25.5.2009 | 21:22
Sjálfstæðisflokkurinn - Umbótaflokkurinn
Fyrstu skrefin
Þegar Sjálfstæðiflokkurinn var stofnaður árið 1929 upp úr Frjálslynda flokknum og Íhaldsflokknum, stóð valið milli nokkurra nafna fyrir utan tvö fyrrnefnd nöfn. Það voru nöfnin Sjálfstæðisflokkurinn og Umbótaflokkurinn. Þótt margir hafi viljað halda í nafnið Íhaldsflokkurinn, og sumum jafnvel þótt Umbótaflokkurinn gott nafn, varð nafnið Sjálfstæðisflokkurinn ofan á. Mig grunar reyndar að þarna hafi íhaldsarmur flokksins verið á ferðinni eina ferðina enn og hreinlega ekki geta hugsað sér að skýra flokkinn eftir umbótum eða frjálslyndi.
Barndómsárin
Sjálfstæðisflokkurinn eldri var stofnaður upp úr félögum, sem voru andstæðingar Heimastjórnarflokksins. Heimastjórnarflokkurinn var hægri flokkur og nátengdur embættismannakerfi ríkisins. Þótt sá flokkur hafi verið hlynntur sjálfstæði landsins, vildi hann fara mun varlegar í þeim efnum en sjálfstæðismenn. Sjálfstæðisflokkurinn eldri var sem sagt stofnaður upp úr frekar róttækum hópi sjálfstæðissinna, sem var að mörgu leyti náskyldur frjálslyndum öflum í Norður-Evrópu, sem ekki aðhylltust konungsveldi.
Þegar helsta baráttumál flokksins var í höfn árið 1918 - sjálfstæði Íslendinga - og Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn höfðu verið stofnaðir til höfuðs hægri öflunum og hætta var á þingsæti töpuðust til andstæðinganna, má segja að hægri öflin hafi séð sér leik á borði að ganga til samstarfs.
Unglingsárin
Fyrir utan klofning, sem rætur átti að rekja til valdabaráttu Gunnars Thoroddsen og Geirs Hallgrímssonar á árunum 1971-81, klofnings sem rekja mátti til sigurs Alberts Guðmundssonar yfir Geir Hallgrímssyni í prófkjöri árið 1987, og síðan nýlegra dæmis, Frjálslynda flokksins, sem stofnaður var 1998, en gaf upp öndina í síðustu kosningum, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið einn um hituna á á hægri væng stjórnmálanna á Íslandi. Þetta hefur alla tíð verið mesti styrkur flokksins!
Flokkur framfara og umbóta
Að mínu mati hefði besta nafnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn verið Umbótaflokkurinn, því enginn annar flokkur hefur staðið fyrir viðlíka umbótum í íslensku þjóðfélagi og Sjálfstæðisflokkurinn. Þótt flokkurinn hafi lengst af verið málsvari hefðbundinna gilda, hefur hann einnig barist fyrir mörgum þjóðþrifamálum og margir vilja meina að Frjálslyndi flokkurinn hafi í raun haft sigur yfir Íhaldsflokkinn eftir sameiningu flokkanna, alla vega hvað stefnuna varðaði.
Flokkur baráttu til frelsis og auðs
Líkt og mörg önnur lönd lentum við Íslendingar í neti hafta í stríðinu og á eftirstríðsárunum. Vegna sterkrar stöðu vinstri flokkanna losnuðum við seinna úr þessum höftum en flest önnur ríki Vestur-Evrópu. Það má segja að mörg höft hafi enn verið í gildi 20 árum eftir styrjöldina miklu og að Viðreisnarstjórnin - ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks - hafi byrjað að losa landann undan haftakerfinu. Sjálfstæðismenn héldu síðan áfram - þegar þeir voru í ríkisstjórn - að afnema höft og auka frelsi. Lengst gekk ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í að innleiða frelsi og einkavæða dofin ríkisfyrirtæki, sem voru illa rekin af skattfé almennings.
Flokkur mannúðar og öryggis
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur sem aðhyllist markaðsfrelsi og frelsi einstaklingsins var hann mjög liðtækur við að koma á tryggingakerfi á Íslandi á 3. og 4. og 5. og 6. og 7. og 8. áratug síðastliðinnar aldar. Auðvitað urðu menn að sníða sér stakk eftir vexti og þannig var það ekki fyrr en árið 2000 að síðasta stóra átakið var gert í tryggingarmálum þegar lög um fæðingaorlof og fæðingarstyrki tóku gildi. Sjálfstæðislflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á jafnan aðgang allra að mennta- og heilbrigðis- og tryggingakerfinu, en þar skilur hann sig að sumu leyti frá mörgum öðrum hægri flokkum á Vesturlöndum.
Flokkur alþjóðasamvinnu og samstarfs
Sjálfstæðisflokkurinn var sá stjórnmálaflokkur sem lengst af var hvað opnastur fyrir alþjóðasamvinnu. Þar má m.a. nefna að Íslendingar fengu aðild að flestum þeim alþjóðastofnunum, sem landið á aðild að í dag undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Þar má t.d. nefna aðild að Sameinuðu þjóðunum árið 1946 og þeim stofnunum sem þar fylgdu með í pakkanum: Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF), Alþjóðabankinn (IBRD), Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) og Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO), en áður hafði Ísland gerst aðili að Alþjóðapóstmálasambandinu (UPU). Að auki gekk Íslandi í Nató árið 1949 og síðar í EFTA árið 1970 og að síðustu í EES árið 1994.
Hvert vildum og viljum við stefna?
Aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins voru þessi:
Að vinna að því og undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og tuttugu og og fimm ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.
Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Ljóst er að fyrra stefnumálið er að fullu til lykta leitt.
Menn vissu að með áherslu á víðsýni og frjálslyndi, þjóðlega umbótastefnu, einstaklingsfrelsið og atvinnufrelsið bæru sjálfstæðismenn hagsmuni allra stétta fyrir brjósti.
Hvert leiðir framtíðin okkur?
Af reynslu okkar af Norðurlandasamstarfinu, NATO, EFTA, UNO og EES má vera ljóst að við sjálfstæðismenn þurfum að bæta 3, 4, 5, og 6. málsgreininni við:
Að vinna að nánu samstarfi Íslands og þjóða Evrópu til að tryggja friðsama framtíð heimsálfunnar.
Að vera meðvitað um andlega og siðferðislega arfleið okkar Íslendinga og íbúa Evrópu, sem grundvallast á órjúfanlegum, altækum gildum um mannlega reisn, frelsi, jafnrétti og samstöðu.
Að vera meðvitað um grundvallargildi lýðræðisins og réttarríkisins.
Að tryggja fyrir alla íbúa Íslands og Evrópusambandsins grundvallararéttindi á borð við frelsis, öryggi og réttlæti.
Hvert viljum við sjálfstæðismenn stefna?
Í einangrun eða samvinnu við þær þjóðír sem okkur standa næst og áhuga hafa á að starfa með okkur í blíðu jafnt sem stríðu?
Heimildir:
Gunnar Helgi Kristinsson, Íslenska stjórnkerfið, Háskóli Íslands, 2007.
Fastanefnd framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg, (www.esb.is), sótt 25. maí 2009.
Stjórnarráðið - utanríkisráðuneyti, (www.utanrikisraduneyti.is) , sótt 25. maí 2009.
Tryggingarstofnun (www.tr.is), sótt 25. maí 2009.
ESB-tillaga lögð fram á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.5.2009 kl. 07:57 | Facebook
Athugasemdir
Það eru u.þ.b. 200 ríki í heiminum í dag. Aðeins lítill hluti þeirra er innan Evrópusambandsins eða 27 sem hlýtur að þýða samkvæmt þínum kokkabókum að hin u.þ.b. 173 séu einangruð.
En þess utan þá hefur frá upphafi sögu Sjálfstæðisflokksins verið lögð áherzla á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði og frelsi Íslands og síðasti landsfundur flokksins var þar engin undantekning. Í upphafi ályktunar landsfundar 2009 um utanríkismál segir: "Sjálfstæðisflokkurinn telur það meginmarkmið utanríkisstefnu Íslands að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar jafnframt því sem vinna ber með öðrum þjóðum að því að efla frið, frelsi, lýðræði, mannréttindi og velmegun."
Svo mörg voru þau orð og þau eiga af augljósum ástæðum enga samleið með inngöngu í Evrópusambandið.
Hjörtur J. Guðmundsson, 25.5.2009 kl. 21:58
Og þess utan, vilja sjálfstæðismenn (þ.e. hinn sjálfstæðissinnaði meirihluti þeirra) frjálsa samvinnu og viðskipti við aðrar þjóðir á jafnréttisgrunni sama í hvaða heimsálfu þær kunna að vera staðsettar og á forsendum íslenzkra hagsmuna en ekki annarra. En þeir vilja ekki samruna við þær.
Hjörtur J. Guðmundsson, 25.5.2009 kl. 22:03
Hjörtur:
Á ykkar máli heitir þetta "innlimun" Íslands!
Mér finnst það mikið skemmtilegra en "samruni"!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.5.2009 kl. 22:17
Samruni er áhugavert orð. Mikið er talað um samruna ríkja Evrópusambandsins, ekki sízt af Evrópusambandssinnum og sambandinu sjálfu. En hvað gerist þegar samruni á sér stað á milli tveggja eða fleiri fyrirtækja? Þau verða að einu fyrirtæki. Í bezta falli eru gömlu fyrirtækin rekin áfram sem sérstakar rekstrareiningar en lúta hins vegar einni yfirstjórn sem hefur tögl og haldir. Fyrirtækin eru ekki sjálfstæð lengur. Það sama á sér stað þegar samruni verður á milli tveggja eða fleiri ríkja, það endar með einu ríki með einni yfirstjórn. Það er nákvæmlega það sem á sér stað innan Evrópusambandsins.
Hjörtur J. Guðmundsson, 26.5.2009 kl. 10:11
Góð grein Guðbjörn.
Mér sýnist því miður að forysta flokksins og hörðustu andstæðingar ESB reyni að beita Sjálfstæðisflokknum eins og hægt er til að koma í veg fyrir að þjóðin fái það upplýst hvaða samningar okkur standa til boða sækjum við um aðild að ESB.
Mér sýnist þar fyrir utan að menn ætli sér að reyna að koma í veg fyrir að við náum góðum samningi sem líklegt er að þjóðin samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að þjóðin fái að ráða þessu. Slíkur er óttinn og hatrið hjá mörgum þessara manna til Evrópu.
Staða okkar Íslenskra hægrimanna sem viljum samstarf við ESB náist viðunandi samningar um auðlindamálin er því ekki góð. Á ég að fara að kjósa varaformann Heimssýnar á þing fyrir mig í næstu kosningum hér í Reykjavík norður?
Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.5.2009 kl. 10:18
Hjörtur:
Já, ég veit að þú sérð þetta svona.
Ég var lengi erlendis og ferðaðist mikið á milli landa Evrópu. Aldrei hafði ég á tilfinningunni að þessi lönd stjórnuðu ekki því sjálf, sem þau vildu stjórna.
Friðrik:
Algjörlega sammála þér Friðrik.
Mér sýnist allt stefna í að tveir meðalstórir hægri flokkar verði í framboði í næstu kosningum og þá þarft þú ekki að kjósa varaformann Heimssýnar lengur!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.5.2009 kl. 15:46
Ég held að flokkurinn muni klofna. Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann er í dag er gamaldags og hallærislegur og mun ekki ná til fjöldans aftur. Ég vona að það verði stofnaður nýr hægri flokkur sem hefur ESB aðild á stefnuskrá sinni. Mér heyrist á mörgum að þeir séu að bíða eftir slíkum flokki. Það verður að drífa í því að stofna slíkan flokk. Eftir hverju eru menn að bíða?
Ína (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 17:39
Ína:
Já, stefnir ekki allt í það og lýsing þín er því miður svolítið rétt!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.6.2009 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.