nýsköpun og aukin framleiðni verður ekki til án einkaframtaksins, eða í það minnsta í samstarfi við það. Til þess að halda úti öllum þessum opinberu störfum þarf hins vegar að taka enn hærra hlutfall þeirra peninga sem annars væru að flæða um einkageirann. Með öðrum orðum sýnist mér að hugmyndin um það að halda fjölda opinberra starfa uppi, byggist í raun á því að taka störfin úr einkageiranum.
Annað atriði sem ber að hafa í huga eru leiðbeiningar sem lofað er af hálfu forsætisráðherra um bann við útvistun. Nú ætla ég ekki að halda því fram að af hálfu ríkisins hafi undanfarin ár ekki verið bruðlað með peninga í alls konar óþarfa ráðgjöf og almannatengsl og hvað þetta var allt saman. En ég hræðist svona reglur sem koma í veg fyrir að rekstur ríkisins byggist á vandaðri kostun verkefna og skilvirkni. Það getur ekki verið markmið að banna útvistun, það hlýtur að vera markmiðið að þeim fjármunum sem ríkið hefur úr að spila sé ráðstafað á jafn markvissan hátt og mögulegt er.
Sigurgestur Guðlaugsson, 18.5.2009 kl. 21:26
Sigurgestur:
Sammála þér í einu og öllu!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.5.2009 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.