Að standa frammi fyrir nokkrum slæmum kostum og þurfa að velja

Varðandi lausn Icesave deilunnar stóð ríkisstjórnin frammi fyrir nokkrum slæmum kostum og þurfti að velja milli þeirra. Ein leiðin - og sú sem myndi hugnast mér best, þ.e.a.s. ef hjartað eitt réði för - er að borga hreinlega ekki til baka þessar innistæður Hollendinga og Breta. Skuldir, sem óreiðumenn eða jafnvel landráðamenn og lygarar stofnuðu til í nafni þjóðarinnar. Skuldbindinga, sem vanhæf stjórnvöld virtust vart hafa gert sér grein fyrir, hvað þá reynt að koma í veg fyrir og leiddu þannig mikla ógæfu yfir íslenska þjóð.

Der BettlerHjartað eitt getur hins vegar ekki alltaf ráðið för í lífi manns, þótt maður eigi að sjálfsögðu alltaf að hlusta á það við afgreiðslu mála. Nei, skynsemin verður að ráða í málum sem þessum. Hafa þeir sem saka allt og alla um landráð og lygar hugleitt afleiðingar slíks gjörnings? Langstærstur viðskipta okkar er við lönd ESB. Heldur fólk að viðbrögð sambandsins yrðu engin ef við neituðum að standa við þessar skuldbindingar, hversu óréttlátar þær eru í okkar augum?

Þetta snýst að mínu mati um mikið meira en "inngangsmiða" inn í ESB. Borgum við ekki þessar skuldir er viðbúið að AGS hætti allri samvinnu við okkur og þar með einnig Norðurlöndin. Allar erlendar lánatökur yrðu ómögulegar og erfitt - ef þá yfirleitt mögulegt - að endursemja um lán orkufyrirtækjanna, sjávarútvegsins að ég tali nú ekki um endurfjármögnun viðskiptabankanna. Heldur fólk að við sem lítil eyja í Norður-Íshafi gætum komist lengi af með litlum sem engum viðskiptum við önnur ríki. Halda menn að Bandaríkin, Rússland eða Kína komi okkur til hjálpar. Er þetta fólk ekki með öllum mjalla? Í hverslags draumaheimi býr það?  

Það er kannski ljótt frá því að segja, en ég treysti engum betur en Steingrími J. Sigfússyni í þessu máli. Hafi hann komist að þessari niðurstöðu, er þetta líklega rétt niðurstaða. Þetta segi ég ekki af því að ég sé hrifinn af honum eða VG, heldur af því að hann er alltaf gjörsamlega fastur á sínu. Staðreynd er að Steingrímur og félagar vilja ekki inn í ESB og hafa því enga ástæðu til að vilja kaupa sig þar inn. Að auki er þeim félögum bölvanlega við AGS og þurfa því ekki að koma sér í mjúkinn hjá þeim. Þeir hatast út í innlenda sem erlenda fjármagnseigendur og þurfa því ekki að beygja sig í duftinu fyrir þeim. Síðan bætist við að afstaða þeirra til Breta í þessu máli hefur frá byrjun verið knallhörð. Ég þekki VG illa ef að þeir láta kúga sig til hlýðni í máli sem þessu, því það er of stórt til að fórna stundarhagsmunum fyrir, þ.e.a.s. að hanga í vinstri stjórn með krötunum.

Vinir mínir þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af því að ég sé genginn í VG! Nei, hér legg ég aðeins ískalt mat á hlutina eins og þeir blasa við mér. Nú er ég hins vegar á leið í sumarbústað og verð þar í viku og án tölvu.

Mynd: Der Bettler, Hans Wulz, 1949, Öl auf Leinwand, 130 x 130 


mbl.is Icesave-samningur gerður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Mæltu heill!

Eiríkur Sjóberg, 6.6.2009 kl. 13:34

2 Smámynd: Sigurgestur Guðlaugsson

Hér ert þú að rugla saman tveimur hlutum Guðbjörn minn.  Það er eitt að ákveða að það eigi að semja, það er annað að samþykkja niðurstöðuna.  Hér er verið að skuldbinda þjóðina fyrir 900 milljörðum króna.  Að einfalda málið svona er ekki inni í myndinni. 

Hugmyndinni um að við þurfum ekkert að borga fyrstu sjö árin, ber að taka eins og hverju öðru léttkaupa láni í Elko!  Það kann að vera af því hagræði, en við skulum ekki blekkja okkur, þetta er eitt stærsta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir.  Hvert prósent skiptir máli og á meðan vextir eru almennt í lágmarki í heiminum, erum við að taka á okkur byrðar sem eru algerlega úr samhengi við getu okkar eða ábyrgð í þessu máli. 

Sigurgestur Guðlaugsson, 6.6.2009 kl. 13:43

3 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæll Guðbjörn og takk fyrir friðsæla færslu á þessum óróatímum. :)

Af því að þú nefnir erlendar lántökur, til að endurfjármagna bankana os. frv. Langar mig að koma með smá hugleiðingu.

Það sem við íslendingar höfum klikkað illa á síðustu árin er að við höfum ekki gætt að því hvernig þjóðarbúið í heild getur greitt erlend lán til að byrja með. Það er eins og gömlum hugmyndum um viðskiptahalla hafi verið útrýmt á síðustu árum og hann ekki talinn vera vandamál. Það kom okkur heldur betur í koll. Ég er búinn að horfa með sívaxandi örvæntingu á þessa þróun síðustu ár og furðað mig á því hvert menn ætluðu eiginlega að stefna. Þetta gat ekki gengið upp og því kom hrunið mér síst á óvart. Erlend skuldasöfnun fyrir íslenskt hagkerfi er alveg sambærileg við neyslu-skuldasöfnun einstaklinga. Og það skiptir ekki máli hvort að það eru einstaklingar, fyrirtæki, eða ríkið sem hlaða niður erlendum skuldum - eftir stendur að greiða verður vexti og afborganir með útflutningi - gjaldeyri. Og það tekur alltaf langan tíma að byggja upp útflutnigsgreinar sem virka ss; Össur, Marel, CCP til að byggja tekjur á móti.

Hér hafa menn dottið í þann pytt að horfa til bandaríkjanna, sem skulda erlendis í gjaldmiðli sem þau geta prentað úr heiðskýru lofti. Gjaldmiðli sem heimurinn hefur treyst og tekið við ómælt síðustu áratugi. Þegar bandaríkjamenn vantar fé þá prenta þeir bara fleiri dollara (gefa út ríkisskuldabréf) og dollaraverðbólga rýrir síðan raunvirði skulda þeirra erlendis. Þetta er ótrúlegt kerfi sem hefur gerti þeim kleyft að láta allt reka á reiðanum um áratugaskeið.  Hverskonar  hag-samanburður við þeirra stöðu er því vonlaus fyrir öll önnur ríki í raun og háskalegt að horfa til þess hvernig þeir gera hlutina. (mesta spennan í heimshagkerfinu í dag er hversu lengi þetta fyrirkomulag stenst nú þegar skuldir bandaríkjanna eru orðnar ó-borganlegar og kínverjar hafa engan áhuga á að kaupa meiri dollaraskuldir)

Dr Michael Hudson sem hefur fylgst nokkuð með ástandinu hér eftir hrunið og kynnt sér málin sagði sem svo í grein nýverið.

"It [Iceland] has broken the cardinal rule of international finance: Never borrow in a foreign currency for credit that you can create freely at home."

Ég var alveg hjartanlega sammála honum og innti hann svara í fyrirspurnartíma á bloggi Láru Hönnu Einarsdóttur. Sjá spurningu númer 4. Svarið er fróðlegt.

Til gamans minni ég á kastljósviðtal við Björgólf Guðmundsson sem sagði eitthvað á þá leið - það vantaði alltaf gjaldeyri! Og var þá að vísa til seðlabankans væntanlega og meintan skort hans á því að taka meiri gjaldeyrislán sem hann gerði ekki sem betur fer. Merkilegt nokk þá vex gjaldeyrir ekki í seðlabankanum og Björgólfur og félagar hefðu e.t.v átt að hugleiða það þegar þeir reistu erlendar-skuldaskýjaborgir sínar hér og erlendis. Það var ótrúlegt að horfa upp á bankajöfurinn afhjúpa þekkingarleysi sitt í þættinum.

----------

Úr því sem komið er verður líklegast að samþykkja icesave málið til að halda frið við evrópuþjóðirnar eins og þú segir og vonandi gefst færi á að endurskoða þá samninga síðar t.d með breyttri ríkisstjórn í bretlandi.  þó að ég hefði kosið og kysi raunar enn að langtum meiri hörku væri beitt í málinu. Almennt séð eigum við íslendingar að reyna að standa við skuldbindingar okkar en við verðum að forðast í lengstu lög að bæta við meiri erlendum skuldum - hversu freistandi sem það kann að vera í bili.

Mér lýst einstaklega illa á hugmyndir um að endurfjármagna bankakerfið með erlendu lánsfé - af ástæðum sem ég hef þegar rakið. Erlendar skuldir bankakerfisins eru þarna einhversstaðar í dag og við verðum að leysa þær, en endurfjármögnun kerfisins til innlendrar starfsemi á ekki að gerast með erlendum lántökum. Jafn illa lýst mér á að taka enn erlend lán til að efla gjaldeyrisvaraforða seðlabankans - jafnvel upp í 600 milljarða eða hvað er verið að tala um. Þessar hugmyndir eru í takt við það sem kom okkur á skallann til að byrja með.

Mér finnst að við þurfum að hugsa okkar ráð upp á nýtt og gjalda varhug við ópum úr atvinnulífinu sem kallar á erlent fjármagn. Hversu vel hefur atvinnulífið nýtt það síðustu ár(atugi). Svar - illa, það hefur farið að mestu í neyslu hér innanlands, falsað upp krónugengið og í raun útrýmt ýmiskonar atvinnustarfsemi sem hefði ella skapað gjaldeyristekjur/eða sparað útgjöld. Þetta hefur verið varið með hagfræðipælingunni um hlutfallslega yfirburði. Sumt hefur ekki borgað sig að gera hér heima því að ódýrari lausnir voru í boði erlendis - og þessvegna betra að sleppa innlenda puðinu og gera eitthvað annað arðbærara hér heima. Gallinn er bara sá að þetta "hitt" fannst ekki í nægum mæli og erlend skuldasöfnun jókst bara enn meira. Hærri stýrivextir píndu síðan krónuna enn hærra - við þekkjum hvernig þetta gerðist.

Á ríflega 20 árum fórum við frá því að standa vel og yfir í gjaldþrot - og n.b það voru ekki bara bankarnir, allt heila systemið hjá okkur var í raun komið í þrot vegna erlendra lántaka að mínu mati. Ótrúlegt en satt og blasir við núna þegar aðgangur að meira erlendu lánfé þverr þá fellur spilaborgin.

Ef við ætlum að halda áfram á sömu braut þá komumst við aldrei út á almennilega sléttan sjó aftur - og verðum áfram og áfram að sæta hvaða afarkostum sem heimurinn býður okkur upp á í framtíðinni. Það er ekki innantómur frasi að við getum endað sem Argentína, því miður, og hættan liggur í erlendri skuldsetningu.  Með þessar lúkningu icesave málsins höfum við líklegast fyrirbyggt upptöku evrunnar gegnum myntbandalagið næstu 15 ár eða hver veit hvað.

Kv.



Ólafur Eiríksson, 6.6.2009 kl. 16:02

4 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Afsakaðu hvað þetta varð langt en ég hafði ekki tíma til að hafa þetta styttra.

Ólafur Eiríksson, 6.6.2009 kl. 16:02

5 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Ég játa að hafa ekki lesið yfir athugasemd Ólafs.  Ég prentaði hana út og ætla að lesa hana rólega yfir.

En.

Fólk tyggur í sífellu þá röngu fullyrðingu að íslenska ríkið ætli að greiða um 900 milljarða.  Þetta er svona "worst case scenario" sem engin ástæða er til að senda í loftið.

Hugmyndin er fyrst og fremst sú að reyna að hámarka eignir bankanna ytra og láta þær ganga upp í skuldir við viðskiptavini ICESAVE!  Þ.e. að íslenska ríkið borgi sjálft sem allra minnst!

Samningurinn sem nú um ræðir er afar hagstæður okkur að því leyti að hann er lending í málinu, opnar fyrir viðskipti við útlönd, losar eignir bankanna úr viðjum hryðjuverkalaganna, eykur traust á íslensku samfélagi og viðskiptalífi og er forsenda fyrir því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn komi inn með aukið fé til að styrkja við seðlabankann en lækkar samt skuldbindingar íslenska ríkisins til skamms tíma all verulega.  Þetta er því fyrsta skrefið í endurreisn athafnalífsins á Íslandi!  Nú eygjum við von um það að krónan geti farið að styrkjast á næstu misserum.  Gerist það þá lækkar heildarskuldbinding ríkisins hlutfallslega vegna ICESAVE reikninganna.

Mér finnst það raunar fagnaðarefni að þessi lending skuli vera komin í málinu.

Það er auðvitað ekki fagnaðarefni að ástandið sé yfirleitt eins og það er!  En það er önnur umræða.  Bendi á leiðarabréf Morgunblaðsins í dag sem rekur hinn glæpsamlega aðdraganda að ástandinu.

Verkefni stjórnvalda er ekki auðvelt.  Hvað sem gert verður mun hafa sársauka í sér fólginn.

En það verður að hefja aðgerðir.  Og nú eru þær hafnar.  Stjórnvöld þurfa á stuðningi og trausti að halda, enda engin ástæða til annars!

Eiríkur Sjóberg, 6.6.2009 kl. 17:47

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvernig stendur á því, að þú og fleiri Evrópubandalagssinnar mælið þessum Icesave-samningum bót, Guðbjörn flokksbróðir? Er það einskær tilviljun?!

Jón Valur Jensson, 6.6.2009 kl. 23:26

7 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Að láta sér detta í hug að skrifa undir þetta. ég á ekki orð
Mesti sorgardagur í seinni tíma sögu þjóðarinnar
Ég vona að ég vakni upp af martröðinni

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 7.6.2009 kl. 00:22

8 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Við þurfum öll að átta okkur á því að tímarnir framundan verða ekki jafn skemmtilegir og árið 2007.  Þetta er hinn kaldi veruleiki sem við blasir.  Og þar er EKKI við núverandi stjórnvöld að sakast!

Við munum öll finna sársauka á okkar eigin skinni.  Vonandi mun þó birta til aftur sem fyrst, ef til vill á næstu misserum.  Þó vona ég sjálfur að neysluæðið verði aldrei, aldrei eins og það var árið 2007!

Við sitjum öll í þeirri súpu sem útrásarvíkingar og fyrri ríkisstjórnir elduðu.  Enginn er undan skilinn.  Hin íslenska þjóð, hvert og eitt okkar, verður að bera birðarnarl.  Þann veruleika er ekki hægt að forðast.  Nú reynir á.  Hversu sterk erum við í raun?

Samningur ríkisstjórnar um ICESAVE er mikilvægt skref í átt til endurreisnar.  Ríkið hefur lagalegar, pólitískar og efnahagslegar skyldur til að ábyrgjast greiðslurnar.  Það þýðir EKKI að við sem einstaklingar og þjóðfélag ætlum að greiða þetta beint úr vösum okkar!!  Nú er það verkefnið að reyna að hámarka virði eigna bankanna ytra og láta þær ganga upp í skuldina við sparifjáreigendur og viðskiptavini ICESAVE.  Með þessu vinnst margt; deilunni um ICESAVE lýkur, Íslendingar taka að ávinna sér mikilvægt traust á ný, hryðjuverkalagaákvæðum verður létt af eignum bankanna ytra, seðlabankinn styrkir varaforða sinn, viðskipti taka að fara í eðlilegri farveg, athafnalífið hér eygir von um að komast í gang og krónan gæti styrkst á næstu misserum .  Ef krónan styrkist munu ábyrgðin gagnvart ICESAVE lækka í réttu hlutfalli!

Það er ekki eftir neinu að bíða.  Nú er endurreisnin hafin.  Ekkert af því sem verður að gera verður án sársauka.  Núverandi stjórnvöld standa frammi fyrir mjög erfiðu verkefni.  Þau þurfa á trausti að halda.  Ríkið á sér ekki tilvist í tómarúmi.  Ríkið er við.  Engin ástæða er til að ætla annað en að fólk starfi að heilindum að því að vinna sem best má úr hlutunum.

Mikilvægast er að koma hér athafnalífi í gang og að sem fæstir missi atvinnu sína.  Þetta hafa núverandi stjórnvöld að leiðarljósi.  Ennfremur að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins og styðja þá sem standa höllustum fæti.

Strax á næsta ári trúi ég að við byrjum að sjá verulegan árangur af störfum núverandi stjórnvalda - þ.e. að hér komist á stöðugleiki sem blása ætti okkur von í brjóst.

Munum þenna sannleika: Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér.

Eiríkur Sjóberg, 7.6.2009 kl. 11:17

9 Smámynd: Björn Heiðdal

Er Eiríkur Sjóberg að vinna fyrir áróðursdeild Samfylkingarinnar?  Það bara skiptir akkúrat engu einasta máli hvort krónan styrkist eða fellur áður en við byrjum að borga lánið! 

Hvernig færðu það síðan út að krónan geti styrkst með hækkandi skuldaklafa.  Erum við þá ríkari?

Björn Heiðdal, 7.6.2009 kl. 21:53

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ágætur félagar!

Ég var tæpa viku í sumarbústaði Tollvarðafélags Íslands í Úthlíð. Ég horfði á mikið af heimskulegum kvikmyndum og las 70% af Hruninu eftir Guðna Th. Jóhannesson.

Þvílík bók!

Ég mun melda mig á næstu dögum eftir lestur "Hrunsins" með nýtt blogg!

Eftir tæpar 300 síður:

"Þvílíkt klúður stjórnvalda og þings frá 2002"

Er hægt að láta sjá sig meðal siðmenntaðra þjóða næstu 20-30 árin? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.6.2009 kl. 22:38

11 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Sæll Guðbjörn

 Ja, þetta eru akkúrat hinar alvarlegu spurningar!

Mun fylgjast með blogi þínu áfram.  Þarf svo að lesa bókina...

Eiríkur Sjóberg, 12.6.2009 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband