17.6.2009 | 16:16
Er þjóðin samdauna spillingu, valdhroka, óbilgirni, valdníðslu, siðleysi, kúgun, klíkuveldi og ættdrægni?
Fyrir 4-5 árum sat ég í fyrirlestri á námskeiði, sem dr. Gunnar Helgi Kristinsson kenndi, og hét Opinber stjórnsýsla. Hér var um nokkurskonar inngang að meistaranámi í Opinberri stjórnsýslu að ræða. Það sem við nemendur og prófessor fórum m.a. yfir var spilling í stjórnkerfinu. Gunnar Helgi var þeirrar skoðunar, að spilling væri kannski ekki alvarlegt vandamál í íslenskri stjórnsýslu, en ástandið væri þó engan vegin jafn gott og athuganir á þessu efni hefðu sýnt fram á, þ.e.a.s. að spilling hér væri því sem næst engin. Á þessum tíma var ég ósammála Gunnari, en af reynslu undanfarinna ára og eftir að hafa kynnt mér málið betur, verð ég að viðurkenna að dr. Gunnar Helgi hafði á réttu að standa og var - ef eitthvað var - sennilega of varkár í nálgun sinni í þessu máli.
Í ræðu, sem Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, alþingismaður og sendiherra, hélt á Alþingi árið 1997, fór hann að venju mikinn. Hann talaði um helmingaskiptakerfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og hvernig þetta kerfi hefði í raun verið við lýði allt frá árinu 1951-1956. Máli sínu til stuðnings talaði hann um félagskerfi landbúnaðarins, sem komið var á laggirnar með samningum þessara flokka á árunum 1946-1949. Svavar hélt því m.a. fram að þetta kerfi hafi að mörgu leyti verið undirstaðan undir valdakerfi Framsóknarflokksins á Íslandi um langt árabil. Annað sem Svavar nefndi var hvernig stórveldin í sjávarútvegi skiptu landinu á milli sín í áhrifasvæði líkt og stórveldi gerðu forðum daga. Það sama væri upp á teningnum varðandi skiptingu landsins í áhrifasvæði varðandi verslun og hefur hann þá líklega átt við Kaupfélögin og Sambandið.
Það sem kom mér á óvart var, að Svavar skyldi ekki minnast meira á bankana og skiptingu þeirra, olíufélaganna og hvernig þau skiptu á milli sín markaðnum o.s.frv. því af nógu var að taka í þessum efnum. Svavar talaði síðan um að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og sendiherra, hafi rifjað upp Kveldúlfsævintýrið og stöðu Ólafs Thors og Jónasar Jónssonar gagnvart Landsbankanum á sínum tíma í ræðu, sem hann hafði haldið á Alþingi. Í ræðu sinni fjallar þingmaðurinn, Svavar, síðan um hvernig flokkarnir kusu menn í bankaráð, í stjórnir fyrirtækja og áttu þannig aðild að þessu víðfeðma valdakerfi. Að sjálfsögðu sá Svavar erkióvininn í Sjálfstæðisflokknum og fulltrúum hans, en sá flokkur ætti fulltrúa í öllum ríkisfyrirtækjum, Ríkisútvarpinu, öllum verksmiðjum sem ríkið átti á þessum tíma, Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni, auk þess sem hann átti þá undirstöðu valdanna sem öllu skipti, það var Morgunblaðið, líkt og Svavar orðaði þetta.
Þá víkur Svavar stutt að Framsóknarflokknum og aðild hans að ríkisstjórnum um langa tíð og hvernig sá flokkur hefði komið sínum mönnum að, eins og það er kallað, fyrir í þessu valdakerfi mjög skipulega og á mjög opinn hátt, að ég segi ekki meira. Þá víkur Svavar að Alþýðuflokknum og segir hann litlu betri, enda hafi foringjar þess flokks flestallir lokið sínum starfsdegi ýmist sem bankastjórar eða sendiherrar. Talandi um ættdrægni (e. nepotism - þegar valdhafar úthluta frændfólki og vinum stöðum eða embættum) Íslendinga, þá er það skemmtileg tilviljun að dóttir Svavars, Svandís Svavarsdóttir, sé orðin þingmaður og ráðherra umhverfismála. Hún heldur vonandi merki föður síns á lofti í þessum málum. Önnur skemmtileg tilviljun er einnig að Svavar endaði - líkt og Jón Baldvin - sinn feril sem sendiherra! Þá er ekki síður gaman að rifja það upp að Jón Baldvin er sonur Hannibals Valdimarssonar, alþingismanns og ráðherra, sem átti að bróður Finnboga Valdimarsson þingmann. Ég ætla nú ekki að fara í ættfræði Alþingis, en þar er af nógu að taka, sem og innan flokkanna, hvað ættdrægni og klíkuveldi varðar og þar er virkilega enginn flokkur undanskilinn.
Ég horfði á mjög góða sænska heimildarmynd í Danska ríkissjónvarpinu um daginn, þar sem farið var ofan í saumana á ættdrægni innan sænska stjórnkerfisins eða öllu heldur sænsku utanríkisþjónustunnar. Í ljós kom að þetta fyrirbæri var algengara en nokkurn grunaði og flestir í þjónustunni ráðnir vegna skyldleika eða í gegnum klíku, þótt Svíarnir fælu það betur en Íslendingar gera. Við Íslendingar stöndum hins vegar ekki í neinum feluleik með slíka hluti, hvorki innan kirkjunnar eða í stjórnsýslunni, en líkt og Jónas Kristjánsson orðar þetta á jonas.is:
... fjölskylda guðs á Íslandi af ætt Sigurbjörns Einarssonar, fyrrum biskups. Biskupsembættið gengur hér á landi í arf. Synir og tengdasynir ættarinnar hafa áratugum saman haft forgang að feitum embættum innan þjóðkirkjunnar og guðfræðideildar háskólans.
Einkavinavæðingin (e. cronyism) sem átti sér stað og náði hámarki með einkavæðingu bankanna fór einnig fram fyrir opnum tjöldum og allir vita í hvaða höndum þær eignir enduðu og hverjum þeir tengjast. Við erum nú þegar búin að sjá hverju misheppnuð einkavinavæðing bankanna skilaði okkur Íslendingum, þ.e.a.s. hruni efnahagslífsins hér á landi. Óhæfir embættismenn, sem ráðnir voru á grundvelli pólitískra tengsla eða ættdrægni og óhæfir stjórnmálamenn, sem ganga upp innan flokkanna á grundvelli ættdrægni eða klíkuveldis, voru síðan allsendis óhæfir til að sinna störfum sínum af einhverju viti.
Einkavinavæðing og ættdrægni eru því þjóðinni dýrkeypt í bókstaflegum skilningi þess orðs, hvort sem átt er við 900 milljarða skuldbindingu vegna Icesave reikninganna, 42 milljónir króna, sem það kostaði Þjóðkirkjuna að hafa tekið tengdason biskups, Sigurð Arnarson, fram yfir Sigríði Guðmarsdóttir sem prest í London eða einkavinkonuvæðingu Ingibjargar Sólrúnar og einkavinavæðingu Davíðs Oddssonar í utanríkisráðuneytinu, skipun héraðsdómara og hæstaréttardómara, ráðning stúlku sem flugstjóra, sem var fósturdóttir yfirflugstjóra Landhelgisgæslunnar, og svona mætti endalaust telja. Ættdrægnin nær því allt frá ráðningu starfsfólks á þyrlu gæslunnar til skipunar æðstu embættismanna og hæstaréttardómara ríkisins! Þegar ég vann hjá tollstjóranum á Keflavíkurflugvelli, varð ég vitni að því að nær engir aðrir en framsóknarmenn voru ráðnir hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar - allt frá húsverði upp í flugvallarstjóra. Allir sem vinna hjá ríkinu þekkja svipaðar sögur.
Ættdrægni hér á landi er ekki nýtt fyrirbæri, líkt og fram kom í þætti Gísla Jónssonar Íslenskt mál og haft var eftir Sigurði Eggerti Davíðssyni. Sigurður sagði að Þórhallur Vilmundarson prófessor hefði minnst á það, þegar Sigurður var í námi í Íslandssögu við Háskóla Íslands, að þetta fyrirbæri hérlendis mætti rekja allt til ættmenna Odds biskups Einarssonar um 1600, Stefánunga um 1800 og Thórsara á síðustu öld. Einn nemanda í fyrirlestrinum forðum daga á þá að hafa spurt, hvort ekki mætti segja það sama um Kennedya vestur í Ameríku. Ég spyr þá í framhaldi áratugum síðar: hvað með Bushana og Clinton fjölskylduna?
Í gagnrýni sinni, í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, um ævisögu Hannesar Hafstein, Ég elska þig stormur, eftir Guðjón Friðriksson, segir Auður Styrkársdóttir, að ýmsar vísbendingar megi finna í bókinni, að Hannes hafi stundað ættdrægni eða frændsemispólitík úr ráðherrastól og einnig að hann hafi fært sér í nyt hversu nátengdur hann var valdinu:
Þannig keypti Landsbankinn (þar var bankastjóri Tryggvi Gunnarsson móðurbróðir hans) hús Hannesar þegar hann þurfti að losa sig við það við flutninginn til Ísafjarðar (bls. 259). Landsjóður keypti hús hans við Tjarnargötu árið 1909 þegar hann lét af embætti og við blasti persónulegt gjaldþrot (bls. 541). Hætt er við að fjölmiðlar nútímans teldu sig komast í feitt ef upplýstist um álíka mál ráðherra nú. Allt er þetta mikill fróðleikur fyrir stjórnmálafræðinga og má skrifa um langar ritgerðir.
Fyrir 16 árum benti Þorvaldur Gylfason, prófessor og sonur Gylfa Þ. Gíslasonar prófessors, þingmanns og ráðherra, í bók sinni Hagkvæmni og réttlæti, á að ættdrægni sé útbreitt vandamál og þá sérstaklega í fátækraríkjum; t.d. Indlandi:
... ráðuneyti og ríkisstofnanir fleytifull af fákunnandi fólki, sem stjórnmálamenn hafa troðið þangað inn, þótt færri og færari starfsmenn gætu án efa rækt störfin betur. Tollverðir á indverskum alþjóðaflugvöllum eru iðulega fleiri en farþegarnir.
Síðan benti Þorvaldur á þá merkilegu staðreynd að forseta Bandaríkjanna sé bannað með lögum að skipa ættingja sína í embætti á vegum ríkisins. Í lok greinarinnar í Vísbendingu frá árinu 1993 er bent á að ættdrægni sé alvarlegt þjóðfélagsböl á Íslandi:
... margar mikilvægar stofnanir þjóðfélagsins séu verr mannaðar en þær þyrftu að vera og væru, ef stjórnendur þeirra og aðrir starfsmenn hefðu verið ráðnir eftir menntun, reynslu og öðrum verðleikum, en ekki í gegnum klíkuskap. Vandinn hér er ekki bundinn við alvarleg mistök, sem óhæfum stjórnendum og starfsmönnum hafa orðið á - til dæmis í rekstri banka og sjóða, sem hafa tapað stórfé á liðnum árum vegna viðskipta við fyrirtæki, sem ábyrgðarlausir stjórnmálamenn höfðu velþóknun á. Nei, vandinn er meiri en svo. Hann er líka fólginn í því ranglæti, sem hæfir starfsmenn eru beittir, þegar aðrir lakari menn eru teknir fram yfir þá í gegnum stjórnmálasambönd.
Og vandinn er síðast en ekki sízt fólginn í hættunni á því, að ungt og efnilegt fólk verði smám saman afhuga almannaþjónustu, ef það sér það í hendi sér, að bezta leiðin til að komast áfram í starfi á vegum ríkis og sveitarfélaga liggur í gegnum stjórnmálaflokka, sem njóta sífellt minni virðingar, því að þá er hætt við því, að virðing slíkra starfa þverri líka mjög með tímanum og mannvalið versni eftir því. Þessa sér nú þegar stað. Ungt fólk verður að geta gengið að því vísu, að verk þess séu metin að verðleikum án tillits til fylgispektar við stjórnmálaflokka.
Erum við orðin samdauna spillingunni, valdhrokanum, óbilgirninni, valdníðslunni, siðleysinu, kúguninni, klíkuveldinu og ættdrægninni? Er ekki kominn tími til að við opnum augun fyrir þessu mikla þjóðfélagsböli okkar tíma og fyrri og reynum að skapa umhverfi líkt og hjá Sameinuðu þjóðunum eða embætti forseta Bandaríkjanna, þar sem stranglega er passað upp á að ekki sé hægt að misnota aðstöðu sína á þann hátt, sem við höfum upplifað árhundruðum saman og tökum orðið sem sjálfsögðum hlut?
Heimildir:
- Gunnar Helgi Kristinsson, fyrirlestur í Háskóla Íslands haustið 2005.
- Svavar Gestsson, Vefur Alþingis, ræða haldin þriðjudaginn 22. apríl 1997, sótt 17. júní 2009.
- Danska ríkissjónvarpið, stöð 1, 14. júní 2009.
- Morgunblaðið, greinasafn, http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=184809, sótt 17. júní 2009.
- Vefritið Stjórnmál og stjórnsýsla - http://stjornmalogstjornsysla.is/index.php?option=com_content&task=view&id=123, sótt 17. júní 2009.
- Þorvaldur Gylfason, Hagkvæmni og réttlæti, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1993,
Vísbending, 11. árgangur, 3., 6. og 8. hefti, 20. janúar, 15. febrúar og 1. marz 1993, http://www3.hi.is/~gylfason/spilling.htm, sótt 17. júní 2009.
Myndir:
- Háskóli Íslands
- Bjarni Benediktsson
- Ólafur Thors
- Hannibal Valdimarsson
- Skálholt fyrr á öldum
- Jónas Fr. Jónsson
- Jón Steinar Gunnlaugsson
- Hvíta húsið í Washington
- Hannes Hafstein
Heyjum á ný sjálfstæðisbaráttu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:32 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er vel skrifuð grein og skilmerkileg og þó svo að ég hafi ekki oft verið sammála þér í gegnum tíðina þá er ég það heldur betur núna.
Þú lýsir því meini sem hefur gegnsýkt íslenska þjóðarsál og íslenskt samfélag í fortíð og í nútíð.
Nú reynir á að sama ástand verði ekki viðvarandi um ókomna framtíð!
Takk fyrir góða og upplýsandi bloggfærslu.
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 16:54
Greinin er ágæt hjá þér Guðbjörn og ýmislegt , ef ekki flest rétt í henni. Því miður er klíkuskapurinn enn við lýði í stjórnsýslunni, eins og ávallt hefur verið hér og hafa því oft þeir hæfustu umsækjendur ekki hlotið þær stöður , sem sótt hefur verið um í það og það skiptið!, menntun, þekking, reynsla, hæfni, allt strikað út og ekkert mark eða tillit tekið til . Persónulega þekki ég það og hef kært og unnið mál hjá umboðsmanni Alþingis fyrir nokkrum árum og þrátt fyrir að vinna málið, varð engin breyting mér í hag, ekki einu sinni skaðabætur! Þjóðin er samt held ég orðin vel upplýst um þessa spillingu og er ég reyndar bjartsýnn á það, að núna við endalok stærsta hneykslis Íslandssögunnar, þ.e . nær 2ja áratuga stjórn Sjálfstæðisflokks og að mestu leyti Framsóknarflokks líka , með smá hléi, er komið að tímamótum í þessum málum , sem vonandi öðrum líka og að við getum byggt upp nýtt og réttlátara samfélag, byggt á meiri jöfnuði og laust við nýfrjálshyggjuna og græðgina, sem hér átti að leysa öll vandamál.
Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 23:12
Vel skrifuð grein sem gefur gott yfirlit yfir þessi mál og takk fyrir það Guðbjörn. Pistlar þínir eru vandaðir. Sammála þér í flestu og sérstaklega vegna þess að þú fjallaðir ekkert um ESB mál!
Á síðustu misserum hefur veikleikinn í stjórnsýslunni komið fram sem bæði er vegna þess sem þú gerir grein fyrir en einnig vegna manneklu. Þá er ljóst að skilja þarf betur á milli stjórnmála og stjórnsýslu því eins og staðan hefur verið þá hefur stjórnsýslan starfað í skugga stjórnmála. Það getur reynst jafnt eitruð blanda og viðskipti og stjórnmál en er að sjálfsögðu af sama meiði. Ef stórfyrirtæki geta beitt áhrifum sínum í stjórnsýslunni í gegnum stjórnmál þá er það hættulegt lýðræðinu, eins og fasisminn er versta dæmið um. Þess vegna þurfa að vera skýr skil á milli stjórnmála og stjórnsýslu, þ.e.a.s. stjórnsýslan þarf að njóta verndar til að þjónað almenningi fyrst og fremst þar sem lögin eru áttavitinn en ekki ótti við valdamikla stjórnmálamenn. Með þessu er ég hins vegar ekki að segja að allir stjórnmálamenn séu spilltir eða að þeir misnoti vald sitt, langt því frá, en óþarfi er að bjóða hættunni heim.
Jón Baldur Lorange, 18.6.2009 kl. 09:10
Friðjón:
Það má ekki stilla þessu upp sem einhverju vinstri/hægri máli, því allir flokkar hafa tekið þátt í þessu. Rétt eftir að Össur tók við réði hann gamlan Allaballa sem forstöðukonu Ferðamálastofu. Ingibjörg Sólrún tók þátt í þessu og réði vinkonu sína og reyndar hafa kratarnir alla tíð verið mjög liðtækir í ráðningum út á pólitík, vináttu og frændsemi.
Rétt áður en ég byrjaði í tollinum voru ráðnir nokkrir yfirmenn, sem voru kratar! Eftir það að mestu framsóknarmenn - allt eftir því hverjir sátu í ráðherrastól! Jafnvel almennir tollverðir voru ráðnir eftir flokkslínum. Þannig var t.d. einum mætum tollverði, sem var framsóknarmaður og hafði verið ráðinn á grundvelli ættdrægni, sagt upp þegar Framsókn missti ráðuneytið og í staðinn var ráðinn annar sem var krati, en þar spilaði ættdrægni sömu rullu og áður (skyldleikinn var meira að segja sá sami).
Jón Baldur:
Já, við erum ekki sammála um ESB, þótt báðir eigum við að heita sjálfstæðismenn, enda málið í sjálfu sér ekki flokkspólitískt og á alls ekki að fara inn í flokkana, heldur á það að útkljás á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þjóðin á að taka þessa hluti til sín varðandi ráðningar á grundvell ættdrægni og hætta að samþykkja þetta sem sjálfsagðan hlut. Við verðum að breyta hugsunarhættinum hjá okkur, því þótt við blótum þessu og formælum samþykkjum við það á endanum og hugsum með okkur að svona hafi þetta nú alltaf verið og verði þetta bara - við þessu sé bara ekkert að gera!
Það á að vera stór mál, sem fjölmiðlar djöflast á og þjóðin öll. Fólk á að flykkjast fyrir utan stofnanir og ráðuneyti og mótmæla slíkum ráðningum þar til þær leggjast af!
Ég er jafn viss um að VG munu taka þátt í þessu um leið og aðeins hægist um í þjóðfélaginu. Mér heyrist einmitt sá gállinn vera á VG og Samfylkingin núna að það eigi að hreinsa til í embættismannakerfinu og fleygja öllum framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum úr öllum stöðum til að koma fólki frá Samfylkingunni og VG að!
Þetta er allt að fara af stað enn eina ferðina og þessu verður að linna!
Það er okkar íbúa þessa lands að breyta hlutunum!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.6.2009 kl. 10:08
Takk fyrir góða grein.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 18.6.2009 kl. 11:26
Fín grein og þarft umræðuefni. Gagnsæi og fagmennska eru lykilhugtök hér. Stjórnmálamenn þurfa virkt aðhald. Hvers konar leynimakk, sérhagsmunagæsla og hagsmunatengsl við önnur svið samfélagsins verður að hafna. Opna verður stjórnsýsluna upp á gátt!
Flottar ábendingar hjá Jóni Baldri líka!
Eiríkur Sjóberg, 19.6.2009 kl. 00:24
Eiríkur:
Ég er í raun hissa á hversu fáir "melda" sig á blogginu út af þessu, því að hér er um risastórt innanmein að ræða í íslensku samfélagi.
Ég held að vandamálið sé að Íslendingar séu einfaldlega svo vanir því að nokkrar sterkar ættir, sterkir stjórnmálamenn og valdaklíkur innan stjórnmálaflokkanna drottni hér og deili yfir öllu og fari með landslýð að eigin geðþótta, að þeir hreyfa hvorki legg né lið þegar þeim er enn einu sinni "nauðgað"!
Það er hugarfarsbreytingin og aðgerðir almennings sem ég kalla eftir, en áhuginn virðist bara ekki fyrir hendi!
Um leið og við sækjum þá til saka sem komu okkur í þessi vandræði, þurfum við að huga að kerfisbreytingum varðandi löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið og eitt af því sem huga þarf vel að - sérstaklega í svona litlu þjóðfélagi - er að stemma stigu við landlægri spillingu, valdhroka, óbilgirni, valdníðslu, siðleysi, kúgun, klíkuveldi og ættdrægni.
Meðferðin á þessu Icesave máli alveg frá því í haust og hvernig almenningi hefur verið haldið skipulega frá málinu er einmitt gott dæmi um valdhroka, óbilgirni, valdníðslu og kúgun!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.6.2009 kl. 09:28
Guðbjörn, ég tek heils hugar undir "prinsippið" með þér.
Ég er þó ekki alveg sammála þér hvað ICESAVE varðar. Að vísu hafa verið þrjár ríkisstjórnir frá því síðastliðið haust. Núverandi ríkisstjórn hefur starfað stutt. Ég treysti henni enn til að reyna að vinna sem best má úr erfiðri stöðu. Það getur ýmislegt skýrt það hvers vegna ekki er upplýst um gang viðræðna meðan þær standa yfir - ekki síst þegar um samningaviðræður er að ræða. En nú hefur samningurinn verið gerður opinber og ljós. Því ber að fagna þótt auðvitað eigi það að vera eðlilegt og sjálfsagt, sbr. annað sem þú skrifar.
Ég ætla nú samt ekki að fara að deila við þig um þessa túlkun þína hvað ICESAVE varðar. Ég er að öðru leyti algerlega sammála þér. Þó má í samhenginu minnast á að spilling fer gegn megin þemu stefnuyfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins, nefnilega einstaklings- og atvinnufrelsi.
Ég ber von í brjósti um raunverulegar breytingar á Íslandi.
Eiríkur Sjóberg, 19.6.2009 kl. 11:28
Eiríkur:
Ég bar í von brjósti, en einhvernvegin hefur sú von dofnað á undanförnum mánuðum. Þótt ekki kysi ég Borgarahreyfinguna finnst mér hún hafa borið ferskan vind inn á Alþingi.
Hins vegar finnst mér sú hreyfing ekki hafa nógu markvissa stefnu út frá hefðbundnum stjórnmálaviðhorfum. Þegar rykið sest og versta kreppan er afstaðin byrjum við aftur að ræða stjórnmál út frá þessum viðhorfum, þ.e.a.s. vinstri/hægri pólitík - einstaklings- og atvinnufrelsi, miklu eða litlu umfangi ríkisafskipta, einkarekstur eða ríkisrekstur, en ekki síður til velferðarmálanna, mannúðar og náungakærleik, sem hefur t.d. ekkert með vinstri/hægri að gera o.s.frv.
Þegar litið er til stefnu Sjálfstæðisflokksins er ég henni að flestu leyti hlynntur, en þegar litið er til framkvæmdar á henni er ég það ekki. Í skjóli þessarar stefnu voru nokkur fyrirtæki - ekki öll - einkavinavædd.
Á undanförnum áratugum skiptu fjölskyldur og viðskiptaklíkur landinu á milli sín (SÍS, Kolkrabbinn o.s.frv). Síðan tóku aðrar klíkur við: Ólafur Ólafsson & Finnur Ingólfsson og vinir þeirra fyrir hönd SÍS, Björgúlfarnir, Jón Ásgeir og vinafélag o.s.frv. Gamli Kolkrabbinn reis upp á afturfæturna til að verja sitt og Samfylkingin slóst í lið með nýju auðjöfrunum.
Við, þetta fólk sem er svo "naívt" að trúa á einstaklings- og atvinnufrelsi, samkeppni og að blandaða hagkerfið leiðrétti markaðsbrestina og við gætum lifað hér í einhverskonar "Útópíu" á norðurhjara, virðumst bara ekki ráða við þessi gífulega sterku öfl í íslensku samfélagi.
Það sem ég vil gera er að koma böndum á "kapítalismann", en það sem er að gerast er að vinstri menn eru að gera er að koma á einhverjum "norðurlandasósíalisma" (norrænt velferðarkerfi), þar sem enginn er með hærri laun en forsætisráðherra og einhver skrifstofa fer yfir laun allra hjá ríkinu - í byrjun allavega hjá ríkinu - til að helst enginn fari yfir 400.000 kr. í laun!
Hvar endar þetta? Jú, þannig að allir hafi það álíka slæmt í einhverju landi þar sem meðalmennskan verðu lofuð og prísuð! Við missum unga fólkið og allt hæfileikafólk úr landi, læknarnir ráða sig á sjúkrahús á Norðurlöndunum og við endum hér með gamalmenni, öryrkja og vitleysinga eins og mig sem eru á miðjum aldri og komast ekki frá húsunum sínum og þeim skuldum sem á þeim hvíla!
Mér líst ekki á blikuna!!!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.6.2009 kl. 11:50
"...en ekki síður til velferðarmálanna, mannúðar og náungakærleik, sem hefur t.d. ekkert með vinstri/hægri að gera..."
Mér finnst þetta vera lykilatriði fyrir samfélagið; siðfræðin. Og vissulega er hún ekki pólitísk.
Og þó. Það er sem mér finnist að kapítalisminn (já, ég gagnrýni það sem kallast kapítalismi, en þó ekki samfélagslega ábyrgt frelsi einstaklings til að nýta krafta sína og hugdettur, sem sé, atvinnu- og einstaklingsfrelsi með ábyrgð (aftur siðfræði!!)) hafi fært okkur var einmitt efnishyggjan og græðgin - gömlum, en þó tímalausum, gildum var snúið á hvolf - hugsaðu um sjálfan þig, skítt með alla aðra! Hvað varð um náungakærleikann? Getur verið að hugmyndafræðin, það sem gekk undir nafninu kapítalismi, hafi mótað huga okkur með þessum hætti? Ég fullyrði að svo hafi verið!
Hvað aðgerðir ríkisstjórnar nú varðar tel ég einsýnt að draga þurfi sem mest úr kostnaðarlið ríkissjóðs. Laun eru þar ofarlega á blaði. Í ljósi þeirrar staðreyndar, og þeirrar staðreyndar að nú eru aðrar forsendur fyrir greiðslu launa en áður voru, tel ég í hlutarins eðli að laun opinberra starfsmanna lækki. Þótt ég telji mig til vinstri (er þó líklegast einna hellst eitthvað í líkingu við húmanista?) tel ég rétt að ríkið dragi nú sem mest það má úr kostnaðarliðum sínum!
Ég hef áður minnst á hlöðuna, sem safna ætti í þegar vel árar, en dreifa úr þegar hallæri er. En nú er ekkert í hlöðunum og því er vandinn verri!!
Sérstakt er að þú, sem "hægri" maður, skulir ekki fagna því að ríkið dragi úr launagjöldum ríkissjóðs. Kannski er jafn skrítið að ég, sem "vinstri" maður skuli telja þörf á því. Svona er nú tilveran furðuleg stundum. En ég hef að ofan greint frá því hvers vegna ég tel það mikilvægt. Og auðvitað skiptir ríkið sér ekki af launum á hinum almenna markaði!
Það sem mér finnst bagalegast, ef rétt er skv. fréttum, er að ríkisstjórnin ætli að draga úr bótum líka, til þeirra sem verst geta skýlt sér. Þetta er ekki í anda þess sem ég myndi vilja sjá - þeir sem geta skaffað ÆTTU að gera það meðan þeir geta (samfélagsleg ábyrgð og þátttaka), en fá svo aðstoð samfélagsins þegar á bjátar hjá þeim sjálfum (þó þoli ég ekki misnotkun slíks kerfis, sem alltaf á sér stað (sýnir vel innræti a.m.k. sumra mannvera)) - og því er eftirlit nauðsynlegt!).
Það er vissulega hætta á því að við missum unga og hæfileika ríka fólkið í burtu. Margar aðrar hættur steðja að. En þegar gagnrýnt er er réttlætanlegt að krefjast þess að þeir hinir sömu komi fram með skýrar leiðbeiningar um það með hvaða öðrum hætti ætti að gera hlutina! Nú er vandinn stór. Hvernig er best að taka á honum?
Auðvelt er að gagnrýna. Flóknara að benda á bestu leiðir úr vandanum!
Og getur verið að aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins skýri það hversu mikið ríkið þarf að bremsa - og þá um leið að núverandi ríkisstjórn sjái sig knúna til að lækka bætur líka!?
Eiríkur Sjóberg, 19.6.2009 kl. 23:06
Eiríkur:
Ég er að mörgu leyti sammála þér en þó ekki öllu. Hægri menn eru almennt ekki andsnúnir ríkisrekstir, þótt þeir vilji stemma stigu við honum. Þannig hefði ég viljað ganga lengra í að koma verkefnum ríkisins á heilbrigðis- og menntasviði úr opinberum rekstri í einkarekstur, með því skilyrði þó að aðgangur almennings að þjónustunni yrði ekki skertur með hærri gjaldtöku eða á annan hátt.
Varðandi tillögur í efnahagsmálum, þá tel ég að vert hefði verið við aðstæður sem þessar að skoða tillögur sjálfstæðismanna varðandi skattlagningu. Einnig hefði ég skoðað, hvort ekki væri hægt að fækka starfsmönnum um 10% með einhverjum uppsögnum en einnig með því að viðkomandi fengju að fara fyrr á eftirlaun. Lífeyrissjóðirnir myndu taka þann skell. Uppsagnirnar yrðu þannig einungis með hagræðingu, t.d. með sameiningu stofnana og að stofnanir væru hreint út sagt lagðar niður. Þarna er meiri pening að sækja.
Með því að lækka laun stórs hluta starfsmanna á þennan hátt verða mjög margir settir út á Guð og gaddinn. Starfsmenn á borð við sjálfan mig - en ég held ég sé sæmilega klár og vel af Guði gerður - munu skoða möguleikana á að færa sig frá ríkinu. Það verður enn einu sinni "BRAINDRAIN" hjá ríkinu á næstu árum. Austantjaldslöndin lentu mjög út úr þessu. Það eru ekki aðeins miklar líkur á að við missum úr landi bæði menntað og duglegt fólk, heldur að fólk hverfi frá ríkinu árið 2010 - 2012 og komi aldrei til baka aftur. Það verður ekki lélegasta fólkið, heldur það með mesta menntunina, mesta hæfileikana og það duglegasta!
Þegar kjörin versna og væntingar til framtíðarinnar hverfa mun fólk hverfa, við sáum þetta árið 1967 og á árunum 1991 - 1997. Færeyingar fóru mjög illa út úr sinni kreppu og þar vantar heila kynslóð inn í hjá þeim!
Það sem ég er að fara fram á er í raun að eitt gangi yfir alla: ríkisbankana, bændur, fyrirtæki í eigu ríkisins (bankanna) og jafnvel að öryrkjar og eldri borgarar fórni einhverju líka, þótt það verði auðvitað í miklu minna mæli. Það eru engin "tabú" til við þessar aðstæður!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 10:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.