12.6.2009 | 11:32
Hrunadansinn - dauðasyndirnar og höfuðdyggðirnar sjö
Ég átti afmæli 3. júní og þar sem móðir mín þekkir einfaldan smekk sonarins, gaf hún mér bókina Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Það er skemmst frá því að segja að bókin er reifara líkust, Þótt maður þekki að sjálfsögðu "plottið" og "karakterana" allt of vel kemur þar ýmislegt á óvart. Hefði einhver skrifað reifara með þessu innihaldi og gefið hann út fyrir jólin 2006 eða 2007 hefði hann í versta falli verið talinn landráðamaður en í besta falli fábjáni og úrtölumaður.
Hvað á maður að segja að loknum 240 síðum í þessari frábæru bók? Á hverju á maður að byrja og á hverju á maður að enda í þeim ótal mistökum, sem gerð voru á liðnum 5-6 árum? Ég er sammála Mats Josefsson, ráðgjafa stjórnvalda við endurreisn fjármálakerfisins, og fjármálasérfræðingnum Kaarlo Jännäri, en sá fyrrnefndi sagði eitthvað á þá leið að meginábyrgðin lægi hjá eigendum og stjórnendum bankanna, á meðan sá síðarnefndi sagði að hugmyndafræðin á bak við bankana "að vaxa eða deyja" hafi verið meingölluð.
Síðan verður maður að sjálfsögðu að víkja að þætti stjórnvalda. "Vanhæf ríkisstjórn" hrópaði fólkið en átti auðvitað að hrópa "vanhæfar ríkisstjórnir". Sakarinnar var ekki einungis að leita hjá báðum ríkisstjórnum Geirs H. Haarde, heldur einnig hjá ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og þá ekki síður síðustu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Bankakerfið óx Íslandi yfir höfuð án þess að ríkisstjórnir, Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið, Viðskiptaráðuneytið eða Fjármálaráðuneytið gerði nokkuð í málinu. Að undanteknum nokkrum þingmönnum VG voru Alþingi og forsetinn stórir þátttakendur í klappstýruliðinu. Allar viðvaranir voru hunsaðar.
Á vísindavef Háskólans er smá pistill um dauðasyndirnar sjö, sem tóku að mínu mati um of völdin hjá okkur Íslendingum á undanförnum árum. Dauðasyndirnar sjö eru: hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi. Höfuðdyggðirnar sjö eru hins vegar: viska, hófstilling, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleikur.
Margir hafa talað um nauðsyn þess að við Íslendingar breyttum stjórnsýslu okkar og stjórnkerfi. Ekki ætla ég að efast um að þar þarf margt að skoða og margt sem má bæta. Aðrir tala um breytingar á lögum tengdum bönkum og fjármálafyrirtækjum og það er eflaust einnig rétt.
Ég vil þó meina að ekkert af því sem gerst hefur á Íslandi - og í heiminum öllum - hefði átt sér stað, hefðum við öll verið á varðbergi gagnvart dauðasyndunum sjö og kannski borið gæfa til að halda höfuðdyggðunum sjö hærra á lofti en við höfum gert undanfarna áratugi.
Horfum meira inn á við.
Myndir: Bankabyggingar og Martin Luther
Bankarnir tóku mikla áhættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Facebook
Athugasemdir
HÖFUÐSYNDIRNAR SJÖ
Hitt er léleg þýðing úr Enskri tungu The seven deadly sins.
Við vitum betur minn kæri.
Höfuðsyndirnar eru sjö,
Náðargáfurnar eru sjö
og Vísindagreinarnar eru sjö.
síðan er að spila úr þessu öllu eftir bestu kunnáttu getu og vilja.
Beygja langanir undir skynsemina og viljann.
Allt þetta erl jóst og því úrvinnsluatriði, hvar menn brugðust og hvenr Græðgin bjó til Lygina og Hrokinn reyndi að breiða yfir systur sínar sviksemina og lygina.
m B kv.
miðbæjarihaldið
Bjarni Kjartansson, 12.6.2009 kl. 14:16
Ég er að lesa þessa bók og er eiginlega agndofa.
Sigurður Þór Guðjónsson, 12.6.2009 kl. 15:11
Bjarni:
Já, ég hélt að þetta væru einmitt höfuðsyndirnar, en rakst svo á þetta á vísindavef háskólans.
Ég sé að við erum að skilja þetta á saman hátt og það kemur mér ekki á óvart
Sigurður:
Já, agndofa er rétta orðið.
Þessi bók ætti að vera skyldulesning fyrir alla Íslendinga 16 ára og eldri.
Vandamál mitt er að ég get ekki lesið nema 30-40 síður, því þá er ég orðinn svo agndofa að ég verð að gera hlé á lestrinum.
Hvað var allt þetta fólk að hugsa? Hvernig gat þetta gerst? Ábyrgðarleysið, græðgin, tillitsleysið ...
Ég er eiginlega alltaf meira og meira að komast á þá línu að hér verði aðeins breytingar með því móti að algjör endurnýjun verði á flokkakerfinu. Er ekki nauðsynlegt að nýir flokkar verði stofnaðir á hægri og vinstri væng stjórnmálanna. Er Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og Framsóknarflokknum treystandi?
Ég er hálfringlaður eftir lestur bókarinnar og treysti engum og engu meir!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.6.2009 kl. 16:14
Ef maður er stórhuga af náttúrunni og ætlar að gera betur en vel fer oft verr en illa.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 12.6.2009 kl. 18:20
Ben.Ax.:
Já, satt segirðu.
Ég man að á sínum tíma, þegar ég gekk frá samningi mínum um séreignarlífeyrissparnað, gekk ég til fundar við minn banka Íslandsbanka og kannaði kjör þeirra. Þá talaði ég við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR), Kaupþing og Landsbankann.
Allir þessir aðilar buðu mér hreint ótrúleg kjör. Ég var til þess að gera nýfluttur frá Þýskalandi og þar var ávöxtunin mjög mikið lægri en hér á landi. Ég hugsaði með sjálfum mér, hvernig Íslendingar sem nýbyrjaðir voru í viðskiptum sem þessum gætu boðið mun betri kjör en þýskir bankar eða evrópskir. Voru þýskir bankamenn lakari en íslenskir?
Mér leist ekkert á þetta og hugsaði með mér að þarna væri maðkur í mysunni hjá Íslendingum og skellti mér á sparnaðinn hjá Allianz.
Það er stundum gott að treysta á tilfinningu sína fyrir hlutunum.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.6.2009 kl. 19:40
Guðbjörn!
Við virðumst vera að ná algerlega sameiginlegum skilningi á veruleikanum!!
Fyrir mér er orsökin að hruninu fyrst og fremst siðfræðileg. Þetta hef ég útskýrt áður.
Ég hef velt lengi fyrir mér verðmætamati fólks. Hvers virði eru hlutir raunverulega, t.d. ristavél? Í raun er hún einskis virði, nema í mannheimi. En siðferði er ávallt mikils virði, en þó ekki reiknað í krónum eða dollurum - þess vegna hefur efnishyggjan og Mammon (ég segi kapítalisminn (samt aðhyllist ég frjálsræði á markaði, athugaðu það!!)) teymt okkur langt af leið....
Svei mér þá, mér líst betur og betur á þig! A.m.k. vil ég fullyrða að ég skilji hvað þú ert að fara og að ég sé þér sammála!
Í íslensku samfélagi þarf margt að breytast og lagast! Fyrst er þó að átta sig á hvað raunverulega skiptir máli í lífinu og tilverunni og hvers konar samfélag við viljum byggja okkur og börnum okkar. Sú draumsýn ætti að móta athafnir okkar og meiningar.
Kær kveðja!
Eiríkur Sjóberg, 12.6.2009 kl. 21:59
ég verð að segja það Guðbjörn að þú færð marga plúsa í kladdann fyrir þetta blogg þitt, ég var að tala við einn af flokksmönnum þínum um daginn og hann gerði ekki annað en að bera allar sakir af sjálfstæðismönnum og kenna öllu öðru um en stjórnvöldum síðustu áratuga. Þú ert hreinskilinn og ég tek ofan fyrir þér, vildi að fleiri í sjálfstæðisflokknum væru svona hugrekkir.
Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 22:44
Kem til landsins í byrjun Júlí, kaupi þá bókina og hlakka til að lesa hana, það er að segja ef hún er þá ekki uppseld. Með beztu kveðju.
Bumba, 12.6.2009 kl. 23:18
Ég sé ekki betur en þú eins og flest allir misskilji ástæður "hrunsins". Skortur á höfuðdyggðunum sjö var ekki ástæðan. Heldur einmitt hið gagnstæða. Bankafólk og pólitískir kerfisskallar voru með von, trú og mikið hugrekki að leiðarljósi. Trú á eigin snilli, von að ekki kæmist upp um þá og hugrekki að þora þessu. Pólitíkusar trúðu á peningavaldið, vonuðu að FL Group og Sigurður Einarsson væru framtíðarstoðir Íslands og höfðu hugrekki til að halda þessari vitleysu til streitu fram í dauðann.
Eiginlega má segja að syndunum og dyggðunum hafi verið blandað saman. Hroki, ágirnd, munúðarlíf, hugrekki, von og trú ásamt kannski virðingarleysi voru höfuðdyggðir hins nýja Íslands undir forystu Davíðs og Ólafs Ragnar Grímssonar.
Björn Heiðdal, 13.6.2009 kl. 07:38
Sæll Guðbjörn,
Ég tek undir með syndirnar sjö, og skrifaði reyndar um það grein í November undir yfirskriftinni, Sjö skýringar á hruninu.
Tel reyndar að allar skýrslur, lærðar og leiknar munu komast að sömu niðurstöðu, það er að; of margir féllu í of margar dauðasyndir samtímis.
Þetta var svona ókeypis framlag á skýrslu (m) sem myndi spara margar milljónir, og jafnframt að hvetja ráðamenn frekar til að ganga í rannsóknir á meintum glæpum. Held að enn rúmum 7 mánuðum síðar, sé verið að semja skýrslur, og það sem grátlegra er ....... enginn hefur verið ákærður!
Hér er greinin: Sjö skýringar á hruninu.
http://jennystefania.blog.is/blog/jennystefania/entry/721617/
Jenný Stefanía Jensdóttir, 13.6.2009 kl. 08:01
Eiríkur:
Það eru svo ótalmargir á okkar skoðun núna. Þeir eru svo margir að ég held að ekkert annað blasi við en að stofna nýjan stjórnmálaflokk - flokk miðju- og hægrimanna, þ.e.a.s. þeirra sem aðhyllast markaðsfyrirkomulag án öfga til vinstri eða hægri. Framsóknarflokkurinn virðist hafa ætlað sér að hirða okkur þessa villuráfandi sauði. Þótt ég hafi að sjálfsögðu kosið sjálfan mig í síðustu kosningum varð ég að gera það með óbragð í munninum eftir afrek flokksins undanfarin ár.
Ragnar:
Raunsæi er orðið - það er ekki hægt að verja þetta, bara ekki hægt!
Bumba:
Hún verður prentuð aftur og aftur!
Sigurbjörg:
Takk fyrir þetta.
Björn:
Þegar hlutirnir eru drifnir áfram af dugnaði, en af hroka, ágirnd með munúðarlíf að markmiði er ekki hægt að tala um hugrekki, von og trú en vissulega einkenndist hegðun þessara manna af virðingarleysi.
Það má einnig gagnrýna okkur sem fylgdumst með af hliðarlínunni og gerðum ekki neitt. Hversu oft höfum við íbúar heimsins ekki gert það, þegar grimmdarverk eða önnur óhæfuverk hafa verið framin allt í kringum okkur?
Jenný:
Já, þakka þér fyrir þetta.
Ég skrifaði grein í haust þar sem ég minntist á nokkrar þessara synda, en áttaði mig síðan núna á því að þetta fólk brást á allan hátt!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 09:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.