Tvöföldun Vesturlandsvegar mikilvægari en tvöföldun Hvalfjarðarganga

HVALFJARÐARGÖNGÉg er algjörlega sammála stjórnvöldum að á tímum sem þessum skal frekar hugað að mannfrekum vegaframkvæmdum en dýrum, gjaldeyrisfrekum gæluverkefnum. Spurningin er hvaða vegaframkvæmdir séu skynsamlegastar út frá almannahagsmunum. Almannahagsmunir eru vissulega margir, en ég vil leiða hugann sérstaklega að slysahættu, tíma- og orkusparnaði og þá á þeim stöðum, þar sem flestir Íslendingar kjósa að búa, sem er á höfuðborgarsvæðinu og í u.þ.b. 150 km fjarlægð frá því.

Að mínu mati er höfuðborgarsvæðið eitt, en síðan er þéttbýlissvæðið í kringum það svæði eitthvað sem stjórnvöld hafa lítið leitt hugann að. Vegna mikils fjölda íbúa fyrir vestan, í Borgarnesi og Akranesi, og fyrir austan, í Ölfus og Árborg  -  jafnvel allt til Hellu og Hvolsvallar vegna sumarhúsbyggðar - er þetta svæði það umferðarþyngsta á landinu. Mér finnst einmitt þetta svæði hafa verið mjög afskipt undanfarin ár m.t.t. samgangna. Íslendingar verða vissulega að huga að hringveginum og öðrum vegum, sem nýtast íbúum landsbyggðarinnar og síauknum ferðamannastraumi, en þeir mega ekki gleyma því hvar umferðin er mest og þörfin því brýnust fyrir samgöngumannvirki.

vesturlandsvegur.jpgÁ undanförnum árum hafa þingmenn komist að furðulegustu niðurstöðum varðandi forgang vegaframkvæmda. Hver göngin á fætur öðrum hafa verið boruð fyrir milljarða króna til að bæta samgöngur milli bæjarfélaga, sem sum hver telja nokkur hundruð manns. Á meðan hafa Sunnlendingar, og aðrir þeir sem leið eiga um Suðurland, mátt bíða eftir tvöföldun Suðurlandsvegar. Sömu sögu má segja um verkefni innan Reykjavíkur, s.s. Sundabrautina, sem var frestað enn einu sinni.

Enginn virðist leiða hugann að Vesturlandsvegi, sem er þriðja stærsta umferðaræðin út úr borginni út á land og ökuleiðin til Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands. Auðvitað eiga menn að leiða hugann að því, hvort ekki væri nær að byrja á að tvöfalda Vesturlandsveginn alla leið til Borgarness, en bíða hins vegar aðeins með að bora önnur tvöföld göng, sem eru gríðarlega dýr framkvæmd.

ATLANTSOLÍAÞað hefur sýnt sig að slysin verða frekar á einföldu köflunum, en miklu síður á þeim tvöföldu. Segja má að að nær engin alvarleg slys hafi orðið á Reykjanesbrautinni eftir að hún var tvöfölduð. Það þarf engar rannsóknir til að sanna þetta, því þetta er reynslan sem við Suðurnesjamenn og aðrir landsmenn hafa af tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Umferðin er greið, örugg, áhyggjulaus og þægileg, jafnvel í verstu veðrum að veturlagi.

Eiga núna kannski hagsmunir starfsmanna Spalar og einhverra fyrirtækja, sem keypt hafa tækjabúnað til að bora í gegnum fjöll að ganga fyrir hagsmunum almennings í landinu? Jæja það er best að drífa sig frá Njarðvík til Reykjavíkur á "hraðbrautinni" á 90 km hraða á klukkustund. Það er sannarlega gott að vera með sveigjanlegan vinnutíma, þegar maður tefst við blogg og kaffidrykkju snemma á morgnana Wink


mbl.is Göngin upp úr skúffunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér að mestu Guðbjörn en ef unnt er að koma því þannig fyrir eins og Spalarmenn hafa í hyggju að tvöföldun ganganna verði upphaflega fjármögnuð án aðkomu ríkisvaldsins þannig að hægt sé að byrja sem fyrst, þá findist mér ekki rétt að standa í vegi fyrir því. Eins og atvinnuástandið er núna þá finnst mér mikilvægara að eitthvað stórt fari í gang fljótlega heldur en nákvæmlega hvað það er. En tvöföldun ganganna er reyndar mjög arðbær framkvæmd hvernig sem á það er litið.

Varðandi Sundabraut þá virðist hún dæmd til þess að þvælast um í kerfinu í nokkur ár í viðbót. Á hátindi góðærisins myndaðist samstaða um það í borgarstjórninni að stefna ætti á jarðgangaleiðina í stað "eyjaleiðar" Vegagerðarinnar. Þeir sem til þekkja vita að kostnaðaráætlanir vegna jarðgangaleiðarinnar voru alltaf fáránlega bjartsýnar, líklegast er að kostnaðurinn yrði ekki undir 30 milljörðum og sennilega nær 40 milljörðum. Kostnaðarmunurinn á milli jarðganga- og eyjaleiðar er svo há upphæð að hún myndi sennilega duga fyrir tvöföldun vegarins upp í Borgarnes auk tvöföldun Hvalfjarðarganga. Þetta vita borgarfulltrúar en þeir eru búnir að mála sig út í horn með því að gera óraunhæfa jarðgangalausn að baráttumáli sínu. Þess vegna sleppa þeir því einfaldlega að tala um Sundabraut.

Bjarki (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 08:39

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Er þá ekki betra að sleppa tónlistarhöllinni með öllu og helga sig að vegagerð eins og þjóðir gera allmennt í kreppu. Hvalfjarðargöng eru far out og ekkert nauðsynleg. Það sjá smá börn. Skil ekki hvernig einhverjum hefir dottið það í hug.

Valdimar Samúelsson, 27.5.2009 kl. 08:54

3 identicon

Vil benda á að það eru nánast aldrei tafir í göngunum sjálfum - þær eru eiginlega alltaf við gjaldskýlið. 

Með því að fjölga gjaldskýlum og starfsmönnum þeirra í kringum helgar á sumrin, þá mætti sjálfsagt koma í veg fyrir flest allar tafir - og kostar nánast ekkert...!

Held að Spölur vilji aðallega fara í þessa framkvæmd til að geta haldið áfram gjaldtöku af okkur - því þeir þurfa að sjálfsögðu að greiða lífeyrissjóðunum tilbaka lánið.

Hlynur Hendriksson (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:20

4 identicon

Það er nú gott að menn séu á móti því að sköpuð sé atvinna. Málið er að Spölur getur sett upp tollhlið í göngin en ekki á tvofaldan Vesturlandsveg. Þetta er fjárfesting fyrir Lífeyrissjóðina. Spölur er fyrirtæki sem stendur vel með öruggar tekjur. Það er ekki endilega góð fjárfesting fyrir þá að lána ríkinu pening í vegagerð.

Óli (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:23

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Varðandi hvað sé aðkallandi í vegaframkvæmdum. T.d hálendis vegir og gera betra hvíldaraðgengi sérstaklega norður til Akureyrar en það er alveg vöntun á útafkeyrslu stöðum. Kjölur gæti gefið af sér í sparnaði fyrir frakt trukkanna og rútuferðir en aftur hvalfjarðar göng eru bara jók og hræsni.

Valdimar Samúelsson, 27.5.2009 kl. 09:33

6 identicon

Núverandi umferð um Hvalfjarðargöngin daðrar við það mark þar sem evrópskar öryggisreglur gera kröfu um að umferðarstraumar séu aðskildir í tveimur göngum. Fullvíst er að umferðin fer yfir það mark á næstu árum. Það má vel vera að slíkar öryggiskröfur hljómi öfgafullar en þær eru settar af gefnu tilefni í kjölfar hörmulegra slysa í jarðgöngum á meginlandinu. Ég veit að Guðbjörn er mikill Evrópusinni og hlýtur að vera samþykkur því að tilskipun 2004/54 um öryggi í jarðgöngum gildi fyrir Íslendinga eins og aðra Evrópubúa. Upphaflegur samningur Spalar við ríkisvaldið gerði ráð fyrir innheimtu veggjalda í 20 ár (til 2018) en að þeim tíma liðnum hefðu lánin verið greidd niður og göngin yrðu afhent ríkinu. Ég held að eðlilegast sé að halda óbreyttu veggjaldi til 2018 eins og upphaflega var gert ráð fyrir, það mun duga til þess að greiða niður lánin fyrir fyrstu göngunum og fyrir hluta af síðari göngunum. Ríkið yfirtekur rest þegar þar að kemur.

Bjarki (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:59

8 identicon

Sammála um að það eigi að bíða með göngin.Það ætti að byrja á því að tvöfalda Kjalarnes og gera eyjaleiðina út í Grafarvog

En þú talar um hraðbrautina til Keflavíkur, er ekki kominn tími til að nýta þessa fjárfestingu til fulls og leyfa 120 km hraða. Danir voru að hækka hraðann á sínum sambærilegu hraðbrautum frá 120 í 130km nýlega. 

Manni dettur í hug að pólítíkusarnir vilji ekki stytta leiðina/tímann til Keflavíkur því þegar það tekur aðeins 20 mínútur að keyra, þá sé augljóst að innanlandsflugvöllurinn eigi heima þar. Eða er Íslendingum einfaldlega ekki treystandi til þess að keyra á 120 km hraða? 

olaf (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 10:56

9 identicon

Mætti kannski benda bloggaranum á að það yrði nú erfitt að tvöfalda Vesturlandsveginn alla leið til Borgarness nema að tvöfalda göngin líka, nema ætlunin sé að tvöfalda Hvalfjarðarveginn. Tvöföldun Vesturlandsvegar til Borgarness er samt sem áður góð hugmynd en er í þeim vandræðum að það þarf að hanna og fá leyfi - nema Vegagerðin sé með slíkt klárt nú þegar.

Persónulega held ég samt að tvöföldun ganganna sé hvort eð er bara spurning um tíma og því ekki vitlaust að byrja að huga að þeim. Vandamálið er að sú vinna mun ekki nýtast mikið við að leysa núverandi vanda þar sem langan tíma tekur að hanna slíkt mannvirki, fá fyrir það öll tilskilin leyfi og þess háttar áður en hægt er að byrja að bora. Ef vinnan er sett í gang núna er hætt við að mannaflaþörfin verði mest á næsta uppsveiflutoppi í stað þess að nýtast í niðursveiflu.

Væri kannski minna mál að skoða hvort hægt sé að fara í 2+1 veg frá Borgarnesi til Akureyrar meðan verið er að ganga frá hönnun og leyfum fyrir framkvæmd í kringum Höfuðborgarsvæðið, það ætti varla að þurfa mikið leyfisvesen í kringum það þar sem einungis væri verið að breikka núverandi veg - svona til að koma einhverju af stað. Tek það fram að þessi hugmynd er fyrst og fremst byggð á þeirri ályktun að ekki séu klár nein leyfi fyrir tvöfaldanir í kringum Höfuðborgarsvæðið og að byggja 2+1 veg á vegum sem síðan ætti að tvöfalda fljótlega á eftir væri frekar mikil sóun.

Gulli (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 11:18

10 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

með því að hleypa umferð óheft í gegn á mestu álagstímum án þess að taka gjald, þá má spara heil auka göng.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 27.5.2009 kl. 11:25

11 identicon

"með því að hleypa umferð óheft í gegn á mestu álagstímum án þess að taka gjald, þá má spara heil auka göng."

Þetta er misskilningur. Spurningin um aukagöng eða ekki snýst ekki um tafir við gjaldskýlin. Þó að engin gjaldtaka væri til staðar þá er fyrirsjáanlegt að það þarf að tvöfalda göngin á næstu 10 árum til að uppfylla öryggisstaðla.

Ég held að tvöföldun vegarins á Kjalarnesi sé kominn nokkuð áleiðis í hönnunarferli þannig að sennilega er það sá hluti sem hægt er að byrja á fyrst. Það er líka búið að vinna mikla undirbúningsvinnu fyrir ný Hvalfjarðargöng þannig að það þarf ekki að taka svo ægilegan tíma að hefja framkvæmdir ef umhverfismat og slíkt gengur snuðrulaust fyrir sig. Um leið og ákvörðun er tekin um að fara í þær framkvæmdir verða auðvitað til mörg störf í kringum hönnun og undirbúningsvinnu.

Bjarki (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 11:37

12 identicon

Göng og vegagerð geta vissulega verið hagkvæmar fjárfestingar, sérstaklega þegar um er að ræða framkvæmdir svo nálægt Reykjavík, svo sem hér er talað um (ekki held ég að arðsemi Héðinsfjarðarganga sé hins vegar mikil). En framkvæmdir af þessu tagi eru kannski ekki heppilegasta "atvinnubótavinna" sem hugsast getur, þar sem til hennar þarf að kosta miklu af innfluttum aðföngum, svo sem dýrum vélum og eldsneyti á þær. Mér finnst ég knúinn til að benda á "atvinnubótavinnu", sem nær eingöngu felur í sér innlend aðföng (og þ.a.l. fer mestur hluti kostnaðarins í innlend vinnulaun). Það er skógrækt. Hún mun auk þess skila miklum arði til framtíðar, skapa nýja auðlind, sem t.d. í Finnlandi er jafnþýðingarmikil og fiskimiðin eru fyrir okkur. Þar að auki bindur uppvaxandi skógur kolefni, sem auðveldar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar án þess að þurfa að draga eins mikið úr beinni losun gróðurhúsalofttegunda og ella. Ég veit, að sumir náttúruverndarmenn, eins og tveir fyrrverandi umhverfisráðherrar, mega helst ekki heyra á þetta minnst, því aukin skógrækt gæti orðið til þess að ekki þurfi að hefta atvinnulífið jafnmikið og ella, en þær Kolbrún og Þórunn telja, að hluti þess að standa við hinar alþjóðlegu skuldbindingar í loftslagsmálum verði að felast í því að hefta atvinnulífið (við verðum að þjást, annars er ekkert að marka!). En fyrir loftslagið og hinar alþjóðlegu skuldbindingar er binding kolefnis með skógrækt jafngild leið eins og tilsvarandi minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda.

S.Á. (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 12:09

13 Smámynd: Héðinn Björnsson

Stórefa að vegagerð sé góð leið til að efla hagkerfið þar sem þau kosta okkur of mikinn erlendan gjaldeyri.

Héðinn Björnsson, 27.5.2009 kl. 13:41

14 identicon

S.Á. Skógrækt væri eins og þú segir ekkert annað en atvinnubótavinna og hún á aldrei eftir að skila þjóðinni neinum tekjum sem tekur því að tala um, þó ekki væri nema bara að benda á þá einföldu leið að hvergi á landinu hefur tekist að rækta nytjaskóg sem hefur möguleika á að verða samkeppnisfær við Rússland, Eystrasaltslöndin, Finnland, Svíþjóð, Noreg, USA og Kanada svo maður nefni nú bara næstu löndin. Þar að auki er meiri hráefnisframleiðsla ekki það sem Ísland þarf ef það ætlar að skríða úr þessu þriðja heims stigi sem það er ennþá á.

Kosturinn við vegagerð er að það er infrastrúkturvinna, það er verið að bæta samgöngur innanlands og það er hlutur sem verður ekkert tekinn niður aftur og skilar ekki tapi nema menn fari að leggja hraðbrautir milli einhverra smáþorpa. Það kostar vissulega eitthvað af gjaldeyri að flytja inn olíu á tækin en það þarf ekki að fara að flytja inn tæki, nóg er af þeim í landinu.

Héðinn, aukin velta í hagkerfinu eflir það svo framarlega sem ekki er verið að henda peningunum út um gluggann, vegagerð kemur fjármagni á hreyfingu innanlands og þó það kosti eitthvað af gjaldeyri er ansi hæpið að það verði meira en gróðinn af aukinni veltu. 

Gulli (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 17:56

15 identicon

Tvöföldun Hvalfjarðarganga er náttúrulega algert bull.  Tappinn í umferðinni í göngunum er ekki vegna þess að þau séu of mjó, heldur vegna þess að miðasölukofinn annar ekki umferðinni.  Ef það væri komin tvöföld akbraut norður til Akureyrar, gæti ég vel sætt mig við að keyra á einfaldri akrein gegnum Hvalfjarðargöngin a.m.k næstu hundrað árin eða svo.

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 20:22

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gísli:

Þú ert að lesa hugsanir mínar! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.5.2009 kl. 22:06

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Valdimar:

Mér þætti súrt í broti ef Tónlistarhúsinu yrði frestað og ef það verður gert, verður a.m.k. að klára húsið að utan til að verja það skemmdum og halda áfram með húsið við fyrsta tækifæri!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.5.2009 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband