Sjálfstæðisflokkurinn endurskoði afstöðu sína

Ísland - ESBAð tæp 60% landsmanna séu hlynntir aðildarviðræðum við ESB er niðurstaða sem kemur mér ekki á óvart. Þrátt fyrir að andstæðingar ESB hafi unnið mjög ötullega gegn aðildarviðræðum undanfarna mánuði og ár hafa landsmenn ekki látið glepjast af þeim ósanngjarna áróðri. Þannig hefur klúðrið með Icesave reikninga Landsbankans alfarið verið útskýrt með "meingallaðri" reglugerð ESB, en ekki með því að stjórnendur Landsbankans fóru offari í útrás sinni og gáfu út skuldabréf þar sem við - óafvitandi - reyndumst vera ábyrgðarmenn. Reglugerðin er að vísu stórgölluð, en það vorum við sem áttuðum okkur ekki á "gatinu" í reglugerðinni og það voru íslensk stjórnvöld, sem ekki stóðu sig ekki við eftirlit og í aðhaldi við þessar bankastofnanir.

Á sama hátt hefur ESB verið lýst sem ólýðræðislegu bákni og því haldið fram að við Íslendingar töpuðum sjálfstæði okkar við inngöngu í ESB. Því hefur verið logið að við töpuðum yfirráðum okkar yfir fiskimiðunum og öðrum auðlindum, að landbúnaður legðist af á Íslandi, að Jón Sigurðsson - einn frjálslyndasti og víðsýnasti maður sem landið hefur alið af sér - myndi snúa sér við í gröf sinni gengjum við til liðs við ESB og svona mætti lengi telja. Að gera látnum manni upp skoðanir er hjákátlegt og samlíking ESB aðildarsamnings við Gamla sáttmála er í besta falli grátbroslegur "málflutningur" að ég tali nú ekki um þegar ESB andstæðingar byrja að líkja ESB við Þriðja ríki Adolfs Hitlers eða Sovétríki Jósefs Stalíns! Málefnalegur rökstuðningur er þessum mönnum víðs fjarri og frekar er leikið á tilfinningar almennings með hræðsluáróðri, ýkjum og ósannindum.

NATOStærstur hluti þjóðarinnar veit að ESB er hvorki gallalaust né allsherjarlausn á vandamálum landsmanna eins og þau blasa við okkur í dag. Íslendingar sjá hins vegar að ESB aðild og evran gæti verið stór hluti af framtíðarlausn okkar mála, þar sem slík aðild gæti tryggt þann stöðugleika sem okkur bráðvantar nú sem svo oft endranær. Þannig mætti koma í veg fyrir hörmungar líkar þeim sem dundu yfir okkur í haust sem leið og riðið hafa yfir okkur með reglulegu bili frá stofnun lýðveldisins. Íslendingar vita einnig að aðild að ESB snýst ekki einungis um evruna, heldur um náið pólitískt samstarf, sem hefur göfug markmið að leiðarljósi. Slíkt samstarf hugnast þjóðinni vel og hún er hvergi bangin. Við höfum jafnan komið ár okkar vel fyrir borð í slíku samstarfi. Þjóðin sá að þegar hrunið varð í haust og við snérum okkur til Bandaríkjanna, ESB, Norðurlandanna, Rússlands eða Kína var takmarkaða hjálp að fá. Við vorum lítil, varnarlaus og vinafá þjóð í Norður-Atlantshafi, sem enginn hafði áhuga á að hjálpa, þótt sumir sæju sig tilneydda. Þjóðin hefur áður áttað sig á að einmitt litlar þjóðir þurfa á öflugum bandamönnum að halda, að alþjóðasamstarf og samstarf við aðrar Evrópuþjóðir hefur skilað okkur meiri árangri en að hokra hér ein og óstudd í einangrun langt norður í ballarauga.

UNOÞegar kemur að því að greiða atkvæði um aðildarviðræður í sumar, og síðar um aðildarsamning við ESB, verður Sjálfstæðisflokkurinn að gefa þingmönnum sínum ótakmarkað frelsi til að greiða atkvæði eftir eigin samvisku. Hvorki þingflokkurinn eða aðrar stofnanir flokksins geta leyft sér að taka afstöðu með eða gegn aðild, því málið er alltof umdeilt innan raða flokksmanna og innan raða fyrrverandi og núverandi kjósenda flokksins.

Taki þingflokkurinn - eða aðrar stofnanir flokksins - einarða afstöðu gegn ESB aðild við umfjöllun málsins á Alþingi í sumar, eða lýsi hann fyrirfram slíkri afstöðu yfir varðandi aðildarsamning, mun ég fyrstur manna verða til þess að ganga úr Sjálfstæðisflokknum og stofna annan hægri flokk á Íslandi.

Ég veit að ég er ekki einn á báti í þessu máli.


mbl.is 58 prósent fylgjandi ESB-viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

'Islenska Lýðveldið hefur aldrei staðið tæpara.Verðum að halda þannig á málum að ungt og duglegt fólk haldist á Eyjunni, að eftir 10 ár verði ekki stór skörð komin  í aldurshópin 20-45 ára.

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 10:19

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hörður:

Einhver góður maður orðaði þetta þannig að annaðhvort kæmi ESB til Íslands eða Íslendingar færu til ESB!

Ég veit að börnin mín - sem eru með tvöfalt ríkisfang: Ísland/Þýskaland - munu öll þrjú hverfa af landi ef lífskjör hér á landi versna til muna. Gamla settið verður eftir á Íslandi, enda orðið of seint að koma aftur undir sig fótunum í Þýskalandi. Maður á þó kannski ekki að útiloka neitt! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 10:28

3 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég var á aðalfundi sjalfstæðisflokksinns og þar er andstaðan alger gegn ESB. Ég mundi segja 90%

Fylgið er bundið við 101 Reykjavík. Fylgið við ESB er bundið við fólk sem er á launum hjá ríkinu og vill skiljanlega stöðugleika og þá sem hafa lifibrauð af innflutningi.  Framleiðslu og verðmætasköpun sem ég vil kalla raunhagkerfið hefur ekki ávinning af því að ganga í ESB.

Eitt sem ég vil benda á að ef við hefðum verið með evru sem ég held að flestir gæti samþykkt eina sér þá væri Ísland orðið gjaldþrota núna og alger peningaþurrð í landinu. sennilega ekki einu sinni fyrir brauð og mjólk.  Með krónuna gátum við bjargað innistæðum hérlendis og haldið efnahagskerfinu gangandi því við höfum valdið á peningaprentun og við höfum nógan mat 

Á næstu tveim árum munum við þakka fyrir að hafa valið að standa fyrir utan því kreppan er ekki byrjuð í ESB. Þar er ósprungin fasteignabóla sem er 4 sinnum verri en í USA afleiðangar samdráttar í útflutningi frá ESB upp á 30-40% er ekki kominn í ljós. Hrunið í austur Evrópu  á eftir að fella marga Banka og þar gæti Svíþjóð lent illa í því

Það er margkannað hvað við fáum hjá ESB. Við þurfum ekki annað en að skoða 15 samninga annarra þjóða. Tímabundnar undanþágur og evru eftir 10 ár en eftir að Icesave fáum við evru aldrei

Því miður er þetta alger tímasóun að vera hugsa um þetta og raunverulega bara grátlegt núna

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 13.6.2009 kl. 10:54

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar Ásgeir:

Þið ESB andstæðingar innan Sjálfstæðisflokksins ruglið alltaf saman landsfundarfulltrúum annars vegar og kjósendum flokksins hins vegar. Hefði verið boðið upp á almennilegan hægri valkost í síðustu kosningum hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið í mesta lagi 15% og þetta er staðreynd. Nýr og heiðarlegur hægriflokkur með ESB aðild á stefnuskrá hefði getað fengið 20-25% og gerbreytt pólitísku landslagi á Íslandi. Þessi möguleiki er enn fyrir hendi og kannski fýsilegur kostur.

Mér er það hins vegar ljóst að harðasti kjarninn innan flokksins, sem gerir alltaf eins og forustan segir, er andsnúin aðild. Mér er líka ljóst að þeir sem hafa hagsmuni sína af sjávarútvegi og landbúnaði halda að hagsmunum þeirra sé betur borgið utan ESB en innan. Þetta fólk á meira heima úti á landi og þar af leiðandi er fjöldi þeirra meiri þar. Mér er líka ljóst að í "lýðræðisríkinu" Íslandi vigta atkvæði sjálfstæðismanna úti á landi tvöfalt á við atkvæðin í Reykjavík eða í Kraganum. Þetta skekkir að sjálfsögðu myndina töluvert. Því ríður á að leiðrétta þetta misvægi að fullu.

Þið andstæðingar ESB eruð búnir að spá hruni evrunnar og endalokum sambandsins í nokkur ár. Staðreynd er hins vegar að ESB og evran stóðu af sér með miklum ágætum verstu kreppu frá árinu 1929. ESB stendur sterkum fótum þrátt fyrir heimskreppuna og hefur enn einu sinni sannað gildi sitt.

Það er aldrei meiri ástæða til að skoða ESB aðildar en einmitt núna og það strax! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 11:23

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Raunverulega ætti fjöldi fulltrúa á Landsfundi flokksins að endurspegla fjöldann í viðkomandi sveitarfélagi. Þannig ættu 64% landsfundarfulltrúa að koma frá höfuðborgarsvæðinu og 36% úr landsbyggðarkjördæmunum. Ég er hræddur um niðurstaðan á landsfundi hefði þá verið önnur?

Einnig ber að athuga að fjöldi sjálfstæðismanna hefur til þessa verið einna mestur í á höfuðborgarsvæðinu og af þeim sökum ætti meirihluti fulltrúa landsfundar að koma þaðan, þ.e.a.s. ef það er vilji flokksmanna að fundurinn endurspegli rétt hlutföll í landinu og sé á þann hátt "lýðræðislegur" fundur! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 11:29

6 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég vil bæta við Fasteignabólan í USA var upphaf kreppunnar.  Hagspekúlantar telja að botni kreppunnar verði náð þegar fasteignaverð fer að hækka í USA. Verðið þar fer enn lækkandi.  ESB er sennilega 12-18 mánuðum á eftir í kreppuferlinu og stafar það fyrst og fremst vegna þess að fólk sem kaupir fasteignir í Evrópu er losnar ekki við skuldirnar með því að skila eigninni eins og í USA

2007 vorum byggðar 700 þúsund  íbúðir á Spáni. Á Írlandi standa 500 þúsund íbúðir tómar á sama tíma voru byggðar 1400 þúsund íbúðir í USA en Bandaríkjamenn er 7sinnum fleiri. svona er þetta um alla Evrópu.

Þetta getur ekki annað en splundrast í loft upp.

Núna er málið passa upp á okkur sjálf og hafa augun opin um hvað gerist á næstu árum í kringum okkur

Það eiga eftir að verða miklar breytingar á næstunni

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 13.6.2009 kl. 11:33

7 identicon

Auðvitað á að drífa í þessu sem allra fyrst.

En taktu eftir því að hlutfallið er 70/30, þ.e. að meira en tvöfalt fleiri vilja aðildarviðræður en ekki. Það er mjög afgerandi niðurstaða.

Auk þess er þetta alvöru könnun, ólíkt skrípinu sem kom frá Heimssýn í vikunni. Þar létu fjölmiðlar blekkjast, einsog svo oft áður, kunna ekki með tölur að fara. Sú "niðurstaða" var fullkomlega ómarktæk en látið var með hana einsog einhverja frétt.

Þorfinnur (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 11:43

8 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég var ekki búin að lesa svarið þitt þegar mín kom en þarna fórstu alveg með það. ég vissi ekki betur en að seinni heimstyrjöldin væri talin afleiðing af kreppunni 1929. Annað er að evran er ekki ekki nema 10 ára gömul og hefur aldrei þurft að takast á við kreppu fyrr en nú

Sonur minn er í verkfræðinámi í þýskalandi og tjáði mér það að evrurnar væru merktar viðkomandi löndum. Núna vilja allir losa sig við ítalskar, spánskar og írskar evrur í skiptum fyrir þar þýsku.  Ef þetta er ekki hættumerki á hruni þá veit ég ekki hvað

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 13.6.2009 kl. 11:46

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er athyglisvert að sjá það hér í innleggi þínu kl. 10:28, Guðbjörn, að þú hefur persónulegar fjölskylduástæður til að óska eftir Evrópubandalagsþátttöku. Ég hef fullan skilning á því viðhorfi þínu, en hvet þig til að láta það ekki glepja þér sýn á hin stóru hagsmunamál landsins í öllu þessu samhengi. Viltu framselja ÆÐSTA LÖGGJAFARVALD YFIR ÍSLANDI til Evrópubandalagsins (EB)?

Jón Valur Jensson, 13.6.2009 kl. 11:54

10 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá er landsbyggðin með 50% og höfuðborgarsvæðið með 50% á landsfundi en samkvæmt skoðanakönnunum er andstaðan gegn ESB langmest hjá sjálfstæðismönnum auðvitað.  Þú ert sennilega í vitlausum flokki

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 13.6.2009 kl. 12:07

11 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Valur:

Ekkert persónulegt við það að eiga börn sem eru 1/2 íslensk, 1/4 finnsk og 1/4 þýsk. Börnin mín tala að vísu ágæta þýsku en varla orð í finnsku.

Það er hins vegar rétt hjá þér að ég hef reynslu í að búa innan ESB því ég eyddi 12 árum þar í ágætis yfirlæti. Reynsla mín af verunni var alls ekki slæm.

Gunnar Ásgeir:

Ég horfði á sjónvarpsþátt á þýsku sjónvarpstöðinni ZDF fyrir nokkrum vikum, þar sem ýtarlega var farið yfir ESB og evruna m.t.t. þeirra efnahagsörðugleika sem geysa í sambandinu sem annarsstaðar í heiminum.

Það var niðurstaða allra sem talað var við að hér hefði verið um mikla prófraun að ræða fyrir sambandið og evruna. Ennfremur var skýrt frá því að sambandið og evran hefðu staðist þetta próf með mestu prýði.

Vissulega er mikið til af húsnæði á Spáni og Írlandi en það er þó ekkert í líkingu við þann fjölda íbúða sem er laus hér á landi! Það er sama hvert litið er að verktakar fóru algjörlega fram úr sér og ljóst að um nokkurra ára birgðir er að ræða af íbúðarhúsnæði.

Það verður þó að segja að fólk bjó þessum húsum í Bandaríkjunum og það fólk sem missir hús sín - hér á landi sem annarsstaðar - mun finna sér nýtt húsnæði og þau hús sem lenda á markaði munu á endanum finna nýja eigendur. það er eðli markaðarins að hann nær jafnvægi. Einhverjir Íslendingar munu með tímanum kaupa allar þessar lausu íbúðir og flytja í þær og sömu sögu er að segja um Spán og Írland.

Eðli málsins samkvæmt er ég í góðu sambandi við Þýskaland og horfi á þýskar sjónvarpsfréttir og fréttaskýringaþætti nokkrum sinnum í viku. Ég hef ekki séð að þar hafi verið fjallað um að Þjóðverjar séu í stórum stíl að spá í hvaðan evrurnar eru sem þeir handfjatla dags daglega.

Það eru allsstaðar til furðurfuglar, sem stanslaust spá heimsendi, bæði hér á Íslandi og annarsstaðar!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 12:12

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér fyrir svarið, Guðbjörn. En nú bíð ég eftir svari við minni stóru spurningu: Viltu framselja ÆÐSTA LÖGGJAFARVALD YFIR ÍSLANDI til Evrópubandalagsins?

Jón Valur Jensson, 13.6.2009 kl. 12:24

13 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Guðbjörn mun eiga ærið verk fyrir höndum að að reyna að sannfæra "flokk allra landsmanna" um evrópubandalagsaðild. Hann hlýtur einmitt að hætta pólitísku lífi sínu í þeim flokki með svona málefnalegu tali. Jón Valur er alltaf við sama heygarðshornið og ekkert nýtt sem þaðan kemur varðandi ESB. Gunnar Ásgeir heldur að þetta sé flokkspólitiskt mál. Það er það náttúrulega ekki frekar en bankamál eða sjávarúvegsmál eða menntamál. Aðild og skoðanir á ESB eru þverpólitískar sem gerir það spennandi. Hinsvegar er slíkt bandalag skuldbindandi. En það að standa utan bandalagsins er það líka. Æðsta löggjafarvald þjóðarinnar í innri málum verður á Íslandi. Íslendingar verða hinsvegar að afsala sér dómsvaldi sem lýtur að sameiginlegum hagsmunum borgara allra ESB landa. Það verða líka allar hinar þjóðirnar að gera og er því jafnt á með öllum komið. Ég ætla hinsvegar ekki að hafa uppi langt mál um þetta þar sem þeir sem eru á móti eru svo sannfærðir um eigin réttmætu skoðanir að í raun vilja þeir ekki umræðu um þetta og hertaka hverja vefsíðuna á fætur annari til að reka áróður sinn. En þökk sér þer Guðbjörn enn og aftur að synda gegn straumnum.

Gísli Ingvarsson, 13.6.2009 kl. 13:13

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar Ásgeir:

Ég er í þeim stjórnmálaflokki sem ég hef tilheyrt í áratugi og verið mest sammála í gegnum tíðina. Ég er hægri maður og styð grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins en er hlynntur ESB aðildarviðræðum og hef óbeit á þeirri spillingu og hagsmunagæslu sem flokkurinn hefur staðið í á undanförnum árum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara í gagngera hreinsun og ef ein hreinsun dugar ekki, þarf hann að fara í aðra hreinsun!

Samkvæmt skoðanakönnun, sem birtist einhvertíma í vor, voru 5 af hverjum 10 kjósendum Sjálfstæðisflokksins (N.B. kjósendum - ekki landsfundarfulltrúum) andsnúnir aðildarviðræðum við ESB, 4 af hverjum 10 fylgjandi aðildarviðræðum og einn af hverjum 10 óákveðinn. Ég er alltaf að tala um kjósendur og þú um landsfundarfulltrúa - þetta er ekki allt sama fólkið og hefur ekki sömu skoðanir og það veist þú mæta vel.

Ég vil að flokkurinn minn endurheimti sitt gamla fylgi (35-40%), en mörgum stendur greinilega á sama um það þótt ég og mínir líka hverfi á brott og flokkurinn endi í 10-15% fylgi. Gott og vel, samþykki þá afstöðu!

Það verður að skoða hvaða fylgi flokkurinn hefur á landsvísu núna og vægi atkvæða þar á bak við til að átta sig á afstöðu þingflokksins nú og á síðasta þingi:

  1. 23% í Norðvesturkjördæmi og 2 þingmenn (vægi atkvæðis: 2)
  2. 17,5% í Norðausturkjördæmi og 2 þingmenn (vægi atkvæðis: 1,7)
  3. 26 % í Suðurkjördæmi og 3 þingmenn (vægi atkvæðis: 1,5)
  4. 28% í Suðvesturkjördæmi og 4 þingmenn (vægi atkvæðis 1,0)
  5. 23% í Reykjavík suður og 3 þingmenn (vægi atkvæðis 1,2)
  6. 21% í Reykjavík norður og 2 þingmenn (vægi atkvæðis 1,2).

Samkvæmt upplýsingum á www.kosning.is voru 227.000 manns á kjörskrá.
Skipting þeirra eru gróft reiknuð þannig að á landsbyggðinni eru 82.000 á kjörskrá og á höfuðborgarsvæðinu 145.000 - skiptingin er því 64% á höfuðborgarsvæðinu og 36% á landsbyggðinni, þegar litið er til fjölda kjósenda.

Í dag eru 29 þingmenn af landsbyggðinni en 34 af höfuðborgarsvæðinu. Með réttu ætti fjöldi landsbyggðarþingmanna að vera 8 færri en í dag eða 21 þingmenn - þ.e.a.s. ef við Íslendingar byggjum við eðlilegt lýðræði Þingmenn höfuðborgarsvæðisins ættu hins vegar að vera átta fleiri eða 42. Við þetta yrðu hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins betur endurspeglaðir á Alþingi, m.t.t. ESB aðildar og ýmissa annarra mála s.s. kvótamálanna. Að mínu mati ættu íbúar Reykjaness - að Grindvíkingum frátöldum - að tilheyra höfuðborgarsvæðinu á einn eða annan hátt en ekki Suðurlandi, því þarna fara hagsmunir engan vegin saman.

Þetta gæti þýtt að u.þ.b. dreifbýlisþingmönnum Sjálfstæðisflokksins myndi líklega fækka um 3, 1 færi frá Norðvesturkjördæmi, hugsanlega 1 úr Norðausturkjördæmi og 1 úr Suðurkjördæmi. Þessir þingmenn færðust til Reykjavíkur og í Kragann.

Landsbyggðarþingmenn væru þannig á bilinu 4-5 í stað þess að vera 7-8 nú. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þyrfti að endurmeta sína afstöðu til ESB, því kjósendur á höfuðborgarsvæðinu eru mun hlynntari ESB en það fólk sem er úti á landi, sem er í raun aðeins um 1/3 af kjósendum flokksins á landsvísu.

Einnig myndu líklega tapast 2 þingmenn VG úr Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi og færast til VG á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að þingmenn VG á höfuðborgarsvæðinu eru mun hlynntari aðildarviðræðum en þeir sem eru úti á landi.

Þrátt fyrir að núverandi kerfi sé að mínu mati réttlátara en eldri kosningakerfi er misvægið á milli kjördæma eitthvað sem þarf að leiðrétta fyrir næstu kosningar, þ.e.a.s. ef við viljum teljast vestrænt lýðræðisríki. Ef við tökum þær prósentutölur sem flokkarnir fengu og margföldum þær í 63 þingmenn er útkoman þó næstum rétt, nema að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking græða eitthvað, líklega á því að vera þetta stórir stjórnmálaflokkar. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 13:34

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Valur:

Já, ég get hugsað mér að framselja hluta af löggjafarvaldinu til yfirþjóðlegrar stofnunar á borð við ESB, þar sem við höfum fulla aðkomu að málum. Það er hins vegar hálfpartinn óþolandi að taka við öllum þessum tilskipunum frá ESB, líkt og við nú gerum, án þess að geta haft á þær nokkur áhrif eða aðkomu.

Hvort við Íslendingar verðum með 3 eða 5 fulltrúa á ESB þinginu skiptir máli, en þó ekki höfuðmáli. Við höfum aðgang að þinginu - í raun með mun meira vægi atkvæða en fjöldi okkar Íslendinga segir til um - og að auki höfum við aðgang að öðrum valdastofnunum ESB, þar sem við getum komið okkar sjónarmiðum á framfæri, myndað bandalög með öðrum þjóðum sem eru sama sinni og greitt atkvæði. 

Það liggur í eðli sambandsins, að það fer ekki fram af hörku gegn aðildarríkjum sínum, heldur leysir sín mál í sátt og samlyndi. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það! Auðvitað þekkjum við ekki slík stjórnmál, enda vanir því að meirihlutinn kúgi minnihlutann á þingi, keyri allar breytingar fram með valdi meirihlutans, stundum með hraði í lok þingsins. Ákvarðanir - nú sem áður - eru síðan teknar í bakherbergjum (sennilega ekki lengur reykfylltum) án þess að þingheimur eða almenningur viti hvað um er að vera eða hafi þar nokkur áhrif á.

Það verður okkur Íslendingum lærdómsríkt að læra að stjórna með öðrum hætti, þ.e.a.s. samræðustjórnmálum og málamiðlunum. Mér sýnist ein kona innan Sjálfstæðisflokksins kunna tökin á þessu nú þegar og hún heitir Hanna Birna Kristjánsdóttir og er borgarstjóri í Reykjavík. Það er engin tilviljun að í borginni ríkir nú þokkaleg sátt, jafnvel við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 13:49

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gísli:

Samkvæmt www.kosning.is greiddu 44.369 kjósendur Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt. Þar af voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu 29.180 eða 65% á meðan 15.189 voru búsettir á landsbyggðinni eða 35%.

Líkt og ég skrifaði í fyrri athugasemd minni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 16 þingmenn hvort sem skipulaginu væri breytt eður ei. Samkvæmt ofangreindum útreikningi væri höfuðborgarsvæðið með 11 (9) þingmenn og landsbyggðin 5 (7) þingmenn. Ertu viss um að áherslur væru þær sömu og áður?

Staðreynd er að áherslur flokksins taka meira mið af 35% en 65% kjósenda flokksins og það er dauðadómur yfir flokknum til langframa!

Fólk er nefnilega ekki fífl! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 14:05

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, það er nefnilega atriði sem oft gleymist en er mikilvægt, að aðild að esb verður ins og vítamínsprauta fyrir stórnmál og stjórnarhætti.  Þarna fara íslendingar að vinna með öðrum þjóðum að málefnum ýmiskonar og þetta verður nokkurskonar skóli fyrir viðkomandi.  Mun verða eins og áburður á stjórnmála og stjórnháttartúnin.

Þó að hollur sé heimafenginn baggi sögðu gömlu mennirnir stundum að heimskt væri heimaalið barn.

Wade prófessor bennti líka nokkurnveginn á þetta vandamál í greininni um ísland á dögunum að ráðamenn flestir hefðu verið hugarfarslega einangraðir og ekki verið nógu víðlesnir og það sem verra var - ekki haft nokkurn áhuga á því vegna þess að mórallinn var að íslendingar kynnu og  gerðu allt (vegna einhverra dularfullra ástæðna) miklu betur en allir aðrir o.s.frv.

Vitnaði m.a. í orð fyrrverandi formanns stærsta flokks landsins lengi vel sem voru eitthvað á þá leið að ESB væri "ólýðræðislegast monster sem nokru sinni hefði verið skapað" 

Þetta sagði leiðtogi stærsta flokksins á íslandi - og flestum þótti bara vel mælt !

Var náttúrulega til athlægis á erlendri grundu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.6.2009 kl. 14:21

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ertu í alvöru sáttur við það, Guðbjörn, að við fáum 1/158 þingmanna (5 af 790) í Evrópuþinginu, þar sem samþykkt verða kringum 80% af löggjöf fyrir þetta land okkar og það með þeim hætti, að sú EB-löggjöf verði rétthærri en þau íslenzku lög, sem kynnu að vera ósamrýmanleg EB-lögunum? – Þetta er flýtissvar, en ég er til í að ræða þetta við þig betur.

Jón Valur Jensson, 13.6.2009 kl. 15:07

19 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Gunnnar. Síðast þegar ég vissi gat fólk á Spáni skilað lyklunum til bankans ef það réði ekki við kaupin. Ég þekki persónulega fólk sem hefur gert slíkt með engum eftirmálum.

Páll Geir Bjarnason, 13.6.2009 kl. 15:35

20 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Valur: 

Ef litið er til laga ESB er um afskaplega vandaða löggjöf að ræða. Við meðferð hennar eru umsagnir fengnar frá öllum fagaðilum og hagsmunasamtökum.

Sem formaður og varaformaður Tollvarðafélags Íslands átti ég sæti á mörgum fundum í Brüssel og víðar, þar sem tollalög sambandsins voru rædd. Ég verð að viðurkenna að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru eru til fyrirmyndar. Skatt- og tollstjóri ESB (Commissioner for tax and Customs) og starfsmenn hans komu og kynntu tillögur sínar og hlustuðu á gagnrýni auk þess sem hlustað var umsagnir o.s.frv. Á sama hátt gátu embættismenn viðkomandi landa (tollstjórar) komið fram með ábendingar og athugasemdir. Ég hafði það á tilfinningunni að menn hefðu - líkt og stjórnvöld hér á landi - einungis áhuga á að útbúa vandaða löggjöf, sem kæmi borgunum sambandsins að gagni.

Ég hef það á tilfinningunni að margir andstæðingar ESB hafi bara alls ekki kynnt sér hvernig þessum málum er háttað og hvaða áhrif er hægt að hafa.

Það má ekki dæma sambandið og löggjöf þess einungis út frá slæmri reynslu okkar Íslendinga af löggjöf ESB varðandi greiðslu fyrir Icesave reikningana Landsbankans. Stór hluti okkar löggjafar á rætur sínar að rekja til ESB löggjafar á einn eða annan hátt. Þannig er ESB löggjöf jafnvel skoðuð í málaflokkum, sem ekki heyra undir EES samkomulagið, vegna þess að löggjöfin er vönduð og útbúin af færustu sérfræðingum á hverju sviði. Það er jafnframt viðurkennt að ESB löggjöf er notuð sem fyrirmynd að löggjöf margra ríkja Afríku og Asíu, því hún er ein sú vandaðasta í heiminum. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 15:38

21 identicon

... Og nú heyrist ekki bofs í Jóni Val!

Árni Hallgrímsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 18:22

22 Smámynd: Björn Heiðdal

Vá, vá, ertu virkilega að segja að íslensk stjörnvöld hafi einungis áhuga á að útbúa vandaða löggjöf fyrir Íslendinga og það sé m.a. rökstuðningur við inngöngu í ESB því þar á bæ vilja menn líka vandaða löggjöf?

Síðan er alveg rosalegt að lesa eftir þig að sjálfstæðissinnar ljúgi því að ESB taki yfir stjórnun fiskveiða.  Hefur ESB ekkert með fiskveiðar í ríkjum sambandsins að gera?  Allt bara lygar kvótagreifa sem sleikja sólina í Flórída.  

Síðan ruglarðu saman einstökum löndum og skrifstofum ESB.  Sjálfsagt er gott að búa í Þýskalandi eða Svíþjóð og þar margt gott fólk en það breytir ekkert stefnu ESB í einhverjum málum.

Viltu í alvöru leiðrétta misvægi atkvæða á Íslandi en hefur ekkert út á misvægi atkvæði á ESB þinginu að setja.  Er þetta ekki einhver tvöfeldni?  Það mætti halda á skrifum þínum að engin bakherbergi séu í Brussel og þar séu allar ákvarðanir teknar fyrir opnum hurðum.  Er þetta eitthvað tollaragrín hjá þér?

Björn Heiðdal, 13.6.2009 kl. 18:34

23 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ýmislegt hefur þú á tilfinningunni, Guðbjörn, en finnst þér þetta í alvöru eitthvað til að treysta á og taka fram yfir að vera með æðsta löggjafarvaldið hér í landinu sjálfu? Heldurðu að Danir hafi ekki verið ögn fágaðri og heimavanari í stjórnsýslu- og löggjafarstarfi en við Íslendingar á 19. öld og að beita hefði mátt svipuðum býrókratískum "rökum" fyrir því að láta þá bara um alla löggjöf fyrir okkur? En hollur er heimafenginn baggi.

Þegar einu sinni er búið að afhenda löggjafarvaldið erlendum valdsstofnunum (Evrópuþinginu, ráðherraráðinu og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins)*, þá er hægara sagt en gert að beita sér í málinu eftir á til að endurheimta það vald inn í landið. Og hvað gera bændur þá?

Svo treystir þú þeim anda, sem var í þessum höfuðstöðvum, þegar þú áttir leið þangað (hefur eflaust fengið góðar viðtökur; getur verið að það hafi líka átt að villa fyrir þér sýn?). En nú vitum við, að það verða ekki alltaf sömu mennirnir sem ráða í Evrópubandalaginu. Um alllangt (kannski 15–20 ára) skeið hafa jafnaðarmenn og sósíalistar ráðið þar mestu, en nú mið- og hægri menn, sem juku meirihluta sinn verulega í síðustu EB-kosningum á dögunum. Segðu mér nú ekki, að þú trúir ekki gömlu nýlenduveldunum til þess að beita bandalaginu fyrir sig með síngjörnum hætti og taka þar upp harðari miðstjórnar- og hægri stefnu á komandi árum. En þú virðist bara ætla að treysta því, að þú getir áfram haft góða "tilfinningu" fyrir þessu. Það sýnist mér undarleg skammsýni, og hefurðu leyfi til að leggja fjöregg þjóðar, nú og til framtíðar, í hendur slíkra risa?

* Athugaðu, að allir þessir 785 þingmenn EB hafa ekki einu sinni vald til að leggja fram frumvörp á Evrópuþinginu – tillögurnar verða að koma frá framkvæmdastjórninni! (sjá t.d. töfluna á bls. 29 í ritinu Tengsl Íslands og Evrópusambandsins (með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", Rv. 2007). Ennfremur á ráðherraráðið ýmsa aðkomu að löggjöfinni.

Jón Valur Jensson, 13.6.2009 kl. 18:44

24 identicon

Góður pistill hjá þér. Af hverju stofnar þú ekki evrópusinnaðan hægri flokk á Íslandi? Ég gæti alveg hugsað mér að styðja þannig flokk.

Ína (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 19:50

25 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Vonandi verða 4 ár til næstu þingkosninga. Get ekki hugsað mér að ganga í gegnum aðrar slíkar í bráð. Á þeim tíma tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn verði búinn að skipta um tón og nálgast meira það sem Guðbjörn heldur fram. Nýr hægri flokkur sem ögrar Sjálfstæðisflokknum gæti slegið í gegn. Sjálfstæðisflokkurinn í dag hefur þróast í áttina að forpokuðu hægra þjóðernisafturhaldi með vafasama fortíð. Eiginlega furðu líkt og Framsókn fyrir 20 árum barðist við þegar sambandið liðaðist í sundur. Fall framsóknar er samt mun minna í samanburði. Guðbjörn lofar góðu sem málefnavandaður maður, öfgalaus og til forystu fallinn.

Gísli Ingvarsson, 13.6.2009 kl. 20:36

26 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Setning laga í esb og aðferðir þar að lútandi skiptast í 3 meginaðferðir og hefur sýstemið reynst prýðilega:

1. Samákvörðunarferlið (codecision procedure)

2. Samráðsferlið (consultation procedure)

3. Samþykkisferlið (assent procedure)

http://www.esb.is/eu_guide/stutt.htm

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.6.2009 kl. 21:09

27 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Sem fyrr þykist Guðbjörn hafa áhyggjur af fylgi Sjálfstæðisflokksins og að ESB-sinnaðir kjósendur hans kjósi eitthvað annað. Lausnina segir hann að flokkurinn taki stefnuna á Evrópusambandið. En hvað yrði þá um meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem vill ekki í sambandið? Guðbjörn hefur engar áhyggjur af því að þeir yfirgæfu flokkinn.

Hjörtur J. Guðmundsson, 13.6.2009 kl. 22:17

28 Smámynd: Jón Valur Jensson

Árni Hallgrímsson, ég var nú á löngu sundmóti barnanna minna í dag.

En það er svarleysi Guðbjarnar við rökstuddum innleggjum sem er mest áberandi hér.

Jón Valur Jensson, 13.6.2009 kl. 23:09

29 identicon

Ég tek undir með Gunnari Ásgeiri, þú ert greinilega í vitlausum flokki, ef þú telur að aðild að Evrópusambandinu sé þjóðþrifamál - sem það er náttúrlega.

Mér finnst undarlegt að nokkur stuðningsmaður ESB-aðildar skuli hafa  kosið Sjálfstæðisflokkinn. Sá flokkur beinlínis lofaði kjósendum sínum að EKKI yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Þannig er óhugsandi að stuðningsmenn ESB-aðildar hafi kosið Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum, þeir eru þá ekki sjálfum sér samkvæmir.

En hinsvegar hefur Gunnar Ásgeir eitthvað misskilið þetta með að evrur séu merktar hinum ýmsu ESB-löndum. Það er bara útlitsleg merking á seðli/klinki, en hefur ekkert meira gildi. Það virkar vel til að örva vitund íbúa, einfaldlega samkvæmisleikur um að halda þjóðareinkennum á viðkomandi mynt. En það hefur ekkert uppá sig  skipta "ítölskum" evrum fyrir "þýskar". Þær eru það ekkert, þó að útlit peningsins sé aðeins öðruvísi. Allar evrur eru evrur.

Þorfinnur (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 23:51

30 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvers son ertu, Þorfinnur? Þú tjáir þig hér og víðar og lætur sem þú sért föðurlaus.

Jón Valur Jensson, 14.6.2009 kl. 00:00

31 identicon

@Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Mér finnst það alltaf jafn óumræðanlega fyndið þegar ég heyri og/eða les jafn mikið bull og þú berð hér fram.

"Sonur minn er í verkfræðinámi í þýskalandi og tjáði mér það að evrurnar væru merktar viðkomandi löndum. Núna vilja allir losa sig við ítalskar, spánskar og írskar evrur í skiptum fyrir þar þýsku.  Ef þetta er ekki hættumerki á hruni þá veit ég ekki hvað"

Þetta er álíka mikið rugl eins og að segja að gull sem er grafið upp í Afríku sé verðminna en gull sem er grafið upp í Ameríku. Það skiptir engu máli hvaða "stimpill" er á evrunni. Evra er evra og er alls staðar jafn verðmæt.

Kannski eru það ekki "beinlínis meðmæli" en samt er það staðreynd að alþjóðlegir glæpahringir eru að yfirgefa dollarann og skipta frekar í evrum í dag. Einnig má benda á að Kínverjar (og fleiri) vilja minnka vægi dollars í alþjóðaviðskiptum og taka þess í stað upp myntkörfu m.a. með evrum.

Ergo: Evra er á leið að verða, ef ekki þegar orðin, ráðandi mynt í alþjóðaviðskiptum og það skiptir nákvæmlega engum máli hvaða "Evrópulandsstimpill" er á peningnum.

Að lokum vil ég þakka Guðbirni fyrir afar góða og málefnalega bloggsíðu.

Kveðja,
Víðir Ragnarsson í 112 Reykjavík

Víðir Ragnarsson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 01:15

32 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Björn Heiðdal:

Já, hér er um yfirtollvarðar- og stjórnsýslufræðingsgrín að ræða!

Er hjá þér um "fyrrverandi skúringakarlagrín" að ræða?

Ég þarf ekki að komast rökþrot til að grínast  

Jón Valur:

Völd Evrópuþingsins hafa verið að aukast á kostnað annarra stofnana ESB á undanförnum árum.

Og já, ég treysti sambandinu mjög vel og 27 aðildarríkjum þess, stórum sem smáum.

Ég veit ekki betur en að við Íslendingar hefðum - líkt og aðrir - fullan aðgang að ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB, ESB dómstólnum og öðrum stofnunum ESB. Það var einmitt þetta sem ég var að benda á.

Evrópubandalagið heitir nú Evrópusambandið og er skammstafað: ESB. 

Hjörtur:

Þú misskilur mig fullkomlega. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að stærstur hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins, trúnaðarmanna flokksins og flokksbundinna sjálfstæðismanna er andsnúinn aðild að ESB. Öðru máli gegnir um kjósendur flokksins og þó sérstaklega fyrrverandi kjósendur - en 1/3 kjósenda yfirgaf flokkinn í síðustu kosningum, hafi sú staðreynd farið fram hjá þér?

Mín ósk er að þingmenn fái að kjósa eigin samvisku, þ.e.a.s. að engin pressa verði á þá að kjósa að vilja LÍÚ og Bændasamtakanna.

Verði slík pressa sett á þingmenn og flokksforustan gefur þessa línu enn einu sinni með skýrum hætti út, klofnar flokkurinn og mun aldrei bera sitt barr aftur eftir það!

Ómar Bjarki:

Þetta er í raun svipað ferli og fór í gang hér á landi fyrir nokkrum árum og má sennilega rekja til ófreskjunnar í Brussel.

Hér áður fyrr voru frumvörp aðeins kynnt útvöldum áður en þau voru lögð fram á Alþingi. Nú er umfjöllun þingsins vandaðrir og frumvörpin send til umsagnar hjá hagsmunaaðilum og þeir boðaðir fyrir þingnefndir til frekari umsagnar og til þess að nefndarmeðlimir geti spurt viðkomandi út í þeirra skoðanir. 

Þorfinnur:

Kannski bara rétt hjá þér? 

Víðir:

Ég þakka þér hólið, maður reynir sitt besta.

Ég er alltaf að vonast til þess að menn komist upp úr þessu daglega þrasi og fari að ræða stjórnmál á vitrænan hátt.

Margir virðast halda að hægri/vinstri stjórnmál snúist afstöðu fólks varðandi flugvöllinn í Vatnsmýrinni, mislæg gatnamót, stóriðju eða ESB aðild.

Hjá mér snúast vinstri/hægri stjórnmál um grundvallarafstöðu fólk, þ.e.a.s. hversu miklu við í raun viljum eyða í samneyslu m.t.t. skattlagningar, hversu miðstýrt þjóðfélagið á að vera, að hve miklu leyti ríkið eigi að taka þátt í atvinnurekstri og hversu stórt og mikið eftirlitskerfi ríkið eigi að hafa og með hverju o.s.frv. 

Um þetta snúast stjórnmál ekki lengur og hafa ekki gert undanfarin 10 ár. Það er miður.

Jón Frímann:

Um þetta erum við algjörlega sammála! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.6.2009 kl. 07:19

33 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég sé að Guðbjörn sakar menn um rökþrot ef þeir benda honum á tvöfeldni í eigin málflutningi.  Þetta kallar maður að snúa hlutum á haus.  En Guðbjörn virðist gera það í fleiri málum t.d. virðist hann gera einhvern greinarmun á að tapa sjálfstæði og framselja hluta af löggjafarvaldinu til Brussels.  Þarna er einhver mikill munur á sem ég sé ekki.  ESB er ekki alþjóðlegur samningur um björgun votlendis eða eitthvað álíka þó þau rök séu stundum notuð til að verja valdaafsal til Brussels.

Guðbjörn segir líka að á Íslandi ríki ekki "eðlilegt lýðræði" vegna misvægi atkvæða.   Hann telur brýnt að leiðrétta þetta misvægi til að Ísland teljist "Vestrænt lýðræðisríki".  Samkvæmt skilgreiningu Guðbjörns er ekki "eðlilegt lýðræði" í Brussel eða á Evrópuþinginu.  

En nú verð ég sjálfsagt sakaður um lygar og rökþrot hjá síðuhöfundi.  Svo ég læt hans eigin skrif fylgja með þessari færslu hér að neðan:

------------------------------------------------------------------

Á sama hátt hefur ESB verið lýst sem ólýðræðislegu bákni og því haldið fram að við Íslendingar töpuðum sjálfstæði okkar við inngöngu í ESB. Því hefur verið logið að við töpuðum yfirráðum okkar yfir fiskimiðunum og öðrum auðlindum

Já, ég get hugsað mér að framselja hluta af löggjafarvaldinu til yfirþjóðlegrar stofnunar á borð við ESB

Hvort við Íslendingar verðum með 3 eða 5 fulltrúa á ESB þinginu skiptir máli, en þó ekki höfuðmáli. Við höfum aðgang að þinginu - í raun með mun meira vægi atkvæða en fjöldi okkar Íslendinga segir til um

Með réttu ætti fjöldi landsbyggðarþingmanna að vera 8 færri en í dag eða 21 þingmenn - þ.e.a.s. ef við Íslendingar byggjum við eðlilegt lýðræði 

Þrátt fyrir að núverandi kerfi sé að mínu mati réttlátara en eldri kosningakerfi er misvægið á milli kjördæma eitthvað sem þarf að leiðrétta fyrir næstu kosningar, þ.e.a.s. ef við viljum teljast vestrænt lýðræðisríki

Björn Heiðdal, 14.6.2009 kl. 07:55

34 Smámynd: Björn Heiðdal

Guðbjörn viðurkennir að hafa setið marga fundi með fulltrúum sambandsins þegar verið var að kalla eftir athugasemdum um nýja ESB löggjöf.  En samkvæmt nýlegri skýrslu utanríkisráðuneytisins um ESB og EES samstarfið eru áhrif EES landa á lög ESB nokkuð mikil.  Við þurfum bara að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast eins og Guðbjörn hefur greinilega gert. 

Samt kvartar hann undan áhrifaleysi Íslands á ESB löggjöf sem gildir hér á landi.  ESB sinnar nota það sem rök að Ísland hafi engin áhrif á ESB löggjöf sem gildir bara í ESB löndunum.  Við þurfum að ganga í ESB til að hafa áhrif á þau lög líka.  Þvílík vitleysa.  Skipta út 100% áhrifum á sér íslenska löggjöf fyrir 1% áhrif á ESB löggjöf.

Björn Heiðdal, 14.6.2009 kl. 08:13

35 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Björn:

Ég viðurkenni þarna ákveðna tvöfeldni í orðum mínum, þótt ekki beri ég ábyrgð á þessum málum, hvorki hér né í ESB.

Hitt er að ekki er saman að líkja þótt við og nokkrar aðrar smáþjóðir fáum aukið vægi á Evrópuþinginu og þeirri staðreynd að í einu ríki sé vægi atkvæða í allt að því tvöfalt á milli nærliggjandi landsvæða. Þannig er atkvæði íbúa 1, 2 á Kjalarnesi en aki maður í gegnum Hvalfjarðargöngin er vægið 2,0.

Í Suðurkjördæmi er munurinn minnstur en vægið þar 1,5 á miðað við 1,2 í Reykjavík en í Norðausturkjördæmi er það komið í 1,7 og er sem fyrr segir 2,0 í Norðvesturkjördæmi.

Áhrif mín persónulega voru kannski ekki mikið á tollalöggjöfinni, en hins vegar var löggjöf sambandsins, þar sem sat á þingum sem fulltrúi íslenskra tollvarða nokkur. Ég veit ekki hvernig aðkoma íslenskra tollstjóra eða embættismanna er nokkur að þessum málum, en værum við í sambandinu myndu íslenskir embættismenn hafa áhrif á þessum tímapunkti (2. Samráðsferlið - consultation procedure), sbr. Ómar í fyrri athugasemdum.

Já, mér finnast það vera rökþrot þegar viðkomandi dregur mína heiðvirðu starfsgrein og titil inn í málið og segir mig vera að grínast þegar ég legg fram fullkomlega "legitim" rök í málinu. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.6.2009 kl. 11:53

36 Smámynd: Jón Valur Jensson

Afar gott innlegg þetta frá Birni Heiðdal. Það er algerlega rangt hjá EB-sinnum að nota EES-löggjöfina sem dæmi um áhrifaleysi Íslendinga á eigin löggjöf.

Guðbjörn, þú svarar mér og segir: "Völd Evrópuþingsins hafa verið að aukast á kostnað annarra stofnana ESB á undanförnum árum. Og já, ég treysti sambandinu mjög vel og 27 aðildarríkjum þess, stórum sem smáum." – En ég bendi þér á, að Lissabon-sáttmálinn (sem verður líklega að e.k. stjórnarskrá bandalagsins nú í árslok) leggur grunn að því að afnema neitunarvald einstakra þátttökuríkja, og ekki minnkar það völd helztu valdakjarna Evrópubandalagsins: framkvæmdaráðsins og ráðherraráðsins. Og undarlegt er þetta traust þitt á "27 aðildarríkjum þess, stórum sem smáum" (m.a. Bretlandi, Hollandi og Þýzkalandi!!) með ICESAVE-málið í huga! En ég hef á það bent (m.a. í grein, sem er efst á vefsíðu minni núna), að það er ólíkt allri varkárni Jóns Sigurðssonar forseta og annarra okkar beztu manna að treysta út í loftið gæzku og velvild og ágæti erlendra ráðamanna og fela þeim úrslitavald um nokkuð það, sem heyrir til íslenzks sjálfstæðis og yfirráða yfir lögum okkar og lögsögu.

PS. Það er eðlilegt, að Þorfinnur komi hér fram undir fullu nafni, t.d. að upplýsa, hvort hann sé Ómarsson, svo að hann komi ekki út hér eins og sjálfstæðismaður verði talinn, en á annarri vefsíðu (þar sem hann var í umræðu um skyld mál) eins og hann sé framsóknarmaður. Menn eiga að geta talað með fullri ábyrgð, ekki að hafa villandi áhrif á umræður með því, að menn haldi að þeir séu einhverjir aðrir en þeir eru. Ekki þar fyrir, Þorfinnur Ómarsson er hinn ágætasti maður, en hann er þó vel að merkja Samfylkingarmaður og líklegur til að skrifa út frá línunni þar á bæ og ætti því ekki að hafa mikil áhrif meðal okkar sjálfstæðismanna, Guðbjörn minn.

Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 14.6.2009 kl. 12:04

37 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég held að Guðbjörn sé að komast að kjarna málsins.  ESB og íslenskir sambandssinnar snúa flestu á haus.  T.d. tollamál.  ESB leggur tolla á ýmsar innfluttar landbúnaðarvörur.  Sama gerir Ísland en þá er það ekki boðlegt.  Vegna hvers?  ESB styrkir líka franska bændur í miklu mæli.  Margir ESB sinnar er á móti styrkjum til bænda af prinsippástæðum.  Þeir gagnrýna íslenska styrki en finnst í lagi að borða niðurgreiddar ESB landbúnaðarvörur. 

Guðbirni er líka gjarnt að tala um lýðræði og samráðsferla í sömu setningu og ESB. Helst mætti skilja á orðum þínum að þér sé virkilega annt um samráð og samstarf.  En með tilkomu Lissbon sáttmálans getur meirihlutinn kúgað minnihlutann.  Ertu þá ekki bara kominn með "íslenska" vandamálið og bakherbergin sem þér virðist vera svo illa við?

Nei, ég held að Guðbjörn og fleiri séu ESB spunameistarar og "double speak" skipun dagsins.  Hvítt þýðir svart og heitt kalt.

Björn Heiðdal, 14.6.2009 kl. 13:49

38 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Jón Valur.

Merkilegt að þú skulir alltaf draga upp djöfulinn sjálfan í sambandi við ESB, Breta og Hollendinga varðandi ICESAVE. Auðvitað standa sambandsríkin saman gagnvart utanaðkomandi vá sem ICESAVE-málið var. Ekki býstu við að sambandið klofni í afstöðu gagnvart mögulegum "þjófnaði" utanaðkomandi þjóða? Þetta hefði aldrei gerst ef vi hefðum verið innan ESB. Þetta er eitt af því sem lítil þjóð hagnast um á alþjóðavettvangi verandi innan ESB. Fulltingi og "backup" á fjölþjóðlegum vettvangi.

Það að forvitnisþorsti þinn sé til staðar breytir því ekki að það kemur þér ekki við hvers son Þorfinnur er ef hann kýs að halda því fyrir sig.

Páll Geir Bjarnason, 14.6.2009 kl. 18:55

39 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það kemur mér ekki á óvart, að EB-sinninn Páll Geir skuli verja afstöðu Breta og EB í Icesave-deilunni. Og ekki virðist hann ennþá gera sér grein fyrir því, að það var vegna EES, sem við lentum í þessu. Ófarirnar eru engin meðmæli með Evrópubandalaginu, þvert á móti afhjúpaðist þar yfirgangur ríkjanna gagnvart okkur, og þetta mál getur ekki vegið upp þá hrikalegu "ókosti" (sem er vitaskuld understatement), þ.e. það glæpsamlega óráð og þjóðarsvik, sem felst í því að afsala okkur æðsta löggjafarvaldi til erlends valds, ásamt með yfirráðum yfir mörgum málum hér, m.a. fiskveiðilögsögunni og sennilega fleiri auðlindum okkar í kjölfarið (enda stefnt í þá áttina með ýmsum ráðstöfunum í Lissabon-sáttmálanum).

Páll & Co. vilja gera Íslendinga nánast áhrifalausa um 80% löggjafar fyrir þetta land. Er ÞAÐ til að mæla með hans Evrópubandalagi? Og neitar hann því, að forystumenn þess hafa talað um það sem "stórveldi" (Großmacht) og "heimsveldi" (empire) og "sambandsríki" (federal state)?

PS. Mér er fullfrjálst að mana Þorfinn til að segja hér til fulls nafns og benda á tvíræðni þess, að hann sé að blanda sér í umræður sem að hluta eru á flokksnótum sjálfstæðismanna. Kjósi hann að halda nafninu fyrir sig, hygg ég hann hafa eitthvað að fela.

Jón Valur Jensson, 14.6.2009 kl. 20:32

40 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Talandi um þjóðareinkenni á evrum - þá er slíkt þannig séð bara á myntunum.  Það er samt hægt að sjá hvaðan seðlarnir komu á fyrsta staf í raðnúmeri sem á þeim eru.

En það leiðir aftur hugann að því hvernig evru myntir íslenskar munu líta út.  Það þarf að fara að huga að því. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.6.2009 kl. 22:54

41 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Jón Valur. EES samningurinn opnaði á ákveðið frelsi á viðskipti. Hins vegar var okkur í fullt vald sett að þrengja þau skilyrði sem þar finnast að smærra hagkerfi eins og okkar. Það er því ekki við EES að sakast heldur ónýta efnahagsstjórn Íslendinga.

Annars eru stóryrðin mikil og þar lítið sem kemur á óvart. Ég er hins vegar einfaldlega ósammála þér JVJ. Það er ekki flóknara en svo. Orð eins og "glæpsamlegt óráð og þjóðarsvik" eru þessi sama klassíska þvæla sem þú pungar svo ótæpilega frá þér. Þetta er orðanotkun sem fylgismenn ESB-inngöngu gætu allt eins eignað sér gegn ykkur hinum, en mér virðast menn á þeim vængnum vera öllu hófsamari í orðavali. Staðhæfing þín um að ég sé "EB-sinni" (hvað sem EB er nú, mest hissa á að JVJ skuli nota nafnið Ísland en ekki Garðarshólma eða Snæland!) sýnir nú hvað þú ert blindur í ofsareið þinni á ritvellinum. Ég hef marglýst yfir því að ég hef ekki afstöðu tekið til þess hvort hagsmunum Íslands er betur borgið innan ESB eða utan. Og endi svo að ég verði andvígur inngöngu er það ekki vegna þess að ESB sé "hið illa", eða eitthvað óskilgreint valda- og auðlindasjúkt arðránsfyrirbæri, heldur ígrundað á eðlilegum málefnalegum "debet, kredit-grundvelli". Ég segi það beint út, sem eðlilegur vinnandi Íslendingur er mér skítsama um veiðiheimildir, fullveldi, löggjafarvald, kvóta og landbúnað. Það sem mér og minni fjölskyldu er annt um er lægra vöruverð, lægri vexti, afnám verðtryggingar og stöðugleika gjaldmiðils. Ef sannfærandi rök fást fyrir að þetta gangi eftir þá hiklaust athuga ég að samþykkja. Ég og fjölskylda mín borðum nefninlega ekki fullveldi og breiðum ekki yfir okkur löggjafarvald á kvöldin.

Hvað ætli það séu annars margir Þorfinnar á landinu? Ef ég undirritaði mínar athugasemdir bara með fornafni, myndir þú þá reikna með að ég væri Páll Pétursson eða Magnússon og væri í Framsóknarflokknum?

Páll Geir Bjarnason, 15.6.2009 kl. 00:15

42 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Enn á ný lýst mér vel á málflutning Guðbjörns!!!

Ég er honum sammála eina ferðina enn!

 Ætli rödd Guðbjörns sé ekki bara mikilvæg einmitt innan Sjálfstæðisflokksins!  Mér sýnist málflutningur Guðbjörns hollur og nauðsynlegur Sjáflstæðisflokknum!

Jón Valur: Að talsverður leyti hefur íslenska ríkið þegar afsalað sér fullveldi sínu!  Hvenær ætlum við að skilja þetta?  Með EES samningnum er fullveldi okkar afsalað að þónokkru leyti!  Og hvað er sjálfstæði?  Erum við sjálfstæð þjóð?  Nei!  Nei langt í frá!  Við erum háðari útlendum þjóðum nú en nokkru sinni fyrr!

Ég er ekkert "ESB sinni" frekar en Íslands eða Íslendinga sinni!  Ég elska fósturjörðina en tel mannskepnuna hér  verulega afvegaleidda!

Mikið rosalega erum við ósiðmenntuð þjóð!

Hér þarf umbætur!  Hér þarf aðstoð!  Hér þarf hjálp!

Þannig er nú það.

Ég styð málflutning Guðbjörns heils hugar!  Í raun tel ég hann af þeim skynsamlega toga sem nauðsynlegur er!  Málflutningur hans er ekki flokksbundinn lengur - heldur bundinn skynsemi.  Ég fagna því virkilega!!

Ég vil segja, málflutningur hans á erindi!

Ég óska íslenskri þjóð alls hins besta!

Eiríkur Sjóberg, 15.6.2009 kl. 00:34

43 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Það er mikið fjör hér. Ég er bara rétt búinn að renna augunum í gegn, þarf að lesa betur á morgun.

Páll segir að það sé hægt að skila eignum og skuldum á Spáni. Ég þori ekki að fullyrða að þetta sé algilt en ég held að þetta sé meginregla þá er kannski spurning innfædda eða ekki.

Guðbjörn. Í sambandi við atkvæðavægi þá er munurinn 12 faldur hjá ESB þinginu og stærstu þjóðirnar nú þegar mjög ósáttar og eru farnar að tala um leiðréttingu

Eftir þá Leiðréttingu sem væntanlega verður fengi Ísland hálfan þingmann á Evrópuþingið

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.6.2009 kl. 01:07

44 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eiríkur Sjóberg:

"Að talsverðu leyti hefur íslenska ríkið þegar afsalað sér fullveldi sínu! Hvenær ætlum við að skilja þetta? Með EES samningnum er fullveldi okkar afsalað að þónokkru leyti! Og hvað er sjálfstæði? Erum við sjálfstæð þjóð? Nei! Nei langt í frá! Við erum háðari útlendum þjóðum nú en nokkru sinni fyrr!"

Þetta er alls ekki rétt hjá þér um EES-samninginn. Við höldum fullveldi okkar, við höldum tökunum á lagavaldinu, engin EES-lög verða hér að lögum án þess að Alþingi samþykki þau, hverja lagagerð fyrir sig. Við höfum einnig áhrif á mótun þeirra laga og reglna, með Norðmönnum og Liechtensteinum og að eigin frumkvæði á fleiri en einu stigi málanna. Það kostar sitt í vinnu, en borgar sig. Svo getum við bæði dregið að samþykkja eða innleiða reglur og eins neitað því. EKKERT SLÍKT VALD HEFÐUM VIÐ Í Evrópubandalaginu, þótt við gætum masað um málin þar og einstöku sinnum fengið áheyrn, en aldrei ráðið neinu með atkvæðum okkar örfáum.

Evrópubandalagið fengi hér æðsta löggjafarvald, lög þess yrðu hér að lögum áður en þa væru komin hingað í pósti, og þau kæmu ekki hingað til að leita staðfestingar Alþingis, því að hún er ekki með í pakkanum.

Þetta væri eins og að vera með tvenns konar Alþingi, eitt niðurlægt og hitt EB-yfirþing, sem gæti ógilt hvaða lög sem Alþingi hefði sett. Kallirðu eftir rökum, færðu þau! En hvað myndirðu nefna þá pólitíkusa, sem stefna okkur í þessa átt, ef þetta skyldi nú vera satt?!

Jón Valur Jensson, 15.6.2009 kl. 01:14

45 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég svo sem sel það ekki dýrara en keypti í það í sambandi við skiptin á ítölskum evrum og þýskum evrum en sonur minn býr hjá manni í þýskalandi sem rekur og á þokkalegt iðnfyrirtæki þar.  Þar við eldhúsborðið var verið að fjalla um þessi skipti og forstjórin var ekki hrifinn og leist ekki á blikuna en það mun sérstaklega mikið að gera í þýskum bönkum sem eru við landamærinn,

Þetta kom mér mjög á óvart að heyra þetta

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.6.2009 kl. 01:33

46 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Evrópusambandið er fyrst og fremst friðarbandalag.  Tilraun er gerð til að halda friði á svæði þar sem raunverulega hafa ríkt bardagar, jafnvel í nærtækri þátíð!

Hvers virði er það, að halda friðinn?

Ætlum við að halda okkur utan þessa svæðis og bandalags?  Hvers konar fásinna er það, bæði pólítískt og efnahagslega (margt ótrúlega hæft fólk starfar af heilindum til að treysta betur nútíð og framtíð Evrópu?

Hvers konar veruleikaflótti eru slíkar hugmyndir?

Jón Valur: Takk fyrir þitt framlegg.  Ég er þó ekki sammála þér.  Persónulega starfa ég sjálfur eftir sérkennilega túlkuðum lagaákvæðum Evrópusambandsins (tilraun sjálfsagt gerð til að þýða löggjöfina beint inn í íslensk lög og reglur, en í mínum skilningi (og annarra) gætir misskilnings, sem ekki verðu farið nánar út í hér!).

Fram má koma að ég hef sjálfur starfað í Brussel og þekki eilítið til mjög svo vandvirkrar samkundu Evrópusambandsins.

Eiríkur Sjóberg, 15.6.2009 kl. 01:53

47 Smámynd: Jón Valur Jensson

Evrópubandalagið er ekkert friðarbandalag (enda óvopnað), heldur hagsmunabandalag. Það var NATO og setulið Bandaríkjanna, sem tryggði friðinn í Evrópu, ekki Efnahagsbandalag Evrópu.

Þakka þér hreinskilnina, Eiríkur, um Brusselstarf þitt. En ég hef þegar tekið á þessu um vandvirknina í EB hér miklu ofar, en mest þó á eigin vefslóð. Gæti bætt hér mörgu við, en læt þetta nægja tímans vegna.

Jón Valur Jensson, 15.6.2009 kl. 02:15

48 Smámynd: Björn Heiðdal

Hver einn og einasti kjaftur sem ver ESB virðist hafa starfað í eða með sambandinu á einhverjum tímapunkti.  Allir hafa þeir síðan einhverjar grínsögur til að segja um heimsku Brussels.  Einn starfsmaður þurfti fimm eða sjö undirskriftir til að fá kaffi og kökur fyrir einhvern fund sem hann ætlaði að halda.  Þessi starfsmaður er nú formaður Evrópusamtakanna.

Eiríkur Sjóberg fullyrðir að ESB sé friðarbandalag.  Ekki tollabandalag, vísir að sambandsríki eða samstarfsvettvangur "fullvalda þjóða".  Nei, friðarbandalag!  Og þess vegna skulum við ganga þar inn um gleðidyrnar.  Það þarf að friða Ísland eða ætlum við að friða Frakka?

Björn Heiðdal, 15.6.2009 kl. 08:51

49 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Víðir talaði um hvað ég væri mikill bullukollur

Ég er aðeins búinn að spyrjast fyrir um þessi evru skipti betur en það er nú vegna þess að ég hef nú ekki hugmyndflug til að búa svona sögur til.

Þetta mun vera viðkvæmt mál og fást ekki opinberar upplýsingar um það og allra síst nú í kreppunni

Málið er að þegar ESB fann upp á evrunni þá fengu þeir þá snilldar hugmynd að merkja evrunnar viðkomandi  löndum. (ESB Hefur nefnilega tilhneigingu til að einfalda málin)

Þetta var lítið mál í byrjun en til þess að evrunnar færu ekki um allt allt einn hrærigraut þá hafa viðkomandi lönd safnað hinum ýmsu evrum inn og skilað til viðkomandi landa gegn sínum evrum

Nú hefur farið að bera á því þýskalandi að mikið er lagt inn í þýska banka af Spænskum og Ítölskum evrum en síðan seinna er tekið út þá afgreiða þjóðverjar þýskar evru. En málið er aðþýsku evrunnar skila sér ekki til baka til Þýskalands og þjóðverjar eru að verða í vandræðum vegna seðlaþurrðar en heilu staflarnir annarra þjóða evrum en Ítalarnir segjast búnir að skila skila þýskum. Þjóðverjarnir prenta meira og eru komnir í hæstu hæðir með þýskar evrur í umferð en þær gufa jafnharðan upp fyrir annarra þjóða evrur

Þjóðverjar eru ekki ánægðir. Það lítur út fyrir að Fólk í öðrum löndum sanki að sér þýskum evrum og setji undir koddann. Kreppur eru óútreiknanlegar

Þetta er víst mjög viðkvæmt mál hjá ESB og varla verða svona sögur til af engu

Auðvitað hefði átt bara að vera ein evra þá væri þetta ekki vandamál 

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.6.2009 kl. 09:49

50 identicon

@ Gunnar Ásgeir.

Ég tala hvergi um að þú sért bullukollur í innleggi mínu þótt þú vissulega bullir með þessari kjaftasögu um "mismunandi verðmæti" evrupeninga eftir því hvar þeir eru slegnir.

Reyndar er langt síðan ég heyrði þetta bull fyrst, einmitt hjá einhverjum ESB-andstæðingi. Gott ef það var ekki spyrt við "hrun ESB að innan" og "endalok Brusselvaldsins" eða öðrum álíka vitlausum heimsendaspám.

Víðir Ragnarsson (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 20:07

51 Smámynd: Kommentarinn

Týpískt Jón Valur að heimta að vita hverra manna viðmælendur hans eru.. Maður gæti haldið að hann vilji rekja ættir sínar saman við alla sem hann talar við. Þetta jaðrar við þráhyggju..

Annars held ég að þessar fréttir af söfnun á þýskum evrum séu stórlega ýktar. Þetta eru samt eflaust nokkur tilvik sem hafa hrint sögunni af stað.. Það eru alltaf einhverjir sem láta eins og asnar í krísu. Tökum kana sem dæmi. Það er slatti af könum sem hafa flúið borgir og flutt útí skóg þar sem þeir búa í moldarkofum. Þetta gera þeir ýmist til að vera viðbúnir terroristum eða af því að þeir halda að heimsendir sé í nánd (án gríns þá er ca þriðjungur kana sem heldur að heimsendir verði á okkar tíma). Þó þetta séu nokkrir nöttarar sem flýja útí skóg þá þýðir það ekki að USA sé að segja skilið við siðmenninguna (or is it?)... Sumir eru bara fokkt (og þeir búa flestir í suðurríkjunum)...

Ég held það styttist samt í að einhverjir samlandar okkar flýji útí Heiðmörk til að sleppa frá icesave...

Kommentarinn, 16.6.2009 kl. 00:56

52 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það ert þú, sem þarft að endurskoða afstöðu þína, Guðbjörn minn, a.m.k. ef þú ætlar að mæta niðri á Austurvelli á morgun, þann sautjánda, í hátíðarskapi, því að þangað áttu ekkert erindi, ef þú lætur ekki af því að predika þvert á vilja Jóns Sigurðssonar, þ.e.a.s. að agitera fyrir valdaafsali frá íslenzku löggjafarþingi til erlends yfirríkjabandalags. Sjá nánar um þetta eftirfarandi greinar:

Frakkar og ESB hyggja á stórsókn á norðurhjarann, með fiskveiðar, orkuauðlindir og herviðbúnað í huga – innlimun Íslands mikilvægur áfangi á þeirri hagsmunaleið (í 2. neðanmálsgrein þar).

Hver mælti? Og getur þetta á einhvern hátt snert spurninguna um landráð?

SÖNNUN þess að Jón Sigurðsson forseti hefði ekki fallið fyrir gervirökum um gagnkvæma 'hlutdeild' okkar í fullveldi annarra(r) þjóða(r), heldur þvert á móti HAFNAÐ því sem ÓRÉTTI.

Fjórða dæmi frá Jóni Sigurðssyni forseta: Treystum ekki hugljúfum orðum valdsmanna á meginlandinu.

Jón Valur Jensson, 16.6.2009 kl. 01:55

53 identicon

Verð að kommenta á að ESB sé friðarbandalag. Man einhver eftir því þegar verið var að slátra fólki í Kósavó (bakgarði ESB). Hver voru aftur viðbrögð ESB við því man það einhver?

Það var ekki fyrr en Bandaríkin komu og skiptu sér af málinu að það tókst að koma á frið.

Landið (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband