Ríki og sveitarfélög - hvar er hægt að spara?

Mikil umræða undanfarna mánuði 

Mikil umræða er um hvar skuli sparað hjá ríki og sveitarfélögum á næstu árum. Ljóst er að þeir flokkar sem nú eru við völd vilja reyna að skerða þjónustu hjá hinu opinbera sem minnst og er það að sjálfsögðu vel. Markmið æðstu stjórnenda ríkis og sveitarfélaga - ríkisstjórnar, borgarstjórnar, bæjarstjórna og sveitarstjórna - og æðstu stjórnenda og millistjórnenda hjá ríki og sveitarfélögum á að vera að fara vel með skattfé borgaranna. Ekki vil ég ásaka fyrrnefnda aðila um að hafa bruðlað á undanförnum árum, en ljóst er að hugsanlega hefði verið hægt að gera meira á undanförnum árum til spara peninga. Ætla ég núna að nefna nokkrar hugmyndir mínar auk annarra sem ég hef séð í blöðum og á vefnum á undanförnum mánuðum. Ég mun byrja á forsætisráðneytinu, en taka síðan eftir það hvert ráðuneyti fyrir sig í stafrófsröð:

Forsætisráðuneyti - Sé litið yfir stofnanir ráðuneytisins sér maður að Gljúfrasteinn virðist vera sér stofnun. Þar er forstöðumaður og fjórir upplýsingarfulltrúar auk þriggja manna stjórnar!

Síðan höfum við Þjóðmenningarhúsið með forstöðumann og 10 manna starfslið!

Hagstofuna sem ég ætla nú ekki að taka fyrir, enda um mikilvæga stofnun fyrir þjóðfélagið að ræða, þótt hugsanlega gæti Hagstofan verið deild innan Seðlabankans?

Síðan erum við með Þjóðgarðinn á Þingvöllum, sem af sögulegum ástæðum er undir Forsætisráðuneytinu, en ætti auðvitað að vera undir stjórn Umhverfisstofnunar eins og aðrir þjóðgarðar.

Umboðsmaður barna hefur margsannað gildi sitt og nauðsynlegt að hann hafi sjálfstæði gagnvart öllum öðrum.

Mér skilst að Seðlabankinn eigi að fara frá Forsætisráðherra til nýs efnahagsráðuneytis, sem ég held að sé skynsamleg ráðstöfun í ljósi aðstæðna.

Dómsmálaráðuneyti - Að mínu mati er tímabært að skoða hvort ekki sé rétt að sameina öll lögregluembætti landsins í eitt embætti: Lögreglustjóra. Ríkislögreglustjóraembættið yrði þá lagt niður í núverandi mynd.

Jafnframt mætti skoða hvort ekki væri rétt að sameina Landhelgisgæslu og Varnamálastofnun og jafnvel Tollgæslu, Alþjóðadeild lögreglunnar og landamæradeild lögreglu og búa til Landamærastofnun Íslands. Sú stofnun myndi tryggja landamæri landsins, en með því að sameina stofnanirnar væri hugsanlega hægt að ná fram sparnaði, betri samvinnu og auknum árangri!

Fækkun sýslumanna er einnig möguleg og detta mér strax í hug nokkrar sameiningar, s.s. Ísafjörður , Bolungarvík, Patreksfjörður og Hólmavík. Þarna yrði einn sýslumaður en hugsanlega skrifstofur eða úti á hverjum stað, þannig að þjónusta myndi ekki skerðast mikið.

Þá mætti skoða sameiningu embættanna í Búðardal og Stykkishólmi að ógleymdu höfuðborgarsvæðinu, þar sem sýslumenn eru í Reykjavík, Kópavogi og í Hafnarfirði. Einnig er spurning hvort þurfi sýslumenn á Hvolvelli og Vík, Seyðisfirði og Eskifirði, Akureyri og Siglufirði, Blönduósi og Sauðárkróki? Á öllum þessum stöðum yrði áfram sýslumannskrifstofa, en fækkað yrði í yfirstjórn.

Sér nefnd þyrfti að setja til sparnaðar hjá Þjóðkirkjunni, en þar er örugglega hægt að hagræða mjög mikið.

Félags- og tryggingaráðuneytið -  Hér erum við að tala um stóra peninga. Mér líst ekki illa á hugmyndir um stofnun Velferðarstofnunar, sem ég held að spari ekki aðeins peninga, heldur verði þjónustan betri þegar allt er komið á einn stað.

Síðan verður auðvitað að fara markvisst í að koma þeim hugmyndum í framkvæmd, sem voru á borðinu fyrir hrun og miðuðu að endurhæfinu öryrkja. Þetta kemur bæði öryrkjum og þjóðfélaginu til góða.

Að auki verður að endurmeta öryrkja af og til, þ.e.a.s. hvort þeir eru hæfir til vinnu eður ei. Að auki er það tilfinningu mín - og fleiri - að sú fjölgun sem varð á öryrkjum á undanförnum árum hafi ekki verið alveg eðlileg. Fara verður aftur yfir örorkumat og skoða hvort allur þessi fjöldi þiggjenda örorkubóta séu virkilega óvinnufærir?

Frekari tekjutenging bóta er auðvitað leiðindamál, en á tímum sem þessum verður að skoða hana. Hvaða hefur forríkt fólk og vel efnað að gera við barnabætur?

Jafnréttisstofa - fjölmenningarstofa- Greiningar- og Ráðgjafarstöð ríkisins, höfum við efni á þessu þegar við erum að loka skólum og sjúkrahúsálmum, er ekki hægt að koma þessum málum öðruvísi fyrir og á ódýrari hátt án þess að þjónusta skerðist mikið?

Fjármálaráðuneytið -  Ekki margar stofnanir, en þó sé ég ekki tilgang í að vera með skattstjóra um land allt. Er ekki hægt að vera með einn skattstjóra og fækka þessum skattskrifstofum og færa verkefni þeirra t.d. yfir á sýsluskrifstofur? Þannig yrði engin skerðing á þjónustu en mikil hagræðing!

Ég segi þetta í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum hjá tollstjóra, en nú er allt Íslands einungis eitt tollumdæmi og við þetta spöruðust peningar án þess að þjónusta væri skert.

Heilbrigðisráðuneytið - Ég ætla ekki að úttala mig um þetta mál, en mér sýnist Ögmundur Jónasson smám saman vera að átta sig á að hugmyndir fyrirrennara hans í starfi voru kannski alls ekki svo slæmar!

Þetta er risastór og dýr málaflokkur og því mest um vert að hagræða þar, því þá er um virkilegan sparnað að ræða! Fækka stofnunum og yfirstjórnum, leggja saman deildir og auka sérhæfingu o.s.frv. Það eru nú þegar komnar fram frábærar hugmyndir um sparnað, en að auki þarf að huga að gagngerum breytingum í kerfinu eins og ég hef áður fjallað um á blogginu.

Iðnaðarráðuneyti - Hér er um fáar stofnanir að ræða og ég sé ekki í fljótu bragði hvernig er hægt að spara með skipulagsbreytingunum.

Menntamálaráðuneyti - Hér er um annan stóran málaflokk að ræða, þar sem verður að taka til hendinni ef á annað borg á að spara hjá ríkinu.

Miklir peningar hafa verið settir í uppbyggingu á menntakerfinu á undanförnum árum og margt mjög vel gert. Ég hef hins vegar ekki verið sammála öllu og vil ég þá sérstaklega benda á mikla uppbyggingu skóla sumra háskóla úti á landsbyggðinni og Háskólann í Reykjavík. Ég get hreinlega ekki skilið hversvegna 300.000 manna þjóð þarf á svona mörgum háskólum að halda: 2 í Reykjavík, á Bifröst, Hvanneyri og á Akureyri! Eitthvað þarf að víkja og að mínu mati ætti að sameina Háskóla íslands og Háskólann í Reykjavík og jafnvel leggja niður Háskólann á Bifröst.

Huga þarf að sparnaði hjá menntaskólum, en ég held að þar sé ekki feitan gölt að flá! 

Samgönguráðuneytið - Unnið hefur verið ötullega að sameiningu stofnana og hagræðingu hjá þessu ráðuneyti og eftir því sem mér skilst mun sú vinna halda áfram. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið - Þótt ég viti að vel hafi verið unnið hér á bæ undanfarin ár, þá varð ég hvumsa við að sjá þessar stofnanir - þótt ekki efist ég um að verið sé að vinna að þörfum verkefnum:

Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna Verðlagsstofa skiptaverðs Hagþjónusta landbúnaðarins 

Hér er held ég verk að vinna! 

Umhverfisráðuneytið - Ég er sannfærður um að hér er hægt að sameina nokkrar stofnanir og hagræða með því aðeins, bæta þjónustu og auka virkni.

Utanríkisráðuneytið - Hérna þarf líka að spara, en mér finnst margir hafa farið hamförum þegar þeir vilja loka nær öllum sendiráðum. Auðvitað þarf að skoða hvort við þurfum sendiráð í Indlandi eða Afríki eða á öllum Norðurlöndunum, en mér finnst umræðan stundum svolítið öfgakennt og mikið lýðskrum þegar kemur að umræðu um sparnað hjá Utanríkisráðuneytinu.

Viðskiptaráðuneytið - Líklega mun Fjármálaeftirlitið sameinast Seðlabankanum og virðast flestir sammála um að gott sé að færa þetta í fyrra horf.

Ég vil taka skýrt fram að hér er ekki um lærða úttekt að ræða hjá mér sem stjórnsýslufræðingur, heldur var ég að vafra á vef Stjórnarráðsins í morgun og fór svo að skoða undirstofnanir. Í framhaldi af því fæddist hugmyndin um að renna yfir undirstofnanir ráðuneytanna og spá í hvar væri hægt að hagræða með sameiningum. Síðan er það allt annar kafli hvar er hægt að spara inni í stofnunum sjálfur, en það vita forstöðumenn stofnana og millistjórnendur best sjálfir.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Guðbjörn.

Nú hleypir þú þér út á hálan ís, finnst mér. Þú mátt vera viss um að svona tillögur eins og þú setur fram orsaka lítið annað en reiptog milli ólíkra hagsmuna. Það var sagt fyrir vestan, þegar átti að sameina sveitarfélög, að það gagnaðist ekki og myndi bara verða til þess að fækka höfðingjum í héraði. Er ekki nokkuð til í því. Er ekki hætta á að forstöðumenn og aðrir sem telja sig þurfa að verja hagsmuni muni vinna gegn áformum um niðurlagningu eða samþáttun. Ég held það.

Ég sé enga aðra leið en að 300 þús íslendingar verði að stokka spilin algjörlega upp á nýtt, í stað þess að halda spilinu áfram með smá tilbrigðum.

Hugsum okkur að það að leggja niður öll kjördæmi, sveitarfélög, alþingi, ríkisstjórn oþh í núverandi mynd. Markmiðið væri að búa til löggjafar og stórnsýslu sniðna að þörfum 3-500 þús. manna samfélagi. Svona álíka og í meðalstórri borg í Evrópu.

Þetta væri hægt að gera á grundvelli nýrrar stjórnarskrár. Stjórnarskrá sem innihéldi reikreglur samfélagsins. Stjórnarskrá sem þjóðin gæfi sjálfri sér.

Ég held að hagsmunatog og andsnúnir spilendur færi okkur skammt.

Annars, bestu kveðjur.

JAT

Jón Tynes (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 15:25

2 Smámynd: Steinarr Kr.

Blessaður félagi,  Góð grein hjá þér.  Ég myndi vilja stíga lengra en þú, t.d. færa Umferðarstofu að hluta til lögreglu og rest til sýslumanna.  Skoða aðrar stofnanir sem virðast hafa einhvers konar löggæslu og eftirlitsvald (yfirleitt án valdbeitingaheimilda) og setja þær allar undir lögregluna, leggja niður umhverfisráðuneytið, taka öll söfn og setja undir eina stjórn (fækka yfirmönnum), skoða síðan hluti eins og málskostnað í sakamálum og fækka þessum sk. réttindum sem virðast frí í dag.  Svo mætti skoða það að gera ensku að öðru opinberu máli hér á landi og minnka þannig þýðingar- og túlkunarkostnað.  Áfram má telja, en þú ert á réttri leið.

Steinarr Kr. , 24.5.2009 kl. 20:19

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Tynes:

Líklega er þetta rétt hjá þér, enda hafa ótal tilraunir verið gerðar til að breyta hlutum og sumar þeirra hafa reyndar tekist ágætlega á meðan aðrar hafa gjörsamlega misheppnast.

Allsherjaruppskurður á kerfinu - hugmyndin er ekki alröng! Staðreynd er samt að nær allar stofnanir hafa einhvern tilgang. Spurningin er hins vegar hvernig á að raða þeim saman og hvaða verkefni eiga að vera á hverjum stað o.s.frv.

Steinarr:

Já, kemur mér ekki á óvart að við séum sammála í þessu   Ég er sammála þér að ganga mætti lengra á sumum stöðum. Einnig tel ég betra að lögreglan taki að sér ýmis verkefni sem eru hjá öðrum stofnunum, en einnig er möguleika að tollgæslan taki að sér verkefni. Í Þýskalandi er t.d. það eftirlit sem verið hefur hjá Vinnumálastofnun með svartri vinnu o.s.frv. hjá tollgæslunni! 

Merkilegt er að fáir hafa lesið bloggið hjá mér í dag og fáar athugasemdir. Fólk virðist ekki hafa áhuga á þessu efni, sem er einkennilegt því þetta varðar alla íbúa landsins og á eftir að verða umdeild á næstu mánuðum! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 24.5.2009 kl. 20:50

4 identicon

Góð umræða og gagnleg, sem síðueigandi bryddar hér upp á. Það er deginum ljósara, að ýmsar einingar stjórnsýslunnar hér hafa þróast á eigin forsendum án þess að það hafi verið gert með sýn á heildarskipulag og heildarhagsmni. Það er mjög gagnlegt að skoða sameiningar með það í huga að fara út fyrir þau mörk, sem forn héraðaskipan og samgöngutefjandi náttúrufyrirbrigði eins og ár og fjallgarðar sköpuðu hér í eina tíð, áður en vegakerfi kom til sögunnar. Þú fitjar upp á einu, sem örfáir hafa vogað sér áður, en það er spurningin um hvort við þurfum að hafa mörg stjórnsýslustig í 300.000 manna samfélagi. Það virðast mörg rök hníga að því, að þessi tiltölulega fámenni hópur fólks, sem býr í þessu eyjarsamfélagi og vogar sér að kalla sig þjóð (sem er kannski oflæti), þurfi ekki á jafn flóknu stjórnskipulagi að halda og raun ber vitni. Með þí sé gjaldþoli  skattborgaranna hreinlega ofboðið. Það er því margt, sem þarf að skoða þegar farið verður í það af einhverju viti að endurskoða stjórnarskrá og stjórnskipulag Íslands. Þakka þér Guðbjörn svo kærlega fyrir að koma með þessa umræðu á vitrænu og öfgalausu plani, það er of fátt um slíka góða drætti í samfélaginu um þessar mundir.

Dr. Hook (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 09:24

5 identicon

Smápeningar....,

Sameina lífeyrissjóðina (eða innlima) í ríkissjóð og borga allar skuldir.. kenna siðfræði og heimspeki í grunnskólum og bíða í 15 ár...(btw. borgað samt ennþá rétt lífeyriskjör úr ríkisjóði)

Jón Orri Sigurðarson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband