Stórsöngvarinn Michael Jackson er látinn ...

Michael Jackson ungurÉg tengi æsku mína og unglingsár stórmeistaranum Michael Jackson, sem án efa er einn af stærri dægurtónlistarmönnum 20. aldarinnar. Án söngs hans hefði æska mín verið tómlegri og ekki eins gaman að skemmta sér í Hollywood, Sigtúni og Klúbbnum, að ógleymdum skólaböllunum í Verzlunarskóla Íslands.

Michael var barnastjarna og það ekki af verri endanum eða að ástæðulausu. Þeir sem heyrt hafa upptökur hans frá þessum tíma geta staðfest að strax á þessum tíma var hægt að heyra að þarna voru ekki aðeins óvenjulega miklir hæfileikar á ferð, heldur hæfileikar á heimsmælikvarða. Líkt og aðrar barnastjörnur, t.d. Mozart, sem barinn var áfram af taumlausri metnaðargirni Leopold föður hans, var Michael laminn áfram af föður sínum, Joseph. Líklegt er að þetta hafi haft mikil neikvæði áhrif á þroska hans sem barn, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á allt hans líf. Tónlistarhæfileikar Michael Jackson þroskuðust hins vegar þeim mun meir og úr því að vera undrabarn í því sem næst fullkominn tónlistarmann.

Michael Jackson eldriSem söngkennari og óperusöngvari dettur mér strax í hug að nefna ótrúlega túlkunarhæfileika Michael Jackson eða réttara sagt persónulega tjáningarhæfileika hans. Hendingarmótun var fullkomin og framkoma hans örugg og sannfærandi. Michael söng öll sín lög af gífurlegri tilfinningu og lagði allt sitt í þau - engin málamiðlun til frekar en hjá öðrum frábærum listamönnum. Hann hafði frá barnsaldri jafnframt til að bera fullkomið hrynskyn, sem ekki var vanþörf á í þeirri tónlist sem hann söng. Söngtæknilega séð var Michael frábær söngvari með eðlilega og góða öndun, hafði gott vald á styrkleika raddarinnar og gat sýnt ýmis blæbrigði og andstæður. Eini gallinn var að röddina vantaði stundum aðeins meiri dýpt. Þennan galla tókst honum þó að fela vel og jafnvel gera kosti úr með réttu verkefnavali og skynsamlegri beitingu raddarinnar.

Stórsöngvari, mikill tónlistarmaður og frábær "entertainer" er fallinn frá. 


mbl.is Michael Jackson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrri hálfleikur hjá Michael Jackson var frábær "beat it " og fleiri  lög eru frá  þeim tíma eru poppklassík.

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 08:00

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sjaldgæft að lesa svona vel ígrunduð skrif um poppsöng. Á mínum æskuárum var það Elvis sem fyllti tómið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.6.2009 kl. 18:19

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Endalok Elvis og Jacksons voru ekki ósvipuð. En báðir voru þeir snillingar þegar best tókst upp.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.6.2009 kl. 01:15

4 Smámynd: Sverrir Stormsker

Gaman að sjá góðan óperusöngvara skrifa af svona miklum skilningi um poppundradrenginn. Þegar Mikki var 6 ára sagði hann í viðtali á sjónvarpsstöð að hann nennti ekki að syngja lög sem hann finndi sig ekki í. Tilfinningin yrði að vera sönn. Merkilega þroskað komment hjá svo ungum dreng.

Hefur einhver heyrt 12 ára strák syngja lag af þvílíkri innlifun og snilld og þetta undrabarn gerði þegar hann söng lagið Ben? Efast um það. Einsdæmi. Ef einhver skildi einmanatilfinningu litla dýrsins sem hann var að syngja um þá var það hann.

Seinna tók hann ástfóstri við John Merrick, Fílamanninn, gæan sem var gerður að sirkusdýri. Fólk hélt að nú væri Mikki orðinn galinn. Ég held hann hafi einfaldlega fundið samsvörun. Skiljanlega. Sjálfur var Mikki litli gerður að sirkusdýri fjögurra ára gamall. Plantað á svið. Fékk ekki að leika sér einsog önnur börn. Stoppaði í þroska. Ekki það hollasta á heimi. Pískaður áfram. Varð peningamaskína. Hraðbanki.

Man eftir einu lagi á plötunni Off The Wall sem hann grét í, enda viðkvæmur og brothættur drengur. Hann sagði seinna í viðtali að hann hefði reynt að enda það ógrátandi en ekki tekist. Lét það loks standa. Mér fannst það bera vott um kjark og karakter. Allsekki aulaskap. Man að ég hugsaði að þessum tíma: "Sannur listamaður. Óhræddur við tilfinningar. Flottur."  

Þú segir: "Eini gallin var að röddina vantaði stundum aðeins meiri dýpt."

Það var ekki galli. Það var kostur. Það skemmtilegasta við drenginn var hvað hann var original: Í dansi. Söng. Karakter. Öllu. Maður heyrði lag í fjarska og vissi strax að þarna var Michael á ferðinni. Engum líkur. Stórskrítinn söngfugl. Furðufugl. Á stakri grein. Hvorki hvítur né svartur. Hvorki karl né kona. Hvorki fullorðinn né barn. Bara Michael litli Jackson. Snillingur. One of a kind. 

Sverrir Stormsker, 27.6.2009 kl. 04:51

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hörður:

Ég er þeirrar skoðunar að Michael Jackson hafi verið frábær allan leikinn.

Sigurður:

Ég er þeirrar skoðunar að góðir listamenn séu góðir listamenn, hvað sem þeir eru að gera í sinni list. Sönn gæði komast alltaf til skila, hvort sem það er í tónlist, bókmenntum, myndlist eða sviðslistum!

Hildur Helga:

Mér var einmitt hugsað til Elvis þegar ég heyrði fréttirnar af andláti Jacksons. Sammála báðir snillingar, hvor á sinn hátt!

Sverrir:

Ég spila stundum poppsöngvara eða "evergreens" með Frank Sinatra þegar ég reyni að opna augu nemenda varðandi túlkun "klassískra" laga eða óperuaría. Tilfinningin er nefnilega alvega sú sama, hvað sem maður syngur og hún verður einmitt að vera ósvikin og koma beint frá hjartanu og þá hittir maður í mark.

Fólk er ótrúlega næmt fyrir allri yfirborðsmennsku í listum og slíkt er kannski alltaf uppgötvað strax en mjög fljótlega. Allir stórir tónlistarmenn hafa til að bera þessa einlægni, sem Michael Jackson hafði til að bera.

Ég veit nákvæmlega hvaða lög þú átt við Sverrir! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.6.2009 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband